Quantum of Solace (2008) **
9.11.2008 | 10:55
Quantum of Solace er því miður frekar mislukkuð Bond mynd. Af þeim 22 kvikmyndum sem gerðar hafa verið um kappann, finnst mér þessi ein sú slakasta. Sumar þeirra hafa verið frekar slappar, eins og You Only Live Twice, með Sean Connery og sumar orðið frekar langdregnar vegna endalausra slagsmálaatriða, eins og síðasta Brosnan myndin, Die Another Day.
Bond (Daniel Craig) hefur handsamað einn af þrjótunum sem kallaður er Mr. White (Jesper Christensen) sem fengu unnustu hans Vesper Lynd til að svíkja hann í síðustu mynd. Við yfirheyrslurnar kemur í ljós að Mr. White tilheyrir leynisamtökum sem hafa komið fyrir fólki nánast hvar sem er, líka innan bresku leyniþjónustunnar. Lífvörður M (Judy Dench) er einn af þessum svikurum og hjálpar Mr. White að flýja. Bond ákveður að finna frekari upplýsingar um þessi leynisamtök og uppræta þau, ekki bara af faglegum ástæðum, heldur til að hefna dauða konunnar sem hann elskaði.
Slóðin leiðir hann til erkiskúrksins Mr. Greene, Dominic Greene (Mathieu Amatric) sem ætlar sér að steypa ríkisstjórn Bólivíu með hjálp CIA og tryggja sér 60% af vatnsbólum landsins, til þess að selja aðgang að vatni á uppsprengdu verði. Á leið sinni að Greene kynnist Bond Camille (Olga Kurylenko), bólivískum njósnara sem þráir ekkert heitar en að myrða hershöfðingjann sem Greene ætlar að koma til valda, en sá hafði misþyrmt og myrt fjölskyldu hennar.
Sagan lofar góðu og Daniel Craig er flottur Bond, sem hann sýndi og sannaði í Casino Royale, sem er ein af bestu Bond myndum sem gerðar hafa verið. Það sem klikkar í Quantum of Solace er ekki bara slök leikstjórn, heldur klisjukennt handrit þar sem vantar algjörlega smellnar línur fyrir Bond og skúrkana. Einnig er myndin svo hrikalega illa klippt að eitt atriði sem sýnir andlitssvip getur innihaldið þrjú snöggklippt skot. Klippingin er svo snögg að fá atriði öðlast eigið líf.
Hasaratriðin, sem oftast er aðalsmerki Bond ásamt frekar köldum húmor, eru því miður flest illa samsett þar sem erfitt getur verið að greina hvað er að gerast á skjánum, og hasarinn oft búinn án þess að maður hafi hugmynd um hvað var að gerast, og húmorinn því miður víðs fjarri.
Í upphafsatriðinu er Bond á bílaflótta undan vélbyssukjöftum, en maður hefur ekki hugmynd um hver er að á eftir honum, hvernig staðan er í eltingarleiknum og hvað Bond er að gera rétt til að losna við þrjótana.
Eitt verst útfærða atriði nokkurn tíma í Bond mynd á sér stað í óperuhúsi, en þar eltir Bond uppi fólk sem hann grunar að séu í einhverju samkrulli við aðalglæponinn, og drepur það á flótta þeirra út úr húsinu. Maður veit ekki hver fórnarlömbin eru og hugsanlega er það versta sem þau unnu sér til sakar að þau nenntu ekki að hlusta á óperuna.
Samt er eitt og eitt gott atriði inn á milli. Eina atriðið sem mér fannst verulega gott var þegar Bond er á flótta í flutningaflugvél undan herþotu í Bólivíu - en samt hafði það atriði ákveðna galla.
Þetta er óvenju slakur Bond, en samt skylduáhorf fyrir alla aðdáendur myndaflokksins. Það má segja að þessi Bondari sé að apa eftir Bourne myndunum með hröðum klippingum og fullt af hasarmyndum Jason Statham, sem reyndar hafa margar hverjar betri hasarútfærslu og snjallari handrit heldur en Quantum of Solace.
Það er náttúrulega líka ófyrirgefanlegt að myndin gefi ekki tóninn í upphafi með hinu klassíska Bond stefi þar sem við sjáum hann frá sjónarhorni byssuhlaups. Þar að auki er enginn Q, ekkert "Bond, James Bond" augnablik, og ekkert "Vodka Martini, Shaken not stirred" - þó að við kynninguna á Bond stúlkunni Strawberry Fields fáum við að heyra hið klassíska "Of course you are," en það hittir bara ekki í mark.
Quantum of Solace er því miður þunnur þrettándi, bæði sem Bond mynd og sem hasarmynd.
Leikstjóri: Marc Forster
Einkunn: 5 af 10
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 16:54 | Facebook
Athugasemdir
Enn og aftur í ruglinu Hrannar minn , en þetta er bara þinn smekkur.
Ómar Ingi, 9.11.2008 kl. 13:29
Ég hef ekki séð þessa nýjustu Bond-mynd og skal því ekki dæma um hana. Ég vil hins vegar benda á eitt atriði í sagnalist sem er það að ákveðin atriði megi ekki vanta í þáttaröðum eða sagnaröðum.
Það er runnið öllum í merg og bein frá barnæsku og felst í bón barnsins: "Segðu mér söguna aftur."
Dæmi um þetta er hið sígilda atriði úr Colombo-þáttunum þar sem hann fer út og krimminn andar léttara, en kemur síðan aftur og ergir hann og æsir.
Í sjónvarpsþáttum Jackie Gleason hér í gamla daga var alltaf eitt atriði þar sem ein týpan á við hann orðræðu sem endaði alltaf með því sama, að Gleason missti þolinmæðina eftir að hafa þurft að hlusta of lengi á bullið og hrópaði æstur: "All-right !!! "
Í myndunum um bleika pardusinn voru föst atriði sem ekki máttu missa sín.
Maður beið alltaf eftir þessum augnablikum og hafði alltaf jafn gaman af.
Það er að mínu viti mjög misráðið að fella slíka klassík út úr þáttaröðum. Setning Björgvins Halldórssonar, - "bolurinn vill helst sjá og heyra það sem hann þekkir" hefur nefnilega mikið til síns máls.
Þótt örfá klassísk augnablik fái að halda sér í Bond-mynd gefast nóg tækifæri í bíómynd af fullri lengd til að koma með nýjungar.
Ómar Ragnarsson, 9.11.2008 kl. 14:36
"Shaken not sturbed" ???
Það er "Shaken, not Stirred", sem þýðir "hristur, ekki hrærður".
Aðeins disturbed í enskunni þarna ...
Jón Agnar Ólason, 9.11.2008 kl. 16:16
Jón Agnar:Takk fyrir leiðréttinguna. I'm a bit shaken 'n disturbed right now.
Hrannar Baldursson, 9.11.2008 kl. 16:54
Ég er nú ekki sammála því að þessi flokkist í hópi slappari Bond-mynda, þó að Casino Royal hafi vissulega verið betri. Nýia Bond-myndin er örugglega betri en allar myndir Rogers Moores og margar aðrar til viðbótar.
Hinsvegar var plottið full þunnt fyrir minn smekk. Maður beið alltaf eftir einhverri flottari og flóknari ógnun við mannkynið, en svo bara gufaði það einhvern veginn upp. Óperuatriðið var snjallt framan af, - óvenjuleg og sniðug leið leynireglufélaga til að hittast og halda fund, en svo fjaraði það reyndar aðeins út.
Vissulega hefði Q mátt koma til sögunnar. En mér finnst aukaatriði þó að hið klassíska byssuhlaupsskot komi í upphafi eða í lokin (einsog hér). Svo var vissulega flott vodkamartini-atriði, um borð í þotunni, en líkt og í Casino Royal þá sagði hann ekki "shaken, not stirred" heldur þuldi en nákvæmar hvernig drykkurinn var samsettur. Það var bara flottur húmor að breyta því aðeins (og já, það er venjulega "stirred" en ekki sturbed...)
En Daniel Craig hefur með þessum tveimur myndum náð að festa sig í sessi sem langbesti Bond-inn, þar með bæði kaldari og flottari Bond en sjálfur Connery. Það eitt gerir þessa mynd að skylduáhorfi fyrir alla sem hafa nokkurn tíma haft gaman af Bond, James Bond.
Þorfinnur Ómarsson (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 16:59
Þorfinnur, reyndar er þessi drykkur sem Bond fékk sér í vélinni þekktur úr skáldsögum Ian Fleming og birtist fyrst í Casino Royale, en þessi drykkur ber víst heitið Vesper.
Hrannar Baldursson, 9.11.2008 kl. 17:26
Þú ert þunnur ....
Sancho (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 20:19
Reyndar má taka fram, Sancho, að ég var í góðum félagsskap, sem margbætti fyrir frekar slakan Bond.
Hrannar Baldursson, 9.11.2008 kl. 20:30
Þið eruð bara gamlir og viljið halda í enhverja gamlar klisjur
Sorglegt en satt
Skondið að sjá hér menn vera að tala um mynd sem þeir haf ekki ein sinni séð , segir meira en margt.
Myndin er ein sú besta í bond röðinni og í takt við nýja tíma , ef hinar myndirnar eru svona góðar , setjið þær í tækið og endurnýjið kynnin við þær.
Eina sem rétt er getið hérna er að Die Another Die er lélegasta bond mynd fyrr og síðar.
Ómar Ingi, 9.11.2008 kl. 21:05
Ég er nýbúinn að horfa á allar hinar 21 Bond myndirnar og með þær í fersku minni. Ég er sammála þér að Die Another Day er leiðinleg, en ég hafði sams konar tilfinningu þegar ég horfði á Quantum of Solace. Þó að hún sé styttri en allar hinar Bond myndirnar fannst mér hún lengri en margar.
Hrannar Baldursson, 9.11.2008 kl. 21:24
Ég er mjög svo sammála um að þessi mynd sé barasta léleg, það þarf ekkert að ræða um það frekar og ef einhverjum finnst hún góð þá er hinn sá sami bara heimskur, því maður gat einhvern veginn ekkert fylgst með hvað var í gangi, vissi í raun ekkert hver frammvinda mála væri og vantaði allt í hana sem kallast mætti Bond bíómynd og svo ef satt skal segja voru einhvern vegin bara mjög heimskar senur í myndinni sem ég nenni ekki að ræða um hérna
Nafnlaus (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 06:42
Nafnlaus Heimskingi
Ómar Ingi, 10.11.2008 kl. 21:20
Varðandi drykkinn, já, ég veit að hann er úr bókunum. Þessvegna finnst mér flott að höfundar fara aftur í upphafið hvað það varðar. "Shaken, not stirred" er ágætt, svo langt sem það nær, en gaman að sjá hvernig drykkurinn varð til í upphafi, þ.e. hvernig hann er blandaður, osfrv. Bæði í Casino Royal og í Quantum er þetta gert á skemmtilegan hátt, svona auka-tilbrigði við hið einfalda, hristur en ekki hrærður.
Þorfinnur Ómarsson (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 22:57
Maður verður að drífa sig á Bondarann.
Ætli við fáum ekki svartan Bond næst. Sá í einhverju slúðurblaðinu að Daniel Craig hefði viðrað þá hugmynd.
Við erum komin með svartan forseta í Bandaríkjunum. Hvers vegna ekki svartan Bond?
Gunnar Freyr Rúnarsson, 12.11.2008 kl. 23:43
Þessi Bond hefur "Réttindi til að drepa" fólk úr leiðindum. Fólk er alveg að fara yfirum á þessari hröðu auglýsingaklippitækni. Rosalega "ung" mynd.
Svanur Gísli Þorkelsson, 13.11.2008 kl. 01:31
Licence to kill er lélegasta Bond myndin. Er af svipuðu kaliberi og meðal Miami Vice þáttur, enda svipað þema.
Ransu, 15.11.2008 kl. 00:01
what the fuck you think you are a fucking don
don oscarsson (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 17:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.