Hvers vegna allir VERÐA að lesa grein Einars Más Guðmundssonar um kröfu á óháða rannsókn fjármálakrísunnar... S T R A X !
28.10.2008 | 12:16
Einar Már Guðmundsson skrifar magnaða grein í Morgunblaðið um þá kreppu sem læðist yfir landsmenn þessa dagana. Þar sem að ég hef mikið pælt í og rannsakað þessi mál og einnig skrifað mikið um þetta sjálfur sé ég að þarna fer snilldarpenni sem skrifar beitt en með mannúð um ástandið sem ríkir í dag.
Ég vil endilega að sem flestir lesi þessa grein og leyfi mér að birta hana án samráðs við Einar Má, en fjarlægi hana að sjálfsögðu biðji hann mig um það:
Hvort sem sagan
er línurit eða súlurit
í auga hagfræðingsins
er heimurinn
kartafla í lófa guðs.
***
Vissulega er hinn frjálsi maður
ekki lengur veginn með vopnum,
ekki höggvinn í herðar niður
eða brenndur á báli.
Sem slíkur gæti hann öðlast samúð
sagnritara og orðið gjaldgengur
á myndbandaleigum framtíðarinnar.
Þess í stað er honum svipt burt
með snyrtilegri reglugerð
og málinu skotið til markaðarins
sem mállaus vinnur sín verk.
***
Ég byrja á smá ljóðabrotum, venjunni samkvæmt, en það er líka til mannætubrandari sem er einhvern veginn svona: Mannæta flýgur á fyrsta farrými. Flugfreyja kemur með matseðil, skrautlegan með nokkrum valkostum. Mannætan er afar kurteis, eins og mannætur eru víst við fyrstu kynni. Mannætan rennir augunum yfir seðilinn og segir svo við flugfreyjuna: Ég sé ekkert bitastætt á matseðlinum. Vilduð þér vera svo vingjarnlegar að færa mér farþegalistann?
Ég ætla ekki að fara að líkja auðmönnum Íslands, sem komið hafa okkur á kaldan klaka ásamt stjórnvöldum, við mannætur, ekki í bókstaflegri merkingu, en eftir að hafa fengið nánast allt upp í hendurnar, banka og ríkisfyrirtæki, virðast þeir samt hafa sagt við stjórnvöld og eftirlitsstofnanir: Það er ekkert fleira bitastætt á matseðlinum. Vilduð þið vera svo vingjarnleg að rétta okkur þjóðskrána?
Og stjórnvöld ábyrgjast heilt spilavíti, rússneska rúllettu, og niðurstaðan er ónýtt mannorð heillar þjóðar og við sem vorum svo stolt og áttum stundum ekkert nema stoltið. Aumingja Jón Sigurðsson í nepjunni niðri á Austurvelli og Jónas Hallgrímsson, svo laglegur í frakkanum. Hvar er nú andi frönsku byltingarinnar og þýsku rómantíkurinnar þegar það hafa verið sett á okkur hryðjuverkalög þar sem við megum dúsa með skuggalegustu þjóðskipulögum heims og þjóðhöfðingjum sem enginn vill hitta í myrkri.
Hver Osama bin Laden er í þessu dæmi skal ósagt látið, en margir af auðjöfrunum eru flúnir land og láta ekki ná í sig eða aka um með lífverði sér við hlið. Verður ekki allt tal um turnana tvo í íslenskum stjórnmálum dálítið kaldhæðnislegt í þessu samhengi? Hafa þeir ekki orðið fyrir hryðjuverkaárás, jafnvel sjálfsmorðsárás? Eru þeir ekki hrundir og það af eigin völdum? Ég ætla heldur ekki að líkja neinum við feðgana Kim Yong Il og Kim Il Sung, en stjórnvöld og eftirlitsstofnanir þeirra virðast hafa sagt við auðmenn þessa lands þegar þeir báðu þau um þjóðskrána: Já, gjörið þið svo vel. Er ekki eitthvað fleira sem við getum gert fyrir ykkur?
Þetta eru auðvitað ekkert annað en landráð, hafi það orð einhverja merkingu lengur, og það er því skýlaus krafa okkar sem eigum ekkert nema sjálf okkur og börnin okkar að eignir auðmannanna verði frystar strax, og kerfið hætti að rannsaka sjálft sig. Almenningur vill að fjármálaeftirlitið sé sett af og það og aðrar eftirlitsstofnanir séu rannsakaðar; líka Seðlabankinn, líka ríkisstjórnin. Menn sem hafa haft hagsmuni af sukkinu eru látnir rannsaka sukkið, og fjármálaspillingin teygir sig jafnvel inn í ríkisstjórnina, en við sitjum uppi með risavaxinn reikning, tólf þúsund milljarða, og þeir ætlast til að við borgum, við, börnin okkar og barnabörnin og barnabarnabörnin líka.
Ég hirði ekki um að halda romsunni áfram, slíkur er glæpurinn sem framinn hefur verið, og þessi glæpur hefur verið framinn með vitund stjórnmálamanna, þeirra sem einkavæddu bankana, gáfu þá raunar pólitískum vildarvinum, já létu þá í hendur fjárplógsmanna sem veðsett hafa okkur langt fram í tímann og gert okkur að bónbjargarmönnum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum lánastofnunum.
Við erum gíslar á lögreglustöð heimskapítalismans, því reikningurinn sem skilinn var eftir á veitingahúsi hans er svo stór að enginn getur borgað hann og ríkisstjórnin segir ekki eins og strákarnir í Englum alheimsins: Við erum öll saman á Kleppi, það væri of gott til að vera satt, heldur segir hún: Þjóðin borgar. Við munum pína skrílinn. Já, ríkisstjórnin er alveg jafn ábyrgðarlaus og strákarnir sem snæddu á Grillinu í áðurnefndri sögu. Munurinn er bara sá að samfélagið var búið að taka af þeim ábyrgðina en ríkisstjórnin var kosin til að axla ábyrgð.
***
Marktækur hagfræðingur, sem var búinn að vara okkur við, segir að ríkisstjórn Íslands og seðlabanki séu engu hæfari sem stjórnendur nútímahagkerfis en þau væru sem stjarnvísindamenn. Þau skildu ekki að uppsveifla íslenska hagkerfisins árin 2005 og 2006 byggðist á skuldasöfnun lán voru tekin til þess að standa í skilum með önnur lán og nú vita þau ekki hvernig unnt er að ná jafnvægi aftur þegar pappírsauðurinn er horfinn.
Og hagfræðingurinn bætir við: Það er ólíklegt að nýir leiðtogar sem væru valdir af handahófi í símaskrá gætu valdið jafnmiklum efnahagslegum glundroða og núverandi stjórnvöld.
Þarf frekari vitnanna við? Hvað segja stjórnvöld og hvað segja fjárplógsmennirnir? Þau segja ekkert og þeir segja ekkert. Enginn segir neitt. Það ætlar enginn af þessu fólki að axla ábyrgð. Sigurjón bankastjóri, sem lýsti ICESAVE-reikningunum sem tærri snilld, segist ekki bera neina ábyrgð, og Halldór Kristjánsson félagi hans ekki heldur, en þessum reikningum var komið á fót þegar engir marktækir bankar vildu lengur lána íslensku bönkunum. Já, þá var þeim komið á fót með ábyrgð í þjóðskránni. Það eina sem ég þarf að gera er að kíkja í lok dags hvað er kominn mikill peningur inn, sagði Sigurjón bankastjóri hlæjandi við blaðamann einhvers viðskiptablaðsins. Það bættust við fimmtíu milljónir punda bara á föstudaginn! Þetta hafa verið skemmtilegir föstudagar sem við fáum nú í hausinn.
Bera slíkir menn enga ábyrgð? Ekki segja þeir, og allir meðvirku stjórnmálamennirnir taka undir. Það má ekki dæma, það má ekki hafa skoðun. Samt er enginn að æpa úlfur úlfur, þeir halda bara sjálfir eða heyra það löngu á undan öllum öðrum, en þegar jafnvel götunnar menn sem stela einum lifrarpylsukepp og koníaksfleyg þurfa að sæta ábyrgð er ekkert nema eðlilegt að þeir sem hafa komið þjóðinni á kaldan klaka geri grein fyrir máli sínu og reyni að bæta fyrir brot sín, jafnvel þótt brotin kunni að vera lögleg og hafi gerst með blessun stjórnvalda. Hér er einfaldlega svo miklu meira í húfi; þjóðin getur ekki beðið eins og Breiðavíkurdrengirnir eftir einhverri hvítbók, það væri eins hægt að syngja fyrir okkur gamla Flowers-lagið Slappaðu af, nema að verið sé að viðurkenna að við séum eins og Breiðavíkurdrengirnir, við höfum verið misnotuð í einhvers konar kennitöluflakki um öll hagkerfi heimsins og gott ef ekki sólkerfi.
***
Sú hagfræðibóla, sem stjórnvöld settu engar skorður, var svo augljós vitleysa og stjórnvöldum var margsinnis bent á það, nei ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur hvað eftir annað. En í stað þess að taka mark á þessum ráðleggingum fóru ráðherrarnir út í lönd sem kynningarfulltrúar bankanna. Héldu Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún virkilega að ástandið myndi lagast ef þau héldu blaðamannafundi? Hvaða stjórnspeki er þetta eiginlega? En þetta fólk ber auðvitað enga ábyrgð. Þau gátu ekki séð þetta fyrir, segja þau. Nei, þau hlustuðu bara ekki á neinar viðvaranir, þar liggur ábyrgðin, og þess vegna á að skylda þau til að hlusta á það sem við erum að segja.
Það voru orðin hálfgerð trúarbrögð að hægt væri að kjafta ástandið upp og niður, enda réð ríkisstjórnin einn aðalkjaftaskinn til sín sem ráðgjafa og hann hætti þegar hann komst að því að ráðgjafastörfunum fylgdi vinna. Við viljum líka sjá ábyrgð greiningardeildafólksins, sem virðist hafa verið í vinnu við að ljúga að okkur. Skoðið tekjublað Frjálsrar verslunar og sjáið hvað þetta fólk var með í laun! Sjaldan undir fimm milljónum á mánuði. Fyrir hvað? Fyrir að ljúga? Skoðið líka hvernig fólk nátengt ríkisstjórninni hefur makað krókinn, og nú ætlar þetta fólk að fara að rannsaka sjálft sig. Það er annars merkilegt að tekjublað Frjálsrar verslunar er allt í einu orðið eins og mögnuð heimildaskáldsaga. Fyrir hvað voru forstöðumenn greiningardeilda, fyrirtækjasviða og ég veit ekki hvaða sviða að fá sjö milljónir, átta milljónir, tíu milljónir, í mánaðarlaun? Ef Jóhann Páll Valdimarsson borgaði ljóðskáldum slík laun myndi Forlagið strax fara á hausinn. Samt virðast mér ljóð margra skálda margfalt verðmætari en pappírarnir sem þetta fólk var að sýsla með. Verður þetta fólk ekki líka að axla ábyrgð, reikna sér eðlileg laun og skila afganginum upp í skuldir? Öðruvísi verður engin sátt í þessu þjóðfélagi. Þannig er Ísland í dag.
Eða eigum við nú þegar skuldunum rignir yfir okkur að fara bara með reikningana okkar út í tunnu og halda síðan blaðamannafund? Hvað á fólkið sem nú missir húsin sín, vinnuna, að gera? Á það að halda blaðamannafund? Eins og stjórnvöld. Sjá menn ekki hvílík vanhæfni hér er á ferð? En þau bera enga ábyrgð. Samt stjórna þau landinu. Halló! Þetta er eins og að segja: Ég rústaði húsinu, en ég ber enga ábyrgð af því að ég gerði mér ekki grein fyrir að ég væri að rústa húsinu. Myndi einhver taka slíka röksemdafærslu gilda? Nei, en þetta er röksemdafærslan sem okkur er boðið upp á.
Geir Haarde átti að vita að hann var á hriplekum báti, en hann sagði: Við róum bara áfram og sjáum hvað gerist. Það er best að gera sem minnst. Það var speki frjálshyggjunnar, að gera ekki neitt. Aðspurð um vanda bankanna sagði hinn leiðtogi ríkisstjórnarinnar, Ingibjörg Sólrún: Þetta er fræðilegt vandamál, og bætti við: Ég fæ ekki betur séð en að bankarnir standi ágætlega.
Hún sagði ekki þetta er hræðilegt vandamál, heldur fræðilegt, og fór svo til Köben með Sigurði Einarssyni, fjármálafurstanum sem nú byggir sér níu hundruð fermetra sveitasetur í Borgarfirðinum og hefur nýverið látið bankann sem farinn er á hausinn kaupa handa sér hús í London upp á tvo milljarða. Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún ætla kannski að sitja með Sigurði Einarssyni og dást að sólarlaginu í Borgarfirðinum og segja: Þetta er fræðilegt vandamál, þegar allir verða farnir úr landinu, og Sigurður Einarsson, varla ber hann ábyrgð, þessi mikli snillingur, sem fyrir örfáum vikum fékk hundruð milljóna í kaupauka. Fyrir hvað? Þetta var maðurinn sem hótaði að fara úr landi ef hann fengi ekki ofurlaun.
Já, Ingibjörg Sólrún, hvað varð af hinni hagsýnu húsmóður kvennalistans? Það eru ekki bara unglingar sem lenda í vondum félagsskap. Stjórnvöld hafa verið í vasanum á ábyrgðarlausum fjármálafurstum og nú ber þeim að taka ábyrgð á því.
Nei annars, þetta er ekki þeim að kenna. Þau bera enga ábyrgð. Geir Haarde forsætisráðherra segir að kreppan sé bara einhver óþægilegur vindur sem kom frá útlöndum, svipaður óveðrinu í síðustu viku, og ef það hefði ekki gerst, ef það hefði ekki blásið, þá væri allt í himnalagi. Það var sem sé ekkert að, bara ef bullið gat haldið áfram. Allt fjármálasukkið, ofurlaunin, kaupaukarnir, endalaus sala á verðlausum bréfum og endalaus niðurlæging á fólki sem vann heiðarleg störf. Laun Lárusar Weldings bara fyrir að byrja í bankanum voru hærri en ævitekjur flestra vinnandi manna. Rithöfundur þyrfti líklega að skrifa tugi metsölubóka til að vera andvirði eins fótspors hjá Lárusi Welding. Er þetta eðlilegt verðmætamat? Vita menn í hvað ICESAVE-peningarnir fóru? Er það satt að þeir hafi verið lánaðir til Baugsfyrirtækja sem nú skulda hundruð milljarða á meðan eigendur fyrirtækjanna monta sig af lystisnekkjum, einkaþotum, lúxusíbúðum, sveitasetrum og hótelum? Það virðist hafa verið samkomulag fjármálafurstanna að lána hver öðrum út á veð sem ekkert stóð á bak við. Og þetta finnst stjórnvöldum bara allt í lagi; og þau ætla að fara hægt í sakirnar og ekki að dæma.
Eini vandinn er sá að þetta fékk ekki að halda áfram. Það segir Geir Haarde. Nákvæmlega sama viðhorf birtist hjá Jóni Ásgeiri. Maðurinn heldur því blákalt fram, og virðist trúa því sjálfur, af svipbrigðum hans að dæma, að fyrst þeir fengu ekki meira lán til að halda vitleysunni áfram þá hafi bara allt stoppað og það sé allt Davíð að kenna. Maður gæti haldið að Jón Ásgeir væri alinn við einhverja sérstaka útgáfu af Davíðssálmum, svo hugleikinn er Davíð honum. Jón Ásgeir notar sömu rök og drykkjumaðurinn sem segir að það sé allt í lagi að keyra fullur, bara ef hann er ekki tekinn, og þegar hann keyrir á ljósastaur er það ljósastaurnum að kenna. Síðasti bankinn sem ekki gat lánað, hann gerði mig gjaldþrota! Eigum við að kaupa þetta bull? Það kann vel að vera að eitt og annað hafi verið óheppilegt við yfirtöku bankanna, til dæmis Glitnis, en hefði verið heppilegt að lána banka sem var kominn í þrot miklar fjárhæðir? Ef ég skuldaði Jóni Ásgeiri margar milljónir myndi hann þá lána mér fleiri milljónir? Skuldir banka og fyrirtækja voru einfaldlega orðnar svo miklar að dæmið gekk ekki upp. Talað er um að Stoðir skuldi 260 milljarða, Eimskip um 200 og þar fram eftir götum.
Þess vegna erum við orðin þreytt á öllu þessu bulli. Við þessar aðstæður er ríkisstjórnin rúin öllu trausti nema hún taki til hendinni og beri niður þar sem eitthvað er að sækja. Það er rétt, við ætlum ekki að borga skuldir óreiðumanna, en við erum farin að heyra mjálmið og afneitunina. Stjórnmálamennirnir munu fylla eyru okkar af langlokum og afsökunum. Þeir vonast til að geta setið af sér storminn eins og þeir eru vanir að gera. Eins og Bjarni Ármannsson var sérfræðingur í. Hann hefur kannski kennt þeim trikkin. Var það ekki Pétur Blöndal sem uppgötvaði Bjarna, Pétur Blöndal sem sagði þessa skemmtilegu setningu í þættinum Mannamál í sjónvarpinu á sunnudag: Ég viðurkenni ekki neitt.
Eitt hafa stjórnvöld þó framkvæmt, það er að koma sér upp sérsveit lögreglu, en að við séum búin að missa landið út úr höndunum, að hér ljúki sögu lýðveldisins, og það allt af því að örfáum fjárplógsmönnum var gefinn allt of laus taumur, það er auðvitað þyngra en tárum taki, því satt best að segja hef ég alltaf kunnað vel við lýðveldið og ég geri ráð fyrir að sakna þess þegar fram líða stundir.
Nei, ég get ekki gert mikið fyrir ríkisstjórnina, en vil þó nesta hana með einu ljóði sem henni er frjálst að fara með næst þegar hún hittir fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og önnur yfirvöld af veraldlegum toga, en það heitir einmitt Síðasta tilboð Íslendinga og er að finna í ljóðabók með því viðeigandi nafni: Í auga óreiðunnar.
Því miður, herra framkvæmdastjóri,
ég hef ekkert að bjóða
í þessum samningaviðræðum
nema þrjú tonn af kokteilsósu,
örfá eintök af dýrafræði Jónasar frá Hriflu
og allar hljómplötur Árna Johnsens.
Höfundur er rithöfundur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er einmitt ræðan sem að hann flutti á borgarafundinum í gær og hitti hann rækilega í mark með hana.
Neddi, 28.10.2008 kl. 12:49
Sammála þér og Einari. Þetta þurfa allir Íslendingar að lesa. Þetta er eins og plástur á undina sem hefur myndast undanfarið þegar skoðað er hvernig umheimurinn er að hlæja að okkur.
Vonandi er Einar að tala fyrir hönd hinnar íslensku þjóðarsálar.
Rósa Halldórs (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 12:51
Sammála Einari, en hann segir þetta miklu betur en get.
Rut Sumarliðadóttir, 28.10.2008 kl. 14:57
Einar í Seðlabankann, og það strax!
persóna, 28.10.2008 kl. 16:15
Er hann meira en skáld
Ómar Ingi, 28.10.2008 kl. 17:25
... mögnuð grein... alveg hreint stórmögnuð... og svo mikill sannleikur í henni...
Brattur, 28.10.2008 kl. 19:20
Einar gefur manni þannig innblástur að manni langar leggjast í rannsókn yfir allan pakkann og komast að því og rifja upp hvað raunverulega gerðist...
Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 19:48
Þetta er mergurinn málsins, það sem flestir eru að hugsa en svo fáir getað komið orðum að þannig að aðrir taki eftir.
Magnús Sigurðsson, 28.10.2008 kl. 20:46
Vona að allir sem gátu ekki hlustað á Einar flytja þetta sjálfan gefi sér tíma til að lesa þessa ræðu. Hún hefur farið víða í netheimum dag Sammála því sem einhverjir hafa ýjað að hér að ofan að orð Einars virka einhvern veginn sem plástur þrátt fyrir að hún dragi upp kuldalega mynd sem margt bendir til að sé sorglega sönn. Kannski er það ekkert þrátt fyrir heldur einmitt vegna þess að Einar Már hikar ekki við að segja hlutina umbúðalaust.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.10.2008 kl. 23:02
Maður tekur nú ofan fyrir honum og ég vona að þessi rödd muni hljóma í einum kór úr hverju koti hér á Íslandi.
Minnir mann á ræðu Finney í Network. "Be mad, be very mad!"
Jón Steinar Ragnarsson, 28.10.2008 kl. 23:38
Sammála, sammála, skjóta, skjóta, oh hvað okkur líður vel þá ! Öll vandamál þessa heims þá leyst, ekki satt, einfeldningar ykkar. Dj. ruslpóstar eru þetta frá besservisserum landsins, sem taldir að gætu verið þessir 500 sem voru í Iðnó + kannski 500 í viðbót sem voru að passa börnin sín. Látið okkur hin 329.500 bara vera, þið megið svo sannarlega flytja úr landi, taka upp Evruna ykkar og kaupa ykkur eitt stykki banana þar, t.d. í Florence (já eitt stk, ekki kíló) á € 3.- (Ísk 450.-, kílóið á ca. kr. 4.500.-) Verði ykkur að góðu, ekki biðja ættmenn héðan að styrkja ykkur í t.d. 40% atvinnuleysi ungs fólks í N-Þýskalandi. Góða ferð !
Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 00:12
p.s. Ég er farinn út af þessu bloggi og kem ekki aftur inn. Bendi á tvö flugfélög til að flytja ykkur úr landi: Iceland Express, þar sem flugmenn þess greiða sína skatti erlendis og svo Icelandair sem er með flugmenn sem greiða skatta sína hér á landi. Nú er ykkar að velja, góða ferð.
Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 00:21
Já þetta er allt gott og blessað og frábær grein, ég vildi bara að þetta hefði eitthvað að segja til að laga stöðuna. Við getum öll skrifað og skrifað frá okkur allt vit en ekkert breytist til batnaðar við það. Reyndar gerir þetta mig bara enn reiðari við allt og alla að sjá þennan sannleik svona á prenti.
Mercury (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 12:20
Bestu þakkir Einar Már.........ég tek undir grátandi hvert orð af því sem fram kemur í skrifum þínum. Afneitunin sem mannlegur máttur býr yfir sálinni til verndar, hefur komið mér til hjálpar líklega ómeðvitað sl vikur sem nú "að vakna" harkalega upp við martröð þessara ófara hér á okkar litla landi og bara skerpist við lestur greinar þinnar. Yfirvöld og peningafólk hafa verið á "fylleríi" með peningana okkar og fá "litla" sem enga timburmenn vegna þess að það er ekki runnið af þeim. Hvað gerum við þegar einhver okkur nákominn er alltaf "fullur" jú við leitum okkur hjálpar förum að heiman eða skiljum. Ef það væri hægt - fara - skilja - HJÁLP - nei !!! við eigum lítið val í stöðunni sem búið er að koma okkur í. Geir-hardur biður okkur um að vera "góð hvort við annað" halda ró okkar og "halda bara áfram" (að vera MEÐVIRK) ......sorry við erum ekki til "sölu" lengur - við kaupum ekki svona bull - loforðasvik eru aðalsmerki óreiðufólks. Ég vil skilnað - SKILNAÐ forræði barnanna deilst ekki með þér forsætisráðherra sem sættir þig við að Davíð o.fl kúgi þig til hlíðni og NOTI þig í "skítverkin". Nú átt þú að reka/skilja við þá sem NOTA þig - þitt er valdið. Á sökkvandi skipi þá byrja ég á að BJARGA sjálfri mér - þannig að ég sé fær um að bjarga öðrum. YFIRVÖLD farið í Al-Anon - þar fæst ráðgjöf FRÍTT. Aðstandendur óreiðufólks leita þangað NB oftast í neið - nú er neiðin.
Anstera (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 12:32
Já takk...
Ég var farin ad taka all harkalega um músina er ég las tessa grein svo mikil spenna var í öllumm líkamanum á medan á lestri stód.og mikid er hann Einar Már skýr madur og nátturuega kemur tessu frá sér á snilldar hátt.
Med kvedju frá Jyderup
Gudrún Hauksdótttir, 29.10.2008 kl. 15:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.