BLEKKING
Venjulegt fólk sem ekkert vit hefur á fjármálaheiminum og treyst hefur 'sérfræðingum' í bönkum er allt í einu komið í þá stöðu að það hefur málað sig út í horn. Þrátt fyrir að fylgja eftir áætlun um afborganir á lánum hækkar höfuðstóllinn margfalt á við það sem þeim var lofað í upphafi.
Á áætlunum er yfirleitt reiknað með 2.5% verðbólgu, sem þýðir að lán upp á 5% vexti verður að 7.5% láni. Þar sem verðbólgan verður líkast til 14% um áramót eða meiri, þýðir það að vextir á húsnæðislánum verða að minnsta kosti 19% og munu þessi 19% leggjast á höfuðstól lánsins.
Þar sem að fólk fékk lán í samræmi við greiðslugetu, þýðir þetta að greiðslubyrðin verður um 19% meiri á næsta ári ef hlutirnir ganga eðlilega fyrir sig. Þetta gerist án þess að laun hækki, og á meðan flestallar vörur og þjónusta hafa hækkað um 30%.
Úr bönkunum heyrast gáfuleg ummæli eins og "Hver er sinnar gæfu smiður," og maður hefur á tilfinningunni að mönnum standi nokkuð á sama um þessa greiðsluerfiðleika. Því það sem gerist ef fólk getur ekki borgað lánin, þá eignast bankinn húsnæðið, sem á endanum verður hægt að selja aftur eða leigja út, þannig að sá gróði verður einfaldlega tvöfaldur. Hugsanlega lítur þetta svona út í reiknilíkani, en veruleikinn getur orðið allt annar ef fjöldi fólks fer á höfuðið vegna skulda sinna og áttar sig á að aleigan hefur verið hafin af þeim með blekkingum.
RÍKI
Þegar svona er komið, að skrímsli hefur tekið á sig mynd og ógnar undirstöðum fólks, þá leitar það hjálpar. Helst er litið til ríkisins, en því miður virðist hefðin á Íslandi vera sú að ekkert er gert fyrir fólkið nema það muni líta vel út fyrir næstu kosningar. Fólk á Íslandi er nefnilega svo fljótt að gleyma. Það er nefnilega snjallt að bíða með bestu útspilin þar til á síðustu stundu. Það er svosem allt í lagi að fjöldi fjölskylda fari á hausinn, bara að útspilið komi þegar allir skilja að neyð sé í gangi þannig að það verði ekki gagnrýnt af hörku.
Þessi hugsanagangur gengur því miður upp, sé farið eftir leiðbeiningum Machiavelli um hvernig halda skal völdum, en er þetta það sem gera skal fyrir fólkið á 21. öldinni? Af hverju ekki að bregðast við áður en Titanic skellur á ísjakann? Af hverju auka hraðann og sýna veikasta punktinn? Hafa stjórnvöld virkilega efni á því?
Stærsti veikleiki ríkisstjórnarinnar virðist felast í mesta styrk hennar. Hún situr nokkuð örugg í sessi, með mikinn meirihluta sem erfitt er að rjúfa. Þetta þýðir að allir eru öruggir í sínum sætum og enginn vill rugga bátnum. Hins vegar er sá möguleiki í stöðunni að stjórnin verði rofin af öðrum flokkinum og henni komið saman undir mörgum flokkum, en það er einfaldlega enn verri staða, því að duttlungar fárra gætu þá ráðið framtíð þjóðarinnar, rétt eins og gerst hefur hjá Reykvíkingum í borgarstjórnarmálum síðustu misseri. Að slíta samstarfi væri að fara úr öskunni í eldinn.
Það er samt augljóst að mikil spilling ríkir hjá ríkisstjórninni. Menn eru frýjaðir ábyrgð af glæpum, tengdu fólki er komið í þægilegar stöður, þingmenn og ráðherrar eiga jafnvel stóra hluti í bönkunum, og vilja því ekkert gera gegn þeim. Ríkisstjórnin gerir ekkert af viti þegar á reynir, og virðist ekki skilja að fólkið þurfi á henni að halda - að hún sé ekki bara stöður upp á punt, heldur úrræði til að setja góð lög og leysa vandamál þjóðarinnar þegar þau knýja dyra.
SÖNN DÆMISAGA
Ríkisstjórnin minnir mig á skák sem ég tefldi eitt sinn við einn af núverandi ráðherrum hennar. Þegar ég hafði unnið skákina nokkuð auðveldlega vegna passívrar taflmennsku ráðherrans, þá rauk hann á dyr og hætti í skákmótinu. Hann tefldi illa og var tapsár, en hefur sjálfsagt verið sagt af vinum sínum að hann tefldi ágætlega, og hann virðist hafa trúað því. Ég er hræddur um að sami einstaklingur sé einmitt að tefla pólitíska skák sína jafn illa, og muni einfaldlega gefast upp í stað þess að berjast til þrautar og ganga á dyr. Skákin á það til að opinbera innri karakter fólks á skemmtilegan hátt. Mér var ekki skemmt þegar ég sá hinn sama komast til valda á Íslandi. Gott stjórnmálavit kemur ekki að sjálfu sér frekar en góð taflmennska.
Staðan er semsagt þannig: ríkisstjórnin er í þægilegri stöðu. Þarf ekkert að óttast. Ráðamenn eru á nógu góðum launum til að vera skuldlausir, og sjá því varla ástandið eins og það er í raun og veru. Þeir eru vanir gagnrýnisröddum og vita að þær líða hjá, enda hafa þær alltaf gert það, og helsti vandinn sem steðjar að þjóðinni er fallandi króna og há verðbólga. Alltof fáir ráðherrar og þingmenn virðast skilja hvað það þýðir til lengri tíma litið.
VANDAMÁL
Ég held að stærsta vandamálið í dag sé það að ríkisstjórnin sér ekkert vandamál. Hún sér bara fullt af fólki blogga af krafti um málin og stjórnarandstöðuna kvarta. Sama hvernig staðan er, það eru alltaf einhverjir að kvarta.
Jæja. Ég er ekki að kvarta.
Það er stórt vandamál í uppsiglingu og því fyrr sem gripið er inn í af ríkisvaldinu, því betra fyrir fólkið. En það verður að viðurkennast að ríkið mun fá miklu meira kredit ef það bregst ekki við vandamálinu fyrr en það er orðið nánast óviðráðanlegt, og gerir eins og Bush ætlaði að gera núna rétt fyrir kosningar, að grípa ekki inn í fyrr en á elleftu stundu og sjá þannig til að repúblikanar vinni kosningarnar þar sem fólk verður honum svo þakklátt. Þetta er vel útreiknað plan, sem getur reyndar snúist í höndunum á honum. Ég vona bara að ráðamenn okkar séu ekki að hugsa á þessum nótum.
ÚRRÆÐI
Við höfum úrræði til staðar, en erum ekki að nýta þau. Úrræðið felst meðal annars í íbúðalánasjóði og gífurlega öflugri stöðu ríkisins, sem er algjörlega skuldlaust. Í stað þess að eyða á hefðbundinn hátt í fleiri störf og stofnanir, auk sendiherrabústaða í fjarlægum löndum upp á einhverja milljarða, gæti Ríkið brugðist við vandanum áður en hann verður raunverulegur, og hjálpa þeim sem vilja hjálpa sér sjálfir?
Ég er ekki að benda á neina töfralausn, heldur raunverulega von og möguleika fyrir skuldsetta Íslendinga. Okkar mesti styrkur gegnum aldirnar hefur falist í samvinnu og stuðningi hvert við annað, en þessi gildi eru í hættu.
Hvernig væri að gefa fólki tækifæri á að borga upp bankalánin og fá hagstæðari lán hjá ríkissjóði í staðinn, helst án verðtryggingar og á föstum vöxtum, eins og 7%? Og tryggja það í leiðinni að fjármálahákarlarnir misnoti ekki úrræðin til að finna fleiri smugur í kerfinu til að hagnast enn frekar, heldur gefa raunverulegum fjölskyldum sem hafa keypt sitt fyrsta húsnæði þetta tækifæri, því að þetta fólk er fólkið sem þarf hjálpina fyrst.
Síðar væri hægt að færa úrræðin til fólks sem hefur verið að stækka við sig húsnæði, en þó koma þeim einnig til aðstoðar ef stærð húsnæðis er í samræmi við stærð kjarnafjölskyldunnar, en reynslan sýnir að hafa skal ofarlega í huga ráðstafanir til að koma í veg fyrir að húsnæðisbraskarar og aðrir fjármálasnillingar sem virðast geta nýtt sér minnstu breytingar í eigin hag á kostnað þeirra sem þörfina hafa, geti misnotað þetta úrræði.
GRUNNÞARFIR
Það er nú þannig að eign á húsnæði er ekki lúxus.
Það er þrennt sem allir þjóðfélagsþegnar ættu að geta gengið jafnt að: húsnæði, klæðum og fæði. Aðrar þarfir eru til staðar, en þessum grunnþörfum þarf að fullnægja áður en farið er út í aðrar þarfir.
Það ættu allir þjóðfélagsþegnar að geta átt húsnæði án þess að þurfa í áratugi að hafa áhyggjur af síhækkandi afborgunum. Því miður hefur þessi grunnþörf fyrir húsnæði verið misnotuð á Íslandi, og ætlast er til þess af komandi kynslóðum að þær eigi ekki sitt húsnæði, heldur leigi það bara. Þegar fólk er ekki öruggt um grunnþarfir sínar er stutt í óhamingju og böl.
VON
Skuldlaus ríkisstjórn hlýtur að geta hjálpað fólki að eignast eigið húsnæði skuldlaust.
Eftir að hafa fylgst náið með ríkisstjórninni síðan hún tók við völdum, fær sjálfstæðisflokkurinn eins og hann leggur sig falleinkunn, sérstaklega fyrir að taka þátt í mörgum spillingarmálum fyrir opnum tjöldum og reyna svo að fela gjörninginn með orðskrúði jámanna. Samfylkingin fær líka falleinkunn, en henni til vorkunnar, ekki fyrir spillingarmál sem ekkert hefur borið á hjá þeim til þessa, heldur fyrir agaleysi æðstu stjórnenda.
Hins vegar eru tveir einstaklingar í ríkisstjórninni sem ég bind vonir við, en sérstaklega þau Jóhanna félagsmálaráðherra og Björgvin viðskiptaráðherra hafa verið að gera góða og sýnilega hluti, á meðan formaður flokksins hefur verið á vappi um allan heim sem utanríkisráðherra, í stað þess að einbeita sér að mikilvægum málum heima fyrir.
Mér sýnist reyndar að Ingibjörg Sólrún taki starf sitt sem utanríkisráðherra mjög alvarlega og að hún sé frábær utanríkisráðherra, en því miður er það starf að fá alla athygli hennar og hún virðist hafa gleymt öðrum skyldum sínum, þar sem að hennar mikilvægasta starf er sem formaður stjórnmálaflokks sem þarf nauðsynlega á styrkri stjórn að halda, frekar en veraldarvafri.
Ég bind von mína við alþingismenn og ráðherrar sem vilja vinna fyrir kaupi sínu og er ekki sama um þjóðina sem kaus þau, og hvet þau til að finna leiðir til úrlausna, og vonandi í anda þeirra sem ég mæli með í þessum stutta pistli.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:50 | Facebook
Athugasemdir
http://daiceland.org
Rósa Halldórs (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 10:40
Ég vil kjósa þig sem siðferðilegan efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar Hrannar, hvernig fer ég að því?
Flottur pistill og ég er þér algjörlega sammála.
Sigrún Jónsdóttir, 28.9.2008 kl. 10:43
Rósa: góður tengill - en mér finnst hann ekki eiga alveg við, þar sem að um ræðir vandamál sem kemur utanfrá en er ekki alls staðar orðið til vegna hömlulausrar skuldasöfnunar vegna gróðafíknar einstaklinga.
Sigrún: Þú segir nokkuð. Kærar þakkir.
Hrannar Baldursson, 28.9.2008 kl. 10:56
Sæll Hrannar,gaman að sjá að þú ert mættur til að vekja fólk til umhusunar. Píramítin Maslows segir kannski talsvert um hvers vegna fólk rataði í þau vandræði að skuldsetja sig um of, það vantar nefnilega í hann "frelsið" sem þó ætti að rúmast að einhverju leiti í "sjálfsvirðing".
Það er ekkert nýtt að stjórnvöld komið ekki skuldsettum íbúðareigendum til bjargar, þetta geta margir staðfest sem urpplifðu að verða eiganlausir í hinum dreifðu sjávarbyggðum þegar framsal fiskveiðiheimilda var komið á með lögum frá Alþingi. Munurinn þá og því sem er að gerast núna er að þá voru stjórnvöld beinn orsakavaldur en nú er það sem kalla "markaðinn" orsakavaldurinn.
Húsnæðisverð hefur hækkað um 40-60% á örfáum árum og spyrja má hvort fólk hafi ekki átt að horfa á þá staðreynd á gagnrýnin hátt, allvega voru þeir margir fjármálaráðgjafrnir (aðrir en hjá bönkunum) sem bentu fólki að það leigja væri alltaf góður kostur á meðan nægilegu eigin fé væri aflað til íbúðarkaupa.
Hvort ríkið eða Íúðalánasjóður á að endurfjármagna erfið íbúðarlán núna er ekki sjálfgefið, það má spyrja hvort íbúðaverð er ekki orðið allt of hátt fyrir marga, svo ekki sé minnst á þá ungu sem eru að koma inn í fyrsta sinn og hvort það á að vera hlutverk ILS og þess opinbera að viðhalada slíku verði. Svo ekki sé talað um skattgreiðendur í þessu sambandi.
Ég tel trú þína á Jóhönnu of mikla. Jóhanna var félagsmálaráðherra um 90 og kom þá á húsbréfakerfi þar sem afföllin fóru í 26 % hæst en voru sjaldanst undir 16% þau ár sem hún var ráðherra. Þetta kom þannig við mig að ég fékk rúmlega 4 millj lán (fyrir ca. 1/4af byggingarkostnaðinum) á 6% verðtryggðum vöxtum. Í útgreiddum peningum eftir að hafa skipt húsbréfunum fékk ég 3.1 millj.. Þegar ég seldi húsið, sem stóð í áður blómlegri sjávarbyggð fékk ég 8 millj. fyrir húsið og flutti í Grafarvoginn þar voru svipuð hús og mitt var voru verðlögð á 23 millj. nú 7 áum seinna verðleggja menn þessi hús í Grafarvoginum á 50 millj.. En þar kannski allt önnur saga.
Magnús (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 10:58
Sæll
Hér er noregi er það bankinn sem er ábyrgur fyrir því að lána fólki ekki umfram greiðslugetu, ekki er langt síðan banki var dæmdur til niðurfellingar skuldar, þar sem sannað þótti að bankinn hafði ekki sinnt skyldu sinni með að lána ekki umfram greiðslugetu fólks.
Almenna regla er að fólk fær ekki lánað meira en 2,5 - 3 sinnum br
brútto árslaun.
Anton Þór Harðarson, 28.9.2008 kl. 11:01
Welcome Back Don
Ómar Ingi, 28.9.2008 kl. 11:18
Hrannar, skoðaðu http://www.bankklagenemnda.no/
undir "Uttalelser" finnur þú dæmið sem ég talaði um,
2008-044 dæmi 2008-054 er líka athugandi, er ekki komin tími fyrir svipað eftirlit á íslandi
Anton Þór Harðarson, 28.9.2008 kl. 11:18
Magnús: maður verður að hafa einhverja trú á fólki, sérstaklega því fólki sem hefur þó sýnt einhvern lit.
Anton: Mjög áhugavert. Ætli séu til sambærileg íslensk lög eða reglugerðir, kannski tengdar reglum um fjármálaeftirlit?
Ómar: Takk fyrir. Ég er samt ennþá í fríi. Smá frí frá fríinu á sunnudagsmorgni.
Hrannar Baldursson, 28.9.2008 kl. 11:29
Gott að sjá þig á ferð. Takk fyrir þennan frábæra pistil. Þú er klár strákur ekki spurning. Kveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 28.9.2008 kl. 11:43
Tek undir hvert orð og tel ég þetta vera það sem flestir hugsa.
Vandamálið við 7% hugmyndina er að þeir sem eru með erlend lán þora ekki né geta greitt það upp núna. þeir vonast til að krónan lækki aftur. Nú er skuldin á því gengi sem er í dag og er það það óhagstæðasta sem nokkurn tíman hefur sést. Fólk með erlend lán er í algjöru fangelsi með sínar skuldir og óvissan er algjör.
Halla Rut , 28.9.2008 kl. 12:24
Það er virkilega gaman að lesa pistlana þína Hrannar, og margt mjög gott sem þar kemur fram. Enda varla von á öðru - uppruninn - þú veist!
Verra er hins vegar að þeir sem ráða virðast ekki hafa vit til að lesa þetta eða skilja og þaðan af síður nokkurn áhuga á að hlusta á önnur rök.
Þetta með Ingibjörgu Sólrúnu er alveg hárrétt nema hvað ég er ekki viss um að það bætti nokkuð þó hún fækkaði utanferðum eitthvað! Sjálfstæðisflokkurinn fær líka falleinkunn hér - eins og hann leggur sig - bæði í landstjórninni, í borgarstjórn og í bæjarstjórn hér á Akureyri!
Hver veit - kannski tími Jóhönnu sé loksins að koma!???
Kv, Bjarni Ásmundar
Bjarni Asmundsson (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 12:46
Rétt Hrannar maður verður að hafa trú á fólki og ég held að flestir sýni lit. Ég vil taka fram að 7% hugmyndin er góð og ef hún yrði farin er hún skref í þá átt að afnema verðtrygginguna, þó hún gagnist ekki þeim sem eru með erlend lán eins og Halla Rut bendir á.
En ef menn vilja komast fyrir orsök þess vanda sem íbúðaskuldendur á Íslandi glíma við, sem er auk of hás verðs líkt og í öðrum löndum, þá þarf að afnema verðtrygginguna því að bankarnir geta leikið þann leik að græða bæði á gengishruni og verðtryggingu eins og dæmin sanna.
Magnús (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 14:26
Magnús, þú talar um að húsnæðisverð hafi hækkað um 40-60%. Málið er að það er ekki stærð í þessari umræðu. Hækkun húsnæðisverðs snýr eingöngu að pappírsgróða og verður ekki að raunverulegum gróða nema húsnæðið sé selt. Það er hækkun höfuðstóls lánanna sem skiptir megin máli, þar sem fólk þarf að greiða af honum og vexti í hverjum mánuði.
Ég er sammála Höllu Rut með að við sem skuldum háar upphæðir í erlendri mynt erum að bíða eftir því að krónan styrkist. Miðað við hrun hennar í september, þá er trú mín á að það gerist framin að minnka verulega. Ég sé einfaldlega ekki að ríkisstjórn og Seðlabanki hafi burði og hugmyndaflug til að bæta stöðu krónunnar. Niðurstaðan verður miklar kostnaðarhækkanir á næstu vikum sem munu endurspeglast í mikilli hækkun verðbólgu. Sýn mín frá því í vor um 18 - 20% verðbólgu virðist ætla að verða að veruleika.
Marinó G. Njálsson, 28.9.2008 kl. 17:44
Marinó ég skil það að 40-60% hækkun á húsnæði verður ekki útleyst nema með sölu. Það sem ég vildi benda á að þessi mikla hækkun hafði orðið á skömmum tíma og þeir sem keyptu síðustu þrjú árin hefðu átt að hugleiða hvort þetta verð væri raunhæft til leingri tíma litið. Hækkanir leiða yfirleitt til verðbólgu og húsnæðislánin eru verðtryggð. því er spurningin hvort það opinbera á að koma að málinu nú þegar í ljós er komið að ekki er hægt að selja húsnæði fyrir skuldum.
Magnús (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 18:29
Flottur pistill hjá þér.
Það sem mér finnst allra verst við þessa pólitíkusa er að þeir þykjast vita allt og geta allt. Það er eins og það sé fyrir neðan þeirra virðingu að sækja þekkingu og ráð til þeirra sem vita og kunna. Það er ekki eins og hún sé ekki til í landinu. Ég trúi því að ef menn vilja í alvörunni bjarga málunum og kalla til rétta fólkið þá er það hægt. En menn eru bara annaðhvort of hrokafullir eða stoltir til að leita sér hjálpar.
Þóra Guðmundsdóttir, 28.9.2008 kl. 18:30
Var skákmaðurinn með þér í HÍ ?
Þóra Guðmundsdóttir, 28.9.2008 kl. 18:44
Takk fyrir góð svör og skemmtilegar pælingar.
Þóra: skákmaðurinn var ekki með mér í HÍ. Góð tilraun samt.
Hrannar Baldursson, 28.9.2008 kl. 18:50
Sæll Hrannar.
Samála nær öllu í þinni grein, en ætla sér að lána á 7 % nafnvöxtum á ísl. kr. er bara ekki hægt eins og dæminn sanna. Nær væri að ríkið keypti íbúðarlán viðskiptabankanna með afföllum, og endurlánaði þau síðan til skuldarana á 2 til 3 % verðtryggð. Húsnæðisverð á eftir að falla í verði töluvert á komandi misserum. Það sem ég tel að komi öllum þeim er standa höllnum fæti bezt er að Ríkið hækkaði skattleysimörk og bætur almannatrygginga verulega.
Leifi mér að giska á að ráðherran sé Guðlaugur Þór, trúi þessu ekki uppá Össur.
haraldurhar, 28.9.2008 kl. 18:52
Þetta var hvorki Guðlaugur Þór né Össur, en þeir eru báðir frekar skemmtilegir þegar kemur að skákinni.
Hrannar Baldursson, 28.9.2008 kl. 18:57
Magnús, enn og aftur. Húsnæðisverð, hátt eða lágt, skiptir ekki máli. Óraunhæfar væntingar um þróun þess ekki heldur. Það eru allt fortíðaratriði sem verður ekki breytt. Það sem skiptir máli er hvernig fólki verður gert kleift að standa undir afborgunum lána sinna og hafa efni á því að lifa. Greiðslubyrði lánanna hefur aukist í samræmi við hækkun verðbólgu og hækkun erlendra gjaldmiðla. Þannig hefur greiðsla á láni í svissneskum frönkum sem var upp á kr. 150.000 vorið 2007 hækkað í 330.000 kr. í september. Hvort lánið er vegna húsnæðis eða einhvers annars skiptir engu máli. Það sem skiptir máli er að Seðlabanki Íslands og ríkisstjórnin létu þetta viðgangast og virðist mér stundum sem hlakkað hafi í formanni bankastjórnar Seðlabankans yfir þessari breytingu, þó svo að það hafi breyst síðustu vikurnar.
Marinó G. Njálsson, 28.9.2008 kl. 19:13
Trúið þið virkilega að allt þetta sé tóm óheppni og ríkisstjórnin komi ekki nálægt neinu. Ég held einmitt að staðan í dag sé bein afleiðing laga frá Alþingi og aðgerða stjórnvalda. EES-flot krónunnar-sala banka-ekkert eða lítið eftirlit o.s.fr. Allt er þetta á ábyrgð stjórnvalda.
Svo skil ég ekki alveg ást þína á viðskiptaráðherra. Hann er lýðskrumari af verstu sort. Samviskulaus og sennilega illa innrættur í ofanálag. Hann er á sama plani og bankastrákarnir sem eru að setja þjóðina á hausinn.
Björn Heiðdal, 28.9.2008 kl. 19:16
Marinó ég er sammála þér með það að það sem skiptir máli er að gera fólki kleift að lifa. En er ekki eins viss um að það eigi við að gera fólki kleift með opinbeum aðgerðum að standa undir uppgreiðslu lána til bankanna. Þar getur verið um erfiðara mál að ræða, því að þar getur allt eins orðið um það að ræða að mistökum af útlánum bankanna verði ítt yfir á skattgreiðendur og skuldarinn eftir sem áður skilinn eftir í vonlítilli stöðu. Því eins og þú segir skiptir íbúðaverðið nú orðið eingu máli í þessu dæmi.
En það sem ég vildi leiða athygglina að er að fólk verður að hugsa gagnrínið en trúa ekki um of á sölumenn bankanna. Það var nokkuð fyrirséð að þetta ástand myndi skapast þó svo sölumenn skulda og fasteigna héldu öðru fram þar til fyrir ári síðan.
Magnús (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 22:25
Ef einstaklingur með tekjur í ísl. krónum tekur lán í erlendri mynt, til kaupa á eign á Íslandi, er það í raun hið sama og spákaupmennska með gjaldeyri. Sem er mjög áhættusöm.
Meðan vel gengur þakka menn eigin snilli.
Þegar illa gengur kenna menn öðrum um.
Held að það sé mun dýpri speki en kjaftæðið í Maslow.
Ketill Sigurjónsson, 28.9.2008 kl. 22:46
Sælir.
Hver á svo að bera kostnaðinn af vaxatamuninum frá þessum 7 prósentum ? Sparifjáreigendur eins og var fyrir daga verðtryggingarinnar ? Eða kannski seinþreyttir skattgreiðendur ? Ekki gleyma því að ekki eru allir skattgreiðendur í lánaerfiðleikum, en er réttlátt að þeir borgi fyrir hina ?
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 28.9.2008 kl. 23:03
Magnús, ég get ekki séð að 70% hækkun erlendra gjaldmiðla sé hægt að flokka undir mistök bankanna í útlánum. Það væri kannski hægt að taka 10 - 20% af þessu og klína því á útlán bankanna, en samt efast ég um það. (Ég kannast raunar ekki við að það hafi verið sýnt svart á hvítu á einhver "mistök" í útlánum bankanna.) Og þó svo væri, þá var það Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar að skapa hér stöðugleika og halda honum við. Eins og ég hef marg oft bent á í pistlum á blogginu mínu, þá eru reglurnar sem bankarnir vinna eftir samþykktar af Seðlabankanum, þó svo að Fjármálaeftirlitið hafi gefið þær út. Það var Seðlabankinn sem rýmkaði útlánareglurnar sem bankarnir fara eftir. Og ekki bara einu sinni heldur þrisvar. Tvisvar með því að auka útlánagetu bankanna með breytingu á áhættuvægi og einu sinni með því að lækka bindiskyldu mjög mikið. Seinni breytingin á áhættuvæginu varð samhliða lækkun á matarskattinum og hvarf því inn í þá umræðu. Kannski voru ekki öll útlán bankanna ábyrg, en ef þau hefðu haft sömu afleiðingar hér og í flestum löndum í kringum okkur, þá hefðu þau á endanum átt að enda í mikilli lækkun húsnæðisverðs, ekki hruni krónunnar. Hrun krónunnar undanfarnar vikur er m.a. talið vera vegna þess að það er skortur á gjaldeyri á markaðinum. Öll gjaldeyrisviðskipti á Íslandi fara um Seðlabankann. Það er eitt af lögbundnum hlutverkum hans að sjá um að skipta á krónum og gjaldeyri. Ef Seðlabankinn hefur ekki nóg af gjaldeyri, þá hækkar verðið á honum.
Málið er að ábyrgð Seðlabankans er margþætt í þessu máli og þar sem hann starfar á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, þá verða þessir aðilar í sameiningu að leysa vandann. Helstu verkefni þessara aðila er að skapa stöðugleika í hagkerfinu samhliða heilbrigðum vexti. Það er ekki hlutverk bankanna, FL Group eða Baugs. Þeirra hlutverk er að starfa innan þess ramma sem Seðlabankinn og ríkisstjórnin setja.
Síðan finnst mér þú líta á málið frá röngu sjónarhorni. Mér er nokk sama hverjir fá peningana mína. Ég vil bara hafa efni á að borga þá. Með 20 - 70% hækkun höfuðstóls lánanna (vegna vanhæfni Seðlabankans til að vernda stöðugleikann) þá sé ég fram á að eiga í erfiðleikum með að standa í skilum nema tekjur mínar hækki jafnmikið. Lánin sem ég fékk voru ekki veitt af óábyrgni. Langt því frá. Þau voru tekin af yfirvegun og gert ráð fyrir 15-20% hækkun erlendra gjaldmiðla vegna þess að það er það sem menn bjuggust við að gerðist. Síðan kom bara í ljós að Seðlabankinn var ófær um að verja gengi krónunnar. Það er númer eit, tvö og þrjú ástæðan fyrir lækkun krónunnar og óásættanlegri verðbólgu sem á eftir að hækka enn frekar á næstu mánuðum.
Að lokum, þá finnst mér þú gera lítið úr dómgreind fólks með því að segja að það hafi fallið fyrir sölumennsku bankanna. Það gerði það alls ekki. Það féll fyrir þeirri bjartsýni og uppgangi sem var í þjóðfélaginu. Það taldi að góðærið myndi halda áfram enda höfðu stjórnmálamenn talað um það endalaust. Það treysti því að Seðlabankinn og ríkisstjórn hefðu stjórn á efnahagsmálum þjóðarinnar og það væri í raun Seðlabankinn sem stjórnaði gengi krónunnar. Visslega buðu bankarnir betri kjör en þeir höfðu gert áður, en þau voru bara sambærileg við það sem við höfum séð í öðrum löndum og þau voru sambærileg við kjör Íbúðalánasjóðs undanfarna áratugi. En það var fyrst og fremst góðærið sem seldi.
Marinó G. Njálsson, 28.9.2008 kl. 23:26
Það er dagljóst að bjargráð verða sótt til skattgreiðenda en þar er óljóst hvaða leiðir verða valdar. Þegar upp er staðið eru engar stoðir samfélagsins mikilvægari en fjölskydurnar og þær þarf fyrst og fremst að verja með oddi og egg. Má ekki hugsa sér að hækka skattheimtu á fjármagnstekjur og hækka jafnframt skattleysismörk lágtekjufólks? Það yrði til þess að treysta stöðu þeirra sem bágast eru settir og velta byrðunum meira yfir á þá sem betur eru staddir. Sósílisk lausn að vísu en þó í anda þeirra kenninga að þegar á reynir eru það efnamennirnir sem koma til skjalanna.
Mikið held ég að þurfi að ganga á til að stjórnvöldum aukist vitsmunir sem dugað gætu til þess að sækja tuga eða hundraða milljarða verðmæti sjávarafla sem spriklar nú á fiskimiðunum en bannað er að veiða. Bannað í þágu vísinda sem í dag eru jafn handónýt og þau voru fyrir 25 árum.
Þjóðin er bjargarvana vegna þess að dugandi fólki er bannað að bjarga sér.
Árni Gunnarsson, 29.9.2008 kl. 00:10
Fjármálakreppan snýst um það að ekki er hægt að finna kaupendur af eignum fyrir þeim skuldum sem á þeim hvíla. Þess vegna frís fjármagnið. Leiðin út úr þessu getur vissulega verið sú að láta þá sem ekki skulda taka þátt í að greiða skuldirnar og líklega verður sú leið farin. En það breytir ekki því að orsökin verður áfram til staðar ef ekkert annað er gert. Það sem stjórnvöld á Íslandi þurfa að gera er að afnema verðtrygginguna því hún er stór ástæða þess að bankarnir sjá sér hag í að fella gengið og viðhalda verðbólgu. Bankarnir græða á fallandi gengi og verðbólgu vegna verðtryggingarinnar þó að til leingri tíma sé þetta eins og að pissa í skóinn sinn. Það val sem skuldarar hafa er að berjast áfram eða hreinlega að ganga frá skuldunm, gangi þeir frá skuldunum í stórum stíl eins og gerðist í USA munu skattgreiðendur væntanlega fá reikninginn.
Magnús (IP-tala skráð) 29.9.2008 kl. 08:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.