Var borgarstjórinn peð sem mátti fórna?

 

 

 

 

Skákskýring

Það er ljóst að einhverjir innan sjálfstæðisflokksins í Reykjavík kunna að plotta á bak við tjöldin eða eins og við skákmennirnir orðum það: þeir kunna aðeins meira en mannganginn. Gísli Marteinn Baldursson hreinsar hendur sínar og fer úr landi í nám nokkrum dögum áður en Ólafi F. er sagt upp störfum. Sjálfsagt heldur hann einhverri virðingu eftir fyrir næstu kjörtímabil með því að þykjast ekki hafa verið með í mótinu. Í stað viðurkenningar fyrir heilindi fær Ólafur háðung fyrir "hálfindi". Hann missir sætið á sama hátt og hann vann það. Sá sem berst með sverði fellur með sverði.

Þjóðin öll virðist halda að þetta snúist allt um persónu Ólafs F. Magnússonar, enda hefur hann ekki komið vel fyrir í sjónvarpi, á erfitt með að vera gagnrýninn á eigin gerðir og telur sig hafa verið að gera góða hluti. Hann greip bara tækifærið þegar það gafst til að ná fram sínum sjónarmiðum, sem var lagalega rétt, en siðferðilega vafasamt þar sem atkvæði hans voru of fá til að réttlæta þvílík völd.

 

 

 

 

 

Byrjunin

Þetta er vissulega skrípaleikur, en hann varð ekki til af sjálfu sér. Þetta ber með sér þau merki að hafa verið vel undirbúin leikflétta af sjálfstæðismönnum, og hugsanlega einhverjum framsóknarmönnum. Rifjum aðeins upp söguna.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var einn óvinsælasti borgarstjóri Reykjavíkur frá upphafi þegar í ljós kom að hann ætlaði að selja hlut Reykjavíkur í Orkuveitunni í hendur einkaaðila, og málið komst upp á afar klaufalegan hátt. Vilhjálmur var staðinn að ósannindum og orðspor hans hlaut mikla hnekki, það mikla að fulltrúi sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Björn Ingi Hrafnsson, ákvað að hrinda atburðarrás í gang sem enn sér ekki fyrir endan á. Þetta sá enginn fyrir og margir fóru að tala um að Björn Ingi hefði stungið þá í bakið, á meðan ljóst virðist vera að hann hafi unnið af heilindum. Guðjón Ólafur Jónsson gagnrýndi síðan opinberlega Björn Inga fyrir alltof mikil fatakaup, sem varð til þess að hann þurfti að segja af sér.

 

 

 

 

Sjálfstæðismenn vissu að sá sem sviki tjarnarkvartettinn væri fyrirfram dauðadæmdur í pólitík, sem er jafneinfalt að skilja og að hrókur er dýrmætari en biskup, sama hver það er og hvað hann gerir. Hann yrði að háðung og spotti það sem eftir er. Ólafur F. Magnússon beit á agnið og fékk þess í stað borgarstjórasætið. Allir nema hann sáu óréttlætið og spillinguna, og því upplifir Ólafur F. óánægju fólks sem skipulagt einelti.

Og hann hefur rétt fyrir sér, Ólafur F. hefur verið beittur einelti á sama hátt og þúsundir Íslendinga, eineltishópurinn er hins vegar erfiðari í hans tilviki, þar sem nánast öll íslenska þjóðin virðist meðvirk í eineltinu, og gerir einfaldlega grín að honum fyrir að halda þessu fram, sem er einmitt eitt af einkennum eineltis, að ekki er tekið mark á fórnarlambinu. Það vill oft gleymast að í eineltismálum er eins og í öðrum deilum: sökin liggur ekki bara hjá þeim sem veldur eineltinu. Ef svo væri, væri miklu sjálfsagt auðveldara að koma auga á slík mál og meiri vilji til að leysa þau. Í einelti er fórnarlambið nefnilega oft líka gerandi í öðrum eineltismálum.

 

 

bullying

 

 

Miðtaflið

Ólafur byrjar sína tíð sem borgarstjóri með því að kaupa tvo ónýta kofa fyrir 500 milljónir. Nú ætti að hlakka í fólki. Hvernig gæti maðurinn nokkurn tíma náð sér á strik eftir svona hrikaleg mistök og slaka dómgreind?

En síðan leikur Ólafur F. afar góðan leik. Hann ræður Jakob Frímann Magnússon sem miðborgarstjóra og fær sérfræðinga til að hjálpa honum að bjarga ímyndinni, og það er að virka. Borgarstjórinn þykir vera að gera ágæta hluti. Þá tekur hann þá ákvörðun að víkja úr starfi manneskju sem hann gat ekki treyst. Hann rökstuddi ákvörðun sína, en ekki var hlustað á hann.

Þetta mál var magnað upp þannig að það fór að snúast um persónu Ólafs F. og endaði með því að hann rauk reiður úr sjónvarpssal eftir viðtal þar sem gert var úr því að koma honum úr jafnvægi. Þjóðin öll tók eftir þessu og almenningsálitið var greinilega gegn Ólafi F., enda gat enginn gleymt hvernig hann komst upphaflega til valda. Nú þurfti bara að magna upp þessar óánægjuraddir þar til hljómgrunnurinn yrði það mikill að hægt væri að skipta um skipstjóra í brúnni. Rétti tíminn til að gera svona lagað er þegar stórviðburðir eins og Ólympíuleikarnir eru í gangi, og sérstaklega þegar íslenska landsliðið í handbolta er að standa sig vel. Þá nennir enginn að velta sér upp úr valdabrölti pólitíkusa.

 

 

 

 

Endataflið

Nú hefur Óskar Bergsson tekið við hlutverki Ólafs F., en munurinn er sá að Óskar er í hlutverki bjargvættar sem sameinar og bjargar borginni frá tilburðum einræðisherra. 

Nú geta fulltrúar sjálfstæðisflokksins einbeitt sér aftur að því hvernig þeir ætla að selja Orkuveituna úr höndum Reykjavíkur. (og hagnast aðeins á sölunni í leiðinni?)

Ég vil taka það fram að ég er ekki flokksbundinn og lít ekkert endilega á þetta sem ofurplottaða samsæriskenningu, heldur sýnist mér þetta vera sagan á bakvið atburðina sem eru að gerast, og fólki finnst eðlilega erfitt að átta sig á þeim. Ég tel mig einfaldlega skilja hvað er í gangi, og í stað þess að nota orðin harmleik eða skrípaleik, vil ég reyna að skilja hvatirnar sem liggja að baki því sem gert hefur verið.

Ég er ekki að halda því fram að sjálfstæðisflokkurinn sé einhver snilldar skákmeistari, þeir eru bara aðeins betri en hinir sem eru greinilega ekkert annað en viðvaningar og byrjendur í pólitískri skák, og einfaldlega ekki nógu góðir til að tefla einfaldlega besta leiknum. Þess í stað þurfa þeir að sparka í andstæðinginn undir borðið, reyna að færa kalla til á borðinu á meðan andstæðingurinn er að fylgjast með Ólympíuleikunum á risaskjá og þykjast vita hvað þeir eru að gera, á meðan sannleikurinn er sá að þeir eru lítið skárri en þeir sem tapa skákinni. 

 

 

 

 

Um pólitíska skák almennt

Marínó G. Njálsson skrifaði annars ágætis grein 8.8.8 um hvernig pólitíkusar um allan heim misnota sér stórviðburði eins og Ólympíuleikana til að komast upp með vafasama hluti: Er verið að notfæra sér að heimsbyggðin er að horfa á Ólympíuleikana?

 

 

Myndir:

Ólafur F: Silfur Egils

Niccolo Machiavelli:Religion and Secrecy in the Bush Administration

Björn Ingi Hrafnsson: bb.is

Einelti: Bullying Advice

Handbolti: sport.is

Skák: John C Fremont Library District Weblog


mbl.is Orkuveitan áfram í útrás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Góð samantekt hjá þér en í hana vantar eftirfarandi: Ólafur kom ekki með beinum hætti að myndun 100 daga meirihlutans, enda var hann rúmsliggjandi á þeim tíma. Hann sagði seinna í vitna (ma mín eyru) viðurvist að hann væri ekki sáttur við málefnaáherslur Tjarnarkvartettsins. Þess vegna vildu þau halda Margréti og þess vegna var hann beðin um læknisvottorð. Það ríkti aldrei einhugur um þetta samstarf í borgarstjórnarflokki Sjálfsstæðisflokksins. Strax í upphafi reyndu aðilar í honum að storka Ólafi t.d. í flugvallarmálinu og nutu stuðnings Samfylkingarinnar. Kaupin á Laugavegi 4 og 6 voru Ólafi ekki að skapi en sjálfstæðismenn létu sér vel líka að honum væri kennt um.

Sigurður Þórðarson, 16.8.2008 kl. 11:13

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir viðbæturnar, Sigurður. Sjálfstæðisflokkurinn í borginni lítur stöðugt verr út þegar sagan tekur á sig skýrari mynd.

Hrannar Baldursson, 16.8.2008 kl. 11:21

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

"Óskar Bergsson gagnrýndi síðan opinberlega Björn Inga fyrir alltof mikil fatakaup, sem varð til þess að hann þurfti að segja af sér."

Það var Guðjón Ólafur Jónsson sem gerði það, ekki Óskar.

Gestur Guðjónsson, 16.8.2008 kl. 11:25

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Gestur: Rétt hjá þér. Ég biðst afsökunar á þessum mistökum og leiðrétti í greininni.

Hrannar Baldursson, 16.8.2008 kl. 11:32

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þetta var þá líklega ekkert svakalega djúpt plott í raun og veru. Ein af forsendum mínum, sem var röng, gaf mér að sjálfstæðismenn voru svona klókir. Ég virðist hafa ofmetið flokkinn. Fólk er kannski bara að klóra í bakkann.

Eitt er víst: ég skil miklu minna í þessu máli en ég hélt á meðan ég skrifaði greinina. En leyfi henni samt að standa.

Hrannar Baldursson, 16.8.2008 kl. 11:37

6 Smámynd: Ómar Ingi

Ólafur á bágt og á að fara gera eitthvað í sínum málum og ef eihver hefur lagt fólk í einelti þá er það hann eins og mörg dæmi eru um eða allavega líta þannig út , en þetta lið sem er yfirhöfuð í pólítík virðist vera með endemum óheiðarlegt og valdagráðugt fólk sem er andskotans sama um borgina og fólkið sem í henni býr sem reynir að kjósa fólk til framkvæmda en ekki til að borga eftirlaun og annan óskunda sem engum kemur til gagns þegar uppi er staðið.

Ómar Ingi, 16.8.2008 kl. 12:23

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Hrannar, það er athyglisvert að gengið var frá kaupum Laugavegs 4 og 6 á heimili Villa að Ólafi forspurðum sem síðar var látinn taka ágjöfina, þó ákvörðunin hafi verið honum mjög í móti skapi. Ég vona bara að það verði ekki farið svona með Óskar Bergsson.

Sigurður Þórðarson, 16.8.2008 kl. 12:33

8 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Fráær pistill!

Ég er á því að plottið hafi veirð djúpstætt og vel undirbúið. Sjálfstæðismenn vissu alveg hvaða mann Ólafur F hefur að geyma, þekkja viðbrögð hans og stefnumál. Þeir ættluðu aldrei að vera í löngu samstarfi við hann, tel ég. 

Hvað varðar Óskar Bergs þá var hann í eina tíð trúr sinni sannfæringu og fylginn sér og óhræddur við að gagnrýna eigin forystu, t.d. í Íraksmálinu. Er ekki sannfærð um að hann sé það lengur, finnst hann hafa breytt um áherslur og hafa beygt af fyrir áherslum og sannfæringum. Nú er bara að sjá hvernig gengur og hvað mun koma í ljós.

AÐ mínu mati hafa allir 15 borgarfulltrúarnir stimplað sig endanlega úr pólitíkinni. Ekki ein þeirra ætti að komast að í næstu kosningum!

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 16.8.2008 kl. 12:56

9 Smámynd: Sigurður Þórðarson

 Hvað hefðu fjölmiðlar sagt ef Ólafur hefði staðið að hundruð milljóna viðskiptum á vegum borgarinnar heima hjá sér? 

Sigurður Þórðarson, 16.8.2008 kl. 14:56

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sigurður: Ólafur hefði sjálfsagt verið hakkaður í spað, sem hann var reyndar gerður fyrir kaupin á húsunum á Laugarvegi.

Ómar: þetta er sorglegt - nú eru held ég 4 manneskjur á borgarstjóralaunum.

Guðrún Jóna: Takk. Ég er sammála þér að þetta fólk hefur ekkert að gera í pólitík, en grunar að þessi skoðun mín skipti engu máli, þar sem að lögmálið 'hinn frekasti vinnur' virðist vera það sem duga skal í íslenskri pólitík í dag, því miður.

Hrannar Baldursson, 16.8.2008 kl. 16:23

11 Smámynd: Birna Guðmundsdóttir

Frábær grein- enda aldrei neinn alsaklaus í pólitík! Hver er aðal plottarinn í borginni við sundin blá er enn stór spurning. En mitt mat er að Ólafur hafi verið hengdur af borgarbúum án dóms og laga- einelti -já sennileg bara réttasta orðið yfir meðferðina á honum.  Stundum hættir okkur til að hengja bakara fyrir smið!  

Birna Guðmundsdóttir, 16.8.2008 kl. 16:35

12 Smámynd: Bumba

Það þarf tvo til að dansa tango hr. Don. Annars innilegar þakkir fyrir frábæran pistil. Með beztu kveðju.

Bumba, 16.8.2008 kl. 22:12

13 identicon

Ég held að þetta sé nú ekki svona úthugsað.  Í politík gerast hlutinir oft ansi hratt og fólk bara spilar með einhverju sem fer í gang.  Varðandi slitin á samstarfi við Ólaf F þá held ég að það snúist að miklu leiti að það er komin annar foringi hjá XD.  Þessi meirihluti var uppskrift Villa og Kjartans skilst mér.  Hanna og rest voru ekki par sátt við þann gjörning hjá Villa.  Samstafið (sem Hanna ofl voru ósátt við frá upphafi) gekk illa, jafnvel verr en menn höfðu spáð fyrir um.  Flokkurinn í frjálsu falli fylgislega séð.  Villi farin frá og því gat Hanna slátrað samstarfi sem hún var aldrei sátt við.  Þetta var ekki gert til að komast við völd aðeins fyrr held ég.  Þetta er bara tilraun til að opna fallhlið í frjálsa fallinu.  Það er semsagt verið að klóra í bakkann og bjarga því sem bjarga verður.  Held að þetta snúist ekki um valdargræðgi i þessu tilfelli.

Ég er alveg á því að þessi tvö ár hafa verið niðurlægingarskeið fyrir borgina og jafnvel bara politík í heild sinni og þar er engin borgarfulltrúi undanskilin.  Hins vegar er ég nokk viss að flestir borgarfulltrúar XD (og sjálfsagt hinna fokkana líka) hafa brennandi áhuga á borgarmálum og eru þarna fyrst og fremst til þess að gera borgina okkar betri.  Þau hafa mikla sannfæringu fyrir því hvað sé best fyrir borgina og sækjast því í völd en ekki valdana vegna.  Stundum snúast bara hlutirnir í höndunum á fólki.

Mér finnst umræðan um politíkusa oft svoldið kjánaleg.  Þegar er verið að tuða um að fólk sé bara í þessu vegna valdagræðgi peninga osfv osfv.  Ég er bara alveg viss um að svo sé bara alls ekki í flestum tilfellum.  Ég held að fólk fari í politík til að láta gott af sér leiða.  Það er nefnilega þannig í dag að mestu völdin eru ekki endilega politíkinni (sjáið t.d. stjórnarandstöðu og almennan þingmann vs fjármálageirann).  Einnig er það þannig að stór hluti þingmanna og jafnvel borgarfulltrúa gæti verið á betri launum ef þeir myndu vinna við það sem þeir væru menntaðir til.

Kannski er ég naive og trúi bara á það góða í fólki.  En hvað um það þetta er mín sannfæring

Hafrún (IP-tala skráð) 16.8.2008 kl. 23:29

14 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Besti leikurinn segir þú ??????

Ég get ekki annað en verið innilega ósammála þér 

Ég fæi ekki betur séð en að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hrunið í fylgi við þessi afleiddu útspil sín og trú á þessum valdaflokk hafi minkað til muna. Ég segi miklu frekar að þetta hafi verið hruna afleikja og klúðurs. Þeir leggjast svo lágt að þeir gangast við nánast öllu sam samstarfsflokkurinn fer á. Eini rökrétti leikurinn sem ég sé að íhaldið hafi gert var að ráða Hönnu Birnu sem oddvitta sinn því hún er snöggt um skárri Villhjálmur.

Ég óska borgarstjórnarmeiri hlutanum alls hins versta því hann á ekkert gott skilið með svona ömurlegri taflmennsku.  Það er allt í lagi að vera klókur í politík en SVIKULL og óheiðanlegur er annað mál.  

Brynjar Jóhannsson, 17.8.2008 kl. 09:29

15 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir Bumba og Birna.

Hafrún: Ég var einmitt að lýsa skák sem er frekar illa tefld vegna vanþekkingar, og hefur það lítið með heilindi að gera. Ljóst er að teflt hefur verið afar illa í borginni upp á síðkastið. Spurning hver raunveruleg rót vandans er samt.

Auðvitað vilja allir sem taka þátt í leiknum spila rétt og vel, og hafa einlægan áhuga á því. Þetta lítur bara svolítið kjánalega út þegar hver afleikurinn er leikinn á fætur öðrum og heilbrigð skynsemi verður algjörlega útundan af því að hún passar ekki inn í kerfið.

Brynjar:  Ég sagði að þeir væru ekki nógu góðir til að finna besta leikinn.

Hrannar Baldursson, 17.8.2008 kl. 10:15

16 Smámynd: Einar Jón

Þegar síðasti meirihluti féll var Vilhjálmur hálfnaður með 6 mánaða biðlaunatímabilið sitt, en Dagur fékk bara 3. Samkvæmt mínum útreikningum hefur Ólafur því verið einn á borgarstjóralaunum í allt sumar. Ég veit ekki hversu marga mánuði Ólafur fær, en sennilega eru þeir 6.

Annars þyrfti að klára Guðjón Ólafur -> Óskar leiðréttinguna í Endataflinu því Óskar Bergsson er ekki sami maður og kom Birni Inga frá...

Einar Jón, 17.8.2008 kl. 11:12

17 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Nokkuð góð skákskýring hjá þér Hrannar. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að aðalhönnuðir upphaflegu fléttunnar hafi ekki verið opinberlega í pólitík. Þeir voru að spila fjárhættuspil og voru orðnir uppiskroppa með lausafé. Þeir útbjuggu því leikfléttu til að ná taki á tækniþekkingu Orkuveitunnar og verðmætum þeirrar þekkingar næstu 20 árin, til tryggingar fyrir auknu lausafé.

Þetta vissu þeir að yrði ekki samþykkt ef það væri gert fyrir opnum tjöldum. Þess vegna var farin hraðferð í gegnum áhrifaöfl í Sjálfstæðisflokknum, aðilar sem sjaldan eru nefndir en eru samt hátt skrifaðir í Flokknum og í venfengi við VHV.

Allt virtist ætla að ganga upp þegar athugulir aðilar kveiktu á Svandísi til að gagnrýna plottið. Þá varð allt vitlaust, og hefur verið það síðan. 

Guðbjörn Jónsson, 17.8.2008 kl. 11:22

18 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir ábendinguna Einar.

Guðbjörn: Þetta hljómar sennilega.

Hrannar Baldursson, 17.8.2008 kl. 11:36

19 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Af hverju ætti Gísli Marteinn að koma sterkur til leiks frá Edinborg? Ég hef séð fleiri slá þessu fram en ég skil ekki hvernig maður græðir á því í augum samborgara sinna að yfirgefa félagana þegar illa stendur á.

Aðrir eru svo að velta fyrir sér hver borgi farið hans og hvort hann geti ekki notað fjarskiptatækni eins og síma og tölvupóst til að vera með í bollaleggingum.

Berglind Steinsdóttir, 17.8.2008 kl. 12:51

20 Smámynd: Hrannar Baldursson

Berglind: Hann vill greinilega þvo hendur sínar af þessum málum með því að forða sér, og það virðist vera að virka.

Hrannar Baldursson, 17.8.2008 kl. 12:59

21 Smámynd: Mama G

Ég held bara, því miður eða sem betur fer fyrir þetta fólk, að þá er búið að hræra svo mikið í þessu borgardæmi á þessu tímabili að ég er löngu hætt að fylgjast með því sem er að gerast eða hafa nokkra einustu yfirsýn yfir það hver sveik hvern og í hvaða röð 

En þetta viljum við. Þetta er lýðræðið sem við höldum að sé það besta stjórnarform sem fyrirfinnist í öllum heiminum. Alveg í hnotskurn. Stundum hef ég mínar efasemdir á því að þetta sé besta fyrirkomulagið sem við gætum mögulega haft

Og eitt í lokin. Ég mun aldrei trúa því að allar þessar hræringar hafi verið plottaðar fyrirfram. Ég mun aldrei gefa nokkrum manni það credit að hafa verið búinn að sjá þetta allt saman fyrir og verið að notfæra sér fólk fram og til baka. Mesta lagi einn, tvo leiki fram í tímann, en ekki allt þetta helvíti. No way!

Mama G, 17.8.2008 kl. 13:52

22 Smámynd: Hrannar Baldursson

Mama G. - Geturðu nefnt eitt stjórnarform sem er betra en lýðræðið?

Hrannar Baldursson, 17.8.2008 kl. 13:57

23 Smámynd: Steingrímur Helgason

Þessi skákskýríng slefar alveg 2200 Elo stig á mínum kvarða.

Steingrímur Helgason, 17.8.2008 kl. 23:01

24 Smámynd: Halla Rut

Mjög góður og skemmtilega framsettur pistill.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi alls ekki verið plottað fyrirfram. Þau klóra bara í bakkann. Hver einasta ákvörðun er röng. Bráð valdagræðgin er of sterk til að þau hugsi rökrétt.

Gera Reykjavíkurbúar sér grein fyrir því að á meðan Vilhjálmur lá undir ávítum um að hafa dregið hungraða bankamenn heim til sín og ætlað að selja þeim auðlyndir okkar, þá tók hann annan auðmann heim til sín og keypti af honum fúaspýtur fyrir 580 milljónir. Hann gerir þá samninga sem ekki þola dagsljósið, heima hjá sér.

Hugsið ykkur innrætið og spillinguna. Ofríkið og mikilmennskubrjálæðið mun ganga að öllu þessu fólki dauðu, í pólitík, ef fólk hér í borg fer að hugsa. Þ.e.a.s. þessi 27% sem enn eru til í að gefa Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík atkvæði sitt.

Halla Rut , 17.8.2008 kl. 23:43

25 identicon

Það var afar áhugavert að heyra Illuga Gunnarsson lýsa því yfir í fréttaskýringaþætti um daginn að nýr meirihluti hafi verið myndaður með hag og hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi... Þau orð lýsa vel tengslum stjórnmálamanna og þjóðarinnar almennt þessa dagana.

Þetta er hin besta skákskýring, hins vegar verst hvað keppendur kunna mannganginn illa. Þessi flétta er búin að vera ljós nokkuð lengi eða allt frá því að BIngi varð uppvís að stórtækum fatakaupum á kostnað saklausra Framsóknarmanna. Úr varð einn svakalegasti farsi sem sést hefur í íslenskri pólitík en mikilvægasti hlekkurinn í að koma Framsóknarflokknum aftur til valda í borginni. Þetta er það sem gerðist: Eftir að BIngi sveik meirihlutasamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn var alveg ljóst að með hann í forustu var útilokað að XB og XD myndu ná að starfa saman aftur í borginni. BIngi gat aftur á móti setið ´rólegur meðan hann sat í Tjarnarkvartettnum með hinum flokkunum. Þegar það samstarf sprakk var hins vegar ljóst að Framsókn átti ekki möguleika á völdum í borginni með BInga í fararbroddi þar sem Flistinn gæti ekki farið aftur í meirihlutasamstarf með flokkunum sem hann var ný búinn að svíkja. Fyrir vikið var valdatafl XB úr sögunni í bili þar sem nú áttu þeir eingöngu möguleika á að mynda meirihluta með XD aftur. Nema BIngi myndi víkja! Og hvernig var hægt að koma BInga frá, manni sem var nýkominn í borgarstjórn, búinn að bjarga andliti Framsóknar í borginni og lýsa eindregnum vilja til að starfa að borgarmálum meðan hann nyti stuðnings? Jú það þurfti "hneykslismál" til að geta skipt um mann í brúnni. Það þurfti að sannfæra eiginn flokksmenn. Útá við gat BIngi ekki hætt í stjórnmálum um leið og hann var kominn í minnihluta. Tímasetningin í Stóra fatakaupamálinu er heldur engin tilviljun, gerist rétt í kjölfar nýs meirihluta F og XD. Leiksýning var sett á svið, ótrúverðug og hreinlega bjánaleg, það þarf ekki að fara yfir það hér. En Óskar tók við og hægt og bítandi fer hann að taka upp mál sem freistuðu allra XD manna; virkjanamál. Með því að fara hamra á byggingu Bitruvirkjunar fór Óskar að mynda þannig tengsl við XD að það var nánast óhugsandi að XD hefði haldið út kjörtímabilið með Ólafi sem hafði NOTABENE lýst yfir sigri hrósandi að ekkert yrði af virkjuninni, þrátt fyrir að vera einn í samstarfi með sjö öðrum fulltrúum sem allir vildu sjá Bitruvirkjun rísa! Það eina sem Óskar þurfti því að gera var að taka upp kjötstykkið og veifa því fyrir framan hundinn. Þessi flétta er alveg þekkt í pólitíkinni; að andstæðingar lokki hvorn annan á eiginn bragði, dragi þá á asnaeyrunum með áherslu á þeirra eigin mál.

Þetta er því ferli sem er búið að taka nokkra mánuði en að halda því fram að þetta hafi aðeins gerst á örfáum dögum er fásinna. Pólitíkin virkar ekki þannig. Besta nýlega dæmið um það eru lygar þeirra Davíðs og Halldórs um hvenær stuðningi var lýst yfir við Íraksstríðið eins og Valur Ingimundarson benti á. Það sem vekur hins vegar óhug er að ráðamönnum virðist ætla að takast að þagga það mál í hel!

Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 01:54

26 Smámynd: Mama G

Hæ aftur. Nei, í rauninni dettur mér ekkert í hug, aðallega vegna þess að ég hef aldrei sett mig inn í það hvaða önnur stjórnarform eru í boði  En þetta lýðræði virkar bara svo uneffective þegar svona staða kemur upp. Veistu hvað það eru mörg verkefni sem eru búin að tefjast af því að nýtt fólk þarf að setja sig inn í þau!?

Ég myndi leggja til að kjósa einræðisherra til 2 ára í senn. Hann mætti samt bara vinna í málefnum sem hefðu hlotið meira en 50% framkvæmda atkvæði í sömu kostningum. Semsagt: Kjósa fyrst og fremst um verkefnin og svo finna einhvern til að stýra þeim til næstu 2 ára... eða 4 ára, dunnó.

Mama G, 18.8.2008 kl. 10:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband