Ljót saga - Varúð: ekki fyrir viðkvæma
8.8.2008 | 13:48
Ég ætla að segja ykkur sögu sem hafði mikil áhrif á mig þegar ég bjó í Mexíkó. Hún fékk mig til að endurhugsa tilgang lífsins og hvernig maður ver ævi sinni. Þetta gerðist í raun og veru fyrir um öld síðan, og þessi saga hefur verið sögð reglulega, ekki til að vekja upp óhug hjá fólki, heldur til þess að minna á hvaða afleiðingar vanþekking og slök hugsun getur haft á líf fólks og hvetja fólk til að halda áfram að vekja aðra til umhugsunar um það sem betur má fara í heiminum.
Ástæða mín fyrir að segja þessa sögu er að minna okkur á að hversu erfitt sem ástandið getur verið og hversu hræðilegir hlutir gerast, þá er hægt að koma í veg fyrir að þeir gerist aftur með því að bæta aðstæður: til þess eru menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Ef við upplifum eitthvað hræðilegt gerast, getur það þýtt verið köllun á okkur um að breyta aðstæðum þannig að sams konar hlutir geti ekki gerst aftur?
Sagan:
Dag nokkurn heimsótti prestur þorp sem stóð við læk. Við árbakkann kom hann að svínum sem voru að háma í sig barn. Hann reyndi að bjarga barninu, en var of seinn. Hann var svo snortinn af þessum atburði að allt hans líf frá þessari stundu var helgað því að koma í veg fyrir að svona lagað gerðist aftur.
Barátta hans hefur skilað miklum árangri, því að hann stofnaði skóla til að fræða fátækt fólk, og til að koma í veg fyrir að vanþekking og skortur á umönnum valdi börnum skaða. Í dag fá þúsundir barna fræðslu frá skólakerfinu sem þessi prestur stofnaði. Fyrir stofnun þessarar stofnunar og þau jákvæðu áhrif sem hún hefur haft á líf fólks var viðkomandi einstaklingur tekinn í dýrlingatölu hjá kaþólsku kirkjunni.
Hver var þessi maður?
Ég hef leitað að upplýsingum á Netinu um sögu og nafn þessa prests, en hef ekkert fundið enn. Hins vegar man ég þetta vel þar sem ég fékk að sjá málverk af atburðinum á meðan kaþólskur prestur sagði mér söguna. Hann sat á námskeiði hjá mér um heimspeki og gagnrýna hugsun, og spurði mig hvernig gagnrýnin hugsun svaraði vandamáli eins og þessu.
Við áttum frjóar og áhugaverðar samræður um þessi mál, sem snerust að mestu um tilgangsleysi gagnrýnnar og skapandi hugsunar þegar vantar djúp gildi til að halda utan um þær upplýsingar sem til umræðu eru.
Ef einhver þekkir þessa sögu og getur sent mér upplýsingar um hvað presturinn hét sem stofnaði skólann, væri það vel þegið.
Sagan endurtekur sig
Þetta er því miður ekkert einsdæmi í veröldinni. Nýjasta fréttin sem ég þekki af svínum að éta nýfædd börn er frá 20. maí 2007 í Nígeríu. Þetta er vissulega óhugnanlegt, en hljótum við ekki að spyrja, fyrst þetta er ennþá að gerast núna á 21. öldinni, hvort að ekki sé hægt að koma í veg fyrir að svona hlutir gerist í heiminum?
Mynd af svíni: LivingPictures.org
Athugasemdir
Þetta var viðurstigð að lesa
Ómar Ingi, 8.8.2008 kl. 14:50
Er þetta virkilega sannleikur? Hræðilegt..
Gulli litli, 8.8.2008 kl. 14:54
Já félagar, þetta er ljótt og þetta er satt.
Hrannar Baldursson, 8.8.2008 kl. 15:00
Ég varð að lesa þetta því maður á ekki að hlífa sér í svona málum. Þetta er svo skelfilegt að það er ekki hægt að hugsa það til enda.
Ásdís Sigurðardóttir, 8.8.2008 kl. 16:11
... þetta er svakalegt... eins gott að maður veit ekki allt það ljóta sem gerist í heiminum... eða hvað?
Brattur, 8.8.2008 kl. 16:20
mig minnir að það hafi komið íslenskur starfsmaður þessa skóla hingað til lands fyrir nokkrum mánuðum.
Talaðu við frétastofurnar. Hann var tai kwon do kennari. Ég er eiginlega viss um að það er sami skólinn.
bestu kveðjur félagi
sandkassi (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 16:25
Ásdís: það er einmitt málið - maður getur ekki hugsað þetta til enda án þess að vera knúinn til að gera eitthvað í málinu.
Brattur: Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir hvað vanþekking getur gert mikinn skaða, og hún lýsir sér einmitt í svona slysum. Og svo eru það öll nýfæddu börnin sem finnast daglega í ruslagámum víða um heim. Ég skil ekki af hverju maður heyrir ekkert af þeim í fréttum.
Gunnar Waage: Tai Kwon Do er mjög vinsæl íþróttagrein í Mexíkó, þannig að þetta getur alveg staðist.
Hrannar Baldursson, 8.8.2008 kl. 18:11
þetta er möguleiki
http://www.nphdojang.com/
sandkassi (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 00:15
Gunnar: þetta er sérstakur Tai Kwon Do skóli, hinn skólinn er almennari. Þú getur séð kynningu frá honum hér fyrir neðan:
Hrannar Baldursson, 9.8.2008 kl. 00:47
Eða ofan...
Hrannar Baldursson, 9.8.2008 kl. 00:48
já, þetta er aðdáunarvert. Maður rakst á margt fallegt í Mexíkó.
sandkassi (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 02:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.