Hefur þú nokkurn tíma pælt í fyrir alvöru hvað bloggvinátta þýðir?
7.8.2008 | 19:07
Í vor töluðu nokkrir bloggarar um að taka til í bloggvinahópum sínum, sem þýddi að einhverjum óvirkum bloggvinum var eytt, reikna ég með. Mér fannst þetta svolítið einkennilegt athæfi, hugsanlega vegna þess að ekki eru til neinar fast mótaðar siðferðisreglur um hvernig maður umgengst bloggvini, en ég geri slíkt ekki af því að mér þætti það dónaskapur af mér sjálfum að hafna einhverjum sem ég hef áður samþykkt. Samt myndi ég ekki túlka það sem dónaskap ef einhver annar tæki mig af sínum bloggvinalista, því að þar væru hugsanlega aðrar umgengnisreglur í gildi.
Ég tel það ekki góða reglu að dæma fólk út frá mínum eigin skoðunum. Til að flækja þetta, þá gæti sumum einmitt þótt það góð regla að dæma aðra út frá sínum eigin reglum. Mér finnst skemmtilegra að leyfa sem flestum að vera með og forðast það að skilja nokkurn útundan. Kannski þetta sé bara kennaraeðlið.
Mínar persónulegu reglur eru frekar einfaldar:
Bjóði einhver mér bloggvináttu, samþykki ég hana skilyrðislaust, og skoða að sjálfsögðu blogg viðkomandi. Ég hef aldrei hafnað beiðni um bloggvináttu né eytt bloggvini og kem ekki til með að gera það, nema viðkomandi fari út fyrir mín velsæmismörk eða brjóti lög.
Ástæðan held ég að sé ósköp einföld. Ég lít ekki á bloggvini til að nota þá á einn eða annan hátt. Ég lít á það sem virðingarvott að einhver sé tilbúin(n) að tengjast mér sem bloggvinur, og ég er tilbúinn að sýna viðkomandi sömu virðingu. Hvort ég lesi svo bloggfærslur bloggvinar míns hann mínar er algjört aukaatriði. Bloggvináttu fylgir engin þvingun til að lesa greinar.
Þegar ég samþykki bloggvin, er ég að samþykkja að viðkomandi geti haft samband við mig í gegnum blogg eða tölvupóst þegar hann eða hún vill, og ég reikna með að ég geti gert það sama. Til dæmis gæti mér dottið í hug að fara í framboð og sent þá öllum mínum bloggvinum beiðni um að skrá sig á framboðslistann minn. Ekki það að ég sé með framboð í huga, en mér þætti alls ekki úr vegi að senda slík skilaboð ef þannig staða kæmi upp.
Síðan má líka reikna með að ný tækni muni koma fram sem mun auka enn frekar á samskipti milli bloggvina, svona svipað og Facebook notar í dag, þar sem að vinir geta myndað hópa kringum áhugamál eða hagsmunamál.
Það kostar mig ekkert að bæta við bloggvinum og þeir taka ekkert pláss. Það fer ekkert fyrir þeim, nema við séum dugleg að skiptast á skoðunum, og það er bara gaman. Einnig raða ég bloggvinum í stafrófsröð, einfaldlega vegna þess að ég vil ekki gera upp á milli þeirra, þó svo að ég hafi meiri samskipti við suma en aðra.
Ef þú lítur öðrum augum á bloggvináttu eða eins, skráðu þá endilega stutta athugasemd ef þú nennir.
Til gamans langar mig að þýða nokkrar tilvitnanir um vináttuna, sem mér finnst eiga ágætlega við um bloggvináttu, og koma með nokkrar íslenskar líka:
Það er sönn vinátta þegar þögn milli tveggja einstaklinga er þægileg. (Dave Tyson Gentry)
Það er auðveldara að eiga týndan en fundinn vin. (Málsháttur)
Leiðin að heimili vinar þíns er aldrei löng. (Málsháttur)
Í góðu veðri - fullt af vinum - í vondu veðri hverfa þeir. (Nafnlaus náungi)
Maður deyr jafnoft og maður tapar vini. (Nafnlaus náungi)
Vinur minn er sá sem tekur mér eins og ég er. (Henry David Thoreau)
Vinur er sá sem hrósar okkur með því að búast við því besta af okkur, og sá sem kann að meta það í okkur. (Henry David Thoreau)
Okkur þykir svo vænt um hvert annað vegna þess að veikleikar okkar eru þeir sömu. (Jonathan Swift)
Vinátta er jafna. (Pýþagóras)
Megi Guð forða mér frá vinum sem þora aldrei að gagnrýna mig. (Thomas Merton)
Aldrei gera eitthvað rangt til þess eins að eignast vin eða viðhalda vináttu. (Robert E. Lee)
Vinur sem heldur í hönd þína og segir einhverja vitleysu er mun meira virði en sá sem er ekki nærri." (Barbara Kingsover)
Vinur er sá sem þekkir þig og líkar samt vel við þig. (Elbert Hubbard)
Vertu þinn eigin vinur, og aðrir munu fylgja í kjölfarið. (Thomas Fuller)
Eina leiðin til að eiga vin er með því að vera vinur. (Ralph Waldo Emerson)
Gamli góði vinur, glaðir gengum við oft forðum
en við gátum líka skipst á grát og grimmdarorðum. (Magnús Eiríksson)
Ósnotur maður
hyggur sér alla vera
viðhlæjendur vini. (Hávamál)
Vin sínum
skal maður vinur vera
og gjalda gjöf við gjöf. (Hávamál)
Vin sínum
skal maður vinur vera,
þeim og þess vin.
En óvinar síns
skyli engi maður
vinar vinur vera. (Hávamál)
Veistu ef þú vin átt,
þann er þú vel trúir,
og vilt þú af honum gott geta,
geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta,
fara að finna oft. (Hávamál)
Svo er auður
sem augabragð:
hann er valtastur vina. (Hávamál)
Myndir:
Api og tígrisdýr: retrogismo.com
Sam og Frodo: Warofthering.net
Fílar í góðum fýling: National Geographic News
Athugasemdir
Athygliverd og notaleg lesning..
Gulli litli, 7.8.2008 kl. 19:21
Sæll Hrannar, mikið er ég sammála þessari færslu þinni. Vináttan er dýrmæt og verður ekki metin til fjárs. Ég þekki ekki persónulega nema örfáa bloggvini mína, en þykir vænt um þá alla. Ég fann fyrir þakklæti og hlýju til þeirra þegar ég kom heim úr fríi og fékk velkomin heim kommentin frá þessum elskum. Kveðja til þín.
Erna, 7.8.2008 kl. 19:39
Veistu.. það er hellingur til í þessu hjá þér.
Ég er hér með hætt að henda út bloggvinum.
Guðrún B. (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 19:48
Að venju góð færsla Don
Ómar Ingi, 7.8.2008 kl. 19:50
Sæll Hrannar minn. Við vorum einmitt aðeins búin að ræða þetta og ég verð að viðurkenna að mér líkar þín hugsun betur en mín svo ég hef ákveðið að breyta afstöðu minni til óvirkra blogga, aldrei að vita hvenær fólkið dettur inn næst. Mér finnst þetta góður pistill og þetta nýja kerfi sem okkur býðst, að senda án fyrirhafnar, skilaboð á allan hópinn er náttl. bara frábært. ÉG er sérstaklega hrifin af síðustu setningunni um vináttu, "auður" svo satt og rétt. Takk og kær kveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 7.8.2008 kl. 19:51
Frábær pistill hjá þér.
Hanna, 7.8.2008 kl. 20:18
Sammála þér með þetta. Ég neita aldrei um bloggvináttu. Hika stundum í fáeina daga. Nafnleysi og dulnefni há mér ekki. Fann fljótlega út hvernig á að bjóða öðrum bloggvináttu og notaði mér það einkum til að byrja með. Finnst samt ástæðulaust að hafa þá sem flesta.
Sæmundur Bjarnason, 7.8.2008 kl. 20:38
Bloggvinir mínir eru annað af tvennu, bloggarar sem ég hef gaman af að lesa og svo bloggarar sem nenna að lesa það sem ég skrifa.
Af þessari ástæðu samþykki ég þá sem vilja vera bloggvinir mínir og vona að þeir sem að ég bið um vináttu samþykki mig.
Enn sem komið er hef ég ekki fjarlægt neinn af listanum hjá mér (enda eru þeir ekkert rosalega margir)
Neddi, 7.8.2008 kl. 20:39
Lít þetta svipuðum augum og þú.
Best að sækja um hjá þér, þó ég lendi í neðsta sætinu, eins og ávalt þegar raðað er í stafrófsröð. Hef reyndar haft fordóma gagnvart stafrófsröðun frá því ég var barn í barnaskóla, en þá var ég auðvitað alltaf nefndur síðastur í öllum upptalningum.
Þröstur Unnar, 7.8.2008 kl. 20:39
Að venju hlýnar manni hið innra að lesa færslurnar þínar. Mig langar líka að hrósa þér fyrir afar smekklega valdar myndir með færslunum þínum.
Ég er hjartanlega sammála þér hvað varðar bloggvini. Ég lít á það sem sérstakt komment til mín ef einhverjir vilja gerast bloggvinir mínir. Ég legg frekar þann skilning í þá vináttu að þessir aðilar hafi áhuga á að vita af því sem ég skrifa, frekar en þeir séu að sækjast eftir að þeirra blogg sé lesið, enda setja einungis sumir bloggvinir athugasemdir við færslur. Ég kem því ekki til að fella út bloggvin, þó ekkert berist frá honum. Slíkt væri einungis mögulegt af sömu ástæðum og þú nefnir.
Ég á því láni að fagna að minn dýpsti og kærasti vinur lifir með mér alla daga. Þögn er frekar fátíð hjá okkur, því umræðuefnin eru svo mörg að samverustundirnar duga varla til að kryfja þau öll. Því til viðbótar er afar notalegt að fletta upp á bloggi eins og lesa má á þinni síðu.
Kærar þakkir og líði þér vel.
Guðbjörn Jónsson, 7.8.2008 kl. 20:59
Takk fyrir samþykkið.... Það er mér mikill heiður að fá að vera bloggvinkona þín.
Flott grein - að vanda.
Anna Þóra Jónsdóttir, 7.8.2008 kl. 21:07
Ég hef aldrei hafnað bloggvináttu og eða hent út bloggvini... eða ritskoðað athugasemdir eða bannað athugasemdir frá einhverjum.
DoctorE (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 21:14
Hrannar, allar þínar spurningar eru ómótstæðilegar:)
Mitt svar nú er: Ég hef sóst eftir bloggvináttu við flesta mína fáu en góðu bloggvini vegna þeirra fróðlegu og skemmtilegu bloggskrifa og það er alveg á hreinu að á Hávamála mælikvarða uppfylli ég ekki "að gjalda gjöf við gjöf". En svona er þetta oft í lífinu, einn gefur - annar þiggur.
Kolbrún Hilmars, 7.8.2008 kl. 21:31
Hæ, enginn smá fjöldi athugasemda. Maður rétt skreppur frá og kíkir á bíómynd og þegar komið er til baka er pósthólfið fullt. Gaman að því og kærar þakkir fyrir þátttökuna.
Þröstur: ef það væri hægt að setja bloggvini í öfuga stafrófsröð myndi ég gera það fyrir þig. Ég var sjálfur alltaf fyrir miðju þar til ég fór í nám í Bandaríkjunum, en þá var ég allt í einu kallaður Baldursson, og í Mexíkó kölluðu þeir mig frekar Baldursson en Hrannar. Skil ekkert af hverju.
Guðbjörn: Kærar þakkir fyrir hrósið, og ánægjulegt að vita til þess að góðir straumar fylgja þessum skrifum. You bring a smile to my face.
Kolbrún: Takk fyrir það, ég hef lengi haft mikinn áhuga á spurningum. Vissirðu að mamma Einsteins spurði hann eftir hvern einasta dag í skólanum: "Jæja, Albert minn, hvaða spurningar spurðirðu í dag?" Hann taldi þetta umfram nokkuð annað hafa gert hann greindari en meðalbarn.
Sigga: Þú ert komin í hópinn.
DoctorE: Ekki ég heldur, og mig grunar að þú sért jafnvel ennþá umburðarlyndari en ég. Leyfir öllu að flakka og fljóta, eða hvað?
Anna Þóra: Heiðurinn er minn. Og takk.
Neddi: Allt í góðu. Það góða við að setja sér reglur á blogginu er að maður ákveður hverjar þær eru. Þannig mótar maður einnig umhverfið að einhverju leyti.
Sæmundur: Erum við sammála um allt? Ég er farinn að halda það.
Hænan: Kærar þakkir.
Ásdís: Þetta er einmitt það sem var að brjótast um í hausnum á mér þegar við ræddum þetta um daginn. Mér tókst bara ekki að orða það almennilega fyrr en í dag.
Ómar: Takk.
Guðrún B.: Það er ekkert annað. Maður er bara farinn að hafa áhrif. Ég þarf að passa mig á að fyllast ekki mikilmennskubrjálæði, kaupa mér risastóra eyju og reyna að taka yfir heiminn (búinn að horfa svolítið á James Bond síðustu daga). Gaman að eignast trúsystur í bloggvinaspekinni.
Erna: Það er gott að hafa einhverja að, satt er það. Skemmtilegt að þú skulir vera með yfirstrump sem mynd, en ég fékk einmitt mynd af yfirstrumpi í afmælisgjöf um daginn, því dóttur minni finnst ég svo líkur honum. Jafnvel þegar ég er skegglaus.
Gulli litli: Takk fyrir það.
Þá er umræðan komin í gang um siðferðilega merkingu bloggvina.
Hrannar Baldursson, 7.8.2008 kl. 22:44
Aldrei hefur mér dottið í hug að henda bloggvini. Frekar en að henda vini yfirleitt.
Og ef einhver vill vera bloggvinur er hann eða hún velkomin í hópinn.
En raunverulega vini í mannheimi ekki bloggheimi, sortera ég í vini. og svo kunningja.
Vinur er sá, sem í raun reynist.
Og ég hef komist að því að þegar gefur á bátinn, þá hverfa oftast flestir, af þeim sem maður hélt vini sína.
Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 23:35
Alveg hreint frábær pistill hjá þér. Hef einmitt verið að hugsa um þetta. Á fullt af bloggvinum sjálf og svona 50/50 sem ég hef boðið og mér hefur verið boðið. Finnst einmit eins og Erna talar um gaman að sjá þá fylgjast með manni. Suma hef ég hitt og heimsótt tvær, eina í Hrútafirðinum á leið suður og aðra á Húsavík á Mærudögum. Virkilega gaman að hitta þær augliti til auglitis.
Hafðu það gott.
Anna Guðný , 8.8.2008 kl. 00:11
Skemmtilegt og djúpt blogg að vanda.
Gísli Tryggvason, 8.8.2008 kl. 00:24
Hurru mig. Ég þori nú varla að mæra þig meira, en fja... hafi það mér sýnist þú eiga það skilið.
Kemur hreint fram og virðist hafa nægt sjálfstraust til að kanna "skrif" bloggaranna án tillits til höfundarmyndar eða -nafns.
Þegar fer að kólna á kötlunum hjá þér og þú hættur að fatta, þá mun ég laumast, algerlega af tilviljun, og spyrja svona ósköp sakleysislega hvort þú viljir kannski vera "memm" En fyrst verðurðu að gleyma mér og/eða loka á aðgang minn "að þér"
Beturvitringur, 8.8.2008 kl. 00:29
Frábær pistill hjá þér, ég les yfirleitt það sem þú skrifar. Vegna þess að þú ert málefnalegur og skemmtilegur bloggari. Svo finnst mér heitið á blogginu þínu algjör snilld. Don Hrannar de Breiðholt
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.8.2008 kl. 01:34
Skemmtileg grein hjá þér!!
gudni.is, 8.8.2008 kl. 05:00
Já ég hef aldrei hent út bloggvini, mér þykir heiður af því að fólk vilji vera í slíku sambandi við mig. Ég er að mestu leyti sammála þér með lýsinguna á bloggvinum. Stundum hef ég samt áhyggjur af að geta ekki sinnt þeim nóg, eða komist yfir að lesa allt. En ég þarf líka alltaf að leita mér að áhyggjuefni.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.8.2008 kl. 09:20
Þetta með að komast ekki yfir að lesa allt leysi ég þann hátt að ég kíki inn til allra bloggvina minna en ef það sem þeir hafa skrifað er eitthvað sem að mér finnst ekki áhugavert þá sleppi ég því að lesa það.
Oft á tíðum kem ég síðan seinna að þessum færslum sem að mér fannst ekki áhugaverðar og kíki betur á þær og kemst jafnvel að því að þær voru bara hin prýðilegasta skemmtun.
Neddi, 8.8.2008 kl. 09:34
Þakka þér fyrir góð grein.
Heidi Strand, 8.8.2008 kl. 09:45
Sigrún Jóna: Það er fátt betra en að eiga vin í raun, nema þá kannski helst að vera vinur í raun.
Anna Guðný, Guðni og Gísli: Takk.
Beturvitrungur: Ég skil þig vel. Ekki man ég eftir að hafa verið hrósað svona gífurlega mikið áður, en þetta er góð tilfinning. Það er gott að hafa einhvern til að minna sig á þegar manni fer að förlast.
Jóna Kolbrún: Takk fyrir það. Reyndar er sagan á bakvið nafnið ósköp einföld og rökrétt. Hún fær þó að bíða betri tíma.
Ásthildur: Ef verstu áhyggjuefni manns er viðhald á bloggvinum, þá hlýtur lífið að vera í ansi góðu standi fyrir utan það.
Neddi: Já, þetta geri ég líka, en mjög handahófskennt.
Hrannar Baldursson, 8.8.2008 kl. 09:48
Heidi: Þakka þér fyrir að þakka mér.
Hrannar Baldursson, 8.8.2008 kl. 10:39
Hef engu við þetta að bæta hjá þér.
Kolbrún Baldursdóttir, 8.8.2008 kl. 11:05
Heidi Strand, 8.8.2008 kl. 11:31
Ég hef tvívegis framkvæmt góða bloggvinatiltekt. Ástæðan fyrir því að ég hreinsa út er þríþætt:
- Sumir hætta að blogga og loka bloggsíðunni sinni. Það er ómögulegt að láta þá taka áfram pláss á bloggvinalistanum. Ef smellt er á myndina af þeim kemur upp að viðkomandi síða sé ekki til.
- Sumir koma inn á bloggið, stimpla sig inn í bloggvináttu út og suður (til að láta vita af sér) en hreinsa síðan hressilega út í sínum bloggvinalista. Þetta á einkum við um stjórnmálamenn sem - þegar frá líður - hafa bara flokkssystkini og ættingja á bloggvinalista sínum. Það er engin ástæða til að hafa fólk á mínum bloggvinalista sem hefur mig ekki á sínum lista.
- Sumir aðrir koma inn á bloggið og stimpla sig inn í bloggvináttu þvers og kruss en ætla sér aldrei að hafa nein samskipti. Þetta á einkum við um hljómsveitir, leikhús og þess háttar fyrirbæri. Þau eru einungis að auglýsa sig. Ef ég hef ekki áhuga á að fylgjast með ferli viðkomandi sé ég ekki ástæðu til að hafa fyrirbærið inn á mínum bloggvinalista.
Þegar maður skoðar bloggvinalistann sinn með tiltekt í huga kemur á óvart hvað ástæða er til að hreinsa marga út. Í þessi tvö skipti sem ég hreinsaði til fuku um 30 út í hvort skipti. Eftir stóð sterkari og virkari bloggvinalisti.
Jens Guð, 8.8.2008 kl. 12:31
Ég hef hent tveimur út af lista. Veit ekkert hvernig ég fór að því. Þetta var á mínum fyrstu óstöðugu skrefum í bloggheimum. Kunni svo ekki við að fara fram á "bloggvináttu" á ný. Skil mjög vel þá sem taka til á listum. Sérstaklega þá sem eru með þvílíka runubunusúpu bloggvina.
Beturvitringur, 8.8.2008 kl. 16:56
Kolbrún:
Einar: Við virðumst vera ansi oft sammála þessa dagana.
Jens Guð: Þín rök eru góð og gild, þó að ég fari ekki eftir þeim.
Beturvitringu: Nærvera vinar sem gerir mistök er betri en fjarvera vinar sem gerir þau ekki.
Hrannar Baldursson, 8.8.2008 kl. 18:05
Heidi: reyndar vitum við ekki að stjörnurnar séu alltaf þarna, því að þær stjörnur sem við sjáum geta verið svo fjarlægar, og ljósið svo lengi að berast okkur, að þær geta verið löngu útbrunnar.
Hrannar Baldursson, 8.8.2008 kl. 18:07
Góð skilgreining hjá þér, hugsa þetta svipað.
Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 00:31
Einar: skiljanlega langaði þig í bíó.
Sáli: Það kemur mér skemmtilega á óvart hvað eru margir með mér á báti.
Hrannar Baldursson, 9.8.2008 kl. 00:50
Ekki bara með þér á báti, - ég velti ég því fyrir mér hvort ég geti ekki ættleitt þig!
Beturvitringur, 9.8.2008 kl. 01:31
Ég hef aldrei velt þessu mikið fyrir mér?....en hef verið svo heppin að hitta bæði Niels og Ásthilfi Cesil í sumarfríi mínu á Vestfjörðum! Þetta eru og voru bloggvinir, og ég hitti þá og veit núna að þetta eru raunverulegir vinir!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 10.8.2008 kl. 01:42
Ég er að gefa mér tíma til að lesa blogg eftir langt hlé. Þetta er góð grein hjá þér.
Anna, 10.8.2008 kl. 08:43
Beturvitringur: ég er ekki viss um að foreldrar mínir samþykki, en takk samt!
Anna B: Já, þessi samskipti á blogginu hafa líka skilað sér í áhugaverðum samræðum á mannamótum, í það minnsta fyrir mig.
Anna: Kærar þakkir.
Hrannar Baldursson, 10.8.2008 kl. 09:53
Ég var dulítið spældur þegar ég var þurrkaður út af tveim bloggvinum. Mig grunar þó að bloggvinátta við þriðja aðila hafi þarna spilað inní eða að ég hafi ekki verið nógu duglegur að commenta hjá þeim.
Þriðji möguleikinn var sá að bloggvinir mínir hafi þótt ég vera full ruddalegur. Vil endilega halda í þessa 18. sem ég hef nú þegar. Kíki alltaf reglulega á alla mína bloggvini, þótt ég sé ekki alltaf í stuði til að commenta.
Gunnar Freyr Rúnarsson, 15.8.2008 kl. 01:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.