Af hverju bloggar þú? (Og af hverju ég blogga)
7.8.2008 | 09:27
"Ég skil ekki hvað það er sem fær fólk til að blogga, gefa öllum aðgang að þeirra einkalífi, dýpstu skoðunum og þrám. Þetta er bara fólk haldið athyglissýki."
Þetta er skoðun sem ég heyrði út undan mér um daginn, og er hún neistinn sem kveikti í þessari grein.
Nú blogga ég mikið og er svona hæfilega athyglissjúkur. Ég fæ vissulega spark út úr því þegar ég finn að fólk hlustar á það sem ég hef að segja, og að það er farið að skipta einhverju máli í þjóðfélagslegri umræðu. En það er kannski ekki aðal atriðið. Bloggið einfaldlega passar við minn persónuleika eins og flís við rass.
Síðan ég var barn hef ég elskað að skrifa og á ennþá tugir af sögum og ljóðum ofan í skúffu, sem munu sjálfsagt aldrei birtast á prenti, en ég hef lengi fundið að minn eigin hugur er svo djúpur og víður, að ég get ekki annað en kannað hann betur, og besta leiðin sem ég kann til að skoða eigin huga er að skrifa það sem ég hugsa á meðan ég velti fyrir mér einhverju af þeim fyrirbærum sem á hugann rekur.
Ég var þannig unglingur að stundum vildi ég ekki vakna á morgnanna, en það var ekki vegna þess að ég var svo þreyttur og sljór, heldur vegna þess að draumarnir voru svo spennandi. Síðan uppgötvaði ég að þegar ég skrifa, þá kemst ég í ástand sem er frekar líkt því og þegar mig dreymir. Mér líður vel, ég verð spenntur, og ég læri. Í fjölmörg ár lenti allt það sem ég skrifaði ofan í skúffu, því að þó mér finnist gaman að skrifa datt mér aldrei í hug að einhver annar gæti haft áhuga á því.
En svo kemur Netið. Fyrsti spjallþráður sem ég tek þátt í er á íslenska skákhorninu. Einnig skráði ég mig á Rottentomatoes kvikmyndasíðuna og hef tekið þátt í samræðum þar frá 2001. Síðan birtist áströlsk síða á Netinu sem hét writtenbyme.com og þar skrifaði ég fjöldan allan af greinum, sögum og ljóðum; en því vinsælli sem skrefin urðu, því hærri upphæðir gastu fengið til verslunar á Amazon. Mér gekk nokkuð vel á þeirri síðu, sem var síðan lokað þegar eigendur urðu gjaldþrota.
Árið 2000 bjó ég í Mexíkó en tók þátt í uppbyggingu Vísindavefsins undir góðri ritstjórn Þorsteins Vilhjálmssonar, skrifaði eitthvað smotterí, las yfir allar greinar til að leiðrétta málfar og stafsetningu, tók þátt í ritstjórn og almennu utanumhaldi, og vann myndir. Því ævintýri lauk eftir að ég missti netsamband í heilan mánuð eftir fellibylinn Ísídór og þurfti að flytja búferlum til annarrar borgar í kjölfarið.
Og í dag er það Moggabloggið.
Ég er mjög hrifinn af kerfinu sem hefur verið sett upp. Athugasemdir mínar eru galopnar öllum og ég hef ekki fengið einn einasta spam-póst, sem segir nokkuð mikið um kerfið sem liggur á bakvið. Það er gaman að geta tengst bloggvinum, og sérstaklega núna þegar hægt er að senda þeim persónuleg skilaboð. Flestir sem hafa skrifað athugasemdir eru líka málefnalegir og áhugaverðir einstaklingar með vel mótaðar skoðanir, sem fá mig oft til að hugsa hlutina frá nýju sjónarhorni.
En til að svara spurningunni í fyrirsögninni: "Hvað er það sem fær fólk til að blogga?" þá er svar mitt einfalt. Ég elska að skrifa og rannsaka og því sem mér finnst vert að deila, deili ég, en annað fer ofan í skúffu.
En hvað um þig, af hverju bloggar þú?
Myndir:
Teikning af rithöfundi af News.com.au
Málfverkið Efnið sem draumar eru búnir til úr, eftir John Anster Fitzgerald af MedusaEyes.com
Fellibylurinn Ísídór af Parque Ecologico de Irapuato
Athugasemdir
Ég les þig oftast og hef gaman að.
Ég blogga af sömu ástæðu og þú, hef gaman að skrifa og bloggið býður upp á þann möguleika.
Takk fyrir mig.
Jenný Anna Baldursdóttir, 7.8.2008 kl. 10:32
Samskonar hugleiðingar urðu mér tilefni bloggfærslu í febrúar á þessu ári. Þar skrifaði ég:
(Fyrirgefðu ef þetta er plássfrekt svar en mér fannst það best til þess fallið að svara spurningunni þinni).
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 10:39
.allt jákvætt við blogg nema tímin...þess vegna er ég sama og hættur. Takk fyrir skemmtilega færslu..
Óskar Arnórsson, 7.8.2008 kl. 10:59
Ég er hættur að blogga , ég krassa í dag allavega kalla ég það.
Annars byrjaði ég að blogga útaf þunglyndi mínu og það hjálpaði mér mikið , getur skoðað fyrstu bloggin mín.
En nú er þetta bara krass ætli þetta sé ekki vani og svo er til fólk sem finnst gaman að lesa krassið mitt , kannski eru þau bara að stríða mér
Ómar Ingi, 7.8.2008 kl. 11:10
Ég byrjaði að blogga vegna þess að ég var ekki viss hvort ég eða íslenskir fjölmiðlar væru orðnir veruleikafirrtir. Mér fannst Ísland vera á leiðinni til andsk.. meðan fjölmiðlar kepptust við að segja hvað allt væri frábært. Þetta var í byrjun árs 2007. Fyrstu bloggin mín voru því eins konar "hello... is there anybody out there?" eins og segir í Pink Floyd lagi. Nú veit ég að ég á mér marga skoðanabræður á klakanum og mér líður betur í eigin skinni fyrir vikið.
Nú er Ísland farið þangað sem ég hélt það myndi fara, en í millitíðinni hef ég uppgötvað að mér finnst gaman að hafa skoðanir á hlutunum á almannafæri. Þetta gefur mér ákveðna valdatilfinningu, að ég sé að mjaka þjóðarskútunni í rétta átt.
Það er nóg af starfsfólki á fjölmiðlunum sem ættu ekki að kallast blaðamenn, sem taka gagnrýnislaust við fréttatilkynningum greiningadeilda bankanna og segja vísindafréttir svo illa að maður fær aumingjahroll. Framtíðin er mjög vísinda og tæknivædd og óskiljanlegt að enginn fjölmiðlamaður kunni eðlisfræði eða forritun. Bloggarar veita þarna nauðsynlegt mótspil á meðan fjölmiðlarnir eru ekki beysnari en raun ber vitni.
Kári Harðarson, 7.8.2008 kl. 11:18
Það er fátt eins lýðræðislegt eins og blogg...hér eru allir eins jafnir og þeir vilja vera og hafa getu og löngun til.
Það er líka gaman að blogga - þegar maður gefur sér tíma til þess ...en það er ekki síður gaman að skiptast á skoðunum á annarra manna bloggsíðum - jafnvel hjá fólki sem maður hefur aldrei hitt. Eftir smátíma finnst manni að maður hafi alltaf þekkt viðkomandi og hefur jafnvel bundist honum/henni huglægum vinarböndum. Flestir bloggarar sem ég heimsæki eru málefnalegir, vel máli farnir, hugmyndaríkir og með sterkar skoðanir. Þetta er því einfaldasta og besta leiðin til að krækja sér í víðsýni og fordómaleysi.
Anna Þóra Jónsdóttir, 7.8.2008 kl. 11:33
Þetta er örugglega sýniþörf....þá meina ég andleg sýniþörf..
Gulli litli, 7.8.2008 kl. 11:44
Góður pistill, takk fyrir að segja okkur frá þessu. Ég blogga vegna þess að ég er oft ein og jafnvel þá á stundum einmanna mundi einhver halda, en nei, ég er aldrei einmanna. Ég er typan sem hef farið áfram í lifi mínu á hornunum, enda hrútur. Gegnum súrt og sætt hef ég töffast áfram og komist á þann stað í lífu mínu að vera alsæl. ÉG er samt bundin við það að vera mikið heima, get ekki stundað vinnu heilsunnar vegna og ákvað því að reyna að láta gott af mér leiða á blogginu. Ég hef skoðanir á öllu en fer varlega fram og vil engan særa. Ég segi aldrei ósatt, kann það ekki og reyni að gefa af mér kærleik og vináttu. Mér finnst ég margfalt ríkari eftir að hafa eignast marga góða vini á blogginu og suma hef ég hitt og ekki enn orðið fyrir vonbrigðum, huglægt mat mitt á viðkomandi hefur alltaf staðið undir væntingum og gott betur. Ég hef margt fram að færa, gleði og kærleikur eru mér efst í huga. Reyni að deila góðri blöndu af öllum mínum tilfinninga graut. Á til að missa mig yfir einhverri pólutík, en aldrei mjög lengi í einu. Held ég hætti ég er farin að bulla, en takk fyrir að tilnefna mig hjá Kalla Tomm, ég viðurkenni að það kitlaði hégómagirndina í mér.
Ásdís Sigurðardóttir, 7.8.2008 kl. 11:48
Ég blogga af því að mig vantar "viðhald" Er farin að ryðga í íslenskunni! Sem er vont mál! Svo er ég ljóða-skúffuskáld sem er ekki komin út úr skápnum- og kem sennilega aldrei Svo er ég full af athyglissýki og sýniþörf- eins og svo margir. Hver vill vera gleymdur og geymdur út í horni, ótalandi á íslensku- ekki hún ég. Sný vörn í sókn og hlakka til að vera komin í hóp Moggabloggara
Birna Guðmundsdóttir, 7.8.2008 kl. 12:33
Ég er ekki ennþá búin að skilgreina það af hverju ég byrjaði að blogga en hef samt oft velt þessari spurningu fyrir mér. Sennilega byrjaði ég samt vegna tómarúmsins, sem myndaðist eftir að ég hætti afskiptum af félagsmálastússi.
Sigrún Jónsdóttir, 7.8.2008 kl. 13:18
Ég blogga, að vísu ekki hér á moggablogginu heldur á blogspot. Ástæðan fyrir því að ég blogga er sú að leyfa mitt "alter ego" að fá smá útrás.
H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 14:21
Ég blogga af ýmsum ástæðum, ein þeirra er sú sama og þú að ég hef einstaklega gaman af því að skrifa, og svo er ég ótrúlega athyglissjúk en samt sem áður sjúklega feimin... Ég veit ég veit meikar ekki sens... en ég er vog svo það meikar fullt sens! blogg gerir manni kleift að segja algjörlega það sem maður er að hugsa, án allrar innri-ritskoðunar...
En svo blogga ég líka til þess að koma frá mér hlutum sem eru að brjótast um bæði í hjarta og huga, það er rosalega gott. Ég er aldrei hreinskilnari eða meira ég, eins og þegar ég skirfa. Ég birti líklega ekki helmingin af þeim færslum sem ég skrifa, en ég birti samt ansi margt og hef líklega verið ansi persónuleg á stundum, og kannski óþægilegt fyrir einhverja að lesa, en það er ekki mitt mál. Ég skrifa fyrir sjálfa mig ekki aðra. Og kannski, en bara kannski er einhver eða jafnvel einhverjir þarna úti sem lesa mig og tengja við mig, eða hafa upplifað svipaða hluti og ég og þá er takmarkinu náð held ég. Því þá veit maður að maður er ekkert einn í heiminum, þó manni finnist það... stundum
Signý, 7.8.2008 kl. 14:57
Til að æfa mig í, að tjá mig skriflega á íslensku. Tjái mig meira á útlensku daglega. Ég verð að vera í formi, þegar ég byrja á bókinni.
kop, 7.8.2008 kl. 15:06
Ég er búin að bíða í aallaaan dag eftir að geta svarað þessu!
Mér þykir einstaklega gaman að skrifa, og þá sérstaklega um mig eða eitthvað tengt mér. Ég byrjaði að blogga á þessu vinsæla folk.is svæði sem er greinilega búið að fella niður. Var þá bara 10-11 ára og skrifaði einstaklega vitlaust og einstaklega tilgangslausar færslur.
Færði mig yfir á blog.central og varð þar feikna bloggari, talandi um ýmsa hluti og kvartandi yfir miklum heimsóknum en fáum kvittum. Fékk oft að heyra að ég væri skemmtilegur penni, svo ég færði mig yfir á Moggabloggið núna í fyrra og byrjaði að skrifa.
Ég sem er einstaklega athyglissjúk hef náð upp allri? þessari athygli sem ég hef í dag, og leyst í fyrstu voða lítið á blikuna og fór hjá mér. En svo varð ég skárri og opnari fyrir vikið - og tala um allt heila klabbið og skammast í hinum og þessum.
Það skemmtilegasta af þessu öllu saman er hvað fólk tekur vel á móti mér þótt ég sé svona ung!
Mínar aðalástæður hversvegna ég blogga; athyglissýki, endalaus munnræpa og hugsunarflug, fólkið sem maður kynnist og síðast en allra síst að opna augu fólks og sýna þeim að það búa líka hugmyndaríkt ungt fólk á landinu. Fólk þarf ekki alltaf að líta á neikvæðu hlutina við okkur unga fólkið!
Róslín A. Valdemarsdóttir, 7.8.2008 kl. 15:40
Lá ég sjúkur lengi vel
leiðar tíu vikur tel
það óyndis þrauta hel,
þvarr mér afl í sinum.
Eitt sinn reis ég upp við dogg
ern að lesa Mogga blogg
Ákvað þá að ybba gogg
ásamt ykkur hinum.
Síðan hef ég skrifað smá
svo til hverjum degi á
en hvergi mun ég heylsu fá
án hjalsins í bloggvinum.
Svanur Gísli Þorkelsson, 7.8.2008 kl. 15:49
Mér finnst bloggið vera eins konar þjóðarsál þar sem allt skoðanalitrófið endurspeglast. Sjálf hafði ég þagað í áratugi (að undanteknum eldhús- og samkvæmisumræðum) og fannst kominn tími til þess bíta á jaxlinn og taka þátt í umræðunni. Ég er á gamals aldri og reynslunni ríkari orðin býsna róttæk í skoðunum og læt ýmislegt flakka sem er náttúrulega hættuspil hér um slóðir Athyglissýkin er þó ekki á því stigi að ég opinberi einkamál mín og minna.
Ætli svarið við spurningunni sé því ekki einfaldlega: ég blogga til þess að tjá skoðanir mínar - þegar ég hef tíma og nenni því ...
Kolbrún Hilmars, 7.8.2008 kl. 15:51
Ég byrjaði á blogginu vegna þess að ég var oft að skrifa greinar í Moggann um eitt og annað sem ég hef skoðanir á. Það er yfirleitt löng bið eftir birtingu í prentútgáfunni og þolinmæði mín brast. Með blogginu get ég tjáð mig strax og birt vangavelturnar ferskar. Að vísu eru það miklu færri sem lesa bloggið en birtar greinar en það eru þó rúmlega 8000 fléttingar hjá mér frá því í maí. Og svo hef ég fengið viðbrögð og skipst á skoðunum við aðra bloggara. Þetta er allt mjög lýðræðislegt og opið - og ég kann að meta það.
Hjálmtýr V Heiðdal, 7.8.2008 kl. 16:41
Kærar þakkir fyrir athugasemdirnar. Ég hef lesið þær allar og haft ánægju af.
Ég sé að við erum öll á sama báti og með samhug rötum við örugglega í góða átt, þar sem engin ein átt er rétta áttin.
Ég er þakklátur fyrir að fá tækifæri til að deila mínum pælingum með ykkur og fyrir að heyra fleiri hliðar á málunum en ég hefði mögulega getað ímyndað mér sjálfur.
Hrannar Baldursson, 7.8.2008 kl. 17:03
Sá möguleika á að gera bloggsíðu sem vettvang fyrir myndlistar og menningarumræðu. En þar sem ég skrifa um myndlist í Moggann fannst mér ástæða til að hafa opnar dyr í mína átt fyrir athugasemdir og umræðu. Því það getur verið þreytandi að skrifa í blaðið og fá ekkert "feedback". Finnst ég þá vera á eintali.
Svo langaði mig til að nota bloggið fyrir menningarfréttir og upplýsingar um ýmisskonar viðburði.
En þetta er enn í þróun.
Ransu, 7.8.2008 kl. 23:28
Jack H. Daniels: Málið er einmitt þetta, að í stað þess að vera tala einhvers staðar í kerfinu, hefur einstaklingurinn fengið persónulega rödd sem heyrist í samfélaginu, með blogginu.
Ditta: Takk, gangi þér vel í blogginu. Það besta við bloggið er að maður getur alltaf verið að læra eitthvað nýtt, maður staðnar ekki nema maður ákveði að hlutirnir eigi að vera á einhvern einn ákveðinn hátt.
Jenný Anna: Takk fyrir það. Ég hef nú líka mjög gaman af þínum hreinskilnu pistlum, og svo er það þessi ást á skrifum. Bloggið er að uppfylla mannlega þörf sem er nátengd breyttum tímum í samfélaginu, hugsanlega tengdu meiri hraða, stressi og tækni?
Anna: Við erum sammála um skuggalega margt. Bloggið hefur einmitt hjálpað mér líka að ná sambandi við einstaklinga sem ég hafði ekki hitt í jafnvel áratugi.
Óskar: Rétt hjá þér. Það fer tími í þetta. En tíma vel varið ef maður getur stjórnað honum temmilega.
Ómar: Þú ert nú góður bloggari Ómar, en það birtist meira í þeim athugasemdum sem þú skrifar, en á bloggsíðunni þinni. Þú ert ómissandi, sama þó að þér finnst BR og TDK snilld. (Ég bara varð).
Kári: Frábært lag sem þú vísar í og stórkostleg plata. "We don't need no education... teacher... leave those kids alone..." Veistu hvað ég hlustaði oft á þetta í kennaranáminu og hvað þetta hjálpaði mér til að feta ótroðnar slóðir í kennslu með nemandann í fyrirrúmi? Ómetanlegt. Ég er annars sammála þér með að stundum skil ég engan veginn hvað fjölmiðlar eru að fara, keppast við að sýna okkur myndir af heiminum, sem sýna okkur samt ekki hvernig heimurinn er í raun og veru. Þar verður mér hugsað til hellislíkingar Platóns þar sem fólk kepptist um að vera klárast að greina skugga á vegg, án þess að þekkja nokkuð til ljóssins eða hlutarins sem varpaði skugganum. Ég ætlaði nú að gerast fjölmiðlamaður á sínum tíma, sótti meira að segja um í fjölmiðlafræði hjá HÍ, en var hafnað, og fór því til USA í mastersnám í staðinn, en á öðrum vígvelli sem var ekkert síður áhugaverður.
Anna Þóra: Ég tek undir með þér. Það sem mér finnst skipta mestu máli er að bloggaranum takist að finna sína eigin rödd, en ég held að fátt sé erfiðara þegar kemur að skrifum að átta sig á hver manns eigin rödd er, og hætta að þykjast vera þeir sem maður lítur mest upp til.
Gulli litli: Andleg sýniþörf. Þarna hitturðu hugsanlega naglann á höfuðið. Bloggið er andleg gæði, hugsanlega að taka við af öðrum andlegum gæðum. Nú er bloggfærsla að fæðast.
Ásdís: Mér fannst sjálfsagt að tilnefna þig. Þú hefur í gegnum tíðina verið mitt traustasta bakland. Á tímum þegar ég var ekki viss um að einhver væri virkilega að hlusta, poppaðirðu upp með eina af þínu dýrlegu athugasemdum. Á meðan sumir finna andleg gæði í blogginu, sýnist mér þu vera að útdeila og varðveita siðferðileg gæði.
Birna: Það upplifa sjálfsagt allir einhvern tíma það að finnast þeir vera gleymdir. Þetta hef ég upplifað, og sérstaklega sterkt þegar ég bjóð öll þessi ár í Mexíkó, fjarri gömlum og góðum vinum og ættingjum. Þegar ég kom heim aftur var eins og ég hefði ferðast í tímavél til framtíðar. Erfitt að útskýra fyrir þá sem ekki hafa upplifað þetta.
Sigrún: Bloggið virðist einmitt geta skilið meira eftir sig en félagsmálastúss og sjálfboðavinna. Þetta tómarúm finnst mér annars mjög merkilegt fyrirbæri.
H.T. Bjarnason: Minnir mig á það. Fyrsta reynslan mín af bloggi sem slíku er einmitt af blogspot. Ég var búinn að steingleyma þessu. Ég kíkti á blogspottið mitt og það er ennþá til: http://hrannarbaldursson.blogspot.com
Signý: Ég er líka mjög feiminn, en hef lært að sigrast á feimninni með því einfaldlega að gera hlutina, þó að mér finnist þeir stundum óþægilegir. Já, maður finnur einmitt sterkt á blogginu að maður er ekki einn í heiminum, þó svo að maður haldi kannski að maður sé með svolítið furðulegar skoðanir, eða þá tilfinningu fæ ég stundum á mannamótum þegar ég segi nákvæmlega það sem ég hugsa, en á blogginu kemur í ljós að það er til fólk sem deilir þessum pælingum.
Vörður Landamær: Ég er einmitt í vinnu þar sem öll mín skriflegu samskipti þurfa að vera á ensku, þannig að það getur verið hluti af þessu: að viðhalda íslenskunni, þessu tungumáli sem mér finnst vera dýrmætasti fjársjóður okkar. Ég er reyndar svo stoltur af íslenskunni að þegar ég tala á erlendu tungumáli, þá geri ég í því að leyfa íslenskum framburði að njóta sín, og reyni ekki einu sinni að læra framburð og falla inn í hópinn. Fólki víða um heim finnst einmitt gaman af íslenska framburðinum, hann er svo öðruvísi. Það má misskilja þetta þannig að maður sé að rembast við að vera öðruvísi, á meðan sannleikurinn er sá að ég hef alltaf haft áhuga á að vera ég sjálfur, en það getur verið erfitt því að engin formúla er til sem hjálpar manni að finna þetta sjálf.
Róslín: Ég hef unnið mikið með börnum og unglingum gegnum tíðina, en mitt sérsvið sem kennari er heimspeki fyrir unglinga, og hef ég upplifað slíkan fjársjóð í því unga fólki sem hefur setið hjá mér í tíma, að það fær engum orðum líst. Reyndar held ég að heimspekitímar hjá mér séu nokkuð líkir blogginu, eini munurinn er að það er verið að ræða ákveðnar spurningar saman augliti til auglits. Það er afar spennandi að upplifa það og taka þátt í slíku samræðusamfélagi. Nokkrir af bloggvinum mínum eru einmitt fyrrum nemendur mínir.
Svanur: Mér hafði ekki dottið í hug að bloggið væri heilsubætandi, en vissulega tel ég það gott fyrir betri andlega heilsu. Takk fyrir ljóðið.
Kolbrún: Mér finnst myndin af þér sérstaklega flott. Mér finnst einmitt mikilvægt, eins og þér, að gera greinarmun á því hvaða skoðanir eiga heima á blogginu og hvað á ennþá heima ofan í skúffu. Ég vil einmitt ekki skrifa um viðkvæm einkamál á blogginu, en skil reyndar fólk sem gerir það, en held að það sé ekki heilbrigt til lengri tíma ltiið. Það er sumt sem maður þarf að halda innan traustustu vina, og annað sem má fara lengra.
Hjálmtýr: Ég ber virðingu fyrir þér að hafa leitað í útgáfu með greinar þínar, en ég hef einmitt ekki verið duglegur við slíkt - og það sem hefur helst stoppað mig er að ég vissi ekki hvort að nokkur hefði áhuga á því sem ég hef að segja. En sú skoðun hefur verið að breytast núna í sumarfríinu, en ég hef varið ansi miklum tíma þess á blogginu, og sé ekki eftir mínútu.
Ransu: Þú kemur inn með faglegan vinkil á bloggið. Það er greinilega hægt að nýta í margt.
Takk enn og aftur fyrir innlitið öllsömul!
Hrannar Baldursson, 8.8.2008 kl. 10:38
Er það þá í grunnskóla sem þú kenndir heimsspeki, Hrannar?
Mikið langar mig til að fara í svoleiðis tíma, örugglega rosalega fræðandi, við unga fólkið leynum á okkur, svo mikið er víst.
Róslín A. Valdemarsdóttir, 8.8.2008 kl. 17:16
Róslín: Ég kenndi heimspeki við FB í nokkur ár áður en ég flutti utan, og hef líka haldið heimspekinámskeið í Salaskóla, hjá Námsflokkum Hafnarfjarðar, og rak einnig minn eigin skóla hér á landi um stund. Kennsla er ekki mitt aðalstarf í dag.
Hrannar Baldursson, 8.8.2008 kl. 18:01
..hvernig nenniru að svara hverjum og einum???
Óskar Arnórsson, 9.8.2008 kl. 00:01
Óskar: Ég er í fríi. Nenni því á meðan ég hef engum skyldum að gegna.
Hrannar Baldursson, 9.8.2008 kl. 00:44
Óskar Arnórsson, 9.8.2008 kl. 05:54
Ég held að margir búsettir erlendis (eins og ég) bloggi til að halda sambandi við fólkið heima, og fækka símtölum frá mömmum að leita að fréttum af barninu sínu.
Mér fannst alltaf tímasótun að blogga, en þú hefur sýnt að blogg getur haft tilgang.
Einar Jón, 10.8.2008 kl. 04:09
Óskar:
Einar Jón: Ég notaði Netið einmitt mikið þegar ég bjó fyrst í Bandaríkjunum og svo í Mexíkó til að halda samskiptum við vini og ættingja. Svo get ég bara ekki hætt. Ég elska þennan miðil!
Hrannar Baldursson, 10.8.2008 kl. 09:56
Þú ert algjör snilld Hrannar! hehe..
Óskar Arnórsson, 10.8.2008 kl. 10:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.