Gúrkublogg: Áðan rölti ég niður í Smáralind og fann þar biðraðir í þremur verslunum og þjónustulund í einni
5.8.2008 | 23:37
Þar sem að í kvöld gaf ég bíómiða einhverjum af þeim sem gera athugasemd við greinina Í dag ætla ég að þakka fyrir mig og gefa lesanda BÍÓMIÐA í tilefni 100.000 gestsins á bloggsíðuna ákvað ég fyrr í dag að rölta niður í Smáralind og kaupa mér tening. Sigurvegarinn í teningakastinu reyndist svo vera ofurbloggarinn Ómar Friðleifsson.
Þetta var svolítið merkileg ferð miðað við margt annað svona í gúrkutíð. Í fyrsta lagi losnaði ég algjörlega við stressið sem fylgir því að sitja við stýri og fékk smá hreyfingu út úr þessu, enda sit ég allan daginn við tölvuvinnu og síðan bloggskrif, lestur og kvikmyndagláp eftir vinnu. Það er ágætt að kíkja aðeins út undir beran himinn svona að minnsta kosti í sumarfríinu.
Fyrst lá leiðin í leikfangaverslunarkeðjuna Leikföng eru okkur og þar leitaði ég skamma stund að teningi, en kom þá auga á biðröð eftir afgreiðslu. Það voru tveir menn að afgreiða við kassa og um þrjúhundruð manns í röð (deilt með tíu), þannig að ég var fljótur út.
Ég kíkti inn í Turninn. Bara svona að gamni. Fór inn í lyftuna. Ýtti á 20. Hæðin lokuð. Ýtti svo á 19. Fór upp. Kíkti aðeins út og fór aftur inn áður en hurðin lokaðist. Fór niður og út. Spennandi.
Næst labbaði ég út í Hagkaup og á leikfangasvæðið. Þar fékk ég aðstoð hvorki meira né minna en tveggja leikfangasérfræðinga verslunarinnar. Þau gátu reyndar ekki selt mér einn tening, því að einungis var hægt að kaupa pakka með 12 teningum eða Yatzi pakka með 12 teningum. Ég keypti Yatzi pakkann og held ég bjóði konunni bara í Yatzi fyrir vikið.
Þá datt mér í hug að kaupa eitthvað í kvöldmatinn. Ég rölti út í Krónu, og valdi mér nokkra hluti án þess að taka mér kerru (það eru engar körfur í versluninni) af því að ég ætlaði að kaupa svo lítið, og langaði að hafa smá stjórn á mínum innri manni sem vill alltaf fylla upp í tómar kerrur.
Þegar ég kem að afgreiðslukössunum með tvær tveggja lítra kók og eitthvað annað í fanginu, eru bara tveir unglingar að afgreiða á þessum þrjúhundruð kössum risaverslunarinnar (deilt með tíu), og það voru örugglega fimmhundruð manns (deilt með tíu) sem biðu í röð eftir afgreiðslu. Ég glotti í kampinn og fór á sjálfsafgreiðslusvæðið, en þar var enginn. Þrír af fjórum sjálfsafgreiðslukössum voru lokaðir og sá fjórði náði ekki nettengingu. Ég spurði starfsmann sem var þarna á vappi hvað væri í gangi, og fékk þá að frétta að umsjónarmaður sjálfsafgreiðslukassana væri í mat (kl. 14:30) og á meðan væru þeir ekki í gangi.
Ég fór þá bara aftast í röð og beið með fangið fullt af drasli. Öldruð kona beið í röð fyrir framan mig og tuðaði eitthvað um að hún ætlaði aldrei aftur að versla í Krónunni og best væri í Bónus. Mér fannst þetta svolítið skondið tuð en beið bara þar til röðin kom að mér. Mig grunar að flestir starfsmenn liggi þunnir heima eftir Verslunarmannahelgi.
Síðan gekk ég yfir í Elko. Þetta er stærsta og ódýrasta raftækjaverslun landsins, sem þýðir að ef þú gengur inn í sambærilega verslun nánast hvar sem er erlendis, eru vörurnar ekki nema um helmingi ódýrari. Samt er Elko flott verslun. Þannig séð. Á rölti mínu um verslunina heyrði ég nokkuð sem ég hef ekki heyrt lengi. Ungur starfsmaður sagði vinnufélaga sínum að þeir ættu helst að fara á kassa, það væri svo mikil biðröð. Svar félaga hans kom mér ekkert sérlega á óvart, en það var eins og rigndi allt í einu yfir göfgi félaga hans, en samstarsfélaginn sagði einfaldlega: "So?" og við það var setið. Þeir stóðu þarna þrír í hóp strákarnir, en við kassana voru tveir starfsmenn og tvöhundruð manns (deilt með tíu) í biðröð. Ég þurfti að troða mér gegnum biðröðina til að komast út, þar sem ég keypti ekkert - var bara að skoða.
Á röltinu heim hugsaði ég svo með mér. Væri ekki sniðugt að blogga um þennan tíðindalitla göngutúr? Ég upplifði nefnilega hluti sem ég kannaðist ekki við, enda er ég alltaf að vinna við Sharepoint á þessum tíma dags, á meðan sumt fólk er að þjálfa sig í biðröð.
Athugasemdir
HAHAHAHA
Ég sem aldrei vinn neitt og svo vinn ég Bíómiða , nei hættu nú alveg , ég er nú fyrst og fremst voða montin að hafa unnið þetta en þar sem ég er nú með frítt í kvikmyndahús borgarinnar þá verð ég nú að biðja þig um að gefa einhverjum verðlaunin mín og njóta vel
Má ég mæla með að einstaklingurinn fari á DARK KNIGHT he he he
Takk Takk og koma svo hver ætli fái miðan frá mér ?
Ómar Ingi, 5.8.2008 kl. 23:55
Mér fannst þetta líka svolítið skondið. Er ekki eðlilegt að Kristbjörn sem lenti í 2. sæti fái miðann, sem þarf víst að vera á The Dark Knight samkvæmt Ómari? Eða á ég að draga aftur?
Hvað finnst fólki?
Hrannar Baldursson, 6.8.2008 kl. 00:01
Þakka þér Hrannar.
Biðraðir geta nú verið skemmtilegar, oft heyrir maður þar ýmislegt sniðugt, svo ég tali nú ekki um ef það eru fallegar konur í röðinni.
Bloggið þitt er nú með því minnst ruglaða sem ég hef rekist á.(þetta er mikið hól frá mínum fingrum).
Ég skora á þig, að halda áfram að skrifa um bölvaða verðtrygginguna. Hún er þjóðarböl og þó ég sé blessunarlega laus við hana, þá vorkenni ég fólki, að þurfa að búa við þetta ranglæti.
kop, 6.8.2008 kl. 00:03
Gaman að Ommi skildi vinna, hann sem fer svo sjaldan í bíó
Ásdís Sigurðardóttir, 6.8.2008 kl. 00:03
Ef Krsitbjörn ætlar á Dark Knight þá
Góða skemmtun og góða nótt
Ómar Ingi, 6.8.2008 kl. 00:10
Seigur Kristbjörn! Ekki allir sem afreka að verða nr. 2 í tilviljunarkenndu teningakasti. Einn miði til skiptanna og hann meikaði það samt.
Hvernig vær svo að birta topp 100 listann? Samt ekki fyrr en Kristbjörn er búinn að sjá batman.
jonni (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 04:45
Fyrst lá leiðin í leikfangaverslunarkeðjuna Leikföng eru okkur
Er ekki bara eitt k í okur? Það segir dr. Gunni...
Einar Jón, 6.8.2008 kl. 04:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.