Endurflutningur á útvarpsþætti Sverris Stormskers með Guðna Ágústssyni bannaður - og RÚV stendur heil að baki Helga Seljan gegn borgarstjóranum
1.8.2008 | 20:09
Máli Sverris Stormskers og Guðna Ágústssonar er líklega lokið, nema upptaka úr þættinum leki inn á Netið. Ég heyrði ekki fyrstu 50 mínútur þáttarins, en fannst samræða þeirra Sverris og Guðna afar skemmtileg þegar ég kveikti á stöðinni - svo skemmtileg að þegar heim var komið leitaði ég aftur að þættinum á útvarpstæki, en fann hann ekki, kveikti á Netinu og hlustaði gegnum Netið, en hugsanlega hefur eitthvað gerst þarna í millitíðinni sem varð til þess að fylla endanlega mælinn hjá Guðna.
Ég hefði gaman af að heyra hvað það var, en fæ sjálfsagt aldrei að gera það, þar sem að þessi þáttur hefur verið bannaður, sem er reyndar söguleg stund því ég man ekki til þess að endurflutningur nokkurs útvarpsþáttar hafi verið settur í straff á Íslandi. Minnir mig svolítið á sögur frá gamla Sovét, en það er sjálfsagt slök samlíking.
Á baksíðu 24 Stunda í dag er eftirfarandi haft eftir Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpsstjóra á Sögu:
"Ef viðmælendur upplifa ... að þeim sé sýnd ósvífni og vegið sé að persónu þeirra getum við sleppt endurflutningi."
Með öðrum orðum: endurflutningur á þættinum hefur verið bannaður. Reyndar er ég alls ekki ósáttur við rökin og finnst þau mannúðleg, að útvarpsstjóri tekur ákvörðun út frá mannvirðingu og tilfinningum þess sem fannst að sér vegið.
Merkilegt hversu ólíkan tón við heyrum frá RÚV, en þar hefur Kastljós þátturinn þar sem Ólafi F. fannst honum sýnd ósvífni og vegið að hans persónu, verið settur á netið og hann sýndur öllum sem áhuga hafa, án þess að Ólafur F. hafi verið spurður hvort hann væri sáttur við það. Þetta viðtal geturðu séð með því að smella hér. Reyndar óskaði Ólafur sjálfsagt ekki eftir banni á endurflutningi þáttarins, eins og Guðni Ágústsson gerði þegar hann óskaði eftir því við útvarpsstjóra Sögu.
Ég reikna reyndar með að Sverrir sé miður sín yfir þessu og muni ekki láta þáttinn leka á Netið. Spurning reyndar hvort hann fái nokkru um það ráðið. Það þarf ekki nema einhvern einn til sem hefur tekið þáttinn upp til að koma honum á Netið. Synd að þetta skuli hafa gerst, því ég hef ekki heyrt jafn áhugaverðar samræður í útvarpi síðan ég man eftir mér. En stormskerið er bara eins og stormsker eru, og mín skoðun er að fólk sem fer í viðtal við stormsker ættu að mæta í flotgalla.
Heyrst hefur talað um að embætti borgarstjóra og borgarbúum Reykjavíkur hafi verið sýnd vanvirðing í beinni útsendingu, en ég er nú ekki sammála því. Hins vegar var taktík Helga Seljan afar slök og virkaði engan veginn til að fá svör frá borgarstjóranum. Sumu fólki fannst Helgi standa sig vel af því að hann var harður, en ég geri hins vegar greinarmun á því að vera harður og að vera góður. Ég hefði verið til í að hlusta á þá báða hefðu þeir getað rætt almennilega saman.
Mig grunar að máli Helga og Ólafs sé lokið í bili, en álit mitt á RÚV hefur hríðfallið í kjölfar málsins, sérstaklega þar sem að menn virðast standa með Helga bara af því að þeir eru í sama liði, í stað þess að viðurkenna að þáttarstjórn hans var slök. Hann mun ekki bæta sig sem spyrill fái hann ekki heiðarlega gagnrýni, sem bloggheimar hafa þó veitt honum. Spurning hvort hann hlusti. Ég vona það.
Fyrri færslur mínar um þessi mál:
Núna: Sverrir Stormsker og Guðni Ágústsson í stórskemmtilegu ...
Guðni Ágústsson rýkur reiður út eftir erfiðar spurningar frá ...
Ólafur F. hemur reiðina gegn harðri yfirheyrslu í Kastljósi (...
Athugasemdir
ÉG get tekið undir þetta allt með þér, akkúrat eins og þetta kemur mér fyrir sjónir. Mér finnst framkoma Helga arfaslök og mun fylgjast með honum í framtíðinni hvernig honum vegnar, eins og þú segir þá er ekki sama að vera harður og vera góður, þetta var lélegasta viðtal sem ég hef séð í langan tíma og hefði dugað til að setja mann á alvörufréttastöð til hliðar um tíma. Góða helgi
Ásdís Sigurðardóttir, 1.8.2008 kl. 21:19
Hættiðu loksins þegar Helgi vinnur fyrir kaupinu sínu og þetta með að grípa frammí , kommon hann er náttúrulega snillingur hann Ólafur að stama og stama og ekki koma uppúrt sér orði vegna þess að málstaður hans er oftar en ekki alger Steypa.
Gott hjá Helga og gott hjá Rúv ( Er samt á móti Rúv og vill dautt)
Sverrir er nátturulega snillingur sem tók vitan af hálfu í bakaríið og svo er þessi útvarsstöð að gefa Guðna einhvern greiða !!!!
Kræst !!!
Ljúfar
Ómar Ingi, 1.8.2008 kl. 22:21
Burt séð frá því hvort Arnþrúður verður við ósk Guðna eða ekki um að þátturinn fari ekki í endurútsendingu þá er það Guðna til háðungar að fara fram á slíkt. Það staðfestir að hann skammast sín fyrir aulalega frammistöðu í þættinum. Það er ástæða til að vekja rækilega athygli á því.
Arnþrúði er vandi á höndum. Hún hefur ekki farið leynt með aðdáun sína á Guðna og á milli þeirra er vinskapur. En hún hefur jafnframt skyldum að gegna gagnvart hlustendum Útvarps Sögu. Þetta er umtalaðasti þáttur ÚS til langs tíma.
Stormsker er ekki sú týpa sem lætur segja sér fyrir verkum. Ég ætla að hann eigi upptöku af þættinum og muni setja hana inn á www.stormsker.net. Á sínum tíma var Stormsker rekinn af útvarpsstöðinni Steríó og lét sér hvergi bregða. Þar var hann með svipaðan þátt. Ég man ekki hvað olli brottrekstrinum. Ég man þó eftir að hafa eitt sinn verið að keyra austur fyrir fjall þegar ég hlustaði á þátt hans á Steríó. Mig minnir að Stormsker hafi þá verið að ræða við Bubba eða Hannes Hólmstein. Þátturinn var svo skemmtilegur og fjörlegur að ég lagði bílnum þegar ég var að aka út fyrir útsendingasvæði útvarpsstöðvarinnar. Ég tímdi ekki að missa af þættinum.
Jens Guð, 2.8.2008 kl. 00:01
Ásdís: Við erum greinilega 100% fólk
Ómar: Undarlegur heimur sem við búum í. Ég er alltaf farinn að skilja betur og betur af hverju þér finnst The Dark Knight og Blade Runner snilld.
Jens: Ég hef hingað til ekkert fylgst sérstaklega með Stormskerinu, en á sjálfsagt eftir að vera meira vakandi fyrir honum í framtíðinni. Ætli hann neyðist ekki á endanum til að opna eigin útvarpsstöð, FM Stormskerið þar sem hann fær að vera hann sjálfur, skilyrðislaust.
Hlynur:
Hrannar Baldursson, 2.8.2008 kl. 08:42
Stormsker var harður og góður. Seljan var hvorki harður né góður. Hann var afspyrnu slakur.
Júlíus Valsson, 3.8.2008 kl. 16:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.