Vanmáttur mannsins gegn náttúruskrímslinu: þegar við lentum í fellibyl á Yucatanskaganum
22.7.2008 | 10:19
Haustið 2002 ruddist fellibylurinn Ísídór yfir heimili mitt og borgina Merida í Yucatan. Ég og mín fjölskylda töpuðum aleigunni, og hundinum, en skóli sem við höfðum reist var lagður algjörlega í rúst af þessu ógurlegasta skrímsli sem ég hef komist í námunda við.
Daginn áður en fellibylurinn skall yfir hafði ég á tilfinningunni að eitthvað lægi í loftinu. Við fórum í dýragarðinn með börnin, og fréttum af starfsmönnum þar að allir apar, fyrir utan górillurnar, höfðu flúið úr garðinum. Þeir komu til baka eftir að fellibylurinn hafði rústað borginni.
Ég vissi ekki hvað fellibylur var. Hélt þetta væri í mesta lagi ofsarok eins og stundum er á Íslandi, en það reyndist vanmat. Ég límdi fyrir alla glugga, en þeir brotnuðu samt í óveðrinu. Ég var nettengdur á þessum sunnudegi og ætlaði að taka þátt í skákmóti sem Taflfélagið Hellir hélt reglulega á Netinu, en kl. 14:55 eða kl. 19:55 að íslenskum tíma, rofnaði netsambandið. Tveimur mínútum síðar fór rafmagnið. Við fengum rafmagnið aftur mánuði síðar.
Í fyrstu leit þetta út eins og rok, en við konan fórum með börnin og hundinn inn í svefnherbergi, sem var gluggalaust, og þar lokuðum við okkur inni með lítið vasaútvarp og vasaljós, en á meðan æstist stormurinn fyrir utan. Mér var hætt að lítast á blikuna þegar ég fór að heyra brothljóðin í gleri og ískrið þegar málmur beyglaðist saman. Eftir 10 tíma fór ég út í glugga og sá þá að allir veggir skóla okkar höfðu lagst saman og rúðurnar þotið út um veður og vind, það rigndi stanslaust eins og hellt væri úr fötu - ljósastaurar og tré lágu á hliðinni úti á götu. Þetta var fyrir utan heimili mitt, og þannig var þetta um alla borg.
Við þurftum að húka inni í 30 tíma, en þá slotaði. Börnin spurðu hvort að fellidrekinn væri farinn í burtu. Skólastofan var með vatni sem náði upp í ökkla, og í vatninu voru glerbrot og drulla. Sjónvarpið, tölvan, skólastofan: allt ónýtt.
Ég man ekki neitt eftir þessum degi, en konan mín segir að ég hafi farið út með sveðju ásamt nágrönnunum og unnið við að höggva fallin tré sem lágu á götunni, til að herinn kæmist að með sitt fólk. Daginn eftir fór ég í klakaverksmiðju sem keyrði á díselolíu, og beið í biðröð átta klukkustundir eftir einum klaka sem ég setti svo í kælibox. Þannig tókst okkar að bjarga mat sem annars hefði eyðilagst í rafmagnslausum ísskápnum. Það var líka vatnslaust, þar sem að pumpur til að ná vatni upp úr brunnum keyrðu á rafmagn, en við höfðum sundlaug í garðinum sem fylltist í fellibylnum og gátum baðað okkur upp úr þessu vatni næstu vikurnar. Einnig tókst okkur að kaupa sextíu lítra af drykkjarvatni, sem dugði okkur í tvær vikur.
Málmgirðingin fyrir utan húsið okkar hafði beyglast upp eins og bananahýði. Hundurinn fór út um hliðið þennan dag og ég hef ekki séð hann síðan. Reyndar frétti ég af honum um daginn, sex árum síðar, og er hann heill heilsu hjá dýralækninum, en þangað hafði hann einhvern veginn ratað. Þar sem að við höfðum ekkert síma- eða netsamband í heilan mánuð á eftir gat dýralæknirinn ekki látið okkur vita.
Það versta við þetta var að geta ekki látið neinn vita heima á Íslandi og sagt fólkinu heima hvað það þýðir að upplifa svona lagað, þar sem að við vorum algjörlega sambandslaus við umheiminn.
Þannig er að upplifa fellibyl.
Myndir:
Gervihnattamynd af Ísídór frá NASA
Spáð að hitabeltisstormurinn Dolly verði að fellibyl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.