The Stand - Complete, Uncut (2001) Stephen King **1/2
8.7.2008 | 01:25
Efnavopn í þróun hjá bandaríska hernum losnar úr læðingi og drepur meirihluta mannkyns. Örfáir einstaklingar eru ónæmir fyrir sjúkdómnum, sem annars drepur allar aðrar manneskjur á fáeinum dögum, og líka skepnur sem hafa lifað í nánum samvistum við fólk.
Við fáum að fylgjast með ævintýri hinnar óléttu Fran Goldsmith, hins hljóðláta Texasbúa Stuart Redman, rokksöngvaranum Larry Underwood, samfélagsfræði-kennaranum Glen Batemenn, hundinum Kojak, hinum heyrnarlausa Nick Andros, hinum þroskahefta Tom Cullen sem stafar öll orð eins, sem M-O-O-N, spákonuna Abagail Freemantle og illmennunum sem eru kannski ekki alill barnaskólakennaranum Nadine Cross, unglingnum snjalla Harold Lauder, brennuvarginum geðveika Trashcan Man, og yfirpúkanum Randall Flagg.
Sögupersónurnar eru skemmtilegar og ljóslifandi, en sagan snýst um keppni milli þessara tveggja hópa um að vera fyrst til að koma sér fyrir og undirbúa sig fyrir stríð. Randall Flagg er vera úr helvíti sem sameinar veikgeðja fólk og glæpamenn saman gegn hinum venjulegu, þeim sem vilja einfaldlega lifa í sátt og samlyndi.
Hetjurnar falla hverjar á fætur annarri, þar til aðeins örfáar þeirra eru eftir, en það sem skilgreinir þá sem hetjur er að þeir eru til í að berjast fyrir sátt og samlyndi gegn hinum illa her Randall Flagg, sama hvað það kostar.
Sagan er alltof löng fyrir efnið og verður frekar langdregin þegar í ljós kemur að engin sérstök dýpt liggur á bakvið söguna, að þetta er einfaldlega saga sem varar okkur við að vera svo heimsk að leika okkur að efnum sem við höfum ekki fulla stjórn á. Að við ættum að bera meiri virðingu fyrir náttúrunni og vera þakklát fyrir það sem við höfum, í stað þess að sífellt kvarta yfir því sem við höfum ekki.
Þegar hasar færist í leikinn, sem er reyndar alltof sjaldan, þá er King í essinu sínu. Honum tekst að lýsa á afar myndrænan hátt hvernig hlutirnir gerast, og með slíkri nákvæmni að maður finnir fyrir þunga hvers höggs, lendingu hverrar byssukúlu, og broti hvers beins. Stephen King er frábær sögumaður, en því miður er The Stand barn síns tíma, og engan veginn sú klassík sem maður hefur heyrt fólk segja að hún sé. Hins vegar getur vel verið að gamla útgáfan sé betri.
Eitt atriði fannst mér svolítið skondið, en það var þegar tvær af aðalhetjunum komu sér upp kvikmyndasal og horfðu á kvikmyndina Rambo 4, þar sem Rambo barðist gegn dópsölum. En eins og allir vita kom Rambo út núna í ár og hann barðist ekki gegn dópsölum, heldur mannræningjum. Bara svona til að rétt sé rétt. King hefur vafalaust haldið að Stallone færi aldrei út í að gera framhaldið árið 1991, þegar Stallone var orðinn 55 ára og ferill hans í ljósandi lögum þar sem hann gerði enga mynd árið 1999, og síðan hinar slöku Get Carter árið 2000 og hrykalegu lélegu Driven árið 2001. Hvern hefði grunað að Stallone ætti eftir að slá aftur í gegn með Rocky Balboa og Rambo árin 2007 og 2008?
Árið 1978 gaf Stephen King út The Stand í fyrsta sinn. Fjöldi lesenda hélt varla vatni yfir ritverkinu og hefur það verið dásamað í þá þrjá áratugi sem liðið hafa síðan það var fyrst gefið út.
Árið 2001 var The Stand endurútgefin. Sögusviðið var ekki lengur 8. áratugur 20. aldar, heldur 9. áratugurinn og um 400 blaðsíðum hafði verið bætt við til að lesendum gæfist tækifæri til að kynnast persónunum betur.
Ég las aldrei upprunalegu útgáfuna, en kláraði í dag endurútgáfuna sem telur 1153 blaðsíður. Ég var frekar vonsvikinn með söguna, rétt eins og kvikmyndina The Happening (2008), sem kom út um daginn. Hún byrjar mjög vel en leysist svo upp í miðjumoð og verður aldrei neitt neitt, alveg til enda. En þá veit maður það þó.
Myndir:
Kápa af The Stand og Rambo veggspjald: Wikipedia
Skopmynd og ljósmynd af Stephen King: Apotheosis
Athugasemdir
Ég las "The Stand" á sínum tíma og fannst hún nokkuð góð. Ekkert sérstök samt en eftirminnileg og með betri bókum King. Myndina hef ég ekki séð.
Sæmundur Bjarnason, 8.7.2008 kl. 01:39
Myndin er hryllingur , alveg glatað dæmi , waste of time
Ómar Ingi, 8.7.2008 kl. 19:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.