Af hverju hefurðu ekki þegar framkvæmt þetta?
Eitt af því sem mér finnst undarlegt í sambandi við eftirsjá, er að við erum líklegri til að sjá eftir því sem við höfum ekki gert, heldur en því sem við höfum gert í lífinu?
Hvað ætli það sé sem heldur aftur af okkur? Hvað er það sem kemur í veg fyrir að við gerum það sem okkur langar til að gera í lífinu?
Binda fyrst og fremst siðferðilegar takmarkanir, lög og reglur, bundið okkur frá því að gera það sem okkur langar til, eða er takmarkanir hugsanlega frekar að finna innra með okkur: feimni og ótti við mögulegar afleiðingar, þessi blessuðu hvað ef sem kveikja í ímyndunaraflinu og gera ímyndaða framtíð myrka og ómögulega, eða kannski bara leti?
Hvort sem það eru ytri eða innri takmarkanir sem stoppa okkur frá því að gera það sem okkur langar að gera, þá getur verið ágætt að velta fyrir sér hvað það er sem okkur langar að gera áður en það verður of seint.
Ég sé sem betur fer eftir litlu sjálfur, enda hef ég stokkið á eftir ástinni víða um heim og gert það sem mig hefur langað til að gera, einnig tók ég þá ákvörðun sem unglingur og hef staðið við hana að lifa ekki eftir hefðum sem ég sé ekki betur að séu tómar og innihaldslausar. Fyrir vikið hefur veröldin gefið mér viðburðarríkt líf og ég hef fengið að sjá hluti og upplifa sem ég hefði aldrei gert með því að vera kyrr í kotinu heima á Íslandi, og í stað þess að losa mig við byrgðar heimsins, safnað að mér hlutum til að standa traustari fótum á þessari fljúgandi jarðskorpu sem við byggjum.
Eftirsjá er þegar okkur líkar illa við eigin gerðir og hegðun úr fortíðinni. Þegar við upplifum eftirsjá fáum við tækifæri til að móta með sjálfum okkur hvernig við munum bregðast við sams konar vali í framtíðinni - þannig getum við undirbúið okkur fyrir framtíðina með því að móta okkar eigin viðhorf og skoðanir, með víðtækri þekkingu, til að breyta vel í framtíðinni, því að á hverri stundu í lífinu gerum við aðeins það sem við trúum að sé gott, og ef við vitum ekki hvað hið góða er, gætum við allt eins vegna okkar eigin vanþroska gert illt.
Dæmi um tilfinningarnar sem fylgja eftirsjá eru dapurleiki, skömm, sektarkennd, eða blygðun. Dapurleika má ekki rugla saman við þunglyndi, en þunglyndi hefur ekkert endilega neitt að gera með fyrri verkum eða heimsmynd, heldur er sjúkdómur sem getur herjað á fólk af líffræðilegum ástæðum.
Ég hef fyrir löngu síðan tamið mér að gera það sem ég trúi að sé rétt, og komið mér í vandræði fyrir vikið, sem ég hef eftir á að hyggja verið stoltur af. Hefði ég ekkert gert á sumum augnablikum í lífi mínu, hefði ég sjálfsagt séð eftir að hafa ekki gert það sem ég hefði átt að gera.
Sjálfur sé ég ekki eftir neinu. Hins vegar væri ég ansi svekktur að deyja áður en The Hobbit kemur út í bíó. Ætli megi ekki kalla það forsjá frekar en eftirsjá?
Myndir:
Norsk stytta: G8
Maður á gangi yfir hafið: Bloggin' in the 'Brary
Ljón sem kann að skammast sín: Intellectual vanities... about close to everything
Athugasemdir
Ég var einmitt að klára að lesa Bókina um Hobbit... Ég vona að ég nái að sjá myndina.
Flott færsla.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 7.7.2008 kl. 19:51
Hobbit
Kræst það var þá
Hvað á ég að gera við þig Hrannar
Ómar Ingi, 7.7.2008 kl. 22:21
Ómar: Þurfti hetjan þín hann Roy Batty og félagar hans ekki einmitt að takast á við þessa spurningu?
Gunnar Helgi: Já, vonum tveir.
Hrannar Baldursson, 7.7.2008 kl. 22:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.