Spurning 2: Trúir þú á drauga eða illa anda?
5.7.2008 | 12:37
Værir þú til í að dvelja, án félagsskapar, eina nótt í fjarlægu húsi þar sem talið er að sé draugagangur?
Út wikipedia:
Draugar eru sagðir vera birting manneskju, sem líkist oft í útlit þeirri manneskju, og fyrirfinnst oftast á stöðum sem hún eða hann umgekkst mikið, eða í tengslum við fyrrum eigur. Orðið "draugur" getur einnig átt við um anda eða sál látinnar manneskju, eða um hvaða anda sem er eða ára. Draugar eru oft tengdir við draugagang.
Trú á drauga er hverfandi og virðist minnka stöðugt á hverju ári. En samt er eitthvað sem heillar okkur við draugasögur og af einhverjum ástæðum skiljum við hugmyndina um drauga strax, án þess að þurfa útskýringar við. Það er eins og við vitum af þeim, en þar sem þeir passa ekki inn í skynsemisheim okkar, dettur okkur ekki í hug að trúa á þá, og eigum auðvelt með að neita tilvist þeirra, því slík tilvist hefur aldrei verið vísindalega sönnuð, og reyndar ekki afsönnuð heldur, því að hugtakið sjálft: "vísindaleg sönnun" er trúarhugtak sem á ekki við um vísindi.
Sú trú að draugar séu sálir kemur frá hinni fornu hugmynd um að sál sé í öllum hlutum, og þannig tengist allt í heiminum saman.
Í bókmenntum, bæði skáldskap og trúarritum, hefur oft verið rætt um drauga. Til dæmis hin forna egypska "Bók hinna dauðu," sem fyrst var birt úr árið 1842. Í Hómerskviðum fer Ódysseifur til heljar og aftur til baka, en í hel hinnar grísku goðafræði færir bátsmaður sálirnar yfir fljótið Styx. Jesús er sagður hafa risið upp frá dauðum og sýnt einum af lærisveinum sínum örin eftir krossfestinguna, og faðir Hamlets í hinu fræga verki Shakespeare hrundi atburðarrás í gang til að fá Hamlet til að hefna dauða síns. Einnig kannast margir við kvikmyndina Ghost, þar sem að myrtur maður ákveður að vera áfram til í formi draugs til að vernda konu sína frá sömu glæpamönnum og myrtu hann
Þurfum við að vera trúuð á Guð til að geta trúað á verund eða tilvist drauga?
Talað er um að gera eitthvað í anda siðmenningar, í anda laganna, í anda látins vinar eða ættingja, - eru þetta orðin tóm eða er einhver andi eða draugur þarna í raun og veru til staðar?
Síðan amma mín lést fyrir rúmum 10 árum hefur mér fundist hún stöðugt vera með mér, hvert sem ég hef farið. Og hvað sem ég geri, þá þekki ég og man hana sem viðmið hins góða, sem ég hef kynnst af dýpt og eigin raun. Þegar ég skrifa þennan texta og hugsa til hennar, þýðir það að hún sé enn til staðar, eða eru þetta bara minningar eða hugarburður?
Hvernig vitum við hvort að það sem við hugsum, ímyndum okkur, munum og dreymum sé til eða ekki? Hvernig getum við flokkað af nákvæmni allt sem er til og allt sem er ekki til? Hvernig þekkjum við þennan greinarmun?
Ég tel mig hafa séð draug. Góð vinkona eiginkonu minnar á föður sem var lögreglustjóri í Mexíkóborg. Hann átti strandhús í Acapulco. Við fengum það að láni. Þetta var 1995 og inn á milli heimspekirita las ég af mikilli áfergju vampírusögurnar hennar Anne Rice og hrollvekjur H.P. Lovecraft.
Það var eitt kvöldið að ég sat við lestur. Konan mín hafði farið í háttinn, og það fór að hvessa. Húsið var reist fyrir ofan háa kletta og við höfðum útsýni yfir hafið. Hurð skall aftur og það var komið rok. Ég leit út um gluggað á hafið og sá eldingar brjótast fram úr skýjunum í fjarska. Það drundi í þrumum og sífellt færðist óveðurskýið nær. Ég fór niður tröppur, en klaufaðist til að sparka í eitt þrepið, og þar sem ég var í sandölum var þetta ansi sárt.
Ég fór inn í herbergi til konunnar og hallaði mér við hlið hennar. Það leið dágóður tími, og ég hlustaði á þrumurnar og stöku sinnum lýstist herbergið upp í eldingum. Regnið dundi á rúðunum og það gnauðaði í vindinum.
Þá fékk ég sterka tilfinningu um að einhver væri að fylgjast með mér. Ég leit upp og að dyragættinni, en það var enginn þar. Nokkrum mínútum síðar hrökk konan mín við og sagði mér að einhver væri í dyrunum, ég leit upp og sá mann standa í gættinni, en samt ekki manneskju því að ég sá í gegnum hana. Þá kom þruma og elding, og birtingin var horfinn. Ég fór fram úr til að athuga hvort einhver annar væri í húsinu. Það var enginn annar en móðir tengdamóðir mín, sem svaf inni í herbergi hjá sér.
Næsta dag sagði konan mín mér frá því að lögreglustjórinn sem átti húsið kæmi aldrei í það lengur, því að þetta var uppáhaldsstaður eiginkonu hans, sem hafði látist í hörmulegu bílslysi nokkrum árum áður. Þess í stað lánaði hann vinum sínum húsið. Ég spurði hana hvort hún héldi að þetta hafi verið draugur. Hún gat ekki svarað því.
Ég segi ekki þessa sögu til að sannfæra einn eða neinn um tilvist drauga, enda er ég sjálfur mikill efasemdamaður um tilvist þeirra, en ég get ekki annað en velt þessu fyrir mér með opnum hug, þar sem að ég hef upplifað svona furðulegt augnablik - og reyndar eru þau fleiri, en ég tel nóg að segja frá einu að sinni.
Myndir:
Draugamynd: Famous and Classic Ghost Pictures
Egypsk mynd: Wikipedia grein um Bók hinna dauðu.
Bátsmaðurinn á Styx: Science Fiction and Fantasy Art
Jesús og Tómas: Thoughts on God and Life
Draugurinn úr Hamlet: Michael Goodlife: Wartime Shakespearean Actor and Producer
Úr kvikmyndinni Ghost (1990): Squidoo.com
Svarið endilega könnuninni hérna til vinstri á síðunni.
Athugasemdir
Vantrú, 5.7.2008 kl. 13:13
Hiklaust ef ég þyrfti þess. Það eina sem ég óttast við svona hús eru t.d. útigangsmenn í misjöfnu ásigkomulagi sem gætu dvalist í því.
Kristján Hrannar Pálsson, 5.7.2008 kl. 14:43
Draugar og illa anda
Jæja ertu nú ekki búin að horfa á of mikið af kvikmyndum kallinn minn
Yfirnátturulegir hlutir er oftast hægt að afsanna en hver veit ekki ég allvega.
En tel nú að ýmis orka geti verið í kringum okkur
Ómar Ingi, 5.7.2008 kl. 15:12
Kristján Hrannar: Góður puntkur!
Vantrú og Ómar: Eru draugar og illir andar yfirnáttúruleg fyrirbæri?
Vantrú: Hvernig geturðu komið í veg fyrir að eitthvað haldi áfram sem þú trúir ekki að sé til? Gætirðu nokkurn tíma orðið var við það sem þú trúir ekki á?
Ómar: Hvernig er hægt að afsanna verund eða tilvist drauga?
Allir: Hvað verður um sálina þegar líkaminn deyr?
Hrannar Baldursson, 5.7.2008 kl. 15:44
Fyrir þá sem eru að fylgjast með athugasemdunum, þá er ég búinn að uppfæra greinina.
Hrannar Baldursson, 5.7.2008 kl. 16:53
Er ekki flestir sálaralausir andskotar
En annars fer sálin þá á æðra stig sem er ekki hér á jörðu
Ómar Ingi, 5.7.2008 kl. 19:31
Ómar: er sálin yfirnátturlegt fyrirbæri?
Hrannar Baldursson, 5.7.2008 kl. 20:14
Með því að finna aðra skýringu en þá uppdiktuðu. Það geta verið eðlilegar "náttúrulegar" skýringar á draugagangi og illum öndum.
Matthías Ásgeirsson, 5.7.2008 kl. 23:18
Mér finnst ég nú stundum vera eins og draugur upp úr öðrum draug. Er það raunverulegt? Eða hvað?
Sigurður Þór Guðjónsson, 6.7.2008 kl. 00:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.