Þögnin og svefninn (smásaga um ofbeldi og ást)
4.7.2008 | 02:23
1.
Ég bauð mig fram í pólitískt embætti og tapaði. Mig grunar að þeir hafi svindlað. Ég mótmælti. Barátta mín fyrir betri menntun og hjúkrun var á enda. Sjálfur hafði ég unnið við þróunarstarf og kynntist þar ljúfasta fólki í heimi, frá smáeyju við Norðurpólinn, Íslandi. Íslendingar völdu að hjálpa okkur frekar en að standa aðgerðarlaus eins og hinar þjóðirnar. Ég kann þeim miklar þakkir fyrir.
Ég mótmælti kosningasvindlinu opinberlega, og fyrir vikið var ég hnepptur í varðhald hjá ríkislögreglunni og pyntaður í heila viku. Mig langar ekki til að lýsa þessum kvalarfullu dögum og nóttum, en þegar ég gaf loks eftir og sagðist ætla að þegja var mér sleppt. Málið er að þeir sem hafa völdin í dag, eru þeir sem vilja bara völd, ekki betra líf fyrir þjóðina. Þeim stendur á sama svo framarlega sem þeirra eigin hagsmunum er borgið. Þetta eru villidýr sem nærast á okkur jurtaætunum, því þeir vita að við munum aldrei grípa til vopna gegn þeim. Þetta er sjúkt. Þeir vilja bara völd og peningana sem koma frá skattinum.
Soffía beið eftir mér heima. Á meðan ég sat á þessum trékolli í 7 daga og 7 nætur hafði hún farið í apótek og keypt óléttupróf. Það skilaði bleiku.
2.
Nótt eina vakti Soffía mig og spurði hvort ég hefði heyrt eitthvað. Svo var ekki, en ég læddist niður til að sjá hvað væri í gangi. Útidyrahurðin stóð opin. Áður en ég lokaði horfði ég út í myrkrið. Ég sá ekki neinn, en fannst eins og einhver væri að fylgjast með mér. Hárin risu á hnakkanum.
Ég fór aftur inn og greip símann. En hikaði. Ég gat ekki hugsað mér að hringja í lögregluna. Þess í stað hringdi ég í Samúel, hann hafði verið félagi minn frá barnaskóla. Eiginkona hans Júní svaraði. Hún sagði lögregluna hafa tekið hann fyrir tveimur vikum. Hún hafði á tilfinningunni að hann væri farinn, fyrir fullt og allt. Hún sagði mér frá fleirum sem höfðu horfið sporlaust.
Þegar hún lagði á stóð ég stjarfur um stund, en heyrði þá andað í símtólið. Ég passaði að draga ekki andann, en hlustaði því betur. Jú, þetta var greinilegur andardráttur.
"Hver er þetta?" spurði ég.
"Klikk" var eina svarið. Einhver hafði lagt á.
Ég hringdi í gamlan samstarfsfélaga minn, Stefán. Hann er frá Íslandi, landi hinna frjálsu og góðu, landi þar sem fólk getur gengið úti bæði að nóttu sem og degi án ótta við að fá kúlu í bakið, landi þar sem lýðræði og kærleikur ríkir, mannúð og gæska. Þar eru næstum allir kristnir og lifa eftir fordæmi Krists í einu og öllu. Íslendingar fara samt ekki mikið í kirkju. Þeir líkna sjúka, þeir fræða fáfróða, þeir umbera hina óumburðarlyndu.
Þegar ég útskýrði ástandið fyrir Stefáni var hann fljótur að redda mér flugi næsta dag. Sólarhringi síðar vorum við lent í Mílanó, og ekki nema 36 stundum eftir að hafa fengið þennan óvænta gest heim vorum við lent á litlum og vinalegum flugvelli í Keflavík, smábæ sem er í klukkustundar fjarlægð frá Reykjavík, höfuðborg Íslands.
3.
Við Soffía höfðum aldrei séð svona mikið hvítt, en maðurinn sem tók á móti okkur, Kjartan frá Þróunarsamvinnustofnun, stoppaði í vegakantinum og leyfði okkur að ganga um í snjónum og snerta hann. Þetta fyrirbæri er að sjálfsögðu ískalt og blautt, en það er svo mikið af því að það virðist þekja allt landið. Ímyndið ykkur bara ef blá rykkorn féllu yfir allt landið okkar og á einni nótt yrði allt blátt, og gula slikjan hyrfi.
Stefán tók á móti okkur, fann fyrir okkur íbúð og lét mig fá pening fyrir mat. Hann ráðlagði okkur að sækja um hæli sem pólitískir flóttamenn. Hann setti okkur í samband við lögmann. Hún heitir Ragnheiður. Okkur yrði örugglega tekið vel.
Það er sárt að skilja eftir húsið og allar okkar eigur heima. Nú höfum við flutt í litla íbúð sem er álíka stór og sjónvarpsherbergið okkar var. En það er samt betra að vera öruggur með lífið, heldur en fangi óttans.
4.
Ég fékk vinnu við að aðstoða fatlaða einstaklinga við vinnu. Ísland er stórkostlegt land. Konur hafa mikil völd og fatlaðir fá störf við hæfi. Soffía hefur hins vegar ekki fundið neitt starf, og leigan er heldur dýr. Við eigum rétt fyrir mat eftir leigu og skatta. Það er útilokað að kaupa íbúð hérna, því lítil kytra á Íslandi kostar á við 10 einbýlishús með sundlaug heima. Reikningar mínir voru frystir, þannig að ekki get ég notað það sem ég hef aflað mér um ævina.
Ragnheiður lögfræðingur sagði mér að hún hafi sótt um hæli fyrir okkur sem pólitískir flóttamenn. Hún var bjartsýn á góðar niðurstöður í fyrstu, en nú hafa liðið 3 mánuðir og hún hefur ekki fengið nein svör. Hún hefur farið niður í ráðuneyti, sent þeim tölvupósta og bréf, en við fáum engin svör. Skriffinnskan er bara svona. Ég kannast við þetta að heiman, suma daga getur maður þurft að bíða heilan dag bara til að ganga frá einhverjum pappírum. Svona er þetta bara.
5.
Í gær var hamingju varpað inn í líf okkar. Dóttir mín er fædd. Hún er með augu móður sinnar og krullaða lokka pabba síns. Hún er þó óhult, þar sem að samkvæmt alþjóðlegum lögum fær barn ríkisborgararétt í því landi sem það fæðist. Mér léttir mikið.
6.
Í fyrradag var bjöllunni hringt heima snemma um morguninn. Ég fór til dyra. Þar stóð kona í lögreglubúningi sem rétti mér bréf og spurði hvort að ég væri ég. Ég sagði svo vera, og þá var hurðinni sparkað upp og mér ýtt upp að veggnum. Dóttir mín byrjaði að gráta og Soffía kom fram með tárin í augunum og spurði hvað væri að gerast. Ég hef aldrei séð hana hrista höfuðið jafn lengi í vantrú og nákvæmlega á þessari stundu, þetta var verra en þegar lögreglan tók mig og pyntaði mig. Þeir höfðu þó ekki handjárnað mig og höfðu gefið mér tíma til að kveðja.
Mér var ýtt út í lögreglubíl og ég heyrði Soffíu hrópa á eftir mér. Hvað átti hún að gera? Við höfðum ekki farið í Bónus. Hún var ekki með pening og lítill matur til heima. Ég reyndi að biðja lögreglumann númer 142 um að fara með pening til hennar. Hann hlustaði ekki á mig, lokaði bara hurðinni eins og ég væri ekki þarna.
Þessi nótt í fangaklefanum var erfiðari en allt sem erfitt er. Ég fékk ekki að hringja og fékk engar skýringar á því af hverju mér var haldið þarna, aðrar en að ég hafði gert eitthvað ólöglegt. Ég vissi bara ekki hvað það gat verið.
Síðan skildi ég þegar leiðin lá til Keflavíkur að verið var að færa mig á flugvöllinn. Það átti að senda mig úr landi. Heim!
Ég bið til Guðs að Soffía og Lovísa verði öruggar á Íslandi, að einhver komi þeim til hjálpar, að einhver hjálpi þeim að borga leiguna, mat og fæði. Ég bið til Guðs að þeir loki mig frekar í fangelsi en senda mig aftur heim, því ég veit að þar verð ég pyntaður aftur og stungið í dýflissu og látinn rotna þar, nema ég verði það heppinn að þeir spanderi byssukúlu handa mér.
Ég bið um það eitt að þögnin verði rofin og að fólkið í heiminum vakni.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.