4 unglingar drepnir af stormsveipi í Iowa, grundvöllur trúarbragða rakinn og ræddur, auk þess að Don Hrannar keppti í blaki

13_62_scout320

95 unglingar á aldrinum 13-18 ára dvöldu í sumarbúðum þegar einn mesti stormur síðustu ára skall á í gærkvöldi. Stormsveipur snerti land og rústaði skála drengjanna þannig að 40 slösuðust en 4 létust. Þetta gerðist í Iowa, fylki sem tengir saman Nebraska og Minnesota, þar sem ég keyrði um í flóði og stormi síðasta sunnudag.

Við fundum fyrir storminum hérna í Nebraska og fylgdumst með þróuninni með hjálp gervihnattar, en mestu lægðirnar laumuðust framhjá Holdrege. Samt þegar ég fór út úr húsi leiftraði himinninn allt í kring, og regndroparnir sem féllu af himnum voru öðruvísi en ég hafði áður verið vitni að. Það voru frekar strjálir dropar en þungir sem féllu. Ég hef aldrei séð jafn stóra regndropa, en hver og einn þeirra var á stærð við möndlu.

Fyrir utan þetta var dagurinn ágætur. Ég horfði á hina frábæru kvikmynd The Man From Earth (2007) til þess að vekja upp samræður um trúarbrögð, og áttum við í kjölfarið afar góðar samræður um mikilvægi umburðarlyndis gagnvart ólíkum skoðunum og trúarbrögðum, auk þess að við veltum fyrir okkur því sem er sameiginlegt ólíkum trúarbrögðum og því sem er ólíkt. Þau komust að því að mikilvægasta hlutverk trúarbragða virðist vera að setja saman siðferðireglur sem einstaklingum í viðkomandi samfélagi er ætlað að fylgja. En stundum væri munur á hvort að einstaklingar verði nauðsynlega að fylgja þessum reglum, eða hvort um leiðarkerfi um ákvarðanatöku og gildismat væri í gangi, sem ekki þyrfti að fylgja en væri gott að hafa til hliðsjónar. Afar góðar samræður.

Kvöldið hjá okkur var leikjakvöld, á meðan stormurinn fór um Nebraska og nærliggjandi fylki, spiluðu unglingarnir tölvuleiki, horfðu á kvikmyndir, spiluðu körfubolta og blak. Við kennararnir kepptum við sigurvegara nemenda í blaki, og eftir spennandi leik þurftum við að lúta í lægra haldi, enda ansi öflugir andstæðingar sem æfa sex sinnum í viku allt árið - örugglega bara til að ráða við okkur. 

Annars var dagurinn góður og unglingarnir blogguðu í lok dagsins hérna

Mynd frá Fox News


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ. Hafðu það nú gott og ræddu sem mest um heimspekina á næstu dögum. og komdu með fullt af góðum vangavelltum. Við hlökkum til að sjá þig aftur í Garðabænum.

kv.
halli

Halli (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 22:02

2 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Ótrúlega gaman að lesa þessar færslur (fyrir utan óveðrið auðvitað) sem og bloggið hjá krökkunum. Þú ert ,,öfundsverður". Njóttu vel, krakkarnir eru heppnir. Farið vel með ykkur þarna í þessu veðravíti.

Takk fyrir að deila þessari reynslu með okkur

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 13.6.2008 kl. 00:20

3 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég hefði viljað sjá þetta sjónarspil á himinum þótt afleiðingar óveðursins hafi verið skelfilegar.

Steingerður Steinarsdóttir, 13.6.2008 kl. 10:41

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Blessaður Halli, ég hlakka (eða mig hlakkar) líka mikið til að koma aftur heim í spennandi og skemmtileg verkefni.

Guðrún Jóna: takk.

Steingerður: þessir stormar eru óneitanlega flottir á að líta. Þeir segja að um 80% allra stormsveipa á jörðinni eiga sér stað í miðríkjum Bandaríkjanna.

Hrannar Baldursson, 13.6.2008 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband