Ég bið að heilsa, ljóðasamkeppni fyrir framan áheyrendur, heimspekinámskeið og skemmtilegur smábær í miðjum Bandaríkjunum
10.6.2008 | 12:33
Holdrege er svolítið skemmtilegur bær. Ég hef heimsótt hann á hverju sumri síðustu 15 ár, til að kenna þar rökfræði. En þar sem ég má ekki fá greiðslu fyrir þetta, lít ég á þetta sem sumarfrí og tækifæri til að fríska mig við þegar kemur að gagnrýnni hugsun og heimspeki. Holdrege er svona bær þar sem þú veifar þeim sem þú gengur framhjá með bros á vör. Sért þú í bíl, veifarðu bakvið stýrið. Yfirleitt er veðrið afar gott á þessum árstíma, um 30 stiga hiti og blíða.
Þó gerist það stundum að á skellur úrhelli. Eitt árið sáum við skýstrók þeysa um svæðið. Hann var í um 5 km fjarlægð, en að fylgjast með þessu fyrirbæri yfir sléttlendinu, sópa trjám og húsum í burtu án fyrirhafnar, var sjón sem ég mun seint gleyma. Einnig hafa skollið á undarleg haglél, þar sem hvert hagl hefur verið á stærð frá golfkúlu upp í hafnarbolta og gert gróðurhúsum og bílþökum lífið leitt. Eins og ég sagði frá í gær keyrði ég í gegnum fllóðasvæði.
Annars er ég staddur hérna til að kenna afburðargreindum unglingum heimspeki og rökfræði. Þetta eru allt unglingar sem eru að skora einkunnir frá 9.8-10 á samræmdum prófum í Nebraska. Um 100 unglingar sækja um að komast í heimspekikúrsinn minn á hverju ári, en aðeins 14 komast að.
Í gær lásum við úr hugleiðingum Descartes, þar sem að hann fjallar um ætlun sína um að endurhugsa alla sína trú og öll sín gildi, afmá allar þær skoðanir sem byggja aðeins á tómum hefðum og villutrú. Hann ætlaði að hugsa heiminn upp á nýtt og tókst það. Nemendur spurðu fjölda spurninga og svo ræddum við þær allan daginn. Afrakstur dagsins má sjá hérna, þar sem að ég hef undirbúið bloggkerfi þar sem nemendur skrifa eitthvað af sínum pælingum eftir daginn. Hver sem er getur skráð sig inn og gert athugasemdir.
Um kvöldið tók ég svo þátt í ljóðakeppni fyrir framan áheyrendur, þ.e.a.s. alla nemendur námskeiðsins, um 125 talsins og kennarana. Ég skráði mig í keppnina aðeins vegna þess að nemendur mínir hvöttu mig til þess. Þau vildu fá að heyra eitthvað íslenskt. Ég valdi eitt af mínum eftirlætisljóðum eftir Jónas Hallgrímsson, Ég bið að heilsa, til að flytja fyrir framan hópinn. En þegar á hólminn var komið, frétti ég að reglurnar væru þannig að maður þyrfti að flytja frumsamið ljóð. Þannig að ég henti einu slíku saman og flutti, og síðan flutti ég að sjálfsögðu ljóð Jónasar á eftir við mikinn fögnuð.
Ég vissi að ljóðið gæti ekki verið nein snilld, þar sem að ég hafði nánast engan tíma til að skrifa það og í fullum sal af fólki, aðeins með eina litla pappírsörk, bakhliðina, þar sem á framhliðinni var ljóð Jónasar. Ég ákvað að biðja áheyrendur að taka þátt í ljóðinu, þannig að éf ég lyfti upp hönd, þá þyrftu þeir að framkalla hljóð sem átti við um samhengi ljóðsins. Þetta var gaman.
Þannig hljómar ljóðið. Það er nafnlaust.
Thunders
drum at your lungs
Lightnings
flash through your eyes
Rain
flows up your cheek
Since you bath
in the grass
under the sun,
the hidden sun,
loved.
Þetta ljóð og flutningurinn sló í gegn og til að gera langa sögu stutta þá vann ég keppnina, sem skipti þó engu máli því ég var ekki gjaldgengur til að taka þátt, þar sem ég er kennari en ekki nemandi. Ljóðið fékk tvær 10ur í einkunn, eitt 9.5, eitt 9.0 og eitt 666.
Gaman að þessu.
Athugasemdir
gott ljóð, sé þetta alveg fyrir mér:)
Oddur Ingi (IP-tala skráð) 10.6.2008 kl. 18:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.