12 Angry Men (1957) ****

12 Angry Men gerist að mestu í aflokuðu herbergi þar sem kviðdómur þarf að komast að niðurstöðu um morðmál. Það er heitt úti og flesta langar að komast snemma heim, og suma jafnvel á völlinn til að fylgjast með hafnarboltaleik.

Unglingur frá Puerto Rico er sakaður um að hafa myrt föður sinn. Tvær manneskjur voru vitni að morðinu og morðvopnið er í eigu unglingsins. Öllum í kviðdómnum nema einum finnst þetta augljóst mál og réttast að afgreiða það fljótt og örugglega. Strákurinn hlýtur að vera sekur, hann er úr fátæku hverfi, hefur oft verið dæmdur fyrir smærri glæpi, og fjarvistarsönnun hans gengur ekki upp.

En kviðdómari númer 8 (Henry Fonda) finnst ekki rétt að klára morðmál svo hratt, og biður um smá umræðu, bara umræðunnar vegna og af virðingu fyrir réttarkerfinu og lífi unglingsins sem sjálfsagt verður tekinn af lífi verði hann dæmdur sekur. Í ljós kemur að málið er kannski ekki jafn einfalt og það lítur út fyrir að vera, þegar kviðdómarar, hver á fætur öðrum reyna að sanna kviðdómara 8 um af hverju drengurinn er sekur. Honum tekst hins vegar að vekja upp spurningar sem sífellt erfiðara verður að svara, og tekst að sá efasemdum meðal hinna kviðdómaranna.

Leikurinn í 12 Angry Men er stórgóður. Henry Fonda leikur skynsemismanninn fullkomlega, og Lee J. Cobb er frábær sem hinn stolti og tilfinninganæmi maður sem veit einfaldlega að drengurinn er sekur. Upp koma fjöldi ástæðna til að dæma unglinginn til dauða, meðal þeirra eru fordómar, stolt, hugleysi, óþolinmæði, óákveðni, ónákvæmni, og fleira. Þetta er magnaður bardagi þar sem á takast skynsemi og rökvillur.

Þó að 12 Angry Men gerist í einu herbergi, gerist hún einnig í huga 12 manns sem gerir hana að gífurlega dýnamískri upplifun. Maður veit aldrei hvað kemur næst, og þegar það gerist er það nákvæmlega það sem þurfti að gerast.

Frábær kvikmynd og fróðleg þegar maður veltir fyrir sér því flókna ferli sem getur átt sér stað þegar nokkrar manneskjur eru staddar á sama stað og neyddar til að leita sannleikans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Þetta er nýtt met hjá okkur SAMmála tvisvar sinnum í röð , þetta er eðal mynd , sástu endurgerðina ?

Hún var alveg ágæt samt ekki svona mikil snilld

Mitt mat

Ómar Ingi, 12.3.2008 kl. 20:34

2 Smámynd: Ómar Ingi

Farðu á El Orponato eftir Guiillermo

Þvílíka snilldin  USSSS

Ómar Ingi, 12.3.2008 kl. 20:35

3 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Ég sá þessa mynd fyrst fyrir mörgum árum og kolféll fyrir henni. Hefði ekki trúað að mynd sem gerist í einu herbergi gæti verið svona mögnuð. Keypti hana á DVD fyrir stuttu og fannst hún alveg jafn góð. Þetta er ein af perlum kvikmyndasögunnar að mínu áliti

Kristján Kristjánsson, 12.3.2008 kl. 22:47

4 Smámynd: Helgi Már Barðason

Sá þessa mynd í sjónvarpinu þegar ég var unglingur. Hún hafði mikil áhrif á mig og ég man alltaf hvað mér þótti Lee J. Cobb góður. Ein af perlum kvikmyndasögunnar í mínum huga og ég þarf endilega að fara að sjá hana aftur.

Helgi Már Barðason, 13.3.2008 kl. 14:22

5 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Þessa hef ég ekki séð þarf að leita hana uppi.

Steingerður Steinarsdóttir, 13.3.2008 kl. 15:44

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ómar: sammála tvisvar í röð? Það gengur nú varla lengi. Mig langar að kíkja á Munaðarleysingjaheimilið, sem er reyndar ekki leikstýrt, heldur aðeins framleitt af Guillermo del Toro, þar sem Toro er náttúrulega ennþá að vinna í Hellboy 2. Svo tekur við The Hobbit hjá kallinum.

Kiddi, já, þetta er ótrúlega mögnuð mynd, sérstaklega ef haft er í huga hvað sviðið er takmarkað.

Bukollabaular, þú hefur sjálfsagt séð útgáfuna með George C. Scott, Jack Lemmon og fleiri gæðaleikurum, sem gerð var fyrir sjónvarp. Hún er mjög góð, en  mér finnst hún ekki ná upp sama krafti og frummyndin. Málið er að leikararnir eru óaðfinnanlegar í þessari útgáfu, en t.d. Jack Lemmon var aldrei þessu vant, ekki nógu góður í endurgerðinni.

Helgi Már og Steingerður. Kíkið á hana sem allra fyrst.  

Hrannar Baldursson, 13.3.2008 kl. 18:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband