The Golden Compass (2007) **1/2
13.1.2008 | 01:50
The Golden Compass: hliðstæður veruleiki við okkar þar sem yfirvaldið er við það að ná völdum á frjálsum vilja í öllum mögulegum heimum, og það eina sem getur stoppað það frá því að gerast er lítil stúlka sem hefur í sínum fórum áttavita sem segir sannleikann.
Í veruleika hliðstæðum okkar, eru sálir ekki fangnar í líkama einstaklinga, heldur eru þær í dýralíki og geta talað. Lyra Belacqua (Dakota Blue Richards) er ung stúlka sem fræðimenn telja að sé sá einstaklingur sem komi til með að skera úr um úrslitin í stríðinu mikla á milli þeirra sem ráða öllu og þeirra sem krefjast þess að hafa frjálsan vilja; en ráðamenn þessa heims ætla sér að yfirtaka frjálsan vilja, ekki bara í þessum heimi fantasíunnar, heldur í öllum hliðstæðum heimum.
Lyra kemst að þvi að einn útsendari ríkisveldisins hellir eitri í vín Lord Asriel (Daniel Craig) og tekst að stoppa hann frá því að drekka það. Með því hrindir hún af stað atburðarrás sem verður ekki stöðvuð. Lord Asriel hefur uppgötvað leið til að ferðast milli heima, og ætlar að halda norður á Svalbarða til að skoða málið betur. Hann biður um styrk við háskólann þar sem hann starfar og er studdur af skólanum. Hann leggur af stað í þessa löngu ferð, en á sama tíma býðst erindreki ríkisins, Marisa Coulter (Nicole Kidman) til að taka Lyra að sér. Skólastjóri skólans samþykkir, en áður en Lyra fer, gefur hann henni gullinn áttavita, sem hefur þann eiginleika að hann getur sagt henni sannleikann.
Lyra líkar illa vistin hjá Coulter, og þegar hún kemst að því að hún hefur staðið fyrir barnsránum, strýkur hún úr vistinni. Hún lendir í vist með hópi utangarðsmanna sem koma henni undan á skipi, þar sem hún hittir foringja þeirra. Saman sigla þau til Noregs. Á leiðinni stoppar nornin Serafina Pekkala (Eva Green) á skipinu og rabbar aðeins við Lyra um áttavitann. Þegar komið er til Noregs kynnist Lyra kúrekanum Lee Scoresby (Sam Elliot), sem fær hana til að koma ísbirninum stolta, Iorek Byrnison (Ian McKellen) til hjálpar.
Það er margt í gangi og margt eftir að gerast. Það þarf að bjarga stolnum börnum, koma ísbirninum í hásæti ísbjarnanna og bjarga heiminum. Metnaðurinn er mikill hjá framleiðendum og leikstjóra, getan er bara ekki til staðar.
Eins og sést á þessari lýsingu er margt að gerast í þessari sögu, reyndar alltof margt. Þó að tæknibrellurnar séu hreint frábærar, þá vantar handritið fókus, og leikstjórinn hefur ekki nógu góða stjórn á leikurunum. Þarna bregður fyrir fullt af úrvalsleikurum, og fyrir utan þá sem ég hef þegar talið upp má nefna Ian McShane, Christopher Lee, Kristin Scott Thomas, Kathy Bates og Derek Jakobi í litlum hlutverkum. Þrátt fyrir alla þessa úrvalsleikara og góða frammistöðu hjá þeim, gengur persónusköpun engan veginn upp og á endanum eru þær flatar og jafn eftirminnilegar og kvikmyndir með Steven Seagal í aðalhlutverki.
Síðan The Lord of the Rings í leikstjórn Peter Jackson sló svo eftirminnilega í gegn fyrir nokkrum árum síðan, og vegna velgengni Harry Potter, hafa rándýrar fantasíumyndir verið gerðar sem feta í fótspor hringsins eina, en allar hafa þær einhvers staðar villst af sporinu. Harry Potter myndirnar eru endurtekningar á sömu hugmyndinni ár eftir ár, The Chronicles of Narnia fór sæmilega í gang, var með flottar tæknibrellur en náði ekki að grípa anda bókarinnar, og mig grunar að það sama sé satt um The Golden Compass, þó að ég eigi eftir að lesa bækurnar.
Rætt er um frumspeki sem aðal námsefni í skóla, nokkuð sem ég var kátur að heyra, enda hef ég kennt frumspeki og heimspeki börnum og unglingum, - nokkuð sem mætti gera miklu meira af í nútímasamfélagi sem virðist hafa gleymt því að fleira sé til í okkar heimi en efni, auður og völd. Það er gaman að fá kvikmynd sem er jafn stútfull af góðum hugmyndum og TheGolden Compass , það er bara leitt hversu illa er unnið úr þeim.
Rétt er að minnast á að þetta er engin barnamynd, eins og auglýsingar hafa gefið til kynna. Það eru grimmdarleg dráp í myndinni, þar sem til dæmis ein veran fær kjálkann rifinn af andlitinu, og fjölda manns drepnir með byssum, örvum og af kjafti og klóm. Þetta er grimmur heimur sem veit ekki alveg hvar hann er undir stjórn Chris Weitz, sem áður hefur aðeins leikstýrt léttum gamanmyndum. Ég finn að það býr eitthvað mun dýpra og betra að baki hugmyndunum sem myndin er byggð á og er sannfærður um að það tókst engan veginn að grípa þær.
The Golden Compass er ekki leiðinleg, bara langt frá því að vera það undur og stórmerki sem hún hefði getað verið.
Sýnishorn:
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Ég var nú aðeins hrifnari, enda búin að lesa allar bækurnar.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 13.1.2008 kl. 12:57
Mæli eindregið með því að þú lesir bækurnar, þær eru algjört konfekt. Myndin nær engan veginn að fanga anda bókanna, ég varð fyrir miklum vonbrigðum með hana, einmitt vegna þess að ég hef lesið allar bækurnar .
Birgitta, 13.1.2008 kl. 14:04
já bækurnar ættu að vera skyldulesning í kristinfræði
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 13.1.2008 kl. 14:10
Takk fyrir þetta. Hafði ekki mikinn áhuga og sé að ég get beðið eftir henni í sjónvarpi. Fékk að sjá í gær blue ray mynd í 47 tommu LCD sjónvarpi, þvílíkur skýrleiki, ég var orðlaus. Þetta virðist ætla að verða ofaná, hvað segir þú um blue ray versus HD DVD.?
Ásdís Sigurðardóttir, 13.1.2008 kl. 15:33
Ég er búinn að panta mér bækurnar og les þær vonandi á næstu mánuðum.
Í sambandi við Blue Ray, þá er ég sammála að gæðin eru mikil. En ég er samt ekkert sérlega hrifinn af sjónvarpstækjum. Ég nota myndvarpa til að horfa á mínar kvikmyndir og er mjög ánægður með þau gæði sem ég fæ: 3 m breitt og 2 m hátt. :) Stærra en nokkurt sjónvarpstæki og kostar undir kr. 50.000 kalli í allt, með hátölurum og DVD tæki. Það eina sem þarf er hvítur veggur.
Hrannar Baldursson, 13.1.2008 kl. 16:23
Mér fannst þessi mynd stórkostleg. Skemmtilegar pælingar, skemmtilegir karakterar og ótrúlegar tæknibrellur. Fær í það minnsta 3 stjörnur frá mér.
Sigurður Hólm Gunnarsson, 13.1.2008 kl. 16:30
Sigurður Hólm, samkvæmt því sem ég hef lesið um muninn á bókunum og myndinni er að hið illa í kvikmyndinni er Yfirvald almennt, en í bókunum eru það Trúarbrögðin. Mig grunar að þú hefðir gaman af bókunum.
Hrannar Baldursson, 13.1.2008 kl. 16:40
Já, ég túlkaði einmitt söguna sem lítt dulda árás á kaþólsku kirkjuna.
Sigurður Hólm Gunnarsson, 16.1.2008 kl. 11:06
Smá off topic:
Hrannar, hefur þú lesið vísindaskáldsögur Robert J. Sawyer? Langbestu vísindaskáldsögur sem ég hef lesið. Mikið um heimspekilegar pælingar. Þú hefðir gaman af þeim!
Sjá:
http://www.sfwriter.com/
Sigurður Hólm Gunnarsson, 16.1.2008 kl. 11:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.