Back to the Future, Part II (1989) **1/2
9.12.2007 | 10:42
Með ferð sinni til 1955 tókst Marty (Michael J. Fox) að forða móður sinni, Lorraine (Lea Thompson) frá drykkjusýki, föður sínum (Jeffrey Weissman), sem ekki er lengur leikinn af snillingnum Crispin Glover, frá því að vera algjör lúser og systkinum sínum frá því að vera ekki lengur til eftir að móðir hans í fortíðinni varð ástfangin af honum í stað föður hans.
Doc Emmet Brown (Christopher Lloyd) birtist í tímavélinni, sem nú getur flogið, fyrir utan heimili Marty, þar sem Marty er í faðmlögum með kærustu sinni Jennifer (Elisabeth Shue tók við hlutverkinu af Claudia Wells). Það er eitthvað að í framtíð þeirra.
Doc Brown hefur sett saman áætlun til að kippa öllu í liðinn. Hún fer út um þúfur þegar hinn gamli Biff frá 2015 (Thomas F. Wilson) stelur tímavélinni og gefur Biff ársins 1955 tímarit sem inniheldur úrslit flestra íþróttaveðmála frá 1950 til 2000. Svo skilar hann tímavélinni, en þegar Marty, Doc Brown og Jennifer koma til baka er bærinn þeirra gjörónýtur vegna þess að hinn gjörspillti Biff er orðinn milljarðamæringur sem ræður öllu í bænum. Hann hefur meðal annars myrt George, föður Marty og tekið Lorraine sem eiginkonu.
Nú þurfa Marty og Doc Brown að fara aftur til fortíðar, og stela tímaritinu af Biff árið 1955, áður en hann fær tækifæri til að vinna sinn fyrsta sigur í veðmálum og gjörbreyta þannig lífi allra í bænum.
Tæknibrellur eru aftur stórgóðar og sögufléttan nokkuð skemmtileg. Hins vegar varð ég fyrir miklum vonbrigðum með leik og leikstjórn í þessari mynd. Robert Zemeckis ákveður að láta Michael J. Fox leika son sinn og dóttur, sem þýðir að brellurnar verða mikilvægari en sagan sjálf. Með réttu hefði átt að fá góða leikara í þessi hlutverk og aðeins breyta handritinu til að gera söguna meira sannfærandi. Þessi brella hefur truflandi áhrif á heildarmyndina og skaðar út frá sér. Þegar ekki er lengur hægt að taka persónurnar í myndinni alvarlega fer maður að velta fyrir sér hvort að þetta sé satíra eða hvað; en svo er ekki. Þetta er einfaldlega skortur á góðri dómgreind, sem er reyndar ekki algengt þegar Zemeckis á í hlut.
Það má segja að Zemeckis hafi ekki haft nógu mikla trú á efniviðnum til að taka hann alvarlega í framhaldi af fyrstu myndinni, sem var einfaldlega hrein snilld. Af þessum sökum er frekar erfitt að mæla með Back to the Future, Part II, en samt geri ég það. Hún er ekki alslæm, en verður að taka sem grínmynd fyrst og fremst. Það voru alvarlegri undirtónar í frummyndinni.
Sýnishorn úr Back to the Future, Part 2:
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.