Dauði Superman - Superman: Doomsday (2007) ***

Superman: Doomsday (2007) ***

Árið 1992 kom út teiknimyndasaga frá DC Comics um Dauða Superman, sem fylgt var eftir með Heimi án Superman og síðan Endurkomu Superman. Þetta voru hreint frábærar teiknimyndasögur, sem leyfðu sér að drepa aðalhetju allra ofurhetja, Superman sjálfan. Hann var drepinn af dularfullu skrímsli sem kallaður var Doomsday, sem eirði engu lifandi og hafði hraða og kraft á við Superman sjálfan.

Næstu hefti í Superman heiminum fjölluðu um Metropolis þar sem aðrir einstaklingar reyndu að fylla í eyðuna sem Superman skildi eftir. Þar að auki voru stofnuð trúarsamtök um ofurhetjuna góðu. Loks tókst Superman að snúa á dauðann sjálfan með aðstoð föður síns heitins, Jonathan Kent. Þetta er ekki sú saga.

Í teiknimyndinni Superman: Doomsday hafa Superman og Lois Lane átt í ástarsambandi í sex mánuði, án þess að hann þori að gefa upp að hann sé í raun Clark Kent. Lois Lane gerir sér auðvitað fulla grein fyrir því hver hann er, en sárnar að hann vill ekki treysta henni fyrir leyndarmálinu. Þau sofa saman í Virki einsemdarinnar, þar sem Superman býr, en þar er einnig vélmenni ég hafði aldrei séð áður í Superman heiminum, og minnir það helst á Alfreð, þjón Batman.

Þegar Luthercorp, alþjóðlegt fyrirtæki Lex Luthor, finnur geimskip grafið djúpt í iðrum jarðar, og hleypir óvart út skrímslinu Doomsday, þarf hetjan að gefa sig allan til að stoppa hann Það endar með að hann fórnar eigin lífi til að jarða stöðva skrímslið. Þar með er Superman allur.

Nokkrum mánuðum síðar virðist Superman vera risinn aftur, en raunin er sú að Lex Luther hefur tekist að klóna blóð úr Superman og rækta úr því ofurmenni sem hlýðir honum skilyrðislaust. Hann ætlar að framleiða her ofurmenna til þess að leggja undir sig heiminn. Aðeins Luis Lane og Jimmy Olsen standa í vegi fyrir honum.

En vélþjónninn í virki einsemdarinnar heyrir hjarta Superman slá á nokkurra vikna fresti, og heldur í þá von að það geti vakið ofurhetjuna aftur til lífsins. Tekst að vekja gamla góða Superman aftur til lífsins?

Þetta er ljómandi vel gerð teiknimynd fyrir utan eitt smáatriði sem mér fannst gífurlega pirrandi. Það er hvernig andlit Superman/Clark Kent var teiknað, með grófu pennastriki nánast frá munnviki upp í gagnauga. Án þessa eina pennastriks hefði mér líkað betur við teikningarnar, en þetta er óskiljanlegt og stílbrot sem kemur mjög illa út. Í stað gamla góða Superman stílsins í anda Max Flescher, er Superman orðinn að Anime veru. Fyrir utan það er myndin tæknilega mjög góð.

Verst þótti mér þó að ekki var fylgt upphaflegu sögunni, þar sem fylgst var með afhjúpun Doomsday sem skrímsli og síðan hvernig Superman var syrgður af öllum hinum ofurhetjunum, og síðan hvernig fjórir ólíkir einstaklingar reyndu að komast með tærnar þar sem hann hafði hælana.

Annars er þetta ágæt teiknimynd. Engin klassík þar sem að gullnum tækifærum var augljóslega hafnað til að gera einfaldara og aðgengilegra skemmtiefni.

 

Sýnishorn úr Superman: Doomsday:

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæll. En merkilegt. Ég var að leita af mynd sem ég sá í tengslum við þessa "frétt" um dauða Superman. Myndin er þannig að hjá Superman standa nokkrar af hetjunum sem kveðja súperman. Veistu um þessa mynd?

Sveinn Hjörtur , 8.12.2007 kl. 17:55

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég man ekki til þess að gerð hafi verið teiknimynd um dauða Superman þar sem fjölmargar ofurhetjur eru við jarðarförina. Hins vegar er jarðarför hans í teiknimyndaseríunni World Without a Superman.

Svo er líka fullt af ofurhetjum í jarðarför hinnar dúndurgóðu bókar Identity Crisis. En þar var minnir mig eiginkona ofurhetju myrt:


Annars hefur Superman dáið nokkuð oft á ferlinum, en dauði hans gegn Doomsday þótti sá áhrifaríkasti.


Hrannar Baldursson, 8.12.2007 kl. 18:15

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Alltaf gaman af hetjum. Ég las mikið af svokölluðum "Sígildu sögum" þegar ég var krakki. Mikið rosalega var þetta spennandi heimur að kynnast. 

Ásdís Sigurðardóttir, 8.12.2007 kl. 20:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband