Það er mikilvægt að standa vörð um kristið siðferði, en án áróðurs, predikana og trúboðs

Siðmennt og skynsamlegar forsendur borgaralegrar fermingar

Fyrir rúmum áratug kom ég að skipulagi Siðmenntar um borgaralega fermingu og hélt námskeið fyrir unglingana í siðfræði. Síðan flutti ég til Mexíkó og var þar í fjölda ára. Í fyrra heimsótti ég nokkra hópa sem voru í undirbúningsnámskeiði hjá mínum ágæta félaga, Jóhanni Björnssyni.

Þegar ég ræddi fyrst við Hope Knútsson, eina af frumkvöðlum siðmenntar og núverandi formann félagsins, um þessi mál, þá skildi ég hana þannig að hún hafði áhyggjur af því að börnum sem koma erlendis frá, og fylgi öðrum trúarbrögðum en lúterskri kristni skuli vera mismunað á trúarlegum grundvelli í íslensku þjóðfélagi. Til að mynda var mikið um það að börn fermdust meira vegna félagslegs þrýstings og löngun í gjafir og stóra veislu, heldur en til þess að meðtaka kristnina. Hvað um öll börnin sem ekki voru kristin að upplagi, eða jafnvel trúlaus, af hverju mættu þau ekki fá veislu líka eins og öll hin börnin?

Ákveðið var að stofna til borgaralegrar fermingar, þar sem börn með aðrar forsendur fengju tækifæri til að sækja námskeið í siðfræði og við útskrift færi fram borgaraleg fermingarathöfn, sem ætti meira skylt við manndómsvígslu en trúarlega athöfn. Það hefur nefnilega oft verið sagt við fermingar að nú sér börnin komin í fullorðinna manna tölu. Önnur börn en þau sem meðtaka kristna trú mega líka fá tækifæri til að teljast í fullorðinna manna tölu. Sjálfsagt mál. Því hef ég stutt borgaralega fermingu.

Það skiptir ekki máli hvort þú sért kristinn, trúlaus eða fylgir öðrum trúarbrögðum. Allir geta tekið þátt í námskeiði til borgaralegrar fermingar. Enginn er útilokaður.

Trúboð eða trúfræðsla bönnuð í skólum? 

Nú er ég að heyra fréttir sem ég á bágt með að trúa, að Siðmennt standi fyrir því að koma í veg fyrir að prestar mæti í skóla og boði eða fræði um kristna trú. Ég sé ekki hvað er að því, svo framarlega sem að múslimum, buddatrúar, trúleysingjum, gyðingum og vísindatrúarmönnum sé einnig leyft að halda slík erindi. Aukin þekking er bara til góðs fyrir börnin, og að fá presta til að fræða um kristnina er að mínu mati hið besta mál, en þá verður líka að gefa hinum sem vilja deila öðrum fagnaðarerindum aðgang.

Umfram allt verður þó að hlusta á börnin sjálf og gefa þeim ráðrúm til að velta þessum hlutum fyrir sér. Ef þau fá aldrei tækifæri til að velta siðfræðilegum spurningum fyrir sér, er ekki hægt að búast við að fá manneskjur út úr skólum sem bera nokkra virðingu fyrir siðferðilegum viðmiðum, hvorki þeirra eigin né annarra. Að fá ekki tækifæri til að móta eigin hugmyndir um rétt og rangt, sanngirni og réttlæti, frelsi og haftir, hamingju og böl; er í sjálfu sér eitt það skaðlegasta sem hægt er að gera börnum. Munum hvernig hægt var að sneiða á skipulegan hátt alla siðferðisvitund úr börnum Hitleræskunnar, ekki viljum við endurtaka þann leik á Íslandi 21. aldarinnar, eða hvað?

Walt Disney teiknimynd um Hitleræskuna, Education for Death, nokkuð sem við viljum forðast vona ég:

 

Það er pláss fyrir þessi mál í lífsleiknitimum einu sinni í viku, sem mér finnst reyndar að ættu frekar að vera heimspekitímar fyrir börn, þar sem margsannað er hversu góð áhrif heimspekinám hefur á hugfimi þeirra sem stunda slíkt nám. Þar fengju börnin tækifæri til að ræða málin og hugsa um þau út frá eigin forsendum, hlutsta á ólíkar hugmyndir, en fyrst og fremst mynda eigin skoðanir um þau. Það þarf töluverða hæfni til af kennarans hálfu til að stjórna slíkri fræðslu, en hún er því miður af skornum skammti á Íslandi í dag. Vil ég benda á þá íslensku fræðimenn sem lagt hafa stund á heimspekifræðslu fyrir börn sem einstaklinga sem geta gert góða hluti í þessum málum fáu þau tækifæri til.

Af hverju að banna prestum að mæta í skóla til að fræða börnin um kristnina? Getur það verið vegna þess að öðrum trúfélögum er ekki hleypt inn í skólana og að Lútherska kirkjan fengi þannig einokunarvald að trúgjörnum börnum? Er þetta spurning um jafnrétti trúfélaga?

Ég vil ekki banna aðgang að neinu formi þekkingar fyrir börnin, en finnst varhugavert ef þau fá einungis að heyra eitt sjónvarmið, og alls ekki vil ég að þetta sjónarmið sé útilokað nema sannað sé að um misnotkun og predikun sé að ræða, þar sem börnin fái ekki tækifæri til að hugsa málin á eigin forsendum. Þau eiga að fá tækifæri til að ræða saman og velta þessum hlutum fyrir sér, á stað þar sem enginn segir þeim hvað er rétt eða rangt að halda eða trúa í þessum efnum. 

 

Kristilegt siðferði er ekki það sama og kristilegt trúboð 

Gagnrýni á kristilegt siðferði í skólum missir að mínu mati algjörlega marks, þar sem ég sé skýran greinarmun á kristnu siðferði annars vegar og kristnu trúboði. Frá árinu 1000 þegar Íslendingar voru neyddir til að taka kristna trú hafa Íslendingar lifað sáttir við að borga 10% af eignum sínum árlega til kirkjunnar, og með þessum fjármunum byggt kirkjur og prestastétt sem jafnvel hefur tryggt áframhaldandi viðveru sína í íslensku stjórnarskránni. 

Áður en kristilegt siðferði tók gildi á Íslandi var hefðarsiðferði í gildi þar sem reglan auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, og líf fyrir líf gilti og allt logaði í óeirðum og eymd vegna þess að fólk var sífellt að finna ástæður til að vera ósátt hvert við annað. Eina mögulega fyrirgefningin fólst í að greiða sekt, jafnvel fyrir manndráp. Með kristninni var fyrirgefningin boðuð, að í staðinn fyrir að ráðast strax á þann sem pirrar þig, gætirðu gefið af þér smá umburðarlyndi og jafnvel ekki bara fyrirgefið náunganum, heldur sýnt væntumþykju í hans garð. Þetta er undirstaða kristins siðferðis; þetta umburðarlyndi, væntumþykja í garð náungans og það að geta fyrirgefið þínum skuldunautum.

Á þessu siðferði hefur íslenskt samfélag byggst í þúsund ár. 

Breyttir tímar 

Tímarnir breytast og mennirnir með. Nú heyrir maður frá unglingum að ef einhver meiðir vin manns á einhvern hátt, þá skuli safna liði og berja í klessu þann sem gerði óskundann. Ef ekki tekst að ná í þann sem verknaðinn  framdi, þá sé réttlætanlegt að buffa vini þess einstaklings eða systkini. Er þetta viðhorf sem við viljum að sé ríkjandi af náttúrunnar hendi meðal framtíðarþegna Íslands?

Þetta viðhorf er nokkuð ríkt meðal þeirra unglinga sem ég hef rætt við um siðferðileg málefni, og ég hef haft áhyggjur af þessu en ekki predikað um það, þar sem að predikun er ekki mitt fag, heldur að uppgötva svona hluti , íhuga og ræða um þá.

Í kjölfar þess að hrun hefur verið í kennarastéttinni, bæði að margir hæfir kennarar hafa horfið frá kennslu og almennir borgarar hafa frekar agnúast út í kennara frekar en stutt þá, og gangavarsla í skólum og almenn gæsla er í uppnámi, hafa agavandamál stöðugt aukist í skólakerfinu. Börnin og unglingarnir leysa sín vandamál sjálf. Þau fá enga siðfræðikennslu, og taka lítið mark á trúarbrögðum, og vandamálin eru ekki leyst, heldur einfaldlega aukið við þau með auknu ofbeldi og einelti. Mín tilfinning er að mörg börn séu mjög einmana í íslensku skólakerfi í dag, þau fá ekki nóga athygli og er einfaldlega hent út í djúpu laugina. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.

Aftur að kristnu siðferði. Ég tel vera mun á kristilegu siðferði og boðskap kirkjunnar. Kristilegt siðferði byggir á viðmiðum sem ganga yfir alla, eins og: þú skalt ekki ljúga, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki drepa, þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig. Þetta hittir í mark hjá mér. Hins vegar ef ég fer í messu og heyri predikanir um hversu syndugt fólk er og að það þurfi að leita fyrirgefningar þeirra, slíkt missir algjörlega marks hjá mér, enda finnst mér slíkar predikanir fjarstæðukenndar og fullar af alhæfingum sem eiga einfaldlega ekki við fyrir skynsamar manneskjur. 

Kristilegt siðferði að mínum dómi byggir einmitt á þeirri meginreglu að maður skuli gera fyrir náungann það sem maður vill að náunginn geri fyrir sig, og ekki gera náunganum það sem maður vill ekki að náunginn geri sér. Þetta finnst mér skynsamleg viðmið.

Mér finnst mikilvægt að fólk sýni hverju öðru umhyggju og hlusti hvert á annað, beri virðingu fyrir skoðunum hvert annars og dæmi ekki aðra fyrir skoðanir sínar.

Viðmið eru eitt, reglur annað 

Allt þetta skil ég sem kristilegt siðferði. Þegar þessi viðmið eru gerð að reglum sem þarf að predika fyrir fólki eins og það séu einhverjir heimskingjar fer hins vegar allt í hundana.

 

Úr stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands: 

"Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda."

"Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu."

"Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu."

"Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að."

"Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borðið að greiða til trúfélags síns. Breyta má þessu með lögum."

"Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti."

 

Áhugaverðar bloggfærslur um þessi mál:


mbl.is Áfram deilt um Krist í kennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk fyrir þessa frábæru og yfirveguðu grein. Þetta er verðugt innlegg í þessa annars oft afvegaleiddu umræðu, sem einkennist af viljandi og óviljandi misskilningi út og suður.  Erfitt að slíta þetta niður úr hásterti tilfinningarakanna, en það tekst þér hér.

Kannski er eins farið með þessa umræðu og Guð sjálfann, sem á sér svo margar skýringar og form að það má segja að hver hafi sína mynd í kollinum.  Þessi misjafni skilningur á þessu loftkennda hugtaki fær mann til að velta því fyyrir sér hvort Guð er ekki bara mis-skilningur, þegar öllu er á botninn hvolft.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.12.2007 kl. 13:57

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Þú getur varla verið að meina það að þú sjáir ekki anmarka þess að hleypa öllum trúfélugum landsins inní skólana til að fræða eða boða trú sína.  Slíkt getur ekki gengið því þá færi mikilvægur tími kennslunnar í að liðka fyrir og hleypa inn trúarstarfsemi.  Þetta gengur ekki, rétt eins og það gengur ekki að hleypa stjórnmálaflokkum inn í skólastofur.  Skólinn er vettvangur barna og kennara þeirra, ekki einkafélaga eða ríkjandi trúfélags, þó ríkisrekið sé.

Börn á gagnfræðastigi eru oft með málfundafélög og þar geta þau boðið ýmsum utan skólanna til að hlusta á viðhorf þeirra og stefnur. 

Vinsamlegast kynntu þér samþykktir Mannréttindanefndar SÞ og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í þessum málum.  Heimildir má finna á síðum Siðmenntar.   Bestu kveðjur - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 1.12.2007 kl. 15:58

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jón Steinar, kærar þakkir. Áhugaverð hugmyndin um að Guð sé bara hugtak flækt í endalausan misskilning.

Svanur. Ég held að vel mætti bjóða hinum ýmsu trúfélögum og jafnvel stjórnmálaflokkum líka inn í skólastofu. Ég held að það væri bara fróðlegt og skemmtilegt fyrir börn og unglinga að fá slík sjónarmið inn í skólastofuna. Það mætti t.d. gefa ólíkum flokkum og trúarstefnum 40 mínútur á viku í lífsleiknitíma til að kynna sín mál. Þar á eftir gætu nemendur rætt málin með kennurum sínum og sín á mill. Ég held að það sé mun farsælli kostur en að útiloka þessa hópa frá skólunum. Það þýðir ekki að trúarbrögð og stjórnmál yfirtaki skólana, heldur fá þau tækifæri til að fræða um starfsemi sína.

Hrannar Baldursson, 1.12.2007 kl. 16:20

4 Smámynd: Hilmar Einarsson

Þakka þér fyrir afskaplega gott innlegg í þessa umræðu.  Ég er virkur meðlimur í hinni evangelísk lúthersku þjóðkirkju Íslands og sem slíkur hefur mér runnið blóðið til skyldunnar að gagnrýna óverðskuldaðar og ítrekaðar árásir á kirkju og kristni og á köflum illmælgi gagnvart biskupi Íslands.  Ég hef m.a kynnt mér skrif Svans Sigurbjörnssonar sem reitar m.a. hér að framan.  Sjónarmið og framganga Svans og annara fylifiska hans haf verið afar óbilgjörn og árásagjörn gagnvart kirkju og kristni á Íslandi og þeir sem hafa vogað sér að mæla gegn þeim hafa fengið það óþvegið yfir sig.

Ég ítreka hjartans þakkir fyrir þitt innlegg.

Hilmar Einarsson, 1.12.2007 kl. 16:26

5 Smámynd: arnar valgeirsson

úff, þetta er rosalegur kálfur hjá þér maður... en vel gert.

ég setti spurningamerki við það þegar þú segir að það sé ekkert að því að fá presta til að koma í skólana en þú svaraðir því reyndar sjálfur. sé ekki alveg að formönnum annarra trúarbragða verði boðið í skólana á sama grundvelli.

svo er það jú þannig að prestar hafa lengstum séð um kristnifræði og nú líka trúarbragðafræði eða - sögu. það einfaldlega passar ekki. þá er maður nefnilega hlutdrægur, eða hvað.

"Þau fá enga siðfræðikennslu, og taka lítið mark á trúarbrögðum, og vandamálin eru ekki leyst, heldur einfaldlega aukið við þau með auknu ofbeldi og einelti. Mín tilfinning er að mörg börn séu mjög einmana í íslensku skólakerfi í dag, þau fá ekki nóga athygli og er einfaldlega hent út í djúpu laugina. Vonandi hef ég rangt fyrir mér".

vona að þú hafir rangt fyrir þér en held samt ekki. ekki öll börn en þvi miður alltof mörg.

ég er líka alveg sammála um að kristilegt siðferði sé í raun afar gott og fínt og ef okkur tækist að lifa eftir því væri minna vesen. en hinsvegar bendir jóhann björns á það að kristilegt siðferði er kristilegt siðferði vegna þess að trúin segi okkur það, vegna þess að við séum góð því guð vill að við séum góð. það er reyndar góður punktur hjá honum.

minn eldri ferndist borgaralega hjá siðmennt og ég var gríðarlega ánægður með framkvæmdina þar. sérlega góð fræðsla og tímar með heimspekilegum og siðferðilegum tón. hann ákvað þetta sjálfur þar sem hann var bara ekkert viss um hvort guð væri til - nú eða ekki - og ég var bara mjög stoltur af drengnum.

arnar valgeirsson, 1.12.2007 kl. 17:02

6 Smámynd: Ingólfur

Langur og skipulega framsettur pistill hjá þér. Það er margt sem mig langar til að svara en til að hafa þetta stutt þá ætla ég að láta það næga af hverju kristið siðferði á ekki heima í grunnskólalögum.

Í fyrsta lagi er engin ein rétt skilgreining á því hvað kristið siðferði er. Hið kristna siðferði sem er ríkjandi í mörgum ríkjum Bandaríkjanna er siðferði sem ég held að flestir Íslendingar mundu hafna. Eins segir hið kristna siðferði kaþólikka að það sé rangt að nota getnaðarvarnir. Vildum við að það væri ráðandi hér?

Siðferði þjóðarinnar hefur mótast allt frá landnámi og þar höfum við tekið bæði heiðna siði og kristna en einnig annarstaðar frá eins og lýðræði og mannréttindi. En við höfum einnig hafnað mörgum siðum, m.a. úr kristninni.

Er því ekki réttara að tala um íslenskt siðferði eða bara gott siðferði?

Önnur ástæða þess sem ekki ætti að nefna kristið siðferði sérstaklega í grunnskólalögum er sú að ákvæðið er notað sem rökstuðningur fyrir kristniboð í skólunum, og jú það er víst stundað kristniboð í skólunum.

Það að kynna trúarbrögð, og jafnvel leyfa prestum og forsvarsmönnum annara trúarhópa að koma til að svara spurningum barnanna og tala við þau um trú, er auðvitað alveg sjálfsagt fyrir skólan að taka þátt í.

En að kenna trúarbrögð eins þau séu eitthver sannleikur og að láta börning fara með bænir, að það er trúboð.

Það er þó að sjálfsögðu ekkert slæmt ef barn lærir bænir, en það er hlutverk foreldranna að sinna trúarinnrætingu og velja í hvaða trú þeir vilja ala barnið upp í, ekki skólanns að velja sjálfkrafa ríkistrúnna fyrir barnið. Það er einfaldlega mannréttindabrot.

Ingólfur, 1.12.2007 kl. 17:28

7 identicon

Ég er alltaf að spyrja að sama hlutnum en fæ aldrei svar, kannski þetta verði loka tilraun: Hvað er kristilegt siðferði?

DoctorE (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 18:40

8 Smámynd: Hrannar Baldursson

Hilmar: Þakka þér þakkirnar.

Arnar: Þú mátt vera stoltur af syni þínum fyrir að taka eigin afstöðu, sérstaklega þegar hann hefur gert sér í hugarlund að hann vissi ekki hvað hann vildi. Þá er einmitt alls ekki vitlaust að fresta ákvörðuninni til betri tíma. Það liggur ekkert á.

Ingólfur: Það er rétt athugað að engin ein rétt skilgreining er til á kristilegu siðferði frekar en ein rétt skilgreining er til á hugtakinu "leikur" eða hugtakinu "spil".  Þetta er vandamál sem sífellt kemur upp þegar tengdar eru saman hugmyndir, orð og hugtök. Þetta fer allt í einhverja flækju, sem við reynum að greiða úr með samræðum, og oft þegar við teljum okkur vera að tala um sama hlutinn, þá erum við kannski ekki með sömu meiningu í huga. En þannig eru mannleg samskipti.

DoctorE: Ég lofa ekki endanlegri skilgreiningu á hvað kristilegt siðferði er, eins og hægt er að lesa úr svari mínu til Ingólfs. Aftur á móti get ég sagt þér hver skoðun mín er. Þegar við lítum til siðfræði, þá skiptist hún oftast í tvær ólíkar stefnur; annars vegar "nytjahyggju" (eða raunhyggju) - (Utilitarianism) og hins vegar "sálarhyggju" (eða hughyggja) - (Transcendentalism). Ég tek fram að þetta eru ekki formlegar þýðingar á hugtökunum, heldur aðeins tilraun til að gera mig skiljanlegan á þeim forsendum sem ég skil þessi hugtök. 

Kristið siðferði hefur sálarhyggju sem forsendu, að allar manneskjur hafi sál og séu óendanlega verðmætar, að það sé ekkert sem réttlæti dráp á manneskju og að hverjum einstaklingi beri að gefa sem besta möguleika á ekki aðeins farsælu, heldur hamingjusömu lífi. Samkvæmt þessu siðferði er rangt að fórna einum eða fáum fyrir fjöldann. Þetta er það siðferði sem hefur verið ríkjandi í íslensku samfélagi í rúm þúsund ár. Til dæmis er ekkert sem réttlætir lygar eða þjófnað samkvæmt þessu, þar sem að ljúga eða stela skaðar sál þess sem verknaðinn fremur. Þá er algjört aukaatriði hvort að viðkomandi trúi á framhaldslíf eða ekki. Heilindi skipta miklu til að halda við góðri sál.

Nytjahyggjan er aftur á móti andstæð kristnu siðferði að því leyti að sálin skiptir þar engu máli. Það sem skiptir mestu er farsæld heildarinnar. Ef það þýðir að fórna þurfi einum eða fleiri einstaklingum til að heildin komist af, eða hafi það betra, þá er það réttlæatanlegt. Þetta er það siðferði sem virðist helst ríkjandi í viðskiptaheimi nútímans. 

Þannig að kristilegt siðferði í mínum huga er það siðferði sem byggir á þeirri grunnhugmynd að sálin sé óendanlegt verðmæti - og að meginviðmiðið (ekki reglan) í samskiptum manna sé gullna reglan, að gera öðrum það sem þú vilt að aðrir þér geri, eða gera ekki öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir þér geri.

Nú ertu búin(n) að fá svar DoctorE, en ég lofa ekki að það sé á allan hátt fullnægjandi. 

Hrannar Baldursson, 1.12.2007 kl. 19:08

9 Smámynd: Ingólfur

Ef það er þetta sem er átt við með kristnu siðferði, er þá ekki ráð að segja það frekar. Þ.e.a.s. grunnhugmyndina um að sálin sé óendanlega verðmæt? Reyndar vildi ég frekar hafa það þannig að lífið væri óendanlega verðmæt en þá um leið væri hvert líf jafn verðmætt.

Einnig er ég líka hrifinn af gullnu reglunni og finnst hún eiga vel heima í grunnskólunum, en hana er hins vegar að finna í flestum trúarbrögðum.

Ingólfur, 1.12.2007 kl. 20:21

10 Smámynd: Sigurður Hólm Gunnarsson

 Satt og logið um stefnu Siðmenntar

Ég hef ákveðið að taka saman á einn stað flestar (en ekki allar) þær greinar sem ég hef skrifað vegna rangfærslna um Siðmennt. Satt að segja er ég orðin þreyttur á að hrekja sömu rangfærslurnar ofan í oft sama fólkið aftur og aftur. Ég hvet lesendur því að lesa þessar greinar fyrst og gagnrýna svo stefnu Siðmenntar. Það fer ótrúlega mikill tími í að svara fyrir stefnu sem Siðmennt hefur alls ekki.

<a href="http://www.skodun.is/archives/2007/01/12/satt_og_logid_um_stefnu_sidmenntar.php">http://www.skodun.is/archives/2007/01/12/satt_og_logid_um_stefnu_sidmenntar.php</a>

http://www.skodun.is

Sigurður Hólm Gunnarsson, 1.12.2007 kl. 20:41

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Blessaður Ingólfur, þegar ég segi: "Kristið siðferði hefur sálarhyggju sem forsendu, að allar manneskjur hafi sál og séu óendanlega verðmætar", þá meina ég að manneskjur séu óendanlega verðmætar. Þetta er gott dæmi um hversu auðvelt er að misskilja.

Sigurður Hólm: Þakka þér fyrir tengilinn, Mér finnst þess virði að birta hérna fyrir neðan afbragðs pistil sem þú skrifaðir í gær:

Siðmennt er EKKI á móti litlu jólum eða kristinfræðslu

Kæru fjölmiðlamenn. Vinsamlegast komið þessu á framfæri:

Nánast alltaf þegar umræðan um trúfrelsi fer af stað birtast yfirlýsingar um Siðmennt &#150; félag siðrænna húmanista á Íslandi &#150; sem eiga ekki við rök að styðjast. Því miður eru þessi ósannindi stundum endurtekin af fjölmiðlamönnum gagnrýnislaust. Að gefnu tilefni vill ég sem stjórnarmaður í Siðmennt koma eftirfarandi á framfæri:

Á móti trúboði en með fræðslu
Siðmennt er á móti trúboði og trúaráróðri á vegum hins opinbera eða í opinberum stofnunum. Félagið telur að hið opinbera eigi að vernda rétt allra til lífsskoðana en eigi ekki hygla einum lífsskoðunum umfram önnur. Afstaða félagsins er í samræmi við afstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna og Mannréttindadómstóls Evrópu.

Eins og hefur komið fram margoft í málflutningi Siðmenntar er félagið alls ekki á móti fræðslu um trúarbrögð. Siðmennt telur enn fremur eðlilegt að sértök áhersla sé lögð á fræðslu um kristin trúarbrögð vegna sögulegrar tengsla við íslenska þjóð. Þar að auki hefur félagið ekkert á móti því að haldið sé upp á jól eða aðrar hátíðir í skólum svo lengi sem slíkar hátíðir eru lausar við trúboð (fullyrðingar um annað í fjölmiðlum eru rangar). Það er vitaskuld ekkert að því að skreyta jólatré, gefa gjafir, teikna jólasveina og borða kökur. Við teljum þó óviðeigandi að börn séu látin fara með bænir eða trúarjátningar í opinberum stofnunum. Foreldrar eru fullfærir um að innræta börnum trúarskoðanir kjósi þeir það.

Undarleg ummæli biskups og menntamálaráðherra
Ég er satt að segja hneykslaður á ummælum Karls Sigurbjörnssonar, biskups, í 24 stundum í dag. Í blaðinu segir biskupinn að Siðmennt sé &#132;hatrömm samtök." Slík ummæli hljóta að skjóta skökku við þegar Siðmennt hefur lagt áherslu á mannréttindamál og jafnrétti allra, þ.m.t. samkynhneigðra. Á sama tíma hefur Þjóðkirkjan og/eða einstaka fulltrúar hennar stundum barist gegn þessum almennu jafnrétti og mannréttindum. Að auki hefur Siðmennt lagt metnað í að fjalla um öll mál á yfirvegaðan og gagnrýnin máta. Þrátt fyrir að Þjóðkirkjan hafi staðið gegn ýmsum mannréttindamálum hefur fulltrúi Siðmenntar aldrei kallað Þjóðkirkjuna &#132;hatrömm samtök".

Að sama skapi er ég undrandi á orðum Þorgerðar Katrínar, menntamálaráðherra, sem einnig eru að finna í 24 stundum. Hún heldur því blákalt fram að Siðmennt vilji leggja af litlu jólin og banna jóla- og páskafrí. Þessar fullyrðingar ráðherrans eru ekki í neinu samræmi við stefnu og málflutning Siðmenntar. Siðmennt hefur barist gegn trúboði og trúarinnrætingu í opinberum skólum. Flóknara er það ekki. Ég hefði haldið að talsmenn einstaklingsfrelsis og andstæðingar mikilla ríkisafskipta á þingi væru sammála þessu.

Sjá nánar:
Frétttatilkynning Siðmenntar vegna frumvarps menntamálaráðherra

Með vinsemd og virðingu
Sigurður Hólm Gunnarsson
Stjórnarmaður í Siðmennt

Hrannar Baldursson, 1.12.2007 kl. 21:19

12 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég er kona uppalinn í kristinni trú, lærð Kristnifræði í barnaskólanum heima, er skýrð, fermd, gift, ekkja ,móðir, og gift aftur. Hef skoðan margar hliðar trúarinnar en það sem hefur reynst mér best og mun duga mér allt mitt líf er hin kristna trú sem ég fékk í mínum föðurhúsum og í skólanum mínum, hefði hugur minn stefnt í aðra átt, eins og hann reyndar gerði um tíma þegar ég var 15-17 ára, þá hefði ég fylgt því, en ég er það sem ég er og mun halda mig við það, þessi trú mín gefur mér huggun og lífsfyllingu

Ásdís Sigurðardóttir, 2.12.2007 kl. 00:48

13 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

þegar ég var í MH var öllum stjórnmálaflokkum boðið að halda "tölu"...það var ógleymanlegt...alveg frábært! Hefði þó ekki verið frábært bara með einn flokk!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 2.12.2007 kl. 02:50

14 identicon

You did it again!

Enn og aftur þrælgóður pistill hjá þér sem vonandi fær flesta til að hugsa málin en það er greinilegt að margir sem kvittuðu hér fyrir ofan virðast ekki færir um að setja tilfinningarnar til hliðar í þessari umræðu og það er í raun sorglegt.

Rak líka augun í það að það var vitnað í pistilinn frá þér um fordóma í Morgun- eða Fréttablaðinu þann 17. nóv sl og það fannst mér gott því sá pistill var ekki síðri þessum.

Gerða M (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 12:02

15 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Sé bara við "skönnun" að þetta er mjög vert innlegg í umræðuna þessa dagana og vel þess virði að lesa með athygli í betra tómi. Takk fyrir þetta.

Greta Björg Úlfsdóttir, 2.12.2007 kl. 12:35

16 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll aftur Hrannar

Þú segir að þú sjáir ekkert á móti því að leyfa skipulega kynningu trúar- og stjórmálaflokka í skólum og ert þá væntanlega að meina framkvæmd sem skilaði jöfnum tíma fyrir hvern.  Ég tel þetta ekki praktíst og vil að fræðslan sé í höndum kennarana.  Hins vegar ef þetta væri gert sé ég ekki að núverandi lög geti þá staðið með merkimiða eins trúfélags.  Með því að taka út orðalagið "Kristið siðferði" er ekki verið að ráðast á það sem slíkt, heldur gæta þess að lögin séu veraldleg og þjóni öllum landsmönnum, ekki bara sumum, þó að í  meirihluta séu.  T.d. gengur ekki að setja við lög klásúlur eins og "í Jesú nafni, amen". 

Einnig er ekki um að ræða að minnihluti sé að níðast á meirihluta því breytingin felur í sér að ekkert trúfélag eða lífsskoðunarfélag geti notið sérréttinda og níðist þannig ekki á öðrum.   Líkt og í almennum lögum og sáttmálum SÞ um mannréttindi er ekki um neina eyrnamerkingu á réttindum eða siðferði að ræða.  Siðferðisgildin sjálf standa sem slík og höfða þannig til alls fólks. 

Svanur Sigurbjörnsson, 2.12.2007 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband