Namibíuferðin - Færsla 2

Dagur 1

Síðast þegar til okkar spurðist vorum við á Gatwick flugvelli þar sem við biðum í sjö klukkustundir eftir næsta flugi. 

Eftir tíu tíma langt flug í gríðarstórri AirBus þotu, sem hefur átta sæti í hverri röð, lentum við í Windhoek, höfuðborg Namibíu, um kl. 8 að morgni á namibískum tíma, með sæmilegt rassæri og misjafnlega mikinn svefn. Við fórum úr flugvélinni, niður brattar tröppur, og fyrsta sýn okkar af Afríku tók við. Átta öryggisverðir mynduðu línu sem vísaði farþegunum réttu leiðina að flugstöðvarbyggingunni. Þessi víðfeðmi flugvöllur var auðn, fyrir utan eina aðra flugvél sem stóð nálægt flugstöðvarbyggingunni. Landslagið fannst mér frekar gulleitt og gegnum mystrið mátti sjá glitta í fjallstinda sem gnæfðu yfir sléttunum.

Vilhjálmur Wiium tók vel á móti okkur fyrir hönd Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Namibíu. Hann fór með okkur beint á Hotel Safari þar sem við náðum mikilvægri hvíld, enda var þreytan eftir langt flug mikil. Þar biðu okkar Henrik Danielsen og Omar Salama.

Eftir hvíldina lá leiðin á skrifstofu Sendiráðs Íslands í Namibíu þar sem við fengum afhenta uppfærða dagskrá af áætlun okkar.

Fyrst á dagskránni var heimsókn í þýskan einkaskóla. Hópurinn fór á staðinn og gaf aðstoðarskólameistara góðar gjafir; myndabók um náttúru Íslands, íslenska fánann, fána Kópavogs, penna og nælur frá Kópavogsbæ og nokkra bæklinga og bæinn þar sem best er að búa. Aðeins þrír nemendur sem eru í skákliði þýska skólans voru viðstaddir. Omar Salama sýndi skemmtilega skák með Judit Polgar; og síðan ræddi undirritaður við nemendurna um það hvernig leiðin lá að heimsmeistaratitlinum og hvers konar vinna lá að baki. Eftir það flutti Henrik Danielsen skemmtilegan fyrirlestur um mistök og einbeitingu í skák; þar sem hann skilgreindi þrjár gerðir mistaka:

  1. afleikur
  2. almenn mistök
  3. ónákvæmni

Þetta þótti mér afar áhugavert og ég fann í fyrirlestrinum að Henrik er á nákvæmlega sömu línu og ég þegar kemur að kenningum um skák.

Eftir fyrirlesturinn sýndu nemendur okkur skólann, en áhugaverðast fannst mér að sjá venjulegar skólastofur, sem Páli Andrasyni varð að orði að væru hvorki jafn fallegar né stórar og íslenskar skólastofur.

Nú lá leiðin í stórmarkað þar sem keypt var slatti af vatni og dóti sem gleymst hafði að taka með frá Íslandi; og eftir það lá leiðin á veitingastaðinn Joe's Beerhouse, eða Bjórhús Jóa. Þrátt fyrir nafnið er þetta afar glæsilegt veitingahús sem skreytt er á skemmtilegan hátt; til dæmis með gömlum hjólbörum, stígvélum og reiðhjólum sem hanga úr loftinu. Í húsið komast að minnsta kosti 200 manns, það er með stráþaki og grófu gólfi. Borðin eru líka hátt uppi og við þau eru einnig háir bekkir, sem þarf bókstaflega að vaða yfir fyrir góða aðkomu.

Villi Wiium stakk upp á rétti sem kallaður er Bushman's Spear, eða Spjót runnamannsins. Það er langur teinn með fimm ólíkum kjötréttum og nokkrum grænmetisréttum; það merkilegasta og mest spennandi var að sjálfsögðu kjötið sem teinninn geymdi, en á honum var kjúklingur, antílópa, sebrahestur, krókódíll og strútur. Kjúklingurinn fannst mér bara venjulegur á bragðið, sebrahesturinn allt í lagi, krókódíllinn smakkaðist eins og saltfiskur, antílópan með sérkennilegu en afar góðu bragði og síðan var strúturinn hrein snilld; eins og blanda af kjúklingi og nautalundum, - með bragði sem situr enn í munninum og tilhugsunin gerir ekkert annað en að fylla góminn af vatni á ný.

Birkir Karl og Jóhanna Björg sýndu það mikla hugrekki að borða allt af teininum; en aðrir pöntuðu sér venjulegri mat og sumir snertu varla á góðmetinu.

Fóru svo allir sáttir í háttinn.

 

Meira síðar... 

 

Athugasemd: Myndir koma síðar því að netsambandið á hótelinu er alltof hægt og lélegt fyrir myndir af jafnfallegu fólki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég bjó einu sinni þarna í Windhoek fyrir 11 árum.  Faðir minn var þá að vinna á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Það var virkilega æðislegt að vera þarna og allt önnur menning en sú sem maður býr við! Mér finnst æðislega flott af stofnuninn að bjóða ykkur út  og vonandi eigið þið eftir að njóta Namibíu til hins ýtrasta!! Því hún hefur sko margt fallegt og öðruvísu uppá að bjóða

Kveðja, fyrrverandi Namibíubúi

Ásgerður Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband