Namibíuferðin - Færsla 1

Á myndinni eru: Aftari röð - Sighvatur Björgvinsson, framkvæmdastjóri Þórunarsamvinnustofnunarinnar, Davíð Ólafsson, Hellismaður og fyrrum Namibíufari, Kristian Guttesen, Hróksmaður og fyrrum Namibíufari, Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs; Fremri röð: Páll Snædal Andrason, Birkir Karl Sigurðsson, Guðmundur Kristinn Lee, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Patrekur Maron Magnússon

 

Þróunarsamvinnustofnun Íslands bauð heimsmeisturum grunnskóla í skólaskák undir 14 ára aldri, Salaskóla, í ferð til Namibíu, þar sem hópurinn mun meðal annars heimsækja nokkra skóla, eignast vinaskóla, kenna skák, halda fjöltefli, tefla á skákmótum og kynnast landi og þjóð.

Við lögðum af stað í morgun með British Airways frá Keflavíkurflugvelli. Ekki byrjaði ferðin gæfulega þar sem við fengum ekki miðana afgreidda fyrr en 15 mínútum fyrir brottför og halda þurfti vélinni. Málið er að flugmiðarnir okkar voru allir keyptir í einni greiðslu með VISA korti í Namibíu og þar sem upphæðin þótti grunsamlega stór tók fjármálaeftirlitið í Namibíu sig til og setti kortið á svartan lista; þannig að þó að búið væri að borga ferðina var ekki hægt að fá hana afgreidda, eða greiða með einu korti. Þetta þýddi um tveggja tíma töf, sem börnin stóðu af sér eins og sönnum heimsmeisturum sæmir; með stóískri ró þrátt fyrir sívaxandi áhyggjur.

Við erum stödd á Gattwick flugvelli á Englandi, en tökum næstu vél beinustu leið til Namibíu kl. 21:30. Hegðun barnanna er algjörlega til fyrirmyndar, en þau kusu Patrek sem liðsforingja ferðarinnar; sem ber þá ábyrgð á öllum samskiptum milli fararstjóra og barnanna; og tekur þátt í að viðhalda góðum aga.

Þeir sem fara til Namibíu:

1. borð: Jóhanna Björg Jóhannsdóttir

2. borð: Patrekur Maron Magnússon

3. borð: Páll Snædal Andrason

4. borð: Guðmundur Kristinn Lee

5. borð: Birkir Karl Sigurðsson

Fararstjórar: Tómas Rasmus og Hrannar Baldursson 

Við förum til Namibíu með gjafir frá Skáksambandi Íslands, Kópavogsbæ, Þróunarsamvinnustofnun Ríkisins, Salaskóla og foreldrum barnanna; sem staðið hafa traust við bakið á sínum börnum. Taflfélagið Hrókurinn, undir traustri stjórn Hrafns Jökulssonar átti frumkvæðið að þessu samvinnustarfi sem hefur verið í gangi síðustu þrjú árin. Íslenski stórmeistarinn Henrik Danielsen og egypski skákmeistarinn Omar Salama, eiginmaður Lenku, norðurlandameistara kvenna; bíða eftir okkur í Namibíu. 

Edda Sveinsdóttir, móðir Jóhönnu, hefur sýnt mikið frumkvæði og drifkraft við skipulag  bæði ferðarinnar á Heimsmeistaramótið í júlí og núna til Namibíu, og sendi ég henni þakkarkveðju; svo og öllum þeim sem staðið hafa við bakið á okkur, samfagnað árangrinum og tekið þannig þátt í þessu ógleymanlega ævintýri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: arnar valgeirsson

Sendi kærar kveðjur til krakkanna og Patrekur sinnir fyrirliðastöðunni, utan vallar, með stæl. Þetta verður mikið ævintýri og ég er viss um að þið standið ykkur með miklum sóma, öll sem eitt.

Vona að Grænlandsferðin komi öllum til góða, þetta verður væntanlega ekki minna framandi. Þið eruð flottir fulltrúar og berðu Henrik bestu kveðjur mínar.

Annars eruð þið orðin svo miklir heimsborgarar að smá tafir og vesen setja engan á hliðina..... góða ferð.

Arnar

arnar valgeirsson, 12.9.2007 kl. 23:45

2 Smámynd: Björn Zoéga Björnsson

Góða ferð  þið og Þróunarsamvinnustofnun Íslands eigið þakkir skildr fyrir þetta verkefni. Ég bjó í Namibíu í 4 ár og veit af eigin reynslu hverju svona verkefni skila. Kveðja til Namibíu

Björn Zoéga Björnsson, 13.9.2007 kl. 14:28

3 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Góða ferð og til hamingju með ykkar góða árangur.

Steingerður Steinarsdóttir, 13.9.2007 kl. 16:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband