Transformers (2007) **1/2
19.8.2007 | 10:54
Transformers er byggð á teiknimyndaseríu sem var byggð á japönskum leikföngum. Leikföngunum var auðveldlega hægt að umbreyta úr vélmenni í einhvers konar fararæki og aftur í vélmenni. Þessar breytingar voru leystar á mjög flottan hátt í teiknimyndunum; en mér fannst þessar umbreytingar ósannfærandi og frekar slakar í kvikmyndinni, auk þess að vélmennin eru frekar illa hönnuð og beinlínis ljót, en samt er gert mikið upp úr því að breytingarnar séu svakalega flottar og fólk ætti að segja, "vá! en flott!"; það virkaði bara öfugt á mig.
Fyrir utan það eru tæknibrellurnar afbragsgóðar, sem og kvikmyndatakan þar sem að lykilskot gerast nákvæmlega við sólarupprás, þar sem vélar fljúga yfir aðalhetjurnar sem eru sýndar hægt, eins og í öllum kvikmyndum eftir Michael Bay; það mörgum að þetta er löngu orðin klisja, sem var reyndar eitt af skotmörkum Hot Fuzz (2007).
Sam Witwicky (mjög vel leikinn af Shia LaBeouf) er hormónagraður unglingur sem hefur bara eitt takmark í lífinu; að sofa hjá ofurskvísunni Mikaela Banes (Megan Fox) fallegustu stelpunni í skólanum, sem finnst ekkert skemmtilegra en að halla sér undir vélarhlífar bifreiða til að vekja losta hormónagraðra unglinga. Það eru bara tvö vandamál, hann vantar bíl til að heilla stelpuna og svo persónuleikann til að laða hana að sér. Það reddast þegar bíllinn sem hann kaupir sér er Bumblebee, einn af góðu umbreytunum (Autobots) sem hefur það hlutverk að vernda Sam gegn vondu umbreytunum (The Decepticons), vegna þess að sam hefur undir höndum gleraugu frá afa sínum sem inniheldur kort sem sýnir hvar sköpunarkubburinn er falinn; en sköpunarkubburinn breytir öllum tækjum sem hann snertir í illa umbreytinga.
Í Quatar eyðimörkinni ræðst illur umbreytingur á bandaríska herstöð til þess eins að hakka sig inn í tölvukerfið þeirra. Það tekst að eyðileggja tölvubúnaðinn áður en vélmenninu tekst að klára verkefnið. Síðar smyglar annað vélmenni sér inn í Air Force One, einkaflugvél bandaríkjaforseta, og tekst að stela nógu miklu af upplýsingum til að finna nafnið Witwicky í tengslum við uppgötvum sem afi Sam gerði á Norðurpólnum einhverjum hundrað árum áður; en það var staðsetning sköpunarkubbsins og Megatron, hins illa foringja þeirra umbreytinga sem gerðu uppreisn gegn hinum góðu og drepa allt sem þeir geta. Semsagt klassísk barátta góðs og ills; þar sem að þeir góðu eru verndarar alls lífs, en hinir illu vilja eyða því. Þeir góðu breyta sér alltaf í bíla og trukka og berjast með sverðum og í návígi; enda göfugir riddarar þar á ferð, en þeir vondu breyta sér í nýtísku hernaðartæki; skriðdreka, orustuþotur, þyrlur, og alls konar flottar græjur; með nýjustu vopnum og endalausum forða af skothylkjum, og ættu samkvæmt því að taka þá góðu í nefið.
Þó að persóna Sams sé vel skilgreind, þá eru umbreytingarnir það ekki. Maður veit hverjir þeir eru og þekkir persónuleika þeirra nokkurn veginn ef maður hefur séð teiknimyndirnar. Annars eru umbreytingarnir eins og þeir birtast í myndinni bara sálarlaus vélmenni sem annað hvort vernda eða eyðileggja. Persónuleikar þeirra eru klisjur og útlit; og ekkert lagt upp úr að gera þá trúverðuga; sem ég held að hefði sýnt frumefninu meiri virðingu og getað bætt myndina.
En við hverju býst maður af Michael Bay? Hann hefur gert eina frábæra bíómynd (The Rock, 1996), eina góða (Bad Boys, 1995) og fullt af miðlungsmyndum með flottum tæknibrellum og myndatöku. Það að hann gerði hina ógurlega löngu og leiðinlegu Pearl Harbor (2001) er næstum ófyirgefanlegt, því að sýnishornin fyrir þá mynd voru hrein snilld; en myndin sjálf var síðan grunn og flöt.
Transformers er fyrst og fremst Michael Bay mynd. Hasaratriðin eru glæsileg, en persónurnar grunnar. Ef það er þetta sem maður býst við frá Michael Bay, þá fær maður þetta. Reyndar bjóst ég við þessu og því kom myndin mér skemmtilega á óvart með sögunni um hormónagraða unglinginn sem var svo vel leikinn. Sum hasaratriðin eru mjög flott; en lætin eru svo gífurleg og bardagarnir svo tilgangslausir og yfirgnæfandi; og svo lítið um augnablik til að ná andanum; að ofgnótt hennar dregur úr áhrifamættinum.
Ef þú ferð á Transformers og býst við einhverju í líkingu við teiknimyndirnar, þá verðurðu fyrir vonbrigðum, því að þó umbreytingarnir heiti sömu nöfnum og hagi sér á svipaðan hátt og hafi samræmt útlit; þá vantar algjörlega persónuleika þeirra inn í myndina og það sem gerði þá heillandi. Það er mikið og lengi spilað inn á fórnarvilja Optimus Prime um að fórna lífi sínu til að eyðileggja kubbinn, sem er reyndar vísun í teiknimyndina Transformers: The Movie (1986), og reiknar vélmennið með að Sam, sem heldur á kubbnum geti hlaupið með hann yfir nokkrar götur og farið upp á efstu hæð byggingar til þess eins að láta einhverja þyrluflugmenn fá kubbinn; á meðan illu vélmennin hafa sýnt að þau geta lagt byggingar í rúst með því að klessa á þær og lagt hverfið í rúst með eins og einni sprengju.
Kubburinn er það sem gagnrýnandinn Roger Ebert kallar MacGuffin, hugtak sem Alfred Hitchcock notaði til að lýsa einhverjum hlut sem allir eru að eltast við en skiptir engu máli. Spielberg notaði þetta hugtak í Raiders of the Lost Ark (1981), en örkin var þar þessi MacGuffin. Þetta er tilvalin leið til að skapa persónum einhvern tilgang með því að vera þarna á skjánum; en yfirleitt er hún bara til að sýnast, rétt eins og í þessu tilfelli.
Snillingurinn John Torturro leikur lítið og skemmtilegt hlutverk í myndinni sem kaldrifjaður FBI fulltrúi sem hefur það verkefni að fylgjast með ferðum geimvera á jörðinni, og gefur nokkrum atriðum ferskan blæ, eins og reyndar í flestum þeim myndum sem hann tekur þátt í. Jon Voight gengur hins vegar í svefni gegnum sitt hlutverk sem varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Skilaboðin sem leikstjórinn sendir áhorfandanum eru nokkuð ljós. Það er ekkert flottari en bandaríski herinn og bandarískir hermenn. Þeir eru nógu öflugir til að sigrast á öllu illu, bæði á jörðinni sem og utan hennar. Þannig að segja má að Transformers sé fyrst og fremst öflugt áróðurstæki fyrir bandaríska herinn.
Ég mæli aðeins með Transformers fyrir aðdáendur Michael Bay og bandaríska hersins. Hún er ekki illa gerð, bara hávaðasöm og með grunna persónubyggingu. Aðrir geta sleppt henni án þess að þurfa að finnast þeir hafa misst af nokkru merkilegu.
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Deathproof 3 og hálf og þessi snilld 2 og hálf.
Hummm
jæja mismunandi er smekkur manna auðvitað en þetta er án efa besta poppkornsmynd sumarsins.
Vona að þú hafir nú séð hana í Krínglubío í Digital mynd og hljóði annað er hreinlega óásættanlegt
Ómar Ingi, 19.8.2007 kl. 17:17
OK... :(
Svolítið svektur núna...
Að minu mati var Transformers Snilld. Hún var:
Fyndin, flott og alltaf eithvað að gerast, Bjargaði hjá mér árinu frá því að ég sá 300.
Gott að vita að þú ert sammála mér að Spiderman 3 hafi verið léleg, en þessi er snilld, 9/10 hjá mér.
Tybalt (Max Gaurinn) (IP-tala skráð) 20.8.2007 kl. 02:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.