Segjum að ég kaupi mér gervihnattadisk og móttakara hjá EICO, og fengi mér áskrift að enska boltanum; gæti ég þá átt von á því að lögreglan vaði inn á heimili mitt og geri búnaðinn upptækan, vegna þess að ég væri að horfa á höfundarvarið efni.
Ég skil ekki hvernig sjónvarpsgláp getur verið lögbrot.
Höfundarréttur er ætlaður til að verja höfund efnis; ekki endursöluaðila. Þó að keypt sé frá upprunalegum höfundi, er ekki verið að skaða hann með slíkum kaupum; því get ég engan veginn séð hvernig þetta svokallaða lögbann getur staðist heilbrigða skynsemi eða lög.
Ef eigendur EICO sjá um endursölu á kortum sem notuð eru til að fá áskrift að SKY sjónvarpsstöðinni; hvað með það? Hvernig getur það skaðað nokkurn? Þegar verið er að tala um íslenska útsendingu, er þá ekki talað um útsendingu um íslenskar stöðvar? Þó að ég stundi viðskipti við fyrirtæki í Englandi, hver getur vogað sér slíkan hroka að banna mér það?
365 miðlar hafa síðustu daga gengið langt útfyrir skynsamleg mörk. Í stað þess að líta í eigin barm; lækka alltof hátt verð hjá sér og bæta þjónustu, eru þeir farnir að ráðast á fólk fyrir að leita annarra úrræða. Ég á ekki til orð. Þeir ættu að skammast sín.
Ég tek fram að ég á ekki gervihnattadisk og horfi reyndar lítið sem ekkert á sjónvarp, en borga afnotagjöld af því að ég á sjónvarpstæki.
Mér finnst þetta einfaldlega stórfurðulegt mál.
Ég er feginn að hafa engan áhuga á enskri knattspyrnu.
Til umhugsunar:
Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. (úr Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands)
Frétt í heild sinni af Eyjan.is um afleiðingar þessarar lögbannskröfu:
Lögreglan á Selfossi gerði húsrannsókn og lagði hald á tölvur og búnað hjá fyrirtækinu Skykort.com fyrr í vikunni vegna gruns um ólöglega sölu á áskriftum að sjónvarpsstöðvum Sky. Forsvarsmaður fyrirtækisins var handtekinn og yfirheyrður en látinn laus að því loknu.
Að sögn Þorgríms Óla Sigurðssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar á Selfossi, er tölvubúnaðurinn nú í rannsókn og er þar leitað upplýsinga um málið og starfsemi Skykort.com. Rannsókn á tölvunum lýkur væntanlega eftir helgi og verður framhald rannsóknarinnar og hvaða stefnu málið tekur ákveðið að því loknu.
Rannsóknin byggist á því að starfsemin brjóti gegn vernduðum réttindum höfundarréttarhafa - þ.e. íslenskra sjónvarpsstöðva sem keypt hafa einkarétt til að sýna á Íslandi sama efni og Sky sjónvarpsstöðvarnar hafa rétt til að sýna á Bretlandi og Írlandi, m..a. ensku knattspyrnuna. Talið er að 5-7000 íslensk heimili hafi búnað til að taka á móti sendingum Sky en áskrifendur eru líklega færri því að með búnaðinum er einnig hægt að taka á móti fjölmörgum stöðvum sem ekki læsa útsendingum sínum, svo sem CNN og Discovery.
Ætla að tryggja að enski boltinn berist um allt land á hagstæðum kjörum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þarfur og góður pistill hjá þér Hrannar. Það er með eindæmum hvernig þetta fyrirtæki hefur á undanförnum árum gengið fram í sókn sinni í íþróttaefni. Að halda því fram að þeir séu að verja höfundarrétt í þessu málið er eins og snúa faðirvorinu upp á andskotann.
Ég finn almenna reiði gagnvart þessari framgöngu 365 miðla og í mínum vina og kunningjahópi veit ég aðeins um einn sem ætlar að kaupa áskrift að enska boltanum. Það þó allt af hægt að fara á pöbbinn og horfa þar en annað betra býðst ekki.
Sveinn Ingi Lýðsson, 12.8.2007 kl. 08:02
Góðir punktar í þessu hjá þér, það er greinilegt að þá á að reyna að einoka þetta eins og allt annað, ég hef verið áskrifandi af stöð 2 frá upphafi og líkaði vel þangað til þetta okur byrjaði eins og t.d að ef þú kaupir fjölvarpið þá er verið að selja þér sjónvarpstöðvar sem eru fríar í gegnum gervihnött, hafa þeir leyfi til þess, ég bara spyr.
Tómas Sveinsson, 12.8.2007 kl. 10:31
Hrannar! Ef og því aðeins að Sky-sjónvarpsstöðin hafi selt 365 miðlum einkarétt á því að dreifa efni stöðvarinnar á Íslandi geta 365 miðlar skipt sér af því hvort aðrir selji aðgang að stöðinni. Ef Sky hefur selt 365 miðlum einkarétt á efni stöðvarinnar er við þá (stjórnendur Sky) að sakast í þessu máli að mínum dómi. Ef þau fyrirtæki sem selja kort frá Sky láta í veðri vaka við dreifingarstöðvar fyrirtækisins að kortin verði notuð einhvers staðar annars staðar en á Íslandi eru þau hugsanlega að sigla undir fölsku flaggi og gætu þurft að gjalda þess. Þannig lít ég á þessi mál og þó ég hafi gaman af að horfa á enska boltann þá er ég alls ekki tilbúnn til að borga mikið fyrir það.
Sæmundur Bjarnason, 12.8.2007 kl. 10:37
Þeir sem nýta sér þessa þjónustu nú þegar eiga hættu að fá tukta í heimsókn. Smáís, eru samtök myndrétt hafa, sem sagt dreifingar aðilana, þannig þetta hefur lítið að gera með höfundarrétt gera. Auðvita ná þeir ekki að stöðva þessa þróun, þó að það sé verið að stöðva þrjá aðila núna. Þá getur hver sem er keypt sér mótakar og kort í gegnum netið.
Málið er að Áskriftasjónvarp eins og við þekkjum með varðhund eins og Smáís, er úrelt fyrirbæri. Nútíma maðurinn hefur færni og getu til þess að raða saman eigin dagskrá. Dreifileiðirnar eru orðnar svo öflugar að það er ekkert mál fyrir dreifingaaðilina að bjóða upp á slíka þjónstu.
Annars horfði ég á leikina í gær í tölvunni minni í mjög góðum gæðum. Náði í forrittið Sopcast og horfði á leikin á sjónvarpstöðinni Star Sport. Svo í gær kvöldi kíkkti ég aðeins á Real Madrid-Sevilla. Hefði líka getað horft á leik í Brasilíu. Á sama tíma þú horfði kærastan mín á Prison Brake í gegnum Alluc sem er annað kerfi sem gerir neytendum kleift að horfa á þætti sem veitir í gegum netstraum.
Ingi Björn Sigurðsson, 12.8.2007 kl. 10:44
Frekar Barnaleg umræða hjá ykkur.
Sky og mögulega aðrar sjónvarpsstöðvar Kaupa útsendingarrétt að ákveðnu efni. Sem þýðir að við þurfum að kaupa áskrift af Sky. Sky endurselur svo útsendinguna eða efnið til innlendra aðila hér á landi, um leið skuldbindur Sky sig til að vera ekki í samkeppni við endursöluaðilann. Sem þýðir að Sky selur ekki áskrift í gegnum gerfihnött beint til Íslands, eða annar álíka markaða.
Sennilega er sá sem er að selja áskrift að Sky á Markaðssvæði sem hann hefur ekki gert samning fyrir að fremja lögbrot, fyrst og fremst. Þú sem neytandi telur þig vera versla af honum í góðri trú, og ekki við þig að sakast.
En sem sagt málið í hnotskurn er að menn eru aðallega vernda fjárfestingar sínar.
Svo eftirlæt ég hinum sem horfa "gjaldfrjálst" á Höfundarréttar varið efni í gegnum tölvur sínar, að eiga við samviskuna sína sjálfir.
Frjálst markaðsumhverfi gengur að miklu leyti út á að það sem markaðurinn er til í að borga fyrir vöru, það fær markaðurinn að borga. Ef ykkur finnst þetta vera of dýrt sem verið er að rukka fyrir Enska boltann, þá hafið þið val um að sleppa því að greiða áskrift að honum. Ef fólk hefði verið samstíga í því í upphafi að segja þetta er of dýrt og ekki fengið sér áskrift strax heldur beðið með að tryggja sér áskrift jafnvel fram yfir fyrstu leikina, þá hefði verðið sennilega komið eitthvað niður.
Það er svo sem alltaf hægt að treysta á Íslendinga, þeir þurfa alltaf að vera fyrstir til að vera með það nýjasta og flottasta sem fyrirfinnst. :)
Steinþór Ásgeirsson (IP-tala skráð) 12.8.2007 kl. 11:45
Ég var að kíkja á Samkeppnislögin. Án þess að vera lögmenntaður maður, þá sýnist mér samkvæmt þeim 365 miðlar gera sig seka um lögbrot.
11. gr.
Misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu er bönnuð.
Misnotkun skv. 1. mgr. getur m.a. falist í því að:
a. beint eða óbeint sé krafist ósanngjarns kaup- eða söluverðs eða aðrir ósanngjarnir viðskiptaskilmálar settir,
b. settar séu takmarkanir á framleiðslu, markaði eða tækniþróun, neytendum til tjóns,
c. viðskiptaaðilum sé mismunað með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannig veikt,
d. sett sé það skilyrði fyrir samningagerð að hinir viðsemjendurnir taki á sig viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna, hvorki í eðli sínu né samkvæmt viðskiptavenju.
Hrannar Baldursson, 12.8.2007 kl. 12:16
Steinþór. Þér finnst umræðan barnaleg. Það er hún í sjálfu sér því flestum finnst glórulaust í frjálsu markaðshagkerfi að fyrirtæki geti búið til einokun á markaði, burtséð frá höfundarréttinum.
Hvað finndist þér um það ef Baugur eða álíka fyrirtæki hefði einkarétt á allri sölu og dreifingu á morgunkorni! svo eitthvað barnalegt sé nefnt.
Maður í Holllandi sem langar til að sjá enska boltann getur valið úr fjölda gerfihnattarása sem dreifa honum, þ.e. eftir að hafa keypt sýningarréttinn af rétthafanum. Það er það sem málið snýst um. Að eigandi höfundarréttarinns fái sanngjarna þóknun fyrir sinn snúð. Ekki að tryggja einokunarfyrirtækjum öruggar tekjur.
Það er kjarni málsins.
Sveinn Ingi Lýðsson, 12.8.2007 kl. 12:36
Smáís eða hvað samtökin heita minna helst á hina dönsku einokunarverslun, það er að vegna þess að við búum á íslandi þá skulum við kaupa áskrift af ensku knattspyrnunni af 365 og áður Skjánum þó svo við eigum kost á að kaupa hana á mun ódýrari hátt af Sky í Englandi. Rökin eru að menn hafi keypt réttin til að sýna þetta fyrir Ísland (einokunarverslunin byggðist á að menn keyptu réttin til að versla á ákveðnum stöðum á Íslandi) og þess vegna megi Íslendingar ekki versla þar sem hagstæðast er að sjá Enska boltan, en þetta er frjálssamkeppni og frjáls markaður þá veit ég ekki hverju við eigum von. Reyndar skilst mér að Sýn hafi borgað 4 - 5 sinnum meira fyrir réttin af ensku miðað við fólksfjölda an það svæði sem næst komst, og er það ásættanlegt að fyrirtæki hagi sér þannig.
Ég legg til að við hættum að versla við 365 alfarið og látum þá vita hvers vegna og svo er spurning hvort við heimtum ekki að Samkeppniseftirlitið farið að leggja Smáis í einelti.
Einar Þór Strand, 12.8.2007 kl. 12:36
Það er líka spurning af hverju 365 og Smáís eru þá ekki farnir að elta allan skipaflota Íslendinga. Öll útileguskip á Íslandi eru komin með gervihnattamóttakara og eru með áskrift hjá SKY eða Canal + og norrænu sjónvarpsstöðvunum. Ef 365 fara fram á við yfirvöld að sala og dreifing þessara áskriftarkorta verði stöðvuð/bönnuð, þá hljótum við að gera þá kröfu á fyrirtækið að það tryggi að útsendingar þess sjáist í allri íslensku efnahagslögsögunni.
Vilhjálmur Óli Valsson (IP-tala skráð) 12.8.2007 kl. 13:20
Þessari lögbannskröfu var hafnað. http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1284966
Bergur Þorri Benjamínsson, 12.8.2007 kl. 13:35
Þetta er algjörlega óásættanlegt verð og það er hlæilegt að einhver láti bjóða sér að kaupa boltann á þessu verði. Ég vona að þetta verði viðskiptaflopp aldarinnar og það endi með því að þeir verða opna útsendingarnar til þess að auglýsendur fái eitthvað fyrir sinn snúð. Það er náttúrulega ekki gott ef fáir kaupa og auglýsendur eru kannski að borga stórar fjárhæðir fyrir að auglýsa. Eftir að 365 fór í þessa herferð gegn fólki sem kaupir Sky þá styrktist ég enn meira í því að kaupa ekki Enska boltann. Ég mæli með því að fótboltaáhugamenn kíki frekar á fótboltabar og njóti útsendinganna með nánast "ókeypis" bjór og reyklausu lofti.
Ólafur Örn Pálmarsson (IP-tala skráð) 12.8.2007 kl. 13:59
Jæja, burtséð frá þessari umræðu, vil ég þakka þér Hrannar fyrir frábæra síðu. Þú skrifar mjög skemmtilega...og ég er yfirleitt sammála þér!
Snorri Bergz, 13.8.2007 kl. 13:35
Þegar einokun á sjónvarpi lauk fögnuðu margir og Stöð 2 var stofnuð. Einokun var fellt úr gildi því hún þótti ósanngjörn og var stjórnmálamönnum ljóst að allir ættu sama rétt á að reka sjónvarp og að allir Íslendingar ættu sömuleiðis rétt á að hafa val um sjónvarpsefni. Nú vill stöð 2 fara aftur til fortíðar nema í þetta skipti skal Stöð 2 vera "jafnari" en aðrir og falla inni einokunina. Já það er furðulegt hvernig skoðanir manna breytast þegar þeir sitja sjálfir í gullstólnum.
Á 365 að fá að ráða því ef ég kaupi mér áskrift á SKY eða ekki? NEI ekkert frekar en ég get verið áskrifandi á PlayBoy beint frá Englandi ef ég vil. Eða ætti kannski Mál og Menning að geta bannað mér það af því að þeir selja áskriftir á blaðið? Á ég ekki að geta keypt mér Levise buxur á Ebay af því að Levise búðin er með einkaleyfi á því að selja merkið hér á landi.
Þeir segjast vera búnir að kaupa einkaleyfi á sýningu efnis á Íslandi til Íslendinga. Eru þeir þá búnir að kaupa einkaleyfi á að selja mér? Ég man ekki að hafa selt neinum aðgang að mér eða var það gert að mér forspurðri?
Halla Rut , 13.8.2007 kl. 22:53
Úrlið farið, orðstír deyr / enska á Sýn þó tórir / en hversu lengi þrauka þeir / 364?
Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 13:23
þetta mátti maður alveg vita að svona færi þegar 365 miðlar náðu réttinum á enska boltanum!! ég var með enska boltan hjá Skjásport og borgaði glaður og sáttur það verð sem þeir settu á þetta efni en það ætla ég ekki að gera hjá Sýn2 þeir eru svo gjörsamlega að misbjóða manni með þessu verði að ég bara ekki til orð og ætla ég ekki að eiga freakri viðskipti við 365.
Böðvar Sigurnjörnsson (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 13:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.