10 bestu ofurhetjumyndirnar: 6. sæti: X-Men þríleikurinn (2000-2006)
10.7.2007 | 20:14
Í upphafi X-Men skilja nasistar drenginn Eric Lensherr frá foreldrum sínum. Drengurinn tryllist og uppgötvast að hann getur stjórnað málmi með hugarorkunni einni saman. Nasistar halda honum á lífi. Síðar er þessi drengur betur þekktur sem Magneto (Ian McKellen) höfuðóvinur X-manna, sem reyna að lifa friðsælu lífi, og rannsaka sjálfa sig og eigin ofurkrafta.
Magneto heldur að mannkynið sé allt nasistar, að það muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að útrýma stökkbreyttum einstaklingum með ofurkrafta. Þess vegna vill hann útrýma mannkyninu áður en það fær tækifæri til að útrýma honum og hans líkum.
Charles Xavier (Patrick Stewart) er leiðtogi X-manna og hann sér að mannkynið stefnir einmitt í þá átt að ógna tilvist þessara stökkbreyttu einstaklinga. Xavier hefur ógurlega hugarorku, hann getur lesið hugsanir annarra, náð hugarsambandi við annað fólk og staðsett hverja einustu mannveru í heiminum, eins og væri hann gríðarlegur GPS nemi. Xavier vill ekki útrýma mannkyninu. Hann vill leita friðsamlegra lausna með samræðum og auknum skilningi.
Stjórnmálamenn vilja krefjast þess að stökkbreytt fólk skrái sig sérstaklega svo að hægt verði að fylgjast með því. Magneto getur engan veginn sætt sig við þetta; en Xavier er tilbúnari til að gangast við þessu. Þetta þýðir að ofurhetjurnar hjá X-mönnum lenda í átökum gegn ofur-illmennum Magneto.
Wolverine (Hugh Jackman) fer fremstur í flokki hetjanna, en beinagrind hans er gerð úr fljótandi, sem gerir honum mögulegt að skjóta fram stálhnífum milli hnúa sinna þegar hann reiðist, og öll sár hans gróa fljótt, sama hversu alvarleg þau kunna að vera. Félagar hans og óvinir eru of margir til að telja upp; en sagan tekur á sig skemmtilegan krók í upphafi X2: X-Men United, þegar hershöfðinginn William Stryker (Brian Cox) finnur nýjar leiðir til að etja óvinunum saman, og laumar á leyndarmáli um uppruna Wolverine.
Það er nauðsynlegt að minnast aðeins á X-Men: The Last Stand, niðurlagið á þríleiknum; en sú mynd nær engan veginn með tærnar þar sem fyrstu tvær höfðu hælana, þrátt fyrir góðar tæknibrellur. Sú mynd er algjörlega sálarlaus; nokkuð sem einkennir ekki fyrstu tvær X-Men myndirnar, aðalpersónur eru drepnar og ein er í það mikilli tilvistarkreppu að hún spáir í að rústa heiminum öllum, það má segja að hún sé myrkari en fyrri myndirnar, en það má líka segja að hún sé töluvert heimskulegri.
Tæknibrellur eru óaðfinnanlegar í þessum myndum; og gífurlega stór og misjafnlega góður leikarahópur nær vel saman. Allra verst finnst mér þó Halle Berry sem Storm, en bestur finnst mér Hugh Jackman sem Wolverine; en einhvern veginn tekst honum að vera jarðtenging og hjarta fyrstu tveggja myndanna, en gefur aðeins eftir í þeirri þriðju, þrátt fyrir að vera grófur og ruddalegur persónuleiki sem þykist vera sama um allt og alla, - honum er samt alls ekki sama.
X-Men
X2: X-Men United
X-Men: The Last Stand
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 20:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.