Eldgos, óvissa og innri ró

480249948_10163447975206410_7330994597418433375_n.jpg?_nc_cat=104&ccb=1-7&_nc_sid=127cfc&_nc_ohc=FlJV7mkwpUoQ7kNvgEEZKvU&_nc_zt=23&_nc_ht=scontent.frkv2-1

Jarðskjálftarnir halda áfram að hrista Reykjanesskagann og spurningin er ekki hvort, heldur hvenær næsta eldgos hefst. Vísindamenn vara við því að eldgos geti hafist með litlum sem engum fyrirvara. Ástandið við Sundhnúkagíga er óstöðugt og sérfræðingar segja að mögulegt sé að hraun muni renna í átt að Grindavík.

Fyrir okkur sem misstum heimili okkar er þetta meira en bara frétt – þetta er sagan okkar, aftur og aftur. Við slíkar fréttir rifjast upp minningar frá nóvember 2023 þegar bærinn var rýmdur á örfáum klukkustundum, og bílaröð fór eins og ljósberar um Suðurstrandarveg þar sem Grindavíkurvegur hafði farið í sundur.

Þann 10. nóvember 2023 neyddumst við til að yfirgefa heimili okkar í Grindavík ásamt tveimur barnabörnum á leikskólaaldri án þess að vita hvort við myndum nokkurn tímann snúa aftur. Konan mín hafði gleymt veskinu sínu, en það skipti í raun engu máli á því augnabliki – húsið lék á reiðiskjálfi og allt sem við gátum gert var að fara, með skilninginn á því að ekkert væri undir okkar stjórn nema viðbrögð okkar sjálfra.

Nokkrum dögum síðar fengum við nokkrar mínútur til að fara aftur inn í húsið. Við þurftum að sækja nauðsynlegustu hlutina í flýti. Þó að tíminn væri takmarkaður fengum við aðstoð björgunarsveitar. Þau veittu okkur dýrmæt augnablik til að velja það sem skipti okkur mestu máli. Það fór kvöldstund í að skrifa miða um þá hluti sem þurfti að sækja, og þegar við komum loks inn, þá hurfu mínúturnar fimm í þoku.

Við höfum þurft að horfast í augu við þá staðreynd að við getum ekki lengur búið þar sem við höfðum fjárfest í framtíð okkar. Þetta hefur verið erfitt, en það er hér sem stóísk hugsun verður að nauðsynlegri stoð. Það sem gerist er ekki undir okkar stjórn, en hvernig við bregðumst við er það sem skilgreinir okkur.

Þessi reynsla minnir okkur á að beina athyglinni að því eina sem við raunverulega stjórnum: okkar eigin huga og viðbrögðum, því hvernig við tökumst á við aðstæðurnar, hvernig við höldum ró okkar í óvissum aðstæðum, og hvernig við beinum orkunni að því sem við getum breytt frekar en að syrgja það sem er glatað.

Lífið mun ávallt vera ófyrirsjáanlegt, en eins og Markús Árelíus sagði: „Þú hefur vald yfir huga þínum og ekki ytri atburðum. Skildu þetta, og þú munt finna styrk.“

Undanfarin ár hef ég skrifað eina spurningu hvern einasta dag á Facebook, sem endurspeglar nákvæmlega þessa speki. Í kjölfar hverrar spurningar skrifa ég svar sem ég stöku sinnum birti umheiminum.

Hvernig getum við lært að lifa með óvissunni frekar en að óttast hana?


mbl.is „Fyrirvarinn verður mjög stuttur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband