Af hverju gefum við röngum einstaklingum völd aftur og aftur?
1.2.2025 | 09:01
Hvers vegna gefum við einstaklingum völd sem síðan brjóta niður samfélagið sem þeir hafa lofað að verja? Sagan sýnir okkur að einræðisherrar og valdagráðugir leiðtogar komast ekki til valda með hnefunum heldur með kosningum, loforðum og stuðningi fjöldans.
Fyrir rúmum 2000 árum varaði Platón við því að lýðræði gæti í ákveðnum aðstæðum leitt til harðstjórnar. Í dag stöndum við frammi fyrir sömu spurningum. Af hverju er þetta mynstur alltaf að endurtaka sig? Í Ríkinu benti hann á að frjáls samfélög sem vanrækja menntun og gagnrýna hugsun séu sérstaklega viðkvæm fyrir leiðtogum sem segjast tala fyrir fólkið en stefna á eigin valdastöðu.
Þessir leiðtogar nýta sér óánægju og ótta til að sanka að sér völdum, en þegar þeir hafa náð þeim breyta þeir lýðræðinu í einræði. Ef við lítum yfir söguna frá dögum Platóns til dagsins í dag sjáum við að þetta mynstur hefur endurtekið sig aftur og aftur, og er reyndar að raungerast í dag, enn einu sinni.
Þetta gerist aftur og aftur, ekki aðeins vegna þess að einstaklingarnir eru útsmognir og valdgráðugir, heldur líka vegna þess að lýðræðið getur sjálft verið viðkvæmt fyrir misnotkun ef það er ekki varið með sterkum stofnunum og samfélagsvitund.
Þessi hegðun er alls ekki ný af nálinni, heldur hefur hún viðgengist frá örófi alda, og er í raun ástæða þess að lýðræðishugmyndin varð til og henni beitt, til þess að kveða niður þessa sterku einstaklinga sem vilja allt eftir þeirra eigin höfði. Og það sem hefur gerst þegar þessir einstaklingar komast til valda, að þeir valda oft gríðarlegum skaða áður en þeir enda á spjöldum sögunnar sem dæmi sem ber að forðast.
Málið er að illmenni eiga mun auðveldara með að komast til valda heldur en góðmenni, einfaldlega vegna þess að þessi illmenni eiga svo auðvelt með að höfða til einfaldra tilfinninga og vekja hatur og reiði meðal fólks, út af einhverju, nánast sama hverju, á meðan góðmenni myndu reyna að efla skilning fólks á því sama.
Friedrich Nietzsche hélt því fram að viljinn til valda væri grunnþáttur í mannlegu eðli. Hann taldi að sumir gætu beint þessum vilja í skapandi áttir, til vísinda, lista eða fræða, en aðrir myndu nota hann til að kúga aðra. Af þessu leiðir að vald verður aldrei sjálfkrafa jákvætt eða neikvætt, heldur ræðst það af því hvernig samfélagið setur því skorður. Þetta þýðir að við ættum ekki að vera hissa þegar valdagráðugir einstaklingar komast til valda spurningin er frekar hvernig við getum stjórnað þessum vilja svo hann verði samfélaginu til góðs fremur en ills.
Það er eins og fjöldinn hafi meiri áhuga á átökum en friði, á því illa heldur en því góða, á hörðum dómum frekar en visku. En ég held að það sé tímabundið ástand, einhvers konar múgsefjun, brjálæði eða sturlun. Þegar allt er í óefni komið, þá áttar fólk sig á endanum á eigin mistökum og gjörðum, áttar sig á eyðileggingunni sem hefur átt sér stað og vill hana ekki lengur, snýst gegn hatrinu og byrjar af einlægni að berjast fyrir betri heimi.
Sigmund Freud hélt því fram að í stórum hópum missa einstaklingar hluta af sjálfstæðri dómgreind sinni og verða móttækilegri fyrir sterkum tilfinningalegum skilaboðum. Þetta getur útskýrt af hverju harðstjórar ná oft völdum þegar samfélög eru í óvissu eða ótta, ekki vegna þess að fólk sé illt, heldur vegna þess að múgsefjun getur dregið úr skynsemi einstaklinganna. Í stað þess að vega og meta, fylgja þeir þeim sem virðast sterkir og öruggir, jafnvel þótt það leiði þá á verri stað.
Og þá verður það einstaklingurinn sem kemst til valda og hefur dreift hatri og illsku allt í kringum sig sem verður að þeim sem fær að þjást, sú manneskja fær að kenna fyrir því, því varla getur allt samfélagið upprætt sjálft sig öðruvísi.
Nú eru áratugir liðnir frá síðustu heimsstyrjöld, en mannkynið virðist ófært um að læra af fortíðinni. Sömu hneigðir til valdagræðgi og múgsefjunar sjást enn, og merki um ógnir við lýðræði og mannréttindi eru eins áberandi í samtímanum og fyrir öld síðan.
Kostnaðurinn við að gefa röngum einstaklingum völd er mældur í þjáningum og hörmungum. Í hvert sinn sem eftirlifendur lofa að koma í veg fyrir harmleiki fortíðar, virðist mannkynið samt bregðast því loforði. Sagan er dæmd til að endurtaka sig, ekki bara í fjarlægri framtíð, heldur strax á meðan við lifum, því friður er aldrei sjálfgefinn. Því það er skrímsli ekkert endilega undir rúminu, heldur ofan á því, þar sem við erum ekki að leita.
Ég trúi því að þrátt fyrir þessa hringrás harmleikja sé enn von. Þó svo að mannkynið virðist endurtaka mistök sín, þá býr í okkur einnig þörf og viska fyrir réttlæti og leit að sannleikanum.
Spurningin sem við þurfum að spyrja okkur er ekki aðeins af hverju við gefum þessum einstaklingum völd, heldur hvernig við getum hindrað þá í að misnota þau. Við verðum að gera meira en að horfa á söguna sem óhjákvæmilega endurtekningu. Við þurfum að læra af henni og spyrja okkur: Hvernig stöndum við gegn múgsefjun? Hvernig kennum við næstu kynslóð að greina lýðskrum frá raunverulegri forystu? Það er aðeins með menntun, sterkum stofnunum og borgaralegri þátttöku sem við getum brotið þetta mynstur og tryggt að sagan endurtaki sig ekki aftur.
Það krefst menntunar, virkrar þátttöku og skýrra siðferðisviðmiða. Það krefst þess að við séum meðvituð um hvernig stjórnmál, fjölmiðlar og samfélagslegar aðstæður búa til skilyrði fyrir valdníðslu. Við verðum að spyrja okkur: Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að múgsefjun og tilfinningasemi leiði til þess að við veitum röngum einstaklingum of mikil völd?
Lærdómurinn frá fyrri kynslóðum er að enginn verður einráður án samþykkis fjöldans. Hver þjóð hefur val, þótt valið virðist stundum þvingað. En með sameiginlegri ábyrgð og skýrri hugsun getum við mótað samfélög þar sem réttlæti og viska, frekar en ótti og heift, verða ráðandi öfl.
Það er ekki auðvelt, en það er mögulegt. Og í því felst sú von sem við megum ekki missa úr höndum okkar. En spurningin er: Hvenær munum við loksins taka af skarið og tryggja að sagan endurtaki sig ekki á okkar vakt?
Athugasemdir
Hvaða LEIÐTGI væri t.d. "RÉTTI" LEIÐTOGINN til að leiða
íslensku þjóðina inn í framtíðina að þínu mati?
Dominus Sanctus., 1.2.2025 kl. 09:52
Ef þú átt við að Donald Trump sé þessi einræðisherra má alveg eins spyrja sig hvers vegna kjósa Íslendingar oftast ranga fólkið, ekki til dæmis Arnar Þór og Lýðræðisflokkinn eða Frelsisflokkinn eða Íslenzku þjóðfylkinguna? Er það ekki hræðsla og ótti við breytingar þegar búið er að innræta fólki að þessir flokkar séu fasískir?
En það þarf ekki lengi að skoða þessa flokka og þeirra foringja til að sjá að þeir eru kristilegir íhaldsflokkar en ekki fasískir þjóðernishyggjuflokkar, og það er Trump varla heldur, nema vegna þess að wók-vinstri öfgarnar hafa neytt hann til að herða á öllum sínum stefnumálum.
Þannig hafa vinstrimenn, og slíkir öfgar skapað Donald Trump.
Ingólfur Sigurðsson, 1.2.2025 kl. 10:23
Ingólfur: eins og kemur fram í greininni er ég að hugsa um síendurtekin mistök mannkynsins frá dögum Platóns og jafnvel fyrr. :)
Hrannar Baldursson, 1.2.2025 kl. 10:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning