Hætturnar sem felast í fáfræði
4.2.2024 | 09:57
Fáfræði skil ég, ef ég reyni að skilgreina hana, sem skort á gagnrýnu viðhorfi og áhuga til að leita sér þekkingar og visku.
Það var einhvern tíma sem ég var að lesa samræðu eftir Platón að Sókrates sagði að fáfræðin væri uppspretta alls hins illa í heiminum. Og þessi setning festist í huga mínum með því að skoða hana frá ólíkum sjónarhornum tel ég hana vera sanna.
Fyrst langar mig að skoða hana frá stóísku sjónarhorni, en samkvæmt stóuspekinni er illska ekki eitthvað sem gengur laust í heiminum og í öðru fólki, heldur er hún einungis eitthvað sem þú getur valdið í þínum eigin huga. Ef þú kærir þig ekki um að læra, ef hið sanna skiptir þig engu máli og þú stekkur á skoðanir sem eru illa ígrundaðar og ferð að básúna þær út um allar trissur, þá ertu að valda sjálfum þér skaða.
Ein afleiðing af slíkum skaða er að þú getur með orðum þínum og verkum skapað aðstæður sem gætu valdið því að aðrir valdi sjálfum sér sams konar skaða, og þegar við erum komin með samfélag í gang sem nærist á fáfræði, þá má kannski segja að við séum komin með spillt samfélag.
En fáfræðin hefur ekki bara með upplýsingar að gera, því nóg er af misjafnlega áreiðanlegum upplýsingum út um allt, heldur með þekkingu. Á meðan upplýsingar eru gögn sem liggja eins og hráviði út um allar trissur, í bókum, tímaritum, á netinu, hvar sem er, þá er þekking eitthvað sem við höfum eftir að hafa nýtt okkur þessar áreiðanlegu upplýsingar, en ef það sem við byggjum upp er byggt á röngum upplýsingum, þá erum við búin að byggja um blekkingu.
Það er gríðarlegur munur á þekkingu og blekkingu, svo mikill að fátt er þýðingarmeira í samfélögum heimsins en að slítast úr viðju blekkingar og inn í heim þekkingar. Þetta hefur stöðugt gerst í sögunni, að heimspekingar og fræðimenn benda á hvernig heimurinn er í raun og veru, að það kemur gríðarlegt bakslag þegar þeir sem trúa að heimurinn sé eins og þeir hafa alltaf upplifað hann, hafna þessum nýju upplýsingum, og setja þær ekki í þekkingarbankann sinn. Þetta er hugsanlega helsta ástæða þess að samfélög slíta sig ekki út úr blekkingum nema á afar löngum tíma.
Í nútíma samfélögum, jafnt okkar á Íslandi sem erlendis, er ekki skortur á upplýsingum. Það er til mikið af góðum upplýsingum víða sem gefur okkur nákvæm svör við alls konar spurningum. Það sem skortir er hins vegar vilji til að nýta þær upplýsingar sem eru aðgengilegar.
Dæmi um þetta er neitun á tilvist COVID-19, loftlagsbreytingum og jafnvel því að jörðin sé hnöttur frekar en flöt. Í þessum tilvikum ákveður fólk hvað það vill trúa og myndar sér síðan rök út frá því. Það er andstætt vísindalegri aðferð, byggir á tilfinningum og trú sem á sér ekkert endilega rætur í veruleikanum. Vísindaleg nálgun væri að finna upplýsingarnar fyrst, tengja þær saman með traustum rökum, og eftir það ekki mynda sér skoðun, heldur þekkingu sem er þessi eðlis að hún getur vaxið með nýjum upplýsingum og breytingum á veruleikanum. Skoðanir breytast ekki, þær standa í stað, en þekking flæðir áfram og vex með tíð og tíma.
Dreifing falsfrétta og rangra upplýsinga gegnum samfélagsmiðla er annað dæmis sem getur haft alvarlegar afleiðingar bæði fyrir einstaklinga og samfélög. Eins og sést á stjórnmálum víða um heim og hvernig stjórnmálaflokkar hafa nýtt sér gögn um fólk, til dæmis út frá Like notkun á Facebook, hefur sumum þjóðarleiðtogum tekist að komast til valda með því að beita lygum og röngum upplýsingum. Það sér ekki enn fyrir endann á þeim vanda.
En vandinn er fyrst og fremst persónulegur. Við megum ekki vera of fljót að stökkva á skoðanir sem okkur líkar, því þá lifum við í fáfræði.
Betra væri að þróa með sér gagnrýna hugsun, þar sem við byrjum á að velta fyrir okkur hvort heimildir séu áreiðanlegar eða óáreiðanlegar og spyrja síðan gagnrýnna spurninga um þær upplýsingar sem stöðugt berast okkur.
Við þurfum að leggja vinnu í nám, sýna forvitni og reyna að kynnast nýjungum sem stöðugt spretta upp, eins og þegar kemur að sýndarveruleika og gervigreind, því ef við lærum ekki um hvernig hægt er að nýta þessa öflugu tækni, er líklegt að við verðum ekki samkeppnishæf, hvorki gagnvart tækninni né öðru fólki sem kann að nýta sér hana.
Til að útrýma fáfræði úr okkar eigin huga er gagnlegt að taka þátt í málefnalegum umræðum með opnum huga, hlusta á sjónarmið annarra og vera tilbúinn að endurskoða eigin skoðanir í ljósi nýrra upplýsinga. Þannig byggjum við upp þekkingu.
Fyrsta skrefið er að vinna í okkar eigin málum, því þar höfum við mestu völdin. Næsta skref er síðan að átta okkur á hvar við getum gert gagn í samfélaginu.
Til að takast á við fáfræði í samfélaginu er öflugasta tækið menntun. Ef við stuðlum að auknum gæðum menntunar og þrýstum á að menntakerfið bjóði upp á gagnrýna hugsun og fræðslu um mikilvæg samtímamál, þá eflir það grundvöll þekkingar, og getur dregið úr mætti blekkinga.
Þá væri gott að nýta nýjungar við fræðslu, til dæmis samfélagsmiðla, sýndarveruleika og gervigreind, frekar en að forðast þessa hluti eins og þeir séu uppspretta einhvers ills. Nýjungar eru aðeins breyting á samfélaginu, þróun sem gerist með hugviti og uppfinningum. Ef við útilokum slíka þætti frá námi, eins og með því að banna farsíma í skóla, þá erum við komin á villigötur. Betra væri að kenna fólki að nýta sér slíka tækni í samhengi við nám og síbreytilegan heim.
Við getum hvatt fólk til þátttöku í samfélaginu, hvatt fólk til að kjósa, taka þátt í sjálfboðaliðastörfum, taka þátt í stjórnmálum eða opinberri umræðu.
Fáfræði er eitthvað sem leiðir til verri heims, hvort sem það er á persónulegum eða samfélagslegum forsendum, en góðu fréttirnar eru þær að við getum með markvissum hætti unnið að því að draga úr fáfræði og byggja upp samfélag sem á rætur í þekkingu, skilningi og samkennd.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.