Af hverju trúum við stundum blekkingum frekar en því sanna?

Sönnun byggir á staðfestum og rekjanlegum upplýsingum og sannanir er hægt að endurtaka hvar og hvenær sem er, svo framarlega sem þær eru framkvæmdar á kerfisbundinn hátt og með gagnrýnni hugsun að leiðarljósi. Sannanir sýna hvort að ákveðin fullyrðing sé sönn út frá sönnum forsendum og röklegt gildri niðurstöðu.

Þær manneskjur sem þekkja ekki þessi ferli geta á auðveldlegan máta látið glepjast. Það sem villir oftast sýn eru tilfinningar, trú eða órökréttar ákvarðanir. Þess vegna er afar mikilvægt fyrir hverja einustu manneskju að hafa gott skynbragð á gagnrýnni hugsun, þar sem þess er krafist að rætt er út frá áreiðanlegum upplýsingum og gildum rökum. Það sem flækir málið er að oft eru tilfinningar, trú og órökréttar ákvarðanir afar sannfærandi, og þegar maður telur þær sannar, flækjast þær inn í heimsmynd manns og villa sýn á sannleikanum. 

Nú vil ég minnast á nokkra hluti sem geta ruglað mann í kollinum, eins og einn vinur minn var vanur að segja. 

Tilviljanir: segjum að tvær manneskjur rekist á hvora aðra á skemmtistað og verða hrifnar af hvorri annarri, sýna hvoru öðru mikinn áhuga og byrja síðan í sambandi, giftast, eignast börn og verða gömul saman. Það má segja að þetta sé eitthvað sem átti að gerast, að einhver örlög hafi átt sér stað. Samt sem áður má vel vera að þetta hafi verið hrein tilviljun og líf þeirra hefðu getað verið alveg jafn góð og áhrifarík með annarri manneskju, eða jafnvel án einhvers annars. 

Dæmi: Einhver gæti fengið símtal frá nánum vin eftir að hafa hugsað til hans, og trúir því að þessar hugsanir hafi haft áhrif á veruleikann. Fólk tengir saman atburði vegna þess að ekkert er mannlegra en að leita eftir skýringum og merkingu í mynstrum og tengingum, jafnvel þegar slíkt er ekki til staðar. Á sambærilegan hátt hafa mynstur verið sköpuð af mönnum þegar stjörnumerki hafa verið búin til. Það er dæmi um þegar ímyndunin verður veruleikanum sterkari.

Sögur: Íslendingar virðast sérstaklega hrifnir af frásagnarlistinni, og um þessar mundir sérstaklega af glæpasögum, þar sem fleiri eru drepnir á blaðsíðum einnar bókar heldur en í marga áratugi á landinu. Þarna er oft mikil fjarlægð á milli veruleika og skáldskapar, en samt getur hinn ímyndaði veruleiki skáldsögunnar virst það raunverulegur að fólk fer að trúa því að hann eigi sér stoð í veruleikanum, sem reyndar getur orðið til þess að breyta veruleikanum sjálfum í eitthvað sem líkist hinum ímyndaða heimi skáldsögunnar. Stundum velti ég því fyrir mér hvort fólk trúi á veruleika sem sést í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og slíkum skáldsögum, umfram þann veruleika sem við lifum í, og hvort slík trú, ef hún breiðist mikið út, geti haft áhrif á hvernig veruleikinn þróast.

Dæmi: Þegar fólk baktalar aðra eru sumir gjarnir á að trúa slíkum sögum þó að ekkert sé satt í þeim. Það er nóg að þær virki sennilegar og byggi á tilfinningu sem einhver hefur, en þessi tilfinning getur verið tengd einhverju allt öðru en þeirri manneskju sem talað er um. 

Fordómar: Við höldum að veruleikinn sé á einhvern ákveðinn hátt vegna þess hvernig við felldum dóm, til dæmis um kynþátt, kyn, trúarbrögð eða hegðun sem okkur líkaði illa við hjá einhverjum einstaklingi úr hópi fólks sem okkur líkar ekki við. Þessir fordómar styrkjast ef eitthvað gerist sem staðfestir að fordómurinn sé réttur, en slík staðfesting er engan veginn sönnun, heldur þvert á móti, eitthvað sem vinnur gegn því að við sjáum sannleikann í málinu og afhjúpum fordómana fyrir það sem þeir eru, villur og mistök.

Dæmi: Unglingar í dag er ómögulegir, aldrei var ég svona á mínum unglingsárum. Þarna er verið að dæma heilan hóp, sjálfsagt út frá einhverju dæmi og upplifun manneskju, og þegar hún deilir slíkri upplifun fær hún sjálfsagt undirtektir frá einhverjum hóp, en ekki frá öðrum. Það fer líklega eftir því hversu skynsöm þessi manneskja er, hvort hún hlusti aðeins á staðfestinguna eða gagnrýnina.

Hefðir: Sumir réttlæta að hlutir séu gerðir á ákveðinn hátt út frá þeirri staðreynd að þeir hafa alltaf verið gerðir á ákveðinn hátt og hafa alveg virkað nógu vel. Ferlinu má helst ekki breyta, og þá alls ekki til þess eins að breyta. Það er alltaf hægt að taka til einhver rök sem vinna gegn þróun og rannsóknum, slíkt tekur of mikinn tíma, kostar of mikið eða getur haft slæm áhrif á gæði. Til að einhver þróun geti átt sér stað, þarf hins vegar að leggja á sig tíma, kostnað og gera hlutina á ólíkan hátt til að hægt sé að bæta þá. Þessi tilfinning um að hlutirnir eigi að vera á ákveðinn hátt því þannig hafi þeir alltaf verið, getur verið afar sterk og sannfærandi, en hún er engin sönnun fyrir því að þannig þurfi hlutirnir endilega að vera.  

Dæmi: Á alltaf að hlusta á yfirvaldið, það er þingmanninn, prestinn eða kennarann, og leyfa viðkomandi að tala stanslaust án þess að tækifæri gefast til að velta hlutunum fyrir sér? Sumir segja kannski já, því þannig hefur það yfirleitt verið og þannig verður það áfram, en aðrir segja nei, því enginn, sama hvaða stöðu hann gegnir, veit allt um nokkurn skapaðan hlut. 

Tilfinningar og áróður: Mér verður hugsað til einræðisherra og popúlista í pólitík þegar kemur að tilfinningum. Slíkar manneskjur reyna stöðugt að höfða til tilfinninga fólks frekar en til skynsamlegrar hugsunar, því það er svo miklu auðveldara að reita fólk til reiði, hneyksla það, vekja hjá því vorkunn, og þannig stjórna því heldur en þegar skynsemin og staðreyndir ráða ríkjum. Hver kannast ekki við fólk sem er stjórnsamt, ætlast til að aðrir fylgi eftir löngunum þeirra, frekar en að ræða málin? Þetta er oft kallað frekja, og í mínum augum er frekar löstur en dyggð, það er bæði að haga sér með frekju að leiðarljósi, gera bara það sem mann langar, og leiða aðra með sér þá leið, á móti því að finna leið sem er áhugaverðari og jafnvel betri fyrir alla þá sem eru í hópnum. Glæpagengi, klíkur, sumir stjórnmálaflokkar og einræðisríki stjórnast af slíkri frekju, því frekjan sjálf getur verið nóg til að virkja fólk í að trúa leiðtoganum. En þessar tilfinningar hafa ekkert með það sem er satt eða raunverulegt að gera, þetta eru bara tilfinningar sem notaðar eru til að stjórna, og markmiðið gæti verið eitthvað eins asnalegt og að gera leiðtogann ríkan á meðan hinir leitast stöðugt eftir brauðmolum frá honum. Það að einhver sé áhrifaríkur leiðtogi, með mikinn sannfæringakraft og sterkar tilfinningar, þýðir alls ekki að hann hafi rétt fyrir sér, og það er fljótt að koma í ljós, því svona manneskjur ljúga til að sannfæra, og ein lygi ætti að vera nóg til að fólk treysti honum ekki; en það treystir honum samt, því það hefur keypt lygina án þess að beita gagnrýnni hugsun.

Dæmi: Nasistar úthrópuðu og niðurlögðu gyðinga og þá sem þeim þóknaðist ekki með lygum og áróðri sem byggði á tilfinningu, í áróðrinum var fólki líkt við meindýr og þegar lesendur sáu þetta, samþykktu þau áróðurinn og tóku þannig þátt í hreyfingunni, eða samþykktu hana ekki, og urðu þá samstundis að nákvæmlega þessum meindýrum sem áróðurinn beindist gegn.

Það er afar auðvelt að læra um hvað er satt og ósatt, og hvernig hægt er að vinna með þetta, og það er jafn auðvelt að átta sig á hvernig ósannindin leiða okkur í rangar áttir á meðan hið sanna hjálpar okkur að byggja upp góða leið. En eins og allt sem gott er, krefst það einhverjar vinnu og aga, eitthvað sem borgar sig margfalt, en því miður eru margir sem hunsa það að leggja á sig þessa vinnu og haga sér í samræmi við það sem er gott, og þannig verður til óreiða sem getur valdið því að heilar kynslóðir missi sjónar á því sem er satt, og glepjast frekar í átt að því sem virkar sannfærandi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Sumt fólk virðist líka trúa eins og nýju net öllum fréttatilkynningum sem Hamas sendir frá sér þó margvíslegar sannanir séu um að tilkynningarnar hafi verið lygi.

Einnig neita Píratar og Helga Vala að trúa tölum um hælisleitendum - tölur séu bara túlkunaratriði

Grímur Kjartansson, 20.1.2024 kl. 17:03

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það er heilbrigt að skoða með gagnrýnu hugarfari og velta fyrir sér af hverju fólk segir það sem það hefur að segja, og kafa aðeins dýpra í tölurnar.

Hrannar Baldursson, 20.1.2024 kl. 20:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband