Hvernig veljum við vini okkar?
25.12.2023 | 12:05
Byrjum á örsögu:
Það var einu sinni í fjárhúsi þar sem fleiri en 200 kindur dvöldu yfir veturinn, að það stóð autt á síðustu dögum sumars, að forvitin húsfluga flaug í kringum mús sem stóð uppi á staur og leit í kringum sig. Af hverju stendur þú uppi á þessum staur? spurði flugan. Ég er svo lítil og heimurinn svo stór, svaraði músin. Flugan settist á grindverkið við staurinn og spurði músina hvað hún vildi vita um heiminn. Allt, sagði músin. Það hlýtur að vera eitthvað meira en það sem við sjáum hérna. Húsflugan sagði músinni frá hvernig hún gat stundum þegar viðraði vel flogið hátt yfir sveitina, séð hafið og húsin og fugla á sveimi, fjöllin í fjarska og hvernig stærstu dýr virðast frá því sjónarhorni vera á stærð við músina. Músin sagði flugunni frá því hvernig hún hafði oft naumlega sloppið undan kettinum á bænum og tókst með fimi að skjótast í skjól þar sem kötturinn náði ekki til hennar. Dag eftir dag, það sem eftir leið sumars, og alveg fram á haust, héldu húsflugan og músin áfram að segja hvort öðru sögur um heiminn út frá sjónarhornum sínum. Þegar fór að kólna, fundu þau þægilegan hita í því einu að vera í námunda hvort við annað.
Frá barnæsku eignumst við vini. Stundum gerist það af sjálfu sér. Við höfum samband við vinina til að leika við þá og þeir við okkur. Þessi sambönd verða stundum traust og halda út alla ævina, önnur flosna upp og verða að litlu öðru en góðri minningu um manneskja sem eitt sinn var vinur manns.
En vinátta er mikill áhrifavaldur í lífi okkar. Hún getur breytt hegðun okkar og hugarfari á óvæntan hátt, hún getur komið aftan að okkur og haft slæm áhrif á okkur, spillt okkur, eða haft góð áhrif og þroskað okkur til muna.
Eftir því sem við eldumst og þroskumst, þá vaxa vinir oft í ólíkar áttir og fjarlægjast, og þá stofnum við til nýrra vináttusambanda út frá því hvar við erum stödd í lífinu.
Hvernig manneskja viljum við vera? er ein af þeim spurningum sem við þurfum að spyrja okkur áður en við veljum okkur nýja vini, því þetta val endurspeglar hvernig manneskja við viljum vera. Við vitum að vinir okkar hafa áhrif á persónuleika okkar, hugarfar og hegðun; og þurfum því að velja vini út frá þeim gildum sem við metum best.
Og þegar ég tala um vini, þá á það ekki bara við um eina manneskju, heldur einnig félagsskapinn sem maður vill umgangast. Það gæti verið fyrirtæki sem maður ræður sig til starfa hjá, skóli og nám sem maður velur, stjórnmálaflokkur eða trúarsöfnuður sem maður ákveður að fylgja, eða áhugamál sem maður velur.
Allt hefur þetta áhrif á hvernig við þróumst sem manneskja.
En þegar við veljum vini okkar, þá gerum við það ekkert endilega með því að setja kosti og galla manneskjunnar í Excel skjal, heldur er eins og eitthvað náttúrulegt ferli eigi sér stað, eitthvað innsæi og samvinna, sem síðar verður að trausti og órjúfanlegum böndum.
Þeir þættir sem hafa áhrif á valið geta verið hlutir eins og sameiginleg áhugamál, persónuleiki, virðing, tilfinningar, samskipti, félagsleg staða og innsæi. Allt þetta getur hjálpað manni að finna góða vini, en það sem virðist á endanum byggja traustustu vináttuna er ef þeir hafa sams konar gildi, meta sömu hlutina sem verðmæta.
Athugasemdir
Það gæti verið sitthvor umræðan
hvort að um sé að ræða vini sem að við erum tilbúinn
að hleypa inn á okkar heimili og ræða persónuleg mál
EÐA
hvort um sé að ræða t.d. fjarlægja blogg /facebook vini sem að við höfum kannski aldrei hitt persónulega
en getum sameinast í sæmræðum um sameiginlegt áhugamál.,
hvort sem að það tgengist heimspeki, trú eða stjórnmálum.
Dominus Sanctus., 25.12.2023 kl. 15:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.