Svo lærir lengi sem lifir
15.12.2023 | 22:31
Kennsla og nám er tvennt ólíkt. Kennsla felur í sér að skapa aðstæður fyrir nám, og námið getur verið fyrir þann sem skapar aðstæðurnar eða einhvern sem nýtir sér þjónustuna sem felst í kennslu til að læra hraðar og betur það sem viðkomandi vill læra.
Langflestir Íslendingar hafa farið í skóla og lært að skrifa, lesa og reikna. Það getur komið okkur á óvart að sums staðar í heiminum er engin skólaskylda og það er ekkert svo langt síðan ekki var sjálfsagt að allir Íslendingar gengju í skóla. Þetta getur þýtt að okkur þykir þessi lífsgæði sem fylgja námi sjálfsagður hlutur. Ég man eftir á einu af ferðalögum mínum til Afríku þegar ég heimsótti skóla og heyrði frá börnum, sem sátu um 50 saman í skólastofu, sem sögðu frá hvernig þau gengu 5-10 kílómetra í skólann á hverjum degi og þótti það ekkert tiltökumál. Lífsgæðunum er ólíkt skipt í þessum heimi.
En það eru samt til fleiri leiðir til náms, eða það að öðlast þekkingu, en að ganga í skóla. Í skóla lærum við þá list að læra vel, ef vel tekst til. Stundum átta ekki allir nemendur sig á af hverju það er gott fyrir hverja manneskju að læra, sem getur verið vegna þess að þeir falla ekki í kerfið, og eru kannski ekki að fá tækifæri til að læra nákvæmlega það sem þá vantar eða langar til að læra.
Hugsaðu þér að vera þvingaður til að læra um eitthvað sem þig langar alls ekki til að læra, á þeirri forsendu að einhver annar varð hamingjusamur eða lifði góðu lífi vegna þess að hann lærði þennan hlut. Hugsaðu þér svo ef við fengjum að velja það sem við viljum læra og sökkt okkur í nákvæmlega það sem vekur mestan áhuga okkar. Hvort ætli sé gæfuríkara?
Á Íslandi höfum við svo margt sem styður við nám. Við höfum öll aðgang að Internetinu og gegnum netið höfum við aðgang að gríðarlega miklu magni af upplýsingum. Þó þurfum við að læra hvað af þessum upplýsingum eru byggðar á áreiðanlegum grunni, það er byggðar á staðreyndum og traustum rökum frekar en sannfæringu og mælskulist, og þessar áreiðanlegu upplýsingar verða enn áreiðanlegri ef þær hafa verið ritrýndar og skoðaðar af fræðimönnum. Við höfum aðgang að bókasafni í hverjum bæ, bæði söfnum sem geyma bækur úr pappír og söfnum sem geyma rafbækur. Í dag getum við valið að lesa bækur á pappír, á tölvuskjá eða hlustað á þær.
Við getum lært á svo margvíslegan hátt, með rannsóknum, reynslu, tilraunum, samræðum, sjálfsmenntun, gagnrýnni hugsun, opnum hugum, undrun og forvitni, eftirtekt og góðum vilja, og með því að tengja saman allar þær upplýsingar og þekkingu frá öllum þeim sviðum sem við höfum lært um, til að skapa okkur heildarmynd og dýpri skilning á heiminum.
En jafnvel fyrir þá sem setja sér að leita þekkingar er sú leit ævilangt ferðalag, sem lýkur ekki fyrr en maður hættir að spyrja spurninga. Mig langar sjálfum að vera manneskja sem spyr spurninga alla mína ævi, sé sífellt einhverjar nýjar leiðir til að sjá heiminn, átta mig sífellt á að heimurinn er ekki nákvæmlega það sem ég hélt að hann væri, og er alltaf tilbúinn að undrast yfir því sem við þekkjum ekki ennþá, og þá er ég ekki að tala um skattaframtal næsta árs eða hversu mörg skref ég gekk í dag, heldur minni grundvallartrú um hvað heimurinn er og hvernig ég og allt fólkið passar inn í hann og þá í tengslum við frumgildi eins og hið góða, hið sanna, hið fagra, hið þekkta og hið raunverulega.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.