Kíkt undir húddið á PISA: Ísland gegn heiminum
10.12.2023 | 20:54
Í kjölfar harkalegra dóma gagnvart stöðu íslenska menntakerfisins, hef ég ákveðið að leggjast aðeins yfir PISA könnunina sem rædd hefur verið af miklum krafti síðustu daga, og sýnist mér því miður oft vera dæmt út frá niðurstöðum frekar en rýnt í upplýsingarnar.
Það eru ýmsir fyrirvarar sem borgar sig að gera þegar kemur að þessari könnun, til að mynda að hún er gerð í lok COVID-19 og var í raun frestað um heilt ár vegna heimsfaraldurs. Það hlýtur að hafa haft veruleg áhrif á þátttöku og aðstöðu nemenda um víða veröld.
Það sem mér finnst mest sláandi er þegar verið er að bera saman ólíkar þjóðir út frá niðurstöðum könnunarinnar, og þá sérstaklega þegar fólk gefur sér að Ísland standi á sama grunni og aðrar þjóðir þegar kemur að þessari könnun.
Þegar ég bjó í Mexíkó og var kennari þar fyrir nokkrum árum, þá kynntist ég því að einungis sterkustu skólum landsins var boðið að taka þátt, og þá með því að senda sína sterkustu nemendur í prófið.
Eftir að hafa flutt heim hef ég undrað mig á að slíkt á ekki við á Íslandi, en það þarf 150 skóla í hverju landi til að senda nemendur í prófin, en á Íslandi eru skólarnir samtals undir 150 talsins í heildina, en til dæmis í Mexíkó eru þeir mörg þúsund talsins.
Þessi reynsla fékk mig til að staldra við og rýna í tölurnar á bak við PISA könnunina, og eftir að hafa skoðað tölurnar hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé sanngjarnt að bera Ísland saman við aðrar þjóðir sem að tóku þátt.
Á Íslandi voru 4.623 15 ára nemendur sem stóð til boða að taka prófið, en af þeim luku því 3.360 manns, sem gerir 72.68% þátttöku. Undanþágur frá þátttöku fá nemendur af ýmsum ástæðum, til dæmis þegar tungumál prófsins er ekki á móðurmáli viðkomandi, og ef þeir stríða við einhvers konar fötlun eða aðstæður sem réttlæta fjarveru. En taktu eftir: 72.68% allra íslenskra 15 ára nemenda tóku þátt og ætlast er til að við berum þá saman við til dæmis nágrannaþjóðir okkar, Finnland, Noreg, Danmörku og Svíþjóð. Það má ekki gleyma því að í öllum þessum löndum eru miklu fleiri grunnskólar sem gera grannþjóðum okkar kleift að velja bestu skólana, og síðan bestu skólunum að velja bestu nemendur sína til þátttöku. Ég get ekkert fullyrt um hvernig nákvæmlega þetta val fer fram í ólíkum löndun, en stóri munurinn er sá að Ísland hefur alls ekkert val.
Á þessari töflu sést svart á hvítu hversu aðstæðumunurinn er ólíkur milli Íslands og hinna Norðurlandanna. Finnland, sem yfirleitt skorar afar hátt í PISA hefur þó aðeins 16,5% 15 ára nemenda meðal þátttakenda.
Nú langar mig að búa til aðra töflu, og þá með þjóðum sem okkur langar helst að bera okkur saman við:
Taktu eftir að einungis 0.11% bandarískra 15 ára nemenda taka þátt í PISA, aðeins 1.72% breskra og aðeins 0,81% þýskra. Þátttakendur frá Singapúr eru 15% en eru þó afar langt frá hlutfalli Íslendinga.
Ég ætla ekki að gefa mér neinar niðurstöður út frá þessari athugasemd minni, en mér sýnist þessi könnun ekki gefa okkur forsendur til að bera okkur saman við aðrar þjóðir þegar kemur að menntakerfinu.
Aftur á móti getur verið marktækt að skoða okkar eigin árangur og sjá hvort okkur hafi farið fram eða aftur, en þar virðist þróunin vera niður á við, en munum samt þann fyrirvara að könnunin var gerð í lok COVID-19 heimsfaraldursins, og því gæti ekki verið marktækt að bera það saman við fyrri ár.
Allar þessar upplýsingar eru opinberar, en ég þurfti að grafa svolítið í gegnum aragrúa skjala sem tengjast þessu stóra verkefni, og finnst að við mættum, í íslenskri umræðu, taka tillit til þess að það gildir ekki jafnræði þegar að þessari könnun kemur, sérstaklega þegar verið er að bera saman stórþjóðir eins og Bandaríkin (0,11% þátttaka) og smáþjóð eins og Ísland (72,68% þátttaka).
Heimild: OECD iLibrary
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.