Af hverju við ættum að segja hvað okkur finnst

DALL·E 2023-11-28 21.17.00 - A cowboy sitting around a campfire with trusted friends, engaged in a deep and thoughtful dialogue. The cowboy, depicted as open and expressive, is sh

Ekkert okkar hefur fullmótaðar eða fullkomnar skoðanir um alla mögulega hluti. Stundum eru skoðanir okkar nokkuð góðar og stundum frekar vondar. Hvort sem þær eru góðar eða vondar, þá er gott að tjá hvort tveggja. 

Ef við tjáum þær góðu þá erum við líkleg til að fá staðfestingu á gæðum þeirra, og ef við tjáum þær vondu, erum við líkleg til að fá gagnrýni sem við getum nýtt til að endurskoða þær. 

Það borgar sig ekki að tengja eigin egó við skoðanir, hvort sem þær eru góðar eða vondar, heldur vera sífellt vera til reiða ef þarf að endurskoða þær eða dýpka. 

Hugsaðu þér ef þú hefur gefið þér fyrirfram einhverja skoðun á ákveðnu grænmeti, til dæmis spergilkáli vegna þess að þér finnst það líta illa út, eða einhver hefur grett sig þegar hann hefur séð það fyrir framan sig, og af þeirri ástæðu langar þig aldrei til að smakka það. Þú segir að þér líki ekki við spergilkál og einhver svarar með spurningunni, ‘af hverju líkar þér ekki við spergilkál’? Ef svar þitt er að þú vitir það ekki, er það ekki næg ástæða til að prófa spergilkálið?

Þegar við tjáum skoðanir okkar, sérstaklega þegar viðmælendur okkar hafa góðan vilja og gagnrýnan hug, þá getum við lært töluvert á því, en ein forsendan fyrir slíkum lærdómi er að við höldum huga okkar opnum og höfum til staðar hugarfar nægrar auðmýktar til að læra og breyta því sem við töldum áður vera satt og rétt. 

Þegar við tökum þátt í slíkum samræðum með fólki sem við getum treyst, getum við sagt frá okkar dýpstu trú, okkar dýpstu skoðunum, því sem við höldum um ólík málefni; og sífellt lært af viðbrögðum viðmælenda okkar. Fátt er dýrmætara í þessum heimi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband