Hvalurinn og blindu mennirnir
27.11.2023 | 07:52
Dag einn í litlu sjávarplássi voru sex blindir vinir að ræða saman um hvalveiðar. Þeir áttu í hatrömmum umræðum um af hverju ætti að leyfa hvalveiðar og af hverju ætti að banna þær, þar til einn þeirra spurði, Hefur einhver ykkar séð hval? og þar sem allir voru blindir hristu þeir allir hausinn og sögðu Nei.
Förum þá og skoðum hval og komumst að því hvort eigi að veiða þá eða ekki, sagði sá sem fyrst spurði.
Hvernig gerum við það? sagði annar.
Hvað um hvalaskoðunarferð? sagði sá þriðji.
Það var samþykkt og fóru mennirnir sex til borgarinnar þar sem hægt var að komast um borð í hvalaskoðunarskip. Allir fóru þeir í vatnsheldan galla og voru svo leiddir um borð. Það var frekar leiðinlegt veður þennan dag, ansi kalt, frekar hvasst, og það rigndi. Þannig að mennirnir sex sátu í skipinu í hnipri og biðu eftir stóru stundinni, að það sæist í hval.
Loks kom að því, skipstjórinn lýsti yfir í kallkerfinu að hvalur væri í sjónmáli, hægt væri að sjá hann blása og risastór sporðurinn var nú svo nálægt að fólkið í kringum sexmenningana tók andvarp. Og hvalur sló sporðinum niður þannig að skvettist yfir alla farþegana.
Þegar þeir sex blindu komu heim í sjávarplássið aftur, reynslunni ríkari af hvalnum, þá settust þeir niður og ræddu saman.
Hann var frekar kaldur, sagði einn.
Já, og blautur, sagði annar.
Heldur hvass, sagði sá þriðji.
Og heyrðirðu þegar hann kom upp, þá hljómaði það eins og andvörp og klapp? sagði sá fjórði.
Það var saltbragð af honum, sagði sá fimmti.
Mér fannst hann bara nokkuð skemmtilegur, sagði sá sjötti.
Það er nokkuð augljóst að þessi dæmisaga er ný útgáfa a blindu mönnunum sem þreifuðu á fíl til að átta sig á hvernig hann væri, fóru svo til konungs að lýsa honum, en lýstu allir einhverjum eiginleikum, en voru ófærir um að lýsa sannleikanum öllum því þeir sáu hann ekki.
Það sama á við um þessa sex íslensku hvalaskoðara. Hvort þeir hafi verið eitthvað nær því að ákveða hvort veiða ætti hvali eða ekki liggur ekki í augum uppi, en við vitum að allir upplifðu þeir hval með einhverjum hætti, og mynduðu sér skoðun á hvað hvalur er.
Og nú er spurningin, hvernig getum við vitað hvað einhver vera er, án þess að vera bundin þeirri skoðun sem við höfum myndað okkur vegna fyrri reynslu? Og hvernig færum við að því að komast að því hvað hvalur er í raun og veru, hvernig færum við að því að nálgast sannleikann?
Og svo þarf ég að spyrja aftur, hvort ætli sé meira virði, skoðunin um hvalinn eða þekkingin? Getum við vitað sannleikann um hvalinn eða erum við takmörkuð við okkar eigin reynslu og sjónarhorn, getum við aðeins haft skoðun sem er dæmd til að vera tálsýn?
Athugasemdir
það skynjar(eða sér)engin alla myndina. Blindur skynjar bara öðruvísi mynd af hval en þeir sem sjá. Upplýsingarnar sem báðir hafa aðgang að í gegnum skynfæri sín, eftir einn dag í hvalarannsóknum eru alltaf margfalt meiri en heili þeirra ræður við að vinna til gagns. Þannig verður sá sem er með virkari úrvinnslu gagnanna í hausnum alltaf með skýrari mynd af hval eftir jafn langan tíma í hvalarannsóknum.
Guðmundur Jónsson, 27.11.2023 kl. 10:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.