Hver er munurinn á námi og kennslu?

DALL·E 2023-11-23 08.52.20 - A cowboy as the main protagonist, depicted in a thoughtful pose, symbolizing reflection and learning. The background is a classroom setting, subtly bl

“Ef við kennum í dag eins og við kenndum í gær stelum við morgundeginum frá nemendum okkar.” - John Dewey. Lýðræði og Menntun. 1916. 

Í menntavísindum er gerður greinarmunur á námi og kennslu. Samt virðist þessi greinarmunur ekki alltaf vera gerður af þeim sem velta kennslufræðinni lítið fyrir sér. Við þurfum að þekkja okkar eigin takmörk, hvort sem við erum að kenna eða læra.

Stundum hef ég heyrt þá hugmynd að kennsla sé “yfirfærsla þekkingar”, að hún sé tekin frá einum stað og sett inn í annan. En það er misskilningur. Við getum ekki fært þekkingu úr einni manneskju í aðra. Þekking er eitthvað sem við byggjum upp, hvert og eitt, út frá upplýsingum og reynslu, með athygli og vinnu. 

En veltum þessu aðeins fyrir okkur.

Kennsla felst til dæmis í miðlun upplýsinga, skipulagi námsumhverfis, framkvæmd kennslustunda, leiðsögn og stuðningi við nemendur, og stundum námsefnisgerð. Það er misjafnt hvað kennarinn vill að nemandinn taki með sér í lok kennslu, en yfirleitt er það ákveðin þekking og skilningur, færni og viðhorf, sem í einu orði er kallað hæfni

Kennarinn getur ekki þvingað þessari hæfni upp á nemandann, nemandinn þarf að sýna náminu athygli, þarf að viða að sér upplýsingum, ekki aðeins frá kennaranum, heldur einnig úr eigin reynsluheimi, af netinu, úr bókum, úr tímaritsgreinum, frá öðru fólki úr samfélaginu og þar fram eftir götunum. Einnig þarf nemandinn að leggja á sig vinnu, oftast einhvers konar rannsóknarvinnu, þarf að skipuleggja sig og eigin þekkingu, afla sér verkfæra og síðan æfa sig í að beita þeim. Sjálfsagt gengur misjafnlega í fyrstu tilraun, en flest okkar getum lært hluti sem við einbeitum okkur að. Loks þurfum við að vilja gera það sem við höfum lært, við þurfum að móta viðhorf til að gera það sem við höfum lært vel og vandlega, og gæta þess að lærdómurinn verði að dyggð.  Þetta getur verið jafn einfalt og að negla nagla af nákvæmni, fjarlægja tönn úr gómi án þess að valda skaða, eða skrifa grein um muninn á námi og kennslu.

Hlutverk nemandans er einmitt að nota kennsluna til að byggja upp eigin þekkingu, færni og viðhorf, og gerir það best með því að sýna þá virkni sem ætlast er til samkvæmt áætlun kennarans. Nemandinn getur tekið við upplýsingum og unnið úr þeim, en getur aldrei tekið þekkingu frá annarri manneskju. Það er algengur misskilningur. Nemandinn er sá sem þarf að vinna til að nám eigi sér stað. 

Kennari getur kennt betur en nokkur annar án þess að nemandinn læri nokkuð, og nemandi getur lært ýmislegt án þess að fá nokkra kennslu. Kennsla hjálpar nemandanum að öðlast hæfni hratt og vel, en það er á ábyrgð nemandans hvort að hann þiggi þennan stuðning og leggi á sig þá vinnu sem þarf til að öðlast þessa hæfni. Sé nemandinn latur og fylgist ekki með eða sinnir ekki námi sínu, þá mun hann ekki læra. Svo einfalt er það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dominus Sanctus.

Allir geta t.d. stundað einhverskonar fjarNÁM

t.d. heima hjá sér, með því að lesa einhverjar bækur

um það sem að þeir vilja fræðast um.

-------------------------------------------------------

Ef að ég vildi læra að geta gert kraftaverk

með sama hætti og kristur gerði á sínum tíma

að þá þyrfti ég að byrja á því að finna mér

kennara / meistara sem að gæti kennt mér slíkt.

Dominus Sanctus., 23.11.2023 kl. 09:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband