Veljum frið frekar en afbrýðisemi

DALL·E 2023-11-19 23.39.53 - A realistic portrayal of a worried cowboy, his face etched with jealousy, standing in a mystical setting. Around him, angels and demons subtly vie for

Afbrýðisemi er tilfinning sem getur sprottið upp þegar við sjáum að einhver annar eignast hlut eða fær tækifæri sem okkur finnst að við ættum sjálf að hafa fengið. Afbrýðisemi er oft kölluð leiðinlegasta syndin eða lösturinn því hún veldur þeim sem hefur hana sífellu hugarangri og gerir ekkert gagn, heldur verður hún aðeins til þess að sá sem finnur til hennar verður smám saman reiður út í aðra, nákvæmlega vegna þessa samanburðar.

Það er auðveldlega hægt að komast hjá að finna til afbrýðisemi, en það krefst íhugunar og sjálfsþekkingar, og þess að vera sáttur við það sem maður hefur, frekar en langa stöðugt í eitthvað sem maður hefur ekki. Það er nefnilega hægt að stjórna hvað maður vill. Ég get ekki stjórnað hvað þú vilt, en ég get svo sannarlega stjórnað hvað ég vil.

Þessi tilfinning, afbrýðisemi, getur sprottið fram hjá hverjum sem er og hvenær sem er. Málið er að ef hún herjar á okkur aðeins í augnablik og við finnum einhvern smá sting, og okkur tekst síðan með skynsamlegri hugsun að bægja henni frá, í stað þess að dvelja við hana, leyfa henni að festa rætur í sál okkar og dreifast um alla tilvist okkur, þá höfum við sparað okkur mikinn tíma og erfiði.

Ein af leiðunum sem ég þekki til að komast undan þessari tilfinningu sem afbrýðisemin er, er með því að langa aðeins í það litla sem maður hefur, og þá er ég ekki að tala um hluti, húsnæði, bíl, heilsu eða líf; heldur það að geta tekið ákvörðun hér og nú; það er það litla sem við höfum, og ef við áttum okkur á því verður líf okkar strax betra, en ef við áttum okkur aldrei á því. 

Aðrar leiðir eru að lýsa yfir þakklæti fyrir það sem maður hefur, fyrir það góða sem gerist í lífinu, og stefna á það að læra sífellt eitthvað nýtt og áhugavert hvern einasta dag. Fagnaðu þegar þér gengur vel, og þegar illa gengur, taktu því af æðruleysi og þakkaðu fyrir að ekki fór verr.

Það er í það minnsta það sem ég geri sjálfur, eða reyni að gera, og ég er afar sáttur við tilveruna þrátt fyrir að hafa lent í margskonar krefjandi aðstæðum hér og þar um heimsbyggðina, hörmungum af völdum náttúru og manna, sem hægt er að bregðast við og gera að tækifæri til að vaxa og þroskast sem manneskja frekar en að láta þessa ytri atburði buga sig. 

Því sem ég þakka fyrir þessa hugarró er fyrst og fremst kynni mín af heimspeki, sem er í raun pælingar um allt það sem hefur vægi í lífi okkar: siðferðið, rökhugsunin, þekkingin, fegurðin og heimurinn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband