Stóískt hugarfar: innri styrkur gegn ytra mótlæti

DALL·E 2023-11-18 23.17.38 - A fantasy scene inspired by the themes of stoicism and resilience in adversity, set in a rugged, stormy landscape reminiscent of Grindavik. The main c

Nú standa Grindvíkingar í þeirri íþrótt að fá að fara inn á heimili sitt með nokkurra daga millibili og kannski fá að sækja eitthvað af eigum sínum. Það er til dæmis ekkert sjálfsagt að eiga sinn eigin borðbúnað, þar með talið Italaglös og Múmínbolla, bækur, rúm, sófa eða borðstofuborð, sjónvarpstæki, hjól, dekk undir bílinn, verkfærakassa, mat í ísskáp eða frysti, grilla úti, grípa í skákborðið eða spil.

Það er ekki hægt að bjóða fjölskyldu í mat, passa barnabörnin, skreppa saman út á róluvöll eða búð. Það er svo margt sem hefur færst algjörlega til hliðar þessa dagana. En samt halda flestir stóískri ró sinni. Æðruleysið og róin hafa verið umtöluð þessa dagana, þrátt fyrir að fólk sé ósátt með stöðuna og gagnrýni yfirvöld af hörku. Það má. Sannur stóuspekingur myndi sjálfsagt geta yppt öxlum yfir þessum veraldlegu eigum, og viðurkenni ég fúslega að vera ekki kominn nógu langt í sjálfsaga til að flokkast sem slíkur, en viðleitnin er þó til staðar.

En nú langar mig að velta aðeins fyrir mér hvað það þýðir að vera stóuspekingur, enda hefur því ansi mikið verið fleygt fram undanfarið að Grindvíkingar séu afar stóískir. Þar sem ég hef sjálfur stúderað þetta hugtak og reynt að haga mér í samræmi við dyggðir hennar til margra ára, finnst mér sjálfsagt að deila einhverju smáræði af pælingum um stóuspeki og stóuspekinga.

Stóuspekingur lítur á dyggðir sem það dýrmætasta í tilverunni. Þær dyggðir sem stóuspekingar verja mestum tíma í að byggja upp í eigin persónuleika eru viska, hugrekki, réttlæti og hófsemi. Stóuspekingur reynir að láta ytri atburði hafa sem minnst áhrif á sig, og er fær um að öðlast ró með skynsemi og rökhugsun að vopni. Þeir gera skýran greinar mun á því sem þeir geta og geta ekki stjórnað. Þeir leitast við að haga sér í samræmi við dyggðirnar eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Annars eru stóuspekingar eins og flestar aðrar manneskjur, þeir hafa sína galla, eru ekki fullkomnar manneskjur, en átta sig á hversu gott getur verið að hafa stjórn á því sem er innan umfangs þeirra. 

Stóuspekingar eru ekki tilfinningalausir. Þeir tala ekki um að eyða tilfinningum, heldur að hafa stjórn á þeim með rökhugsun og á uppbyggilegan hátt.

Stóuspekingar eru ekki bölsýnir. Þeir hvetja fólk til að vera raunsætt og horfa á lífið með hlutlægum hætti, rétt eins og vísinda- og fræðimenn gera. Með þeim hætti geta þeir verið betur undir það búnir að sætta sig við það sem þeir geta ekki breytt, en það þýðir ekki að þeir verði að búast við hinu versta.

Stóuspekingar hafna ekki gleði og ánægju. Þeim getur þótt gaman að syngja, dansa og geta auðveldlega haft góðan húmor. Yfirleitt eru þeir auðmjúkir og tilbúnir að hlusta á annað fólk, en standa nokkuð traustir fyrir þegar kemur að eigin hugsunarhætti, sem þýðir þó alls ekki að þeir séu þrjóskir.

Stóuspekin er ekki bara fyrir fáein gáfnaljós sem komast í háskóla, heldur fyrir alla, óháð menntunarstigi, því hún snýst um visku í hversdagslífinu, óháð menntastigi eða gáfum.

Stóuspekin er ekki trúarbrögð en krefst andlegs aga og trú á mátt hugans. Í stóuspekinni má finna pælingar um dyggðina og eðli alheimsins, en krefst ekki neinnar ákveðnar andlegrar trúar. Einstaklingar geta stundað stóuspeki óháð trúarbrögðum.

Stóuspekingar eru ekki óvirkir og leiðinlegir í samböndum, heldur leggja þeir mikla áherslu á rækt við sambönd sín, sem byggir á virðingu, skilningi og kærleika. Þeir átta sig á að við endum lífið einhvern tíma og meta þá lífið sjálft ennþá meira fyrir vikið, en alls ekki meira en dyggðirnar. Líf, dauði og heilbrigði eru hlutlaus fyrir stóuspekinginn á meðan hið góða og illa er eitthvað persónulegt sem við veljum sjálf eða höfnum í okkar tilvist.

Stóuspekin er alls ekki útdauð. Ein öflugasta hreyfing sálfræðinnar í dag, hugræn atferlismeðferð, byggir á stóuspeki að mestu leyti, þar sem gerður er greinarmunur á því sem við getum stjórnað og getum ekki stjórnað, því sem er raunverulegt og því sem er ímyndun. Stóuspekin getur gagnast við að stjórna álagi, taka góðar ákvarðanir og finna djúpstæða ánægju í lífinu, sama hvað gerist eða bjátar á.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband