Að sjá ljósið úr vitanum í lífsins ólgusjó
16.11.2023 | 21:08
Á morgun fæ ég tækifæri til að heimsækja heimilið mitt. Fæ fimm mínútur til að fara inn, stinga í poka, og koma mér svo út aftur. Ástæðan fyrir fimm mínútum sýnist mér vera nokkur skýr. Átta manns fara í bifreið hjálparsveitarinnar og stoppað er fyrir framan þessi átta hús, og hver einstaklingur fær fimm mínútur og þarf að koma til baka. Það er ekki hægt að skilja fólk eftir í húsunum, bifreiðin þarf að vera nálægt ef til nýrrar rýmingar kemur.
Ég er þakklátur fyrir hverja mínútu sem ég fæ og ætla að gera mitt besta til að nota hverja einustu þeirra mjög vel. Til þess þarf ég eitthvað af visku og hugrekki. Undirbúningur minn felst í að gera lista þar sem ég forgangsraða ákveðnum hlutum eftir herbergjum í húsinu. Markmiðið er að fara eftir þessum lista og ná öllum þeim hlutum sem eru á honum. Ég veit að þegar að augnablikinu kemur er hugurinn líklegur til að fara í allar áttir, truflaður af tilfinningum sem geta ruglað mig, en þá þarf einmitt hugrekki til að sigrast á öllum þessum tilfinningum og halda starfinu áfram.
Allt þetta fær mig til að velta fyrir mér hvar ég er staddur og af hverju ég er þar, og þá er ég að velta því fyrir mér í stærra samhengi en því að vera flóttamaður í eigin landi, heldur sem manneskja í þessum heimi sem lifir í dag.
Á ferðalagi mínu um heiminn hef ég rekist utan í risa hugsunar eins og þá Epíktet og Platón. Raddir þeirra bergmála gegnum aldirnar, ekki aðeins í gegnum þeirra eigin rit, heldur endurómar speki þeirra víða og oft í ritum annarra heimspekinga. Viska þessara manna hefur vísað mér veginn áratugum saman og sífellt finn ég eitthvað frá þeim sem kveikir ferskar pælingar í mínum huga, þessi viska hefur stýrt mér ágætlega í gegnum lífsins ólgusjó, sérstaklega á degi eins og deginum í dag. Þegar ég kynntist þessum heimspekingum fyrst var skilningur minn á lífinu og tilverunni frekar grunnur, og var í raun lífsins ólgusjór í sjálfu sér.
Þrátt fyrir að Epíktet hafi verið þræll í Róm fyrir rúmlega 2000 árum finnst mér hann vera æðislegur félagi, sem hvíslar einhverju skemmtilegu að mér hvern einasta dag. Ég skil hann vel og er þakklátur honum fyrir að vera frábært dæmi um manneskju sem stýrir lífi sínu með heimspekinni, sem reyndist honum eins og viti í myrkri, sem stýrði honum og hefur stýrt mér í rólegan fjörð. Þó að heimurinn sé í algjöru rugli, þýðir það ekki að við þurfum að vera það líka, því ef við höfum trausta heimspeki sem bakland okkar, finnum við stöðugt góða leið úr öldurótinu.
Á meðan heimspeki Epíktets er eins og bjartur viti er heimspeki Platóns eins og hafið allt, djúpt og dularfullt, seiðandi og spennandi. Mig langaði að geta siglt um þá speki, kafað djúpt þegar það átti við og flogið aðeins yfir það með tíð og tíma. Það er sérstaklega tvennt sem risti djúpt í minni mitt, Hellislíkingin og lýsing hans á síðustu dögum Sókratesar, og hvernig Hellislíkingin er myndhverfing af lífi og dauða Sókratesar.
Platón kenndi mér það sem ég reyni sífellt að læra betur, að sýna auðmýkt þegar kemur að hugmyndum sem ég tel mig þekkja, því það þarf yfirleitt ekki langa samræðu eða djúpar spurningar til að maður átti sig á hvernig hvert einasta hugtak á sér ólíkar víddir, sem birtist á ýmsan hátt í ólíkum hugum. Hann gaf mér tilefni til að velta fyrir mér ódauðleika sálarinnar og óvissunni um hvað dauðinn er. Hann hjálpaði mér að átta mig á hversu rík óvissan getur verið og hvernig hún getur sjálf reynst vera leiðarljós fyrir hvernig maður lifir lífinu.
Heimspekileg iðkun mín hefur verið fræðileg en líka miklu meira en það, hún hefur reynst praktísk, gagnleg, hún hefur hjálpað mér að víkka hugarfar mitt og þannig hjálpað mér að ná fljótt yfirsýn yfir ólíklegustu hluti. Þetta hefur gagnast mér í lífi og starfi. Hugsun mín er yfirleitt nokkuð skýr, og ég er þakklátur fyrir það, en það er ekki eitthvað sem mér var gefið, heldur fólst heilmikil vinna í að öðlast þennan skýrleika sem ég bý yfir í dag, og ennþá er heilmikið verk fyrir höndum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.