Tilfinningadoði og æðruleysi: Grindvíkingar berjast fyrir tilveru sinni

hrannar._a_cowboy_who_is_feeling_numbness_while_facing_a_tremen_b5839594-36c2-4f2c-b2bd-1c84cb5e79ce

“Það er skrýtin tilfinning að þurfa að yfirgefa heimilið sitt sem maður er búinn að setja þrotlausa vinnu í til að eiga gott og fallegt heimili fyrir fjölskylduna, maður getur eiginlega ekki lýst því hvernig manni líður, ef ég tala fyrir hönd fjölskyldunnar þá líður okkur ekki illa, okkur líður ekki sæmilega og okkur líður samt ekkert vel, okkur líður bara.” - Sigurður H. Hallfreðsson

Ég gæti ekki verið meira sammála stjúpsyni mínum, sem ég vitna í hér að ofan. Það erfiðasta fyrir okkur er óvissan, að vita ekki hvað verður, hvort húsin okkar fari undir hraun eða sökkvi í jörðu, hvort flæði yfir þau, hvort hitaveiturör springi inni í húsi og eyðileggi þannig það sem eftir er af eigum okkar.

Við höfum áhyggjum af húsnæðislánum sem þarf annað hvort að borga af eða munu halda áfram að safna vöxtum þá mánuði sem hægt verður að frysta lánin. Mér var tjáð að öll gjöld verði felld niður og að afborganir af bæði höfuðstöð og vöxtum verði frystar, en staðreyndin er sú að höfuðstóllinn getur hækkað um milljónir á meðan allt er fryst, sem þýðir að endurgreiðslan verður mun meiri ef maður sleppir því að borga einhverjar greiðslur. Þetta er svolítið eins og að fá matarbita að gjöf, með því skilyrði að maður greiði fimm ísskápa fullum af mat til baka.

Það eru liðnir afar erfiðir dagar fyrir Grindvíkinga síðan rýmt var vegna gríðarlegra jarðskjálfta og komandi eldgoss undir bænum. Ég finn til kvíða aldrei þessu vant, mér bregður þegar ég heyri drunur og hvelli, og er stöðugt með einhvern óþægindahroll, nánast sama hvert ég lít. Ég hef áhyggjur af fólkinu í kringum mig og vil gera mitt besta til að þeim líði vel og finni til öryggis.

Ég vil vinna mína vinnu og halda áfram að styðja mína skjólstæðinga með fullum krafti, en kannski með meiri hjálp teymisfélaga minna en oft áður. Mér hefur verið boðin gisting hér og þar á Íslandi, einnig í Bandaríkjunum, Noregi og Tyrklandi.  Mér þykir afar vænt um alla þessa samstöðu, bæði frá íslenskum og erlendum vinum mínum, sem sýnir að við erum öll ein fjölskylda, þrátt fyrir ömurlegar styrjaldir sem geysa vegna þess að leiðtogar hafa lélegt hugarfar og haga sér eins og þeir eigi löndin sem þeim er ætlað að þjóna. 

Á dögum eins og þessum, þegar raunhæfar líkur eru á að heimilið og flestar eigur manns verða undir hrauni eftir nokkrar vikur, það er þá sem manns sanna manngerð ætti að koma í ljós. Vissulega hefur þetta verið mikill tilfinningarússíbani sem skilur mann eftir dofinn og starandi út í loftið, maður hefur áunninn athyglisbrest þar sem ég heyri varla lengur hvað fólk segir nema ég beiti allri minni athygli, og þegar minnstu jarðskjálftar ríða yfir fæ ég kvíðahnút í magann.

Við ráðum ekki við þær tilfinningar sem við upplifum, þær koma sama hvað, rétt eins og náttúran hlustar hvorki á langanir okkar né vilja, og ryðst yfir okkur án nokkurrar tillitssemi. Þó að við elskum náttúruna, er ég ekki viss um að hún elski okkur.

Það eina sem við getum ráðið við er hvernig við vinnum úr þeim hlutum sem gerast, hvort sem það eru sterkar tilfinningar eins og ástríður eða ótti, efnislegir hlutir eins og árekstrar, sjúkdómar, náttúruhamfarir eða annað. Í huga okkar koma alls konar hugsanir, tilfinningar og langanir, en með sjálfsaga og skilningi getum við lært að vinna úr þessu öllu saman, sem síðan birtist í hugsunarhætti og hegðun.

Ef okkur tekst að haga okkur af æðruleysi og heilindum á meðan hamfarir ganga yfir, gefur það til kynna að okkur hefur tekist að þroska með okkur dyggðir eins og hugrekki, visku og hófsemi. Það sýnir að kringumstæðurnar ráða ekki yfir okkur, þó að við ráðum ekki yfir þeim, heldur að við ráðum yfir sjálfum okkur óháð kringumstæðum.

Sama þó að við vinnum stöðugt í að verða betri manneskjur með að vinna í dyggðum okkar þýðir það alls ekki að við verðum að einhvers konar ofurmennum eða dýrlingum, heldur að fólki sem er meðvitað um hvernig við erum, hvaða tilhneigingar við höfum, og lærum að vinna úr þeim á heilbrigðan hátt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband