Grindvíkingar: flóttafólk í eigin landi og æðruleysið
11.11.2023 | 08:24
Gærdagurinn var súrrealískur og framhaldið er það líka. Við flúðum Grindavík um kl. 19:00 þar sem barnabörn sem við gættum voru orðnar óttaslegnar vegna jarðskjálfta, og við vildum umfram allt koma þeim í skjól. Neyðarástand var í bænum en á algjörlega persónulegum forsendum. Við keyrðum ekki rakleitt í bæinn, enda Grindavíkurvegurinn farinn í sundur, heldur ókum Suðurstrandaveginn alla leið til Hveragerðis því við vorum meðvituð um sterka jarðskjálfta í Þrengslunum og við Raufarhólshelli sem höfðu átt sér stað síðustu daga. Og um kl. 2 í nótt kom barnabarn í heiminn.
Það hefur verið afar fallegt að heyra í fjölskyldu, vinum og kunningjum nær og fjær boðin og búin að bjóða aðstoð og húsnæði. Við fundum skjól í íbúð foreldra minna. Svolítið sérstakt að vera fluttur heim kominn yfir fimmtugt. Það sama hefur heyrst frá öðrum Grindvíkingum, þeim er tekið með opnum örmum víða um samfélagið. Fátt er fallegra en slík gjafmildi. Þarna þekki ég Ísland æsku minnar.
Þetta ástand vekur vissulega upp minningar, í raun eru þetta þriðju náttúruhamfarirnar sem ég upplifi á eigin skinni. Og ég ræddi þetta aðeins við vinnufélaga um daginn sem hafði upplifað hræðilegt snjófljóð í sinni æsku, en áhrifin á okkur bæði voru sú að við byrjuðum að rækta með okkur æðruleysi, til þess einfaldlega að geta höndlað ástandið í okkar eigin sál, brugðist við ástandinu án þess að bugast og finna styrkleika sem býr óbrigðull innra með okkur, ef við aðeins kunnum að leita hans.
Þetta er samt ekki eitthvað sem venst, en fyrir vikið verður stóuspekin mér ennþá kærari, en hún kennir að einbeita okkur að því sem maður getur sjálfur breytt, frekar en öllu því stjórnlausa sem getur oltið yfir mann, öllu því sem getur gerst; hamfarir, slys. Það versta er nefnilega að gera ekki greinarmun á því valdi sem við höfum yfir sjálfum okkur, og gert sjálf okkur að fórnarlömbum ytri aðstæðna.
Ég get ekki stjórnað fellibyl, flóði, fjármálakreppum, jarðskjálftum og eldgosum, en get haft djúp áhrif á hvernig ég sjálfur bregst við þessu öllu saman, og besta leiðin sem ég þekki til þess er að rækta dyggðir í sjálfum mér og átta mig á því sem hefur raunverulegt gildi í þessu lífi.
Til eru hundruðir dyggða til að velja úr, en stóuspekingar mæla með einhverjum þeirra og ég hef verið að rækta sumar þeirra í eigin sálargarði síðustu áratugina, dyggðir eins og visku, hugrekki, réttlæti, góðvilja, hófsemi og þrautseigju. Mér hefur gengið frekar illa með hófsemina þegar kemur að því að gúffa í sig súkkulaði, en er annars nokkuð góður, sífellt á betri veg. Það sem ég hef helst lært af þessari vegferð er að þessu námi lýkur aldrei, það er stöðugt hægt að bæta sig, og ég finn hvað það er margfalt betra en að reyna það ekki.
Það var fyrst í framhaldsskóla sem ég kynntist verkum Epíktetusar, í gegnum bókina Hver er sinnar gæfu smiður, en Gunnar Dal og Gunnar Hersveinn mæltu báðir með henni, og næsti heimspekingur sem ég lærði um og dáðist af var Sókrates, sem kenndi mér vitsmunalega auðmýkt, þó að hann hafi verið á lífi. Aristóteles kenndi mér eitthvað um að leita upplýsinga og sönnunargagna fyrir því sem við höldum um heiminn. Kant kenndi mér að einn besti leiðarvísirinn gegnum lífið er að meta góðvild mikils, sérstaklega þegar hún kemur frá manni sjálfum. Ég hef notið þess að læra heimspeki með yndislegum manneskjum eins og Gunnari Hersveini (sem kom mér á slóðina), Páli Skúlasyni, Róberti Haraldssyni, Hreini Pálssyni, Þorsteini Gylfasyni, Arnóri Hannibalssyni, Mikael M. Karlssyni, Matthew Lipman, Marc Weinstein og Ann Margaret Sharp.
Það hefur verið gott að vera í fylgd slíkra manneskja, sem gera að ævistarfi sínu leit að áreiðanlegri þekkingu og visku til að fara vel með hana. Þetta eru mínar fyrirmyndir, en stærsta fyrirmyndin felst samt djúpt í sjálfum mér, barninu í mér, þessu sem er sífellt leitandi, sem veit að það veit ekki, sem reynir að kynnast dygðunum og vinna með þær, þjálfa þær í verki, læra þær af alúð.
Þetta þýðir að sama hvað á bjátar, sama hvað gerist, þrátt fyrir hamfarir og erfiðar aðstæður, þá er það sem mest skiptir eitthvað heilt og gott sem getur búið með okkur öllum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.