Jarðskjálftarnir í Grindavík: veruleiki og ímyndun
9.11.2023 | 18:11
Í nótt héldu jarðskjálftar í Grindavík fyrir mér vöku frá kl. 12-4. Ég upplifði þá sem einn stanslausan skjálfta og oft lék húsið á reiðiskjálfi. Ég heyrði djúpar drunur koma á undan hverjum skjálfta, eins og einhver risastór hvalur úr eldi og brennistein ætlaði að brjóta sér leið í gegnum jarðskorpuna og gleypa allan bæinn. Önnur mynd sem ég sá í huga mínum var að mörg þúsund persónur, rithöfundar og fólk úr öllum þeim bókum sem sitja á bókahillum mínum, vaknaði til lífsins og tók til að dansa trylltan dans frá klukkan 12-4 þessa nóttina. Úti fyrir geltu hundar og ég heyrði börn og fullorðna fara upp í bíla og bruna eitthvað í burtu. Sumt af þessu gerðist í raun og veru, sumt af þessu er hluti af ímyndun minni.
Við getum ekki vitað með fullvissu að það sem við teljum að hafi einhvern tíma gerst hafi í raun átt sér stað. Samt þýðir það ekki að við vitum ekki neitt. Við verðum aðeins að vera meðvituð um að ályktunarhæfni okkar og geta til að sjá fyrir að eitthvað hafi gerst á ákveðinn hátt er takmörkuð að einhverju leyti. Við getum séð stóru myndina, og getum ímyndað okkur hvernig hlutir hafa gerst, en við getum ekki vitað nákvæmlega hvað hefur gerst á einhverri stundu sem hefur liðið, hvort sem við erum að tala um eitthvað sem gerðist fyrir 2000 árum, 10 árum, eða bara í gær, jafnvel þó að við takmörkum okkur við eitt ákveðið sjónarhorn.
Þau fyrirbæri sem ég sá fyrir mér eru hluti af öllu því sem gerðist, og líklega sá hluti sem sagnfræðingar munu líkast til ekki taka eftir, því þeir geta varla skyggnst inn í draumheim allra þeirra sem upplifðu þessa jarðskjálfta. Það sem vísindamenn hafa hins vegar eru mælar sem geta skynjað hvar skjálftarnir eiga upptök, á hversu miklu dýpi og af hversu miklum styrkleika.
Hvort ætli upplifun þeirra sem upplifðu nóttina í gegnum þessa skjálfta hafi dýpri merkingu, eða tölustafirnir sem birtast í töflum á veður.is? Getum við sagt frá þessari nótt án þess að taka tillit til upplifun allra sem að henni komu? Hvernig veljum við þau sjónarhorn sem við viljum hlusta á?
Eigum við að velja bæjarstjóra, lögreglustjóra, vísindamenn, forstjóra og einhverjar sálir sem upplifðu skjálftana til að skilja hvað gerðist í raun og veru, eða dugar okkur að heyra einhverjar staðreyndir og ímynda okkur afganginn? Ef okkur dugar að fylla í eyðurnar, erum við þá að missa af því sem raunverulega átti sér stað?
Við þurfum að átta okkur á því að upplýsingarnar sem við höfum er ekki nóg til að sjá allan sannleikann og ekkert nema sannleikann, og við þurfum að átta okkur á hvernig við fyllum stöðugt inn í eyðurnar með reynslu okkar og skilningi á heiminum, sem gætu verið góðar ágiskanir en geta líka verið út í hött.
Allt það sem við teljum vera satt, er ekki eitthvað sem við vitum með fullri vissu. Sumir trúa því sem þeir telja vera satt og telja ómögulegt að þeir geti haft rangt fyrir sér, og sumir átta sig á því að það sem þeir telja vera satt er ekki fyllilega það sem þeir telja það vera, og eru opnir fyrir nýjum túlkunum og upplýsingum, sem geta smám saman gefið fyllri mynd af þeim atburðum sem áttu sér stað.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.