Hvað kostar að vanrækja skyldur okkar og störf?
7.11.2023 | 07:42
Ef við sinnum skyldum okkar ekki af alúð og ábyrgð getur það haft dýpri áhrif á okkur sjálf, nærumhverfið og samfélagið allt en okkur grunar í fyrstu. Hugsum okkur þrjár manneskjur sem eru að velta þessu fyrir sér, fagmann, verkamann og námsmann.
Ef fagmaðurinn bregst skyldum sínum getur það eyðilagt orðspor hans á afar stuttum tíma, og ekki aðeins hans orðspor, heldur starfsstéttar hans og þeim iðnaði sem hann stundar. Hugsaðu þér afleiðingarnar ef enginn treystir lengur bankastarfsmönnum, að viðskiptavinir telji að fyrirtækið vilji ekkert annað en hirða peninginn frá viðskiptavinum sínum, að þeim sé nákvæmlega sama um að gæta þess sem er þeirra skylda að gæta, og vilja aðeins hagnast með því að nota fjármunina sem þeir fá í sína vörslu til að stækka og græða? Hversu mikils virði er slíkur fjárhirðir til lengri tíma? Hugsaðu þér að þetta væri fjárhirðir sem sinnir kindum og lömbum, en hann hefði engan áhuga á að koma þeim í beit og svo aftur heim í fjárhús, heldur vildi taka sér nokkur lömb sjálfur, slátra þeim og selja? Hver myndi treysta slíkum fjárhirði? Þegar orðspor einnar manneskju eða stéttar hefur verið lagt í rúst, þó svo það sé ekki nema af einni manneskju, getur það tekið afar mikla orku og heilmikinn tíma að bjarga því sem bjargað verður, og hugsanlega þarf að brjóta allt niður sem hefur verið byggt upp og byrja upp á nýtt, en þá með betri aga, með meiri elju, ábyrgð og alúð.
Fyrir verkamann er slíkt ástand alveg jafn slæmt, því ef hann uppfyllir ekki skyldur sínar og lætur eins og ekkert sem hann gerir skiptir máli, þá eru aðrir starfsfélagar líklegir til að falla í sama far, og ef það gerist og störf þeirra verða ekki vel unnin, getur það haft djúp áhrif á allt samfélagið, því störf eru meira en einhver smáverk, þau þjóna meiri tilgangi. Þegar verkafólk sinnir ekki skyldu sinni og finnur ekki tilgang með verkum sínum, mun það hafa áhrif á útkomuna.
Fyrir námsmann að sinna ekki skyldum sínum hefur yfirleitt áhrif á þær einkunnir sem hann fær, en takist honum að svindla sér í gegnum kerfið, þá missir hann af mikilvægum hlutum eins og að þjálfa sig í gagnrýnni hugsun, byggja upp eigin þekkingu og verður þannig illa undirbúinn þegar verkefni framtíðarinnar krefjast af honum að sinna skyldum sínum. Því sá sem hagnast á því að svindla mun á endanum lenda í aðstæðum þar sem hann verður afhjúpaður sem svindlari, og sjálfsagt sitja uppi með ónýtt orðspor og óánægt fólk allt í kringum hann; nema allir hinir séu jafn slæmir. Þá erum við komin út í aðra sálma, og farin að tala um spillt og jafnvel ónýtt samfélag. Menntun snýst ekki bara um einstaklinginn sem er að læra, heldur er menntun hornsteinn menningar og samfélags. Ef slíkur hornsteinn er illa byggður, ef það eru sprungur í honum, ef það er ekki traust efni í honum, þá mun hann á endanum verða til þess að öll byggingin hrynur. Og uppgötvist að vandinn sé í grunni eða hornsteini eftir að byggingin hefur verið byggð, þá mun það kosta ansi mikið að lagfæra bygginguna, á kostnað frekari uppbyggingar.
Traust er það sem heldur samböndum, fyrirtækjum og samfélaginu saman. Þear við sættum okkur við lygar og svik, spillingu og græðgi, þá erum við að grafa undan trausti sem framtíðin þarf að byggja á, og í stað þess að gefa þeim tækifæri til að byggja meira og betur, gefum við þeim vandamál til að leysa, sem leiða þau ekki þangað sem þau hefðu getað farið.
Það að sinna ekki skyldum sínum af alúð og ábyrgð jafnast á við að eyðileggja fyrir öllum hópnum framtíð sem hefði verið hægt að byggja, framtíð sem hefði verið góð fyrir alla í samfélaginu. Þegar við sinnum störfum okkar af alúð og ábyrgð, erum við ekki aðeins að sinna skyldu okkar gagnvart sjálfum okkur, heldur einnig fjölskyldunni, samfélaginu og framtíð sem við getum ekki séð fyrir endann á.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.