Að öðlast frelsi, hamingju og ró í þessum klikkaða heimi

Leitin að frelsi, hamingju og hugarró er kannski meiri sköpun en leit. Við þurfum að sníða okkur ákveðið hugarfar til að öðlast þessa hluti. 

Fyrsta skrefið er þá sjálfsagt að átta sig á að eitthvað er að, að af einhverjum ástæðum finnst okkur við ekki vera frjáls, hamingjusöm og með hugarró, og þá fyrst sjáum við að eitthvað þarf að breytast til að öðlast þessi ágætu gæði. 

Það gæti farið eftir því hversu þroskuð við erum og hvar við erum stödd í lífinu, hversu vel okkur gengur eða illa, hvernig aðstæður við lifum og hrærumst í, en umfram allt er það hugarfarið sjálft sem skiptir máli; og það er aðeins ein manneskja sem getur breytt hugarfari: sú manneskja sem hefur viðkomandi hug.

Sköpun á þessu hugarástandi sem felur í sér að finna frelsi, hamingju og hugarró getur tekið allt lífið, og jafnvel þó að það takist ekki að ljúka þessari sköpun áður en lífinu lýkur, þá er leitin einhvers virði í sjálfu sér. 

Við sköpum frelsið með því að þekkja og skilja heiminn í kringum okkur, með því að vera forvitin og full af undrun, með góðmennsku, með því að tjá okkur af hreinskilni og uppgötva þannig hver við erum, með því að velja það sem við teljum að er gott og rétt, og láta það óhagganlega eiga sig.

Við sköpum hamingju þegar við finnum gleðina í minnstu hlutum, og alls ekki út frá því hvernig aðrir dæma okkur, heldur út frá okkar eigin gildum og vilja. Við þurfum að sætta okkur við það sem við höfum og það sem við erum, með því sköpum við hamingjuna. 

Hugarró sköpum við með því að veita þeim sem elska okkur ást og öryggi, og með því að sætta okkur við að við getum ekki stjórnað öllu, og frá því að átta okkur á að fortíðin er eitthvað sem við getum ekki breytt, og að framtíðin er ekki eitthvað sem er til, og að við höfum aðeins eitthvað örlítið vald yfir núinu. Þetta vald yfir núinu getur haft einhver áhrif á framtíðina, og getur verið byggt á því sem við þekkjum úr fortíðinni, og við getum valið það sem við teljum vera gott og rétt, en við getum ekki séð fyrir afleiðingar þess sem við veljum.

Það að skapa þessi gildi, ekki bara leita þeirra, er ferðalag sem getur tekið alla ævina, sem krefst í sjálfu sér að við verðum að vera þolinmóð, bæði gagnvart sjálfum okkur og svo þeim sem ferðast með okkur gegnum samtímann.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband