Um heimspekinga og leit að visku og skilningi

Oft hef ég heyrt fólk segja þegar mér dettur í hug að velta aðeins betur fyrir mér hugmyndum sem ræddar eru í daglegu tali að ég sé alltof heimspekilegur. Reyndar tek ég því ekki illa, þó að oft greini ég háð frá sumum þeirra sem skjóta þessu að mér.

Frá unga aldri hef ég verið svona, og man eftir minni fyrstu heimspekilegu samræðu við félaga minn í vinnuskólanum þegar við vorum þrettán ára. Hörður heitir hann. Hann talaði um hvað hann þoldi ekki flugur, en þá var flugnager á sveimi yfir okkur, og ég svaraði honum á þá leið: “En þurfum við ekki á flugunum að halda?” 

“Hvernig þá?” spurði hann.

“Þær bera fræ á milli blómanna.”

“Hvað með það?”

“Blómin gefa okkur súrefni.”

“Og?” 

“Við þurfum súrefni til að anda.”

Hörður hló og klappaði mér vinalega á öxlina. Svo héldum við áfram að raka saman grasi.


Mér hefur alltaf þótt vænt um þessa stuttu samræðu, og í gegnum tíðina hef ég haldið áfram að velta fyrir mér hlutunum, aðallega vegna þess að mér finnst áhugavert að sjá stærra samhengi en það sem liggur á yfirborðinu.

Heimspekingur hefur áhuga á gagnrýnni hugsun, hann vill rannsaka hugtök og greina þau, skoða röksemdarfærslur af dýpt til að athuga hvort þær séu réttar eða rangar. Hann hefur djúpan áhuga á að spyrja spurninga og spurningarnar snúast um heiminn, lífið, samfélagið, hugann og jafnvel um það að spyrja í sjálfu sér.

Heimspekingur hefur áhuga á að taka þátt í samræðum þar sem aðrir áhugamenn um heimspeki taka þátt, en samkvæmt ákveðnum leikreglum. Þar má spyrja að hverju sem er, það má dýpka leitina og fara um víðan völl, fólk má vera gagnrýnið, skapandi og sýna umhyggju, en umfram allt er það að leita eftir einhverju sem er satt, og getur síðan tekið mér sér heim eftir samræðuna og velt fyrir sér hvernig það passar í eigin heildarmynd. Slík samræða snýst á engan hátt um mælskulist, þar sem einhver reynir að sannfæra aðra um að þeir hafi rétt fyrir sér, með því að nota töfrabrögð tungumálsins, sannfæringarkraftinn, því gagnrýnin hugsun á það til að leysa slíkt upp nokkuð auðveldlega. Vandinn er þegar ekki nógu margir kunna að beita slíkri hugsun og þekkja ekki nógu vel grundvöll rökfræðinnar, eða neita að beita henni í daglegu tali.

Heimspekingar njóta þess að skrifa um pælingar sínar og deila með öðrum, hvort sem það er með útgáfu bóka, ritgerða, fyrirlestra, eða jafnvel í bloggpóstum eins og þessum. Það sem vekur oftast athygli heimspekinga eru siðferðileg álitamál, ósannar fullyrðingar, fáfræði, ónákvæmni, og mat byggt á skoðunum frekar en þekkingu; en ekkert þætti þeim skemmtilegra en að ekkert slíkt væri að finna í daglegri umræðu. 

Því miður er svo mikið af slíku að taka, að það verkefni að taka til í hugsun samfélagsins reynist of mikið verk fyrir fáeina einstaklinga sem þrá ekkert meira en að fólk segi einfaldlega það sem er satt.

Sumir heimspekinga eru á launum við skóla eða rannsóknarstofnanir til að stunda heimspeki, og aðrir stunda heimspeki í frítíma sínum og á eigin forsendum. Það sem er þeim sameiginlegt er að þeir leita stöðugt eftir visku og skilningi og vilja taka þátt í samræðu sem leiðir í áttina að því sem er satt, og reyna að afhjúpa það sem er ósatt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband