Um nám og fordóma
21.10.2023 | 07:27
Það er margt sem við vitum ekki. Eitt af því fyrsta sem við lærum þegar við skoðum eitthvað nýtt, er hversu lítið við í raun vitum um það og skiljum. Ef við losum okkur ekki við fordóma okkar þegar við hefjum nýtt nám, þá munu þessir fordómar lita allt námið og gera það óljóst og erfitt. Ef okkur tekst hins vegar að tæma hugann af okkar eigin fordómum um viðfangsefnið, þá verðum við opnari fyrir nýjum upplýsingu, auðveldara verður að skilja þær og byggja upp áreiðanlega þekkingu.
Ef við fyllum óhreint glas af hreinu vatni, þá fáum við óhreint vatn. Ef við setjum nýeldaðan mat á óhreinan disk, fáum við óhreinan mat. Það sama á við um nám.
Segjum að við séum að læra um það hvernig við lærum. Þá er ljóst að við hljótum að hafa ákveðnar hugmyndir um nám. Ef við trúum að þessar hugmyndir okkar séu óhagganleg þekking og erum ekki tilbúin að fjarlægja þessar fyrirframgefnu skoðanir, í það minnsta um stund, þá verðum við hvorki tilbúin til að læra um hvernig við lærum, né öðlast djúpan skilning á hvað það þýðir að læra.
Eitt af því sem margir trúa um nám er að það sé einhvers konar yfirfærsla þekkingar, svona rétt eins og að hella tæru vatni í hreint glas, að manneskja sem hefur þekkingu geti yfirfært hana yfir í aðra manneskju. Það væri sjálfsagt afar þægilegt ef nám virkaði svona, en veruleikinn er annar.
Nám virkar best þegar við öflum okkur áreiðanlegra upplýsingar frá ýmsum sérfræðingum sem þekkja hugtakið vel, hafa pælt í því og áttað sig á hvað það er, og hvað það er ekki. Þessir sérfræðingar hafa byggt upp eigin þekkingu, og þeir geta sagt frá henni, geta lýst henni og útskýrt, þeir geta líka bent á heimildir og hvernig þeim tókst að öðlast þessa þekkingu; en þessa þekkingu getum við ekki tekið úr sérfræðingnum og sett í aðra manneskju. Það virkar ekki þannig. Þar að auki gæti sérfræðingi, eins og öllu öðru fólki, hafa yfirsést eitthvað sem skiptir máli.
Þegar ein manneskja lærir af annarri, þarf hún að leggja á sig mikla rannsóknarvinnu, grafast fyrir um upplýsingar frá áreiðanlegum heimildum, og byggja upp sín eigin viðhorf, þjálfa sig í notkun þessarar þekkingar og skilja hana. Skilninginn öðlast hún með því að ræða við aðrar manneskjur sem lagt hafa á sig sambærilega vinnu, og þá þarf hún ennþá að halda opnum hug gagnvart þeim möguleika að eitthvað af því sem hún telur vera rétt kunni að vera rangt.
Samræðan snýst nefnilega ekki bara um það að sýna öðrum fram á að maður hafi réttar fyrir sér en aðrir, eða að hin manneskjan fari villur vegar, heldur um að dýpka eigin þekkingu, skilning og viðhorf á efninu, fordómalaust.
Þannig þarf fræðimaður stöðugt að gæta sín á eigin fordómum, og reyna að kannast við hvar þeir spretta fram, bæði í eigin fari og annarra, og gera sitt besta til að útrýma þeim sem fyrst, því þeir tefja framfarir, rétt eins og baktal, einelti, ofbeldi og styrjaldir.
Vandinn við fordóma í samfélagi er að þeir geta verið lífseigir, því það er auðvelt fyrir þá sem telja sig vita eitthvað halda í eitthvað sem þeir vita ekki að er rangt; en auðveldara er að takast á við eigin fordóma, því maður þarf að gera lítið annað en spyrja sjálfan sig af einlægni, af hverju held ég að þetta sé satt, finna svar úr eigin huga og spyrja svo aftur, af hverju held ég að þetta sé satt, og halda þannig áfram þar til rökin eru skýr; en samt vera tilbúinn að endurhugsa málið ef nýjar upplýsingar koma í ljós eða einhver gagnrýnir hugsun þína um eigin hugsun.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.