Um hamingjuleitina
20.10.2023 | 07:33
Engum af þeim sem þekkir mig vel er það launungarmál hversu hrifinn ég er af stóískri heimspeki. Mér finnst nálgun hennar á lífið og tilveruna afar skynsamleg, sérstaklega eftir að ég hef sjálfur gengið í gegnum ýmislegt í þessu lífi sem hefði getað veitt varanlegan skaða. Stóísk heimspeki hefur fylgt mér eins og varnarhjúpur, sem byggir ekki á utanaðkomandi hlutum, heldur á mínum eigin viðhorfum til lífsins og tilverunnar.
En veltum aðeins fyrir okkur leitinni að hamingjunni, þessu fyrirbæri sem virðist sífellt vera svo nálægt og svo fjarlægt samtímis. Leitin að hamingjunni minnir mig svolítið á fulla manninn sem leitaði að húslyklum sínum undir ljósastaur, ekki vegna þess að þeir týndust nálægt staurnum, heldur vegna þess að þar voru leitarskilyrðin betri en í myrkrinu þar sem þeir týndust.
Þannig virðast mörg okkar leita hamingjunnar í skínandi hlutum, litríkum leikföngum, miklum auð, völdum, fallegu húsi, bíl, orðspori, góðum launum, í vinum okkar og ástvinum og þar fram eftir götunum. En samkvæmt stóuspekinni leynist hamingjan ekki í því sem er fyrir utan okkur, heldur er hún eitthvað sem lifir í okkur, og hún er eitthvað sem við þurfum að næra með þakklæti og dyggðugu lífi.
Ef við veltum fyrir okkur hverju við getum stjórnað og hverju við getum ekki stjórnað, áttum við okkur fljótt á að við getum ekki stjórnað hlutum eins og veðrinu, því sem öðru fólki dettur í hug að gera, því að tíminn líður eða hvað öðrum finnst um okkur. Hins vegar getum við stjórnað því hvernig við sjálf hugsum, við getum stjórnað hegðun okkar og viðbrögðum. Það er eitt af því sem mér finnst svo heillandi við skák, hún styrkir manns innri mann upp að ákveðnu marki, maður áttar sig betur á eigin takmörkunum og getu, hverju maður getur haft áhrif á og hverju maður getur breytt, og hvernig.
Það er nefnilega ekki það sem við lendum í sem hefur áhrif á okkur, heldur hvernig við bregðumst við þessum atburðum. Með því að stjórna sjónarhorni okkar, getum við stýrt reynslunni til að vera uppbyggjandi frekar en niðurbrjótandi.
Við þurfum að sætta okkur við að lífið gangi sinn vanagang, við eldumst, við veikjumst, á endanum deyjum við, en á leiðinni fáum við tækifæri til að upplifa frábær tækifæri, hvern einasta dag, svo framarlega sem við náum að stilla okkur inn á gott hugarfar. Leiðarljóss slíks hugarfars eru hlutir eins og viska, góðmennska, réttlætiskennd og hugrekki, ásamt fjölmörgum öðrum dyggðum sem við getum ræktað með okkur.
Hamingjan er í stuttu máli ekki eitthvað sem býr annars staðar en innan í þér, og það er þitt val að rækta hana eða skilja eftir í vanrækt. Að lifa góðu og merkingarríku lífi er lykillinn að henni, þó svo að þú týnir honum kannski einhvern tíma í myrkrinu. En mundu að ljósastaurinn ert þú, og birtan í þeim ljósastaur er alltaf nógu skær til að þú finnir lykilinn að nýju.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.