Um hamingjuna, frelsið og mikla sál

Ég met þrennt jafnvel meira en lífið sjálft. Ég veit samt að mitt eigið líf er forsenda þess að hægt sé að öðlast þessi verðmæti, en ég veit líka að þetta eru ekki verðmæti sem maður eignast einn með sjálfum sér, heldur er þetta það sem maður gefur af sér út fyrir líf og dauða, takist manni að gera þau að veruleika.

Þetta eru hamingjan, frelsið og mikil sál, og þá ekki að hafa slíkt eins og við höfum rafmagnsbíl, hús og pott í garðinum, heldur eru þetta eiginleikar sem við höfum til að gera heiminn sífellt betri, ekki bara fyrir okkur sjálf, heldur einnig samfélagið, jafnvel heiminn.

Veltum aðeins fyrir okkur hvað þessi hugtök þýða. 

Fólk sér hamingjuna með ólíkum hætti, en hamingjuna sé ég núna í morgunsárið sem uppfyllingu á því að manneskja finni djúpa merkingu í lífi sínu, að henni takist að ljúka verðugu verkefni áður en lífinu lýkur, einhverju sem mun skila af sér betri heimi. Hún þarf að koma því áleiðis með einhverjum hætti, veita næstu kynslóð keflið; því verðug verkefni halda sífellt áfram með hverri kynslóð sem verður til og breytist því einnig stöðugt.

Frelsið snýst um að geta verið maður sjálfur innan um fólk sem getur verið það sjálft, að maður geti kannað hvað það þýðir að vera manneskja og síðan beitt sér í samfélaginu, bæði í orði og verki, í samræmi við þessar uppgötvanir. Við getum verið frjáls bæði til að framkvæma og frá því að framkvæma, en þarna þarf stöðugt að gæta jafnvægis. Frelsi fyrir alla er æskilegt, en ekki má gleyma að frelsi fylgir sú ábyrgð að skerða ekki frelsi annarra sem hafa sama rétt á frelsinu. Í lýðræðissamfélagi skiptist frelsið jafnt milli manna, í einræði eða auðræði hafa sumir meira frelsi en aðrir.

Mikil sál er manneskja sem gerir sífellt sitt besta til að gera það sem er rétt og leita sér þekkingar á hvað er gott. Mikil sál getur búið til sinn eigin áttavita sem snýst um hvað er rétt að gera á hverri stundu. Þannig getum við til dæmis séð að hugrekki er eitthvað sem er gott, og ef við æfum okkur í að vera hugrökk, með því að gera hugrakka hluti, þá forðumst við í leiðinni lestina sem tengjast hugrekkinu, en þeir eru heigulsháttur og fljótfærni. Heigullinn frestar sífellt því sem þarf að gera, en hinn fljótfæri gerir hlutina of hratt. Hinn hugrakki framkvæmir þegar hann veit hvað er rétt að gera og á réttri stundu. Alls ekki einfalt að stilla þannig eigin sál, og í raun ævilangt ferðalag, en undirrituðum finnst þetta verðuga ferðalag afar spennandi og áhugavert.

Lífið sjálft er óendanlega dýrmætt, en það er eitthvað sem kemur og fer, hin verðmætin sem ég nefni geta gert lífið þess virði að lifa því, og bætt líf fólks út fyrir takmarkanir okkar eigin lífs.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband