Um sófisma og gagnrýna hugsun

"Besta leiðin til að vera heiðvirður í þessum heimi er með því að vera sá sem við þykjumst vera." - Tilvitnun oft tengd á netinu við Sókrates og Platón, en finnst hvergi í verkum þeirra.

Gagnrýnin hugsun snýst um að leita af einlægni eftir því sem er satt og rétt. Sófismi snýst um að leita allra tiltækra leiða til að sannfæra almenning um að satt sé ósatt og að rangt sé rétt. Sókrates og Platón voru hatrammir andstæðingar sófisma, og það er ég líka, enda er það tæki sem ég vil alls ekki beita sjálfur, því ég tel að það tæri mann sjálfan upp, það er löstur sem gerir mann að verri manneskju.

Sófismi hefur gríðarlegt vopnabúr. Vopn sófismans eru tæki eins og áróður, mælskulist og sannfæringartækni sem gerir mælanda fært að láta veik rök líta út eins og þau séu sterk, og sterk rök líta út fyrir að þau séu veik. Þetta er kennt í ræðukeppnum, þar sem meira máli skiptir að vera sannfærandi heldur en að segja satt. Sá vinnur sem er betri ræðumaður en hinn, og sá þarf alls ekki að segja satt til að sigra. Mér sýnist fjármálaráðherra vera einn besti sófisti landsins, en það væri mikill hagur ef hann hugsaði sig um og færði sig yfir í lið þeirra sem vilja styrkja gagnrýna hugsun, því hann yrði sjálfsagt öflugur þar líka.

Gagnrýnin hugsun aftur á móti er agað ferli sem er rekið áfram með skynsemina að leiðarljósi, þar sem rökhugsun sem leitar sannleika er tekin fram yfir tilraunir til að blekkja.

Það að sófismi skuli vera talinn virka á Íslandi árið 2023 er vissulega áhyggjuefni, en ég vona að fólk hafi fengið nóga mikla æfingu í beitingu gagnrýnnar hugsunar, nokkuð sem opin umræða getur fært okkur, til að sjá í gegnum þetta.

Gagnrýnin hugsun leita sannleikans með því að rannsaka fyrri ákvarðanir og dóma, leita sönnunargagna og meta röksemdarfærslur kalt og hlutlaust. Sófismi hins vegar snýst um að nota aðferðir til að blekkja viðmælendur, eins og rökvilluna strámanninn sem dæmi, til að skapa ósanna mynd af sannleikanum, með því að höfða til tilfinninga fólks, nota rökvillur, reyna að sannfæra frekar en að segja satt. Vandinn við sófisma er að hann virðir ekki þekkingu og skilning, heldur byggir á fyrirframgefnum skoðunum.

Sófisminn reynir að höfða til lægstu samnefnara okkar, fordómanna sem búa í okkur, reita samherja til reiði og ógna þeim frekar en að beita gagnrýnni hugsun, þekkingu og skilningi, eða kýta um vinstri og hægri, eins og það séu einhver eilífðarlögmál sem vert er að deila um. Það gleymist oft í þessum rifrildum að hugsa um það sem skiptir mestu, að hjálpa sem flestum að finna næg tækifæri til að lifa hamingjusömu og farsælu lífi.

Gagnrýnin hugsun er svolítið eins og Spock í Star Trek, setur tilfinningar til hliðar en er samt góðvilja, reynir að uppræta fordóma frekar en misnota þá, og stefnir að rökréttum niðurstöðum frekar en því sem einhverjum finnst henta sér og sínum.

Sófismi virkar aðeins þegar áheyrendur eru latir, þegar þeir nenna ekki að hugsa nógu djúpt um hlutina, nenna ekki að leita sannleikans sjálfir. Kannski kunna þeir það ekki, og hafa aldrei kunnað það, og halda að sannleikurinn sé eitthvað sem felist í bókum eða leiðtogum en ekki eitthvað sem felst í okkar eigin hjarta, eftir töluverða vinnu við að afla okkur þekkingar, skilnings og visku.

Þar sem gagnrýnin hugsun krefst mikillar vinnu og það getur verið erfitt að halda sig á þeirri braut, og aðeins fáir einstaklingar í hverju samfélagi virðast hafa djúpan áhuga á henni frá degi til dags, þá verður hún oftast undir í umræðunni. Málið er að sannleikurinn ferðast hægt á meðan lygin þýtur marga hringi í kringum jörðina.

Þegar við beitum gagnrýnni hugsun þurfum við að hugsa með öðru fólki sem einnig leitar þess sem er satt, sem þýðir að það þarf að hlusta heilmikið og rökræða, það þarf að vega og meta ýmsar hliðar og átta sig á manns eigin takmörkunum. Sófisminn reynir að gera lítið úr þessu ferli og letja fólk frá því að leggja á sig alla þessa vinnu, og í stað þess býður hann upp á einföld svör sem styðja við eigin skoðanir.

Það sem gerist þegar sófisma er beitt er að hann brýtur niður siðferði í samfélaginu, þar sem hann segir að spilling og lygar séu eðlilegur hluti af lífinu. Gagnrýnin hugsun reynir hins vegar að finna hið rétta og sanna í hverju máli, leitar ekki aðeins að því sem er satt, heldur fer dýpra, leitar þess sem er siðferðilega rétt. Eitt af markmiðum þeirra sem beita sófisma er að gera lítið úr siðferðilegum gildum og hugsun.

Sófismi reynir að gera lítið úr umræðu annarra, til dæmis með því að kalla þá sem eru ekki á því að beita sófisma, þeim sem vilja ekki kenna sig við slíka hluti, að kalla þá andstæðinga sína, og búa þannig til lið sem eru með eða á móti. Það er afar ríkt í fólki að velja sér lið og halda með því. Meirihluti landsmanna virðist halda með einhverju ensku knattspyrnumáli eins og það skipti höfuðmáli í lífinu, og með sömu aðferð velja sér stjórnmálaflokk. Bara til að vera í einhverju liði.

Sá sem beitir sófisma reynir að sannfæra um hluti sem henta viðkomandi. Gagnrýnin hugsun gerir það ekki. Fátt er mikilvægara en að fólk þekki muninn á sófisma og gagnrýnni hugsun og af hverju þetta eru andstæðir pólar sem ráða úrslitaáhrifum um hversu vel við lifum lífinu, og þessi litli pistill er veik tilraun til að styðja það ágæta málefni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

útskýring Wikipedia á sófisma

https://en.m.wikipedia.org/wiki/Sophist

Hrannar Baldursson, 14.10.2023 kl. 15:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband