Hvað er það sem gerir hluti óþolandi?

coins-gec348f6ee_1920

"Fyrir skynsama veru er einungis það sem gengur gegn náttúrunni óþolandi, á meðan það sem er viðeigandi getur hún þolað." - Epíktet

 

Ef það er eitthvað eitt sem mér finnst erfitt að þola, þá er það ranglæti, og þá sérstaklega þegar þeir sem verr standa þurfa að þola árásir frá þeim sem betur standa. 

Dæmi um þar sem varúðarbjöllurnar hringja hjá mér:

Þegar stýrivextir hækka vegna verðbólgu eru það þeir sem verst standa sem taka á sig verstu höggin, án þess að eiga það skilið, því þeir sem verst standa er fólkið sem þarf að taka sér lán til að kaupa sér þak yfir höfuðið. Sumir taka sér bílalán en það er önnur saga. Á Íslandi er fólk ekki verið gegn barsmíðum auðjöfra og fyrirtækja sem miskunnarlaust eru í samkeppni við fólkið á götunni.

Dæmi eru til um fyrirtæki sem yfirbjóða íbúðir og húsnæði sem eru til sölu. Þá standa fjölskyldur frammi fyrir því að bjóða í sama hlut og þurfa að sjá í hverja einustu krónu, og þurfa að bjóða hærra en fyrirtækin sem ætla kannski að kaupa húsnæðið til þess að leigja það út, eða hámarka gróðann. Leigumarkaðurinn á Íslandi er síðan þannig að fyrirtækin sem leigja út sýna enga miskunn við að hækka leiguna það mikið að leigjendur (fjölskyldur eða einstaklingar) neyðast til að flytja út og finna sér nýtt heimili, sem getur þýtt miklar og alvarlegar breytingar í lífi þeirra. Þetta er dæmi um hlut sem er augljóslega gegn náttúrunni, gegn hinu eðlilega í mannlegum samfélögum.

Auðvitað á það ekki að vera barátta upp á líf og dauða að geta eignast húsnæði, sérstaklega á landi þar sem veður er það hart að maður lifir vart veturinn af án húsnæðis. 

Þessi vandi hefur komið upp víða annars staðar í heiminum. Ég hef heyrt af að þak hafi verið sett á leiguverð í einhverjum löndum Evrópu og að fyrirtækjum hafi verið bannað að kaupa íbúðir gagngert til þess að setja þær á leigumarkað. Þetta eru aðgerðir sem hafa verið kenndar við Lúxemborg og Holland, en ég þekki lögin í þeim löndum ekki af dýpt, þó að hugmyndirnar að baki þeim séu skýrar og virðast til þess gerðar að vernda samfélagið.

Málið er að hinn frjálsi markaður, þegar hann verður of frjáls, þá verður hann stundum að ósýnilegu og miskunnarlausu afli sem tekur virkan þátt í eyðileggingu alls þess sem fólk sem verður fyrir því hefur byggt um ævina. Sérstaklega ef það stendur veikt fyrir, þá verður offorsið oft frá slíku afli það hræðilegt að manneskjur bugast, þær brotna niður og verða aðeins að skuggamynd af þeirri manneskju sem þær hefðu getað orðið. Fjárhagslegt óveður getur unnið mikinn skaða rétt eins og náttúrulegt óveður, en fjárhagslegt óveður er samt ekki eitthvað sem kemur frá náttúrunnar hendi, heldur úr samfélagi manna - og er því hægt að afstýra.

Ef mér er refsað fyrir að hafa brotið af mér, gert eitthvað á annarra hlut, brotið lögin, unnið gegn því sem er náttúrulegt, þá finnst mér slík refsing þolanleg, því hún er að breyta ranglæti í réttlæti. En ef mér er refsað fyrir að hafa ekki eignast jafn mikinn pening og einhver annar, fyrir að hafa farið í störf sem fá meðallaun eða lág laun fyrir vel unnið starf frekar en ofurlaun, þá er það óþolandi. Því þarna fær ranglætið að vinna áfram gegn fólki. En þetta gerist, og það er óþolandi.

Það má færa rök fyrir því að þeir sem eiga mest séu þeir sem hafa valdið mestri verðbólgu, og það er fólkið sem hefur ekki þörf á lánum og getur svo sannarlega verið eyðsluklær án þess að finna fyrir því. En verðbólgan kemur samt mest niður á þeim sem hafa lán og eiga jafnvel í vandræðum með að greiða þau.Ef fólkið á pening í krónum, þá hverfur hann frekar hratt, en ef það á erlendan gjaldeyri, þá safnast í sjóði þeirra. 

Það virðist ráðist á það fólk sem minnstu úrræðin hefur úr öllum áttum, því þeir sem hafa verðtryggð lán þurfa að horfa upp á þau hækka um 10% á ári sökum verðbólgunnar, en hinir sem hafa óverðtryggð lán þurfa að horfa upp á þau hækka um 8% á ári. Afleiðingin er að þeir sem eiga mikið fá minna, og þeir sem eiga minna tapa öllu. Sú tilhugsun veldur mér óþægindum, enda segir mín réttlætistilfinning að þetta sé ranglátt.

Enn verra er þegar hinir ranglátu hafa dómstóla, lög og reglur með sér; eitthvað sem er upphaflega búið til sem tæki til að binda siðferðið í orð, til að skikka ólátabelgina til að haga sér almennilega. En þegar ólátabelgirnir eru farnir að setja lögin er voðinn vís. Þegar þeir eru búnir að hnýta þannig um hnútana að þeir sem beittir eru ranglæti geti hvergi leitað sér skjóls, gætt þess að hlutirnir séu gerðir löglega og með fyrirvörum, að það verði löglegt að lúberja fólk með fjárhagslegu ofbeldi, svo framarlega sem að fólk skrifar undir samning þess eðlis, þá er samfélagið allt í djúpum siðferðilegum vanda, því lögin eru ekki í samhljómi með því sem við finnum að er réttlátt. Það sem stríðir gegn réttlætiskennd okkar hlýtur að vera ranglátt í sjálfu sér.

Við hverja tilkynningu frá Seðlabanka Íslands um að stýrivextir verði hækkaðir, þýðir það að vextir á húsnæðislánum rjúka upp, og þegar vextir eru orðnir það háir að fólk ræður ekki lengur við afborganir, þegar það sér að boginn er það hátt spenntur að það ræður ekki við meira, þá er líklegt að það gefist upp á því að þræla til eilífðarnóns. Það hljómar kannski ekki sem há upphæð ef þú hefur engin lán að heyra hækkun um 0.5% á stýrivöxtum, en þetta getur samt þýtt tugi þúsunda á mánuði. Nú er líklegt að vextir á langtímalánum bankanna hækki upp í minnst 8% í næstu viku, sem þýðir að ef þú hefur fengið óverðtryggt lán á breytilegum vöxtum að það breytist þannig. Nú erum við að tala um 8% á ársgrundvelli, sem byrjar strax að telja, og þú byrjar að borga af því mánaðarlega. 

Sjálfsagt áttar venjulegt fólk sig ekki á hvað þetta þýðir, og þá meina ég fólk sem er ekki með háskólagráðu í fjármálaútreikningum, en fjármálaspekingar þekkja vel hvað gerist með vaxtavexti, eitthvað sem lítur mjög sakleysislega út í fyrstu, en reynist svo valda gríðarlegum ójöfnuði. Indverski fjárfestirinn Mohnish Pabrai hefur vitnað í Albert Einstein (líklega ranglega) sem átti að hafa sagt: “Vaxtavextir eru áttunda undur veraldar. Sá sem skilur þá, eignast þá; sá sem skilur þá ekki, borgar þá.” Þó að Einstein hafi kannski ekki sagt þetta, þá er sannleikskorn í þessu. 

Nú langar mig að setja upp reiknidæmi sem er innblásið af sögu sem Pabrai sagði í þessu myndbandi. Segjum að afborganir hafa verið frystar, að ekkert sé greitt upp í lán mánaðarlega, þá sjáum við hvernig upphæðin hækkar.

Tökum óverðtryggð lán upp á kr. 1000 (þúsundkall) sem fyrsta dæmið, síðan mun ég hækka dæmin og reyna að tengja þau við eitthvað í veruleika okkar, en hér geng ég út frá 8% vöxtum á ári, sem þýðir að heildarupphæðin fyrir verðtryggðu lánin er miklu hærri.

  • Eftir eitt ár hefur kr. 1000 hækkað upp í kr. 1080
  • Eftir fimm ár hefur kr. 1000 hækkað upp í kr. 1469
  • Eftir tíu ár hefur kr. 1000 hækkað upp í kr. 2159
  • Eftir tuttugu ár hefur kr. 1000 hækkað upp í kr. 4.661
  • Eftir þrjátíu ár hefur kr. 1000 hækkað upp í kr. 10.063

Þetta virðist ekkert svo svakalegt, en hækkum nú upphæðina upp í 10 milljónir, en það er raunhæft fyrir einhvern sem hefur tekið bílalán til að kaupa eitthvað eins og Teslu eða nýlegan og flottan bíl.

  • Eftir eitt ár hefur kr. 10.000.000 hækkað upp í kr. 10.800.000
  • Eftir fimm ár hefur kr. 10.000.000  hækkað upp í kr. 14.690.000
  • Eftir tíu ár hefur kr. 10.000.000  hækkað upp í kr. 21.590.000
  • Eftir tuttugu ár hefur kr. 10.000.000  hækkað upp í kr. 44.661.000
  • Eftir þrjátíu ár hefur kr. 10.000.000  hækkað upp í kr. 100.063.000

Tökum 30 milljónir sem dæmi:

  • Eftir eitt ár hefur kr. 30.000.000 hækkað upp í kr. 32.400.000
  • Eftir fimm ár hefur kr. 30.000.000  hækkað upp í kr. 44.079.842
  • Eftir tíu ár hefur kr. 30.000.000  hækkað upp í kr. 64.767.750
  • Eftir tuttugu ár hefur kr. 30.000.000  hækkað upp í kr. 139.828.714
  • Eftir þrjátíu ár hefur kr. 30.000.000  hækkað upp í kr. 301.879.707

Tökum að lokum 50 milljónir sem dæmi, því það er alls ekki fjarstæðukennt að fólk sem hefur keypt sína fyrstu íbúð eða hús á um 60 milljónir, og tekið kannski um 50 milljóna kr. lán fyrir því.

  • Eftir eitt ár hefur kr. 50.000.000 hækkað upp í kr. 54.000.000
  • Eftir fimm ár hefur kr. 50.000.000  hækkað upp í kr. 73.466.404
  • Eftir tíu ár hefur kr. 50.000.000  hækkað upp í kr. 107.946.250
  • Eftir tuttugu ár hefur kr. 50.000.000  hækkað upp í kr. 233.047.857
  • Eftir þrjátíu ár hefur kr. 50.000.000  hækkað upp í kr. 503.132.844

Þetta er það sem verkalýðsleiðtogar meina þegar þeir segja að auðmenn séu að sópa til sín peningum láglauna- og millistéttar. Ef þú skilur ekki þessar tölur, þá áttarðu þig kannski ekki á því sem er að gerast, en ef þú skilur þær, þá sérðu að það er holskefla ranglætis að sópast yfir þá sem eru verr staddir í samfélaginu, og hlýtur að sjá að þetta fólk þarf að verja, og þá ekki með því að lágmarka tjónið, heldur stoppa það og refsa á viðeigandi hátt þeim sem eru að hagnast á þessum óviðeigandi leikreglum. 

Þetta þykir kannski eðlilegt í íslensku samfélagi, en það er alls ekki náttúrulegt, og nokkuð sem líðst hvergi meðal siðmenntaðra þjóða, þjóða sem berjast fyrir því að sérhver þjóðfélagsþegn sé varinn ofbeldi af hvaða tagi sem er.

Því er það í raun ekki forsenda þess að við sköpum samfélag? Að við söfnum okkur saman til að verjast veðri og vindum, og óvinum okkar sem koma utan frá? Ef við þurfum líka að verjast óvinum sem koma innan úr samfélaginu, og sem eru varðir af efsta lagi þess, þá hljótum við að vera í vondum málum.

Til gamans má geta til að sýna hvað vaxtavextir eru magnað hugtak, að ef þú ert sæmilega góður skákmaður og býður andstæðingi upp á 64 skákir, og fyrir fyrstu skákina sem þú vinnur færðu eina krónu, en eftir hverja skák eftir það færðu að tvöfalda upphæðina. Ef þú vinnur allar skákirnar, veistu hvað þú færð mikið í vasann? Ef þú reynir að reikna þetta í huganum þá getur þú týnt tölunni frekar fljótt, en ef maður setur þetta upp í formúlu, verður krónutalan þannig (samkvæmt Pabrai):

  1. 18.446.744.073.709.551.615,- 

Þessi lokatala er ansi há, svo fáránlega há að erfitt getur verið að láta sér detta þetta í hug. En málið er að svona eru vextir og vaxtavextir settir upp sem grundvöllur lána víða um heim, en munurinn er sá að verðbólga er reiknuð öðruvísi á Íslandi en annars staðar, Seðlabankinn bregst við öðruvísi á Íslandi en annars staðar og leikreglurnar virðast ekki vera jafnar.

Af hverju það hringir ekki í viðvörunarbjöllum hjá stjórnvöldum er ofar mínum skilningi.

 

Mynd eftir Steve Buissinne frá Pixabay 

Myndband: Compounding is the 8th wonder of the world eftir Mohnish Pabrai


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Allt sem að tengist gaypride-sjónarmiðum.

Jón Þórhallsson, 18.2.2023 kl. 14:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband